Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. JÚNÍ 2001 5
III.
Hin skjalfesta stjórnarskrá eins og við þekkj-
um hana telst eiga sér upphaf í stjórnarskrár-
gerð Bandaríkjamanna og Frakka í lok átjándu
aldar. Hugmyndafræðilegur grundvöllur henn-
ar er aðallega rakinn til kenninga John Locks,
J.J. Rousseau og Ch. Montesquie.
Sjálfstæðisbarátta Bandaríkjamanna (1776–
1787) snerist að stórum hluta um stjórnskip-
unarhugmyndir og gildi stjórnarskrárinnar
fyrir hið unga ríki. Sá stuðningur sem borgarar
landsins hafa í gegnum tíðina getað sótt til
hennar í átökum við ríkisvaldið hefur orðið til
þess að gera stjórnarskrána að veigamiklum
þætti í sjálfsmynd þjóðarinnar.
Stjórnarskrárgerð Frakka við lok átjándu
aldar hafði, eins og stjórnarskrá Bandaríkj-
anna, varanleg áhrif á stjórnskipunarhug-
myndir Evrópubúa þótt vægi stjórnarskránna
sjálfra í stjórnskipun Frakklands hafi lengst af
verið takmarkaðra en búast mætti við.
Það voru eigi að síður fransk-enskir stjórn-
skipunarhættir sem vísuðu veginn til nútíma-
legra stjórnarfars í flestum ríkjum gamla
heimsins þrátt fyrir ótvíræð áhrif fordæmis
Bandaríkjamanna í stjórnskipunarmálum á
stjórnmálamenn um alla Evrópu. Í Bandaríkj-
unum var farin leið sem lengst af hefur verið
talin til lykilatriða stjórnarskrárfestunnar en
hún byggist á endurskoðunarvaldi dómstóla. Í
ríkjum Vestur-Evrópu var aftur á móti sótt á
vit nær ótakmarkaðs þingræðis.
Eftir að dregið hafði verið verulega úr völd-
um konunga ríkja Vestur-Evrópu með stjórn-
skipunarákvæðum (constitutional monarchy:
hefðbundin íslensk þýðing er „þingbundin“
konungsstjórn sem getur verið nokkuð villandi)
gjörbreyttist og minnkaði hlutverk stjórnar-
skráa viðkomandi ríkja. Þær bundu nú ekki
lengur hendur raunverulegra valdhafa umfram
það sem stjórnarskrárbundin ákvæði um þing-
ræðið gerðu ráð fyrir enda sóttu þeir umboð
sitt til „almennings“ í frjálsum kosningum og
voru þannig réttkjörnir fulltrúar þjóðarinnar.
Á fyrri hluta 20. aldar urðu það síðan örlög
stjórnarskráa Vestur-Evrópuríkja að ýmist
steinrenna í hlutverkaleysi sínu eða verða fórn-
arlömb ómarkvissrar tilraunarstarfsemi þjóð-
þinga í stjórnskipunarmálum. – Það að nasist-
um skyldi takast að ná völdum í Þýskalandi á
fjórða áratug aldarinnar er m.a. talin afleiðing
stjórnskipunaróreiðu og vafasamra tilrauna til
að koma reglu á samfélagið.
Einn markverðasti áfangi stjórnarskrárfest-
unnar á 20. öldinni er án efa samþykkt grund-
vallarlaga fyrir Sambandslýðveldið Þýskaland
(Vestur-Þýskaland) árið 1949. Margir eru
þeirrar skoðunar að þessi svokallaða bráða-
birgðastjórnarskrá Sambandslýðveldisins hafi
skipt sköpum fyrir endurreisn lýðræðis í vest-
urhluta Þýskalands eftir valdatíma nasista.
Með stofnun Þýska sambandslýðveldisins
var lagður grundvöllur að nýrri stefnu í evr-
ópskri stjórnarskrárfestu. Samkvæmt ákvæð-
um grundvallarlaga Sambandslýðveldisins var
komið á fót stjórnarskrárdómstól sem getur
fellt úr gildi bæði lög og dóma ef það er nið-
urstaða dómstólsins að þeir samræmdist ekki
ákvæðum þessara grundvallarlaga lýðveldis-
ins. Hlutverk dómstólsins að sjá til þess að allar
stofnanir samfélagsins virði ákvæði stjórnar-
skrárinnar. Þessa stefnubreytingu Þjóðverja í
stjórnaskrármálum má rekja beint til reynslu
þjóðarinnar af valdatíma nasista og hversu létt
þeim hafði reynst að ná völdum.
Þótt bæði fræðimenn og stjórnmálamenn á
Vesturlöndum bæru snemma almennt lof á
skipan stjórnarskrármála í Þýska sam-
bandslýðveldinu varð bið á að góður árangur
Þjóðverja hefði áhrif á stjórnskrármál annarra
ríkja Vestur-Evrópu.
Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum
sem stjórnarskrárþróunin í Vestur-Evrópu tók
við sér á nýjan leik. Þar fóru fyrir þjóðir Suður-
Evrópu í viðleitni við að koma á vestrænu lýð-
ræði í löndum sínum (Spáni, Portúgal og Grikk-
landi) eftir að einræðisstjórnir höfðu verið þar
við völd um áratugaskeið. Ekki má gleyma
þeim áhrifum sem Mannréttindadómstóll Evr-
ópu í Strassborg og Evrópudómstóllinn í Lúx-
emborg hafa haft á endurvakningu stjórnar-
skrárfestunnar. Með tilkomu og starfi
dómstólanna hefur bæði þrengt að löggjafar-
valdi þjóðþinga og framkvæmdavaldi þeirra
ríkja sem aðild eiga aðdómstólunum (öðrum
hvorum eða báðum). Dómarar í viðkomandi
ríkjum hafa einnig mátt sætta sig við verulegar
breytingar á því lagalega umhverfi sem þeir
voru vanir að hreyfa sig í.
Síðast en ekki síst má í þessu sambandi nefna
stjórnarfarsbyltinguna í ríkjum Mið- og Aust-
ur-Evrópu á liðnum tíu árum. Stjórnmálamenn
þessara ríkja hafa leitað ráða helstu stjórnskip-
unarsérfræðinga Vestur-Evrópu og Bandaríkj-
anna við gerð eigin stjórnarskráa. Stjórnar-
skrár gömlu kommúnistaríkjanna hafa því á sér
yfirbragð lýðræðislegrar vestrænnar stjórn-
skipunar. Stjórnarskrárfestan hefur þannig
sýnt svo ekki verður um villst að hún er sá þátt-
ur pólitískrar hugmyndafræði Vesturlanda
sem nýtur almennastrar viðurkenningar þeirra
sem hafa staðið í fylkingarbrjósti frjálsræðis-
aflanna í Rússlandi og fyrrum leppríkjum Sov-
étríkjanna.
Á þeim áratug sem liðinn er frá flauelsbylt-
ingunni svokölluðu í Mið- og Austur-Evrópu
hefur náðst nokkuð almennt samkomulag um
heim allan um að lögmál markaðarins fái aukið
svigrúm á kostnað athafnasemi og reglugleði
ríkisvaldsins án þess þó að markaðsöflunum sé
þar með algjörlega gefinn laus taumurinn.
Stjórnarskrárfestan er af mörgum talin sá far-
vegur sem er heppilegastur fyrir þessa þróun
án þess að nokkrum detti í hug að hún leysi all-
an vanda. Svipaða sögu má segja um vestrænt
lýðræði. Vegur þess hefur enn aukist án þess að
nokkrum detti í hug að lýsa því sem gallalausu.
Við þessar aðstæður hefur það æ víðar komið í
hlut stjórnarskrárfestunnar að beina hinu lýð-
ræðislega kjörna stjórnvaldi í afmarkaðan far-
veg þannig að frelsi og öryggi fólks verði ávallt í
fyrirrúmi óháð meintum hagsmunum ríkis og
heildar. Á alþjóðavettvangi hefur verið reynt að
beisla stjórnvöld og tryggja rétt almennings
með alþjóðalögum og yfirþjóðlegum samning-
um.
IV.
Þó að stjórnarskráin hafi verið samofin ís-
lensku þjóð- og stjórnmálalífi í meira en eina og
hálfa öld hefur lítið verið fengist við að rann-
saka og skilgreina eðli þessa merkilega fyrir-
bæris. Íslensk stjórnarskrárkenning er því
heldur veigalítil eins og umræðan um skiptingu
valdsins á liðnum misserum hefur borið með
sér.
Í stuttu máli má segja að stjórnarskrá nú-
tímans sé bálkur sérstaklega settra laga sem
liggur til grundvallar ríkisvaldinu og segir fyrir
um hvernig stjórnskipun tiltekins ríkis skuli
háttað hvort sem um er að ræða löggjafarvald,
framkvæmdavald eða dómsvald. Nú orðið búa
nær öll ríki veraldar við stjórnarskrá af þessu
tagi. (Íslenska þýðingin á e. constitution og þ.
Verfassung er stjórnarskrá. Bæði þessi orð
geta einnig þýtt stjórnskipan þ.e. hvernig
stjórnmálum og valdastofnunum í einstöku ríki
sé skipað óháð því hvað ákvæði stjórnarskrár-
innar segja fyrir um. Öll ríki hafa stjórnskipan
óháð því hvort þau hafi ritaða stjórnarskrá.
Þannig vantar nokkuð upp á að orðið stjórn-
arskrá nái utan um upprunalega hugtakið.)
Fjölmargar stjórnarskrár hafa einnig að
geyma grundvallarreglur stjórnmála og sam-
skipta ríkis og einstaklinga. Þetta á sérstaklega
við um þær stjórnarskrár sem innihalda sér-
stök réttindi sem vernda fólk fyrir ágangi rík-
isvaldsins og tryggja jafnframt rétt borgar-
anna til hlutdeildar í stjórn samfélagsins og
valdastofnana ríkisins.
Það sem einkennir þó nútíma stjórnarskrár
öðru fremur er að þær afmarka vald bæði lög-
gjafans og ríkisstjórnar (framkvæmdavalds).
Dómstólar geta almennt tryggt valdamörk
þessara stofnana ríkisvaldsins. Annað mikil-
vægt einkenni stjórnarskráa nútímans er að
ákvæði þeirra eru vanalega sett með öðrum og
vandaðri hætti en önnur löggjöf. Algengt er að
stjórnarskrárbreytingar þarfnist aukins meiri-
hluta í atkvæðagreiðslu viðkomandi löggjafar-
þinga eða meirihluta atkvæða sem greidd hafa
verið við þjóðaratkvæðagreiðslur af gefnu til-
efni. Danska stjórnarskráin er sérstök í þessu
tilliti en til að breyta henni þarf helmingur
kosningabærra Dana að greiða breytingunni
atkvæði sitt. Íslensku stjórnarskránni má
breyta með því einu að bera fram sams konar
tillögu til breytingar tvö þing í röð.
Hljóti frumvarpið einfaldan meirihluta at-
kvæða í bæði skiptin skoðast það samþykkt og
verður þar með hluti stjórnarskrárinnar eða ný
stjórnarskrá ef því er að skipta. Þannig séð er
einfaldara að breyta íslensku stjórnarskránni
en stjórnarskrám flestra annarra ríkja. Reynsl-
an hefur og sýnt að seinni atkvæðagreiðslan er
hreint formsatriði. Það hefur samt ekki haft
áhrif á þá staðreynd að ákvæði hennar vega að
öllu jöfnu þyngra en almenn lög eins og tíðkast í
flestum þeim ríkjum sem búa við nútíma stjórn-
arskrá. Því hefur verið haldið fram að Svíþjóð
sé undantekning frá þessari reglu og að þar
vegi ákvæði stjórnarskrárinnar oft minna en
ákvæði almennra laga (Nergelius, 1996).
Þrátt fyrir sterk sameiginleg samfélagsein-
kenni og að mörgu leyti svipaða stjórnskipan er
stjórnarskrárhefð Norðurlandanna fimm, Dan-
merkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Sví-
þjóðar ólík um margt. Það stafar ekki síst af
ólíku hlutverki stjórnarskráa landanna í stjórn-
málaþróun og frelsisbaráttu viðkomandi þjóða
(Nergelius 1996). Það sem Norðurlöndin áttu
lengst af sameiginlegt í þessu sambandi var
hugmyndin um að stjórnarskráin hefði tak-
markað réttarlegt gildi sem lög æðri almennum
lögum og neikvæð afstaða stjórnmálamanna
gagnvart stjórnarskrárbundinni mannrétt-
indavernd (Nergelius 1996). Ástæðan fyrir
þessu samkenni norrænnar stjórnskipunar-
festu eru margar en hér ber að nefna áhrif
enskra þingræðishugmynda (the sovereignty
of parliament) á norræna stjórnmálamenn á
seinni hluta nítjándu aldar (Arnason, 1996) sem
og últrapósitivísk lagahugsun langt fram eftir
20. öldinni (Scheinin 1999).
V.
Mörg þeirra ríkja sem að undanförnu hafa sett
sér nýja stjórnarskrá varða með ákvæðum
hennar leið ríkis og samfélags til óvissrar fram-
tíðar með ítarlegri hætti en áður hefur tíðkast.
Samkvæmt því ber að líta á athafnir ríkisvalds-
ins sem raungeringu þeirrar samfélagslegu
framtíðaráætlunar sem stjórnarskráin segir
fyrir um. Það er þá ekki lengur aðalmarkmið
stjórnarskrárinnar að takmarka athafnasvið
ríkisvaldsins heldur að staðfesta umsvif þess
og/eða marka fyrir umfangsmeiri athafn-
aramma.
Því hefur verið haldið fram að með þessari
breytingu á hlutverki og eðli stjórnarskrárinn-
ar sé horfið frá kyrrstæðri til virkrar stjórn-
arskrárfestu í samræmi við þarfir hins lýðræð-
islega velferðarríkis samtímans. Þetta er þó
langt í frá einhlítt viðhorf. Sú skoðun nýtur enn
verulegs fylgis að með þessu sé verið að þynna
út kjarna stjórnarskrárfestunnar og færa
þannig ákvæði stjórnarskrárinnar nær almenn-
um lögum.
Andstæðingar þess að athafnasemi ríkisins
verði í auknum mæli grundvölluð á ákvæðum
stjórnarskrárinnar halda því fram að hin skjal-
festa stjórnarskrá tapi áhrifamætti sínum ef
horfið er frá þeirri hugmynd að henni sé fyrst
og fremst ætlað að takmarka ríkisvaldið og
tryggja frelsisréttindi borgaranna. Með því að
gera stjórnarskrána að virku tæki til mótunar
velferðarríkisins geti hún trauðla gert tilkall til
þess að teljast safn óbreytanlegra grundvall-
aratriða óháð og ofar settum lögum.
Fylgjendur þess að stjórnarskráin sé grund-
vallarþáttur í athafnasemi ríkisins benda á móti
á breyttar forsendur frá því sem var á bernsku-
dögum stjórnarskrárfestunnar. Baráttan fyrir
skjalfestri stjórnarskrá hafi verið barátta fyrir
rétti til pólitískrar þátttöku á mótunarskeið
nýrrar stjórnskipunar.
Í Bandaríkjunum, þar sem ein meginhug-
myndin stjórnarskrársinna var að tryggja að
ríkið væri til þess að gera veikburða, snerust
kröfur þeirra fyrst og fremst um jafnrétti,
valdajafnvægi og lýðræði. Í Frakklandi og
meginlandi Evrópu þar sem nær öll nítjánda
öldin fór í baráttuna við að ná ríkisvaldinu úr
höndum konungsætta sem verið höfðu einvald-
ar í viðkomandi ríkjum um alda skeið snerist
barátta stjórnarskrársinna um jafnrétti, þing-
ræði og lýðræði. Því hafi verið skiljanlegt að
kröfur um stjórnarskrárbundin velferðar-
ákvæði hafi átt lítinn hljómgrunn á bernsku-
dögum stjórnarskrárfestunnar. Dæmið horfi
óneitanlega öðruvísi við þegar fulltrúar hinna
frjálsu borgara á löggjafarsamkundu velferð-
arríkisins, í flestum tilfellum hinn formlegi
stjórnarskrárgjafi, ákveði að gera stjórnar-
skrána í auknum mæli að grundvelli hins „rétt-
láta“ lýðræðislega réttarríkis.
Þeir sem telja að styrkleiki stjórnarskrár-
festunar felist í stjórnarskrá sem fyrst og
fremst hafi það hlutverk að tryggja skiptingu
ríkisvaldsins, frjálsar, leynilegar og reglulegar
kosningar auk annarra borgarlegra og stjórn-
málalegra réttinda vísa gjarnan til reynslu
ríkja sem búa við lítt breytta stjórnarskrá frá
19. öld (Noregur, Danmörk) eða jafnvel seinni
hluta 18. aldar (USA) máli sínu til stuðnings. Að
auki benda þeir á að í dag njóti frjálslyndur
heimspekigrundvöllur stjórnarskrárfestunnar
almennrar viðurkenningar en sagan hafi sýnt
með ótvíræðum hætti að stjórnskipan þeirra
ríkja sem fest höfðu velferðarákvæði með
ákveðnustum hætti í stjórnarskrár sínar hafi
hvorki orðið til þess að tryggja velferð almenn-
ings né frelsi einstaklingsins.
Á móti kemur að aðildarríki Sameinuðu þjóð-
anna hafa marg staðfest ódeilanleika mannrétt-
inda, borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda
og efnahagslegra, félagslegra og menningar-
legra réttinda. Það verður því að teljast í hæsta
lagi mótsagnakennt að ríki sem telja sig öðrum
til fyrirmyndar í vernd mannréttinda og fær
um að veita öðrum ríkjum ráðgjöf og aðstoð á
því sviði hafi aðeins hluta þeirra mannréttin-
daákvæða sem þau hafa sjálf staðfest á alþjóða-
vetvangi bundin í eigin stjórnarskrá.
VI.
Í stjórnarskrám mætast réttur og stjórnmál í
mismunandi hlutföllum. Oft er talað um nauð-
syn þess að stjórnarskrár séu lausar við póli-
tískar yfirlýsingar, þær eigi að vera þannig úr
garði gerðar að dómstólar geti án sérstakra
vandkvæða stuðst við ákvæði þeirra þegar það
á við. Þá er gjarnan gengið út frá því að rétt-
arþátturinn tryggi hlutleysi, hlutlægni, fagleg
vinnubrögð, skynsemi og réttlæti. Aftur á móti
er stjórnmálahlutinn oft tekinn sem dæmi um
hið gagnstæða.
Gott dæmi um yfirlýsingar sem finna má í
stjórnarskrám eru ákvæði um að allt vald sé frá
fólkinu komið. Æ fleiri ríki hafa tekið ákvæði
þess efnis upp í stjórnarskrá þótt öðru hafi ekki
verið haldið fram nema af örsmáum jaðarhóp-
um viðkomandi samfélags. Þekktasta dæmið í
seinni tíð um yfirlýsingarákvæði í stjórnarskrá
er að finna í 20. grein stjórnarskrár þýska
sambandslýðveldisins en samkvæmt henni er:
Sambandslýðveldið Þýskaland „lýðræðislegt
og félagslegt sambandsríki“. Þetta ákvæði hef-
ur stjórnarskrárdómstóllinn þýski notað hvað
eftir annað til stuðnings réttindakröfum ein-
staklinga.
Ef við lítum á stjórnarskrána sem regluverk
stjórnmálanna kann það ekki góðri lukku að
stýra að skilgreina stjórnmál og rétt sem and-
stæða póla með þeim hætti sem ég nefndi áðan.
Geðþóttann gegn skynseminni. Með því værum
við að aðgreina rökhugsun réttarríkisins frá
rökhugsun stjórnmálanna. Sem augljóslega
leiðir okkur í ógöngur.
Vandinn er ekki hlutur stjórnmála í stjórn-
arskrám heldur miklu frekar hvernig hægt sé
að þróa stjórnarskrárhugtakið þannig að hið
skapandi afl þeirra fái notið sín að fullu. Gott
dæmi um árekstur hefðbundinna evrópskra
lýðræðishugmynda og þeirrar stjórnarskrár-
festu sem þróast hefur í Bandaríkjunum á liðn-
um tveimur öldum er athafnasemi hæstaréttar
Bandaríkjanna. Rétturinn er í þeirri sérstöku
aðstöðu að geta ógilt lög sem lýðræðislega kjör-
ið þing landsins hefur samþykkt. Með dómum
sínum fer hann þannig oft á tíðum langt inn á
svið löggjafans eins og það er skilgreint í ríkj-
um sem búa við hefðbundið þingræðisfyrir-
komulag.
Segja má að kjarni þeirrar fræðilegu um-
ræðu sem farið hefur fram um stjórnarskrár-
hugtakið á alþjóðavettvangi að undanförnu,
snúist um það hvernig skapa megi stofnunarleg
skilyrði til að tryggja að unnið sé að lausn
vandamála mannlegs samfélags með lýðræðis-
legum hætti, en þó þannig að vissra grundvall-
arreglna sé ávallt gætt. Og hvernig sú virkni
komist til skila í réttarkerfum viðkomandi ríkja
og á alþjóðavettvangi. Dæmi um framkvæmd
slíkra hugmynda á alþjóðavettvangi eru stofna-
skrá Sameinuðu þjóðanna frá 1945 og Mann-
réttindayfirlýsing SÞ frá 1948. Fullyrða má að
Mannréttindayfirlýsingin hafi haft áhrif stjórn-
arskrár flestra ríkja heims með einum eða öðr-
um hætti. Annað nýlegt dæmi er réttindaskrá
Evrópusambandsins sem samþykkt var í des-
ember árið 2000 en óljóst er hverskonar áhrif
hún kemur til með að hafa.
Eins og við höfum séð þá er hin ritaða stjórn-
arskrá nútímans stofnskrá ríkisvaldsins um
leið og henni er ætlað að beisla það. Stjórnskip-
unin sem hún stendur fyrir á að tryggja tilveru
hins sjálfráða einstaklings sem með samþykki
sínu hefur lagt sitt af mörkum til stofnunar rík-
isins.
Það getur verið álitamál hversu þröngan
stakk stjórnarskráin sníður stjórnvöldum en
viðmiðunarreglan hlýtur að vera sú að ríkis-
valdið takmarkist af frelsisréttindum einstak-
lingsins og möguleikum hans til þroska og sjálf-
stjórnar. Um frelsisréttindin gildir að þau eru
jöfn og söm fyrir alla. Lykilspurningin er þá
hvort stjórnarskránni sé ætlað frekara hlut-
verk en að tryggja þessi réttindi.
Það leiðir af sjálfu sér að frelsi einstaklings-
ins stafar hætta af hvaða stjórnskipan sem er
en um leið er hún í samspili við ákveðin heim-
spekileg og mannfræðileg grundvallaratriði
forsenda þessa frelsis.
Spurningin er þá hvernig skilgreinum við
þau frelsisréttindi sem manninum ber. Getur
verið að það sé rökrétt að flokka grundvallar
efnahagsleg, félagsleg og menningarleg rétt-
indi til hefbundinna frelsisréttinda. Án þessara
réttinda stendur í það minnsta lítið eftir af
möguleikum mannsins til að lifa mannsæmandi
lífi og frelsi til að leita sér aukins þroska. Þess-
ari og öðrum mikilvægum spurningum um eðli
og innihald nútíma stjórnarskráa verður seint
fullsvarað. Leitin að hinni bestu stjórnskipan
sem Aristóteles hóf fyrir meira en tveimur ár-
þúsundum er eilífðarviðfangsefni og byggist á
stöðugri umræðu, skrifum, átökum og rann-
sóknum um þau atriði sem máli skipta.
Heimildir:
Ágúst Þór Árnason: „Constitutionalism: Popular Leg-
itimacy of the State?“ The Welfare State and Constitu-
tionalism in the Nordic Countries, Nord, Kaupmanna-
höfn 2001. „Stjórnarskrárfesta: grundvöllur
lýðræðisins“, Skírnir, Tímarit Híb 2/1999. „Mannréttindi
í sögu og vitund Íslendinga“, Skírnir, Tímarit Híb 2/1994.
Charles H. McIlwain: Constitutionalism Ancient and
Modern, Cornell University Press, Ithaca, New York
1940.
Gunnar Helgi Kristinsson: Þróun íslensku stjórnar-
skrárinnar, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands,
Reykjavík 1994 .Gunnar Schram: Stjórnskipunarréttur,
Háskólaútgáfan, Reykjavík 1997.
Hannes H. Gissurarson: Stjórnarskrármálið, Stofnun
Jóns Þorlákssonar, Reykjavík 1987.
Heinz Mohnhaupt/ Dieter Grimm: Verfassung? Zur
Geschichte des Begriffs von der Antike bis zur Gegen-
wart, Duncker & Humblot, Berlin 1995.
Joakim Nergelius: Konstitutionellt rättighetsskydd –
Svensk rätt i ett komparativt perspektiv, Fritzes Förlag
AB, Stockholm 1996.
Martin Scheinin: Introduction í The Welfare State and
Constitutionalism in the Nordic Countries, Nord, Kaup-
mannahöfn 2001.
Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, Iðunn,
Reykjavík 1960.
Sigurður Líndal: „Stjórnskipunarleg staða forseta Ís-
lands“, Skírnir, Tímarit Híb 2/1992, Reykjavík.
Zum Begriff der Verfassung; ritstjóri Ulrich K. Preuss,
Fischer Taschenbuch Verlag, Fankfurt am Main 1994.
Höfundur vinnur að samanburði á stjórnarskrám
Norðurlanda og Þýskalands.