Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 18
18 B | Morgunblaðið | Heimastjórn 100 ára tíminn vann með hvítbláa fánan- um og flutti fálkann um set í skjald- armerkið. Í blaðinu Ingólfi er fánamálinu hreyft að nýju 23. apríl 1905. „Oss vantar fána í staðinn fyrir Danne- brog.“ Blaðið mælti með bláhvíta krossfánanum og fóru menn þá að flagga honum á þjóðhátíðum víða um land. Fleiri blöð gengu til liðs við fánann, en Jón Ólafsson varð fyrstur manna til að benda á í Reykjavíkinni 9. september líkindi með hvítbláa fánanum og kon- ungsfána Grikklands. Stúdentafjelagið í Reykjavík boð- aði til fundar um málið 27. sept- ember. Á fundinum kynnti Matt- hías Þórðarson fánahugmynd sína; „var það hvítur kross í blám feldi með rauðum kross í miðju, er skyldi geta táknað fjallablámann, ísinn og eldinn.“ Fundurinn kaus svo fimm manna nefnd til framkvæmda og mælti meirihlutinn með hvítbláum fána, en Matthías var einn í minni- hluta um sinn þrílita fána. Rís þú unga Íslands merki Jónas Guðlaugsson, ritstjóri Valsins á Ísafirði og frummælandi á fánafundi Stúdentafélagsins, biður Einar Benediktsson að yrkja fána- söng, sem hann vill birta á forsíðu Valsins. Einar átti þá í fórum sínum frumdrög að slíku kvæði, sem hann nú fullgerir, sendir vestur, og setur í ljóðabók sína Hafblik: „Rís þú unga Íslands merki, upp með þúsund radda brag …“ Sigfús Einarsson tónskáld semur óðara lag við ljóðið, sem er flutt á samsöng í Bárubúð 18. nóvember. Ísafold segir lag og ljóð hafa hrifið áheyrendur. „ Áhrifin lýstu sér í dynjandi lófaklappi og fagnaðar- ópum um allan salinn og varð söngflokkurinn að margendurtaka lagið.“ Framtak Stúdentafjelagsins rak smiðshöggið á það, að Hvítbláinn varð ofan á sem fáni Íslendinga. Úti á landi tóku ungmennafélög og fleiri upp merkið veturinn og vorið 1907 og Vestur-Íslendingar tóku honum einnig tveim höndum. Daglega bárust óskir um það að fá fánnann keyptan. Fánamálið færði frelsisgust um landið og varð hluti sjálfstæðisbar- áttu Íslendinga, „samofin sókninni fyrir endurheimt frelsis og fullveld- is,“ segir Birgir Thorlacius. Í nóvember 1906 birtu ritstjórar sex landsmálablaða „Ávarp til Ís- lendinga,“ þar sem þeir sögðust hafa komið sér saman um grund- vallarkröfur Íslendinga í samninga- viðræðum við Dani um réttarstöðu Íslands. Ávarpið var jafnan nefnt „blaðamannaávarpið.“ Þegar hér er komið sögu má segja að lítill sem enginn ágrein- ingur hafi verið um sérstakan fána fyrir Íslendinga til heimabrúks, en hins vegar hafi róðurinn reynzt þyngri að fá Dani til þess að lög- gilda íslenzkan fána. Þegar séð var til konungskomu sumarið 1907 og að íslenzk-dönsk þingmannanefnd myndi fjalla um samband Íslands og Danmerkur komu fram kröfur um þingrof og nýjar kosningar svo Alþingi mætti spegla sem bezt vilja þjóðarinnar. Til þess kom ekki og boðuðu þá rit- stjórarnir sex til þjóðfundar á Þing- velli 29. júní. Fyrir fundinn fór fram fánavígsla á Lögbergi, þar sem Bjarni Jónsson frá Vogi, formaður Stúdentafélagsins, talaði fyrir blá- hvíta fánanum íslenzka. „Fundur- inn telur sjálfsagt að Ísland hafi sjerstakan fána og felst á tillögur Stúdentafjelagsins um gerð hans.“ Kurteisi ríkti yfir konungskom- unni 1907, þótt ljóst væri að þung undiralda var í samskiptum Íslend- inga og Dana. Dannebrog blakti víða við hún, þegar kóngur sté á land, en Hvítbláinn sást líka. Og þegar kóngur kom á Þingvöll 2. ágúst, blakti bláhvíti fáninn yfir tjaldi ungmennafélaganna og fór ekki niður, þótt eftir því væri geng- ið. Meðan á heimsókn konungs stóð var gengið frá skipan nefndar til að endurskoða sambandsmálið. Dansk-íslenzka sambandslaga- nefndin starfaði vorið eftir og sam- þykkti með gagnatkvæði Skúla Thoroddsen eins „Uppkast að lög- um um ríkisréttarsamband Dan- merkur og Íslands.“ Uppkastið gerði m.a. ráð fyrir því að Ísland og Danmörk hefðu sameiginlegan kaupfána út á við, en Íslendingar skyldu sjálfráðir um það, hvort þeir hefðu eiginn fána uppi heima við eða ekki. Ekki blés byrlega fyrir Uppkast- inu á Íslandi og í alþingiskosning- um haustið 1908 lýsti meirihlutinn sig andsnúinn því; andstæðingar Uppkastsins fengu 4.671 atkvæði og 25 þingmenn kjörna, en stuðn- ingsmenn 3.475 atkvæði og 9 þing- menn, auk sex konungkjörinna. Á Alþingi 1909 lagði Hannes Hafstein fram Sambandslagafrumvarp, en meirihluti þingnefndar breytti því til samræmis við stefnu Sjálfstæð- isflokksins (fyrri), sem stofnaður var um samstarf Landvarnaflokks og Þjóðræðisflokks gegn Heima- stjórnarflokki Hannesar Hafstein. Vantraust var samþykkt á ráð- herrann og tók Björn Jónsson við ráðherradómi. Danir féllust ekki á neinar efn- isbreytingar og var málið þar með komið í sjálfheldu og lenti fána- málið við það í nokkurri ládeyðu. Á heimastjórnarvef Þjóðmenningar- hússins segir, að þótt Uppkastið félli hafi það í raun verið grunn- urinn að því, sem síðar kom með fullveldinu. Á Alþingi 1911 kom fram laga- frumvarp um íslenzkan fána, sem skyldi vera blár með hvítum krossi. Frumvarpið dagaði uppi. Nýtt fjör í fánamálið Næstur til þess að hrista upp í fánamálinu varð Rothe skipherra á varðskipinu Islands Falk. Gils Guðmundsson segir í Öld- inni okkar, að á fögrum fimmtu- dagsmorgni, 12. júní 1913, hafi Einar Pétursson, verzlunarmaður í Liverpool, róið fram á höfnina á litlum kappróðrabáti. Í skutnum blakti Hvítbláinn á stöng. Mannaður bátur frá Islands Falk veitti honum eftirför og var Einar knúinn til þess að koma um borð í varðskipið. Rothe skipherra tjáði Einari, að hann myndi taka af hon- um fánann, sem hann gerði, og fór Einar í land við svo búið. „Á svipstundu flugu þessi tíðindi eins og eldur í sinu um allan bæinn og voru þegar símuð um land allt,“ segir Björn Þórðarson í Alþingi og frelsisbaráttan 1874–1944. „Í tilefni af því, að skip vorum á förum, höfðu margir, einkum kaupmenn, dregið danska fánann á stöng í kveðjuskyni, en brátt varð litbreyt- ing í lofti, hver danski fáninn af öðrum var dreginn niður, en blá- hvíti fáninn upp í staðinn, og urðu umskiptin svo gersamleg, þegar á daginn leið, að allur bærinn var skrýddur bláhvítum, íslenzkum fánum, nýjar stengur settar út um glugga og reistar á húsum og allur bláhvítur fánadúkur rifinn út, þar sem hann var til sölu. Danski fán- inn sást hvergi.“ Rothe skipherra gekk á land á fund Eggerts Briem, sem þá var hæstráðandi í stjórnarráðinu í fjar- veru Hannesar Hafstein, sem nú var ráðherra öðru sinni, en fánann sendi hann bæjarfógeta: „Ég hef orðið var róðrabáts, er var með flagg uppi, sem skip og bátar í hinu danska konungsríki mega ekki nota.“ Einar Pétursson mætti líka í Stjórnarráðið og lagði fram kæru á hendur skipherranum. Allmargir ungir menn réru út að varðskipinu með íslenzka fána á lofti og til lands á eftir skipherran- um og í fánafylkingu að stjórnar- rráðinu. Þegar skipherrann gekk þaðan til báts skipuðu menn sér svo að hann varð að ganga milli fánafylkinga og í gegnum fánahlið á bryggjunni. Þingmenn Reykjavíkur, Lárus H. Bjarnason og Jón Jónsson, boðuðu til borgarafundar, þar sem sam- þykkt var tillaga þeirra um eindreg- in mótmæli gegn „hervaldstiltekt- um „Fálkans“ á Reykjavíkurhöfn í morgun sem bæði ólögmætum og óþolandi.“ Bjarni Jónsson frá Vogi fékk samþykkt, að fundurinn teldi sjálfsagt, „að hjer eftir verði ein- ungis íslenskur fáni dreginn að stöng hjer í bænum og væntir þess að svo verði um land alt.“ Fundarmenn gengu síðan að minnismerki Jóns Sigurðssonar, þar sem sungin voru við lúðraleik ættjarðarlög og fánasöngur Einars Benediktssonar. Að lokum hrópaði allur mannfjöldinn í kór nokkrum sinnum: Vér mótmælum allir. Lúðraflokkurinn fór síðan um götur bæjarins og mannfjöldi með og seint um kvöldið fór ungt fólk út á Skans og söng ættjarðarljóð. „Fánamálið fékk byr undir vængi við þennan atburð, og varð dagur- inn nokkurs konar sigurdagur fyrir íslenzka fánann,“ segir Gils Guð- mundsson. Hannes Hafstein skrifaði kon- ungi bréf 19. júní og kallar fánatök- una „nýtt og óvænt skref“ af hálfu danska skipherrans. Í ævisögu Hannesar eftir Kristján Albertsson segir, að í bréfi ráðherrans hafi m.a. sagt: „Segir að mótmæli Reykvík- inga hafi af hálfu alls þorra manna ekki stafað af „óvináttu í garð Dan- merkur eða fjandskap við danska fánann, heldur af þeirri tilfinning, að hér væri um að ræða ástæðu- lausa hernaðaraðgerð, valds- mennsku á sviði, sem eingöngu lýt- ur borgaralegum yfirvöldum, og ónærgætni við þjóðlega tilfinn- ingu.“ Hann segist munu láta í ljós við fyrsta tækifæri á alþingi, að stjórninni þyki miður hvað gerzt hafði og vonar að konungur fallist á þá yfirlýsingu. Jafnframt skrifar Hannes Hafstein danska forsætis- ráðherranum og beiðist þess að bláhvíti fáninn verði látinn hlut- laus, svo sem áður hafi tíðkazt. For- sætisráðherra svarar, að skipherr- ann á Islands Falk hafi ekki haft neinar fyrirskipanir um að amast við fánanum.“ Viku eftir fánatökudag var hald- inn þingmálafundur í Reykjavík, þar sem samþykkt var tillaga Ólafs Björnssonar, ritstjóra, um áskorun á þingmenn bæjarins að stuðla að því að íslenzkur fáni verði löggiltur þegar á næsta þingi. Þingmenn Reykjavíkur báru svo fram á þinginu 1913 frumvarp til laga um íslenzkan sérfána: „Hjer á landi skal vera löggiltur sjerfáni. Sameinað alþingi ræður gerð fánans.“ Frumvarpið fór svo í gegnum þrjár umræður í neðri deild og eftir aðra umræðu í efri deild var fána- gerðin komin inn; blár fáni með hvítum krossi. Hart var tekizt á um fánamálið og sagði Hannes Hafstein í bréfi til konungs, að andstæðingar sínir hefðu um hríð vonað að það myndi leiða til lausnarbeiðni hans, en að lokum varð frumvarpið ekki af- greitt, heldur var við þriðju um- ræðu í efri deild samþykkt dag- skrártillaga: „Í trausti þess, að ráðherra skýri Hans hátign konunginum frá vilja alþingis í þessu máli, og beri það upp fyrir honum, og að stjórnin síðan leggi fyrir næsta reglulegt al- þingi frumvarp til laga um íslensk- an fána, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“ Einar Arnórsson fjallaði í And- vara 1913 um fánamálið og segir m.a. um niðurstöður sínar: „sýnist ljóst að heimilt hafi verið að hafa bláhvíta fánann í aftur- stefni snekkjunnar sem tekin var hér á Reykjavíkurhöfn fimmtu- dagsmorguninn 12. júní 1913. En af því sýnist aftur leiða, að atferli varðskipsins gagnvart snekkju- manni og flaggi hans hafi eigi verið löglegt.“ Sómi þjóðar og sjálfstæði Hannes Hafstein, ráðherra Ís- lands, gekk feti framar, en sam- þykkt efri deildar ætlaði honum, og flutti nokkru eftir þinglok, 22. nóv- ember 1913, í ríkisráðinu í Kaup- mannahöfn rökstudda tillögu til konungsúrskurðar um löggildingu á fána fyrir Ísland. Kóngur féllst á þetta, að því tilskildu að fáninn „verði ekki eftirtakanlega líkur fána neins annars lands, og vona að fá síðar tillögu frá ráðherra Íslands um lögun og lit fánans.“ Kristján Albertsson segir í ævi- sögu Hannesar Hafstein, að þetta hafi Valtýr Guðmundsson talið furðulegasta stjórnmálaafrek Hannesar Hafstein og á heima- stjórnarvef Þjóðmenningarhússins segir, að fánamálið hafi verið mesta „diplómatíska“ meistarastykki Hannesar Hafstein, „þegar honum tókst að fá Kristján tíunda, sem oft- ast hafði allt á hornum sér gagnvart Íslandi og Íslendingum, til að sam- þykkja íslenskan fána.“ Heimkominn skipaði ráð- herrann svo nefnd 30. desember „til þess að taka gerð fánans til rækilegrar íhugunar, kynna sjer eft- ir föngum, hvað fullnægja mundi óskum þjóðarinnar í þessu efni, og koma fram með tillögur til stjórn- arinnar um lögun og lit fánans svo snemma, að stjórnin geti gert al- þingi, er það kemur saman næst, kost á að láta uppi skoðun sína um þær.“ Nefndarmenn voru; Guðmund- ur Björnsson, landlæknir, formað- ur, Matthías Þórðarson, þjóð- minjavörður, Ólafur Björnsson, ritstjóri, Jón Jónsson, dósent, og Þórarinn B. Þorláksson, listmálari. Nefndarmenn komu saman á ný- ársdag 1914 og kusu Matthías rit- ara nefndarinnar og Þórarin gjald- kera, en fyrsta fund sinn í ráðherraherbergi alþingishússins hélt nefndin 6. janúar. Nefndarmenn byrjuðu á því að bera upp Hvítbláinn, en ráðherra, sem sat fundinn að ósk nefndar- innar, upplýsti, að hann hefði rætt málið við konung með hliðsjón af tveimur alþingisfrumvörpum um slíkan fána, en af viðbrögðum kon- ungs væri ljóst, að hann myndi ekki samþykkja slíkan fána, þar sem hann væri öldungis eins og gríski fáninn. Frekari upplýsingar frá Grikklandi staðfestu það. Því varð nefndarmönnum ljóst, að þeim yrði ekki auðið að fullnægja helztu óskum þjóðarinnar um fánagerð; þ.e. að Hvítbláinn yrði þjóðfáni Ís- lendinga. Nefndin starfaði fram á sumar og velti m.a. fyrir sér, hvaða breytingar mætti gera á bláhvíta fánanum svo hann líktist engum annarrar þjóðar Morgunblaðið/Árni Sæberg Hvítbláinn | Fáninn fannst 1995 í kjallara Laufásvegar 43, sem Reykjavík- urborg keypti með öllu innbúi af erfingjum Vigfúsar Guðmundssonar frá Eng- ey. Í samtali við Morgunblaðið sagði Hrefna Róbertsdóttir borgarminjavörður þetta merkilegan fund, þar sem Árbæjarsafn ætti engan Hvítbláin. Fánatakan | Þegar fánatakan á Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913 spurðist um bæinn, reru Íslendingar út að danska varð- skipinu með bláhvíta fána á lofti, fundir voru haldnir í bænum og ráðherra reit konungi bréf um atburðinn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.