Pressan - 26.01.1989, Blaðsíða 25

Pressan - 26.01.1989, Blaðsíða 25
pgei isúnBi .02 lUBfibuimmiH Fimmtudagur 26. janúar 1989 N.C 25 sjúkdómar og fólk Tungumál lœkna Latína eða móðurmálið Það er ákaflega þýðingarmikið, að milli læknis og sjúklings ríki skilningur. Læknirinn verður að skilja og vita hvað sjúklingurinn er að tala um og síðan verður sjúkling- urinn að skilja útskýringar læknis- ins á ástandi hans. Læknarnir verða því að vanda málfar sitt og alla framsetningu og gæta sín á því að krydda ekki tungutak sitt með latn- eskri ensku, sem þeim er stundum heldur töm. Það eru litlar líkur til þess að sjúklingurinn skilji hvað læknirinn er að fara þegar hann segir glaðhlakkalega við einhvern: — Það er allt í lagi með E ká géið (hjartaritið), það sýnir bara smá paroxysmal takkíkardíu (hraðan hjartslátt) og þess vegna ertu dekompenseraður (með hjartabil- un). Þú verður ókei á réttum lyfj- um. Þegar læknirinn talar á þennan hátt er hætt við því að sjúklingarnir skilji hvorki upp né niður í því sem hann er að reyna að segja. Því mið- ur gengur mörgum læknum illa að tjá sig á móðurmálinu og sletta því óspart enskum og skandinavískum orðum, en þau tungumál virðast vera betur til þess faliin að lýsa sjúkdómum og ýmsu annarlegu ástandi en tunga þeirra Egils og Snorra. Þeir félagar gerðu sér enga grein fyrir þeim framförum sem yrðu á nútírhalæknisfræði og þeim kollsteypum sem tungan yrði að taka til að geta Iýst öllu því sem fram fer inni í hugskoti læknisins. Hætt er við því að þeir Egill og Snorri yrðu næsta kindarlegir á læknaþingum og skildu fátt, en stundum er móðurmálinu illa mis- þyrmt á slíkum samkundum. Flest- ir gera þó ráð fyrir því, að þar séu þeir einir mættir sem skilja út- lensku betur en íslensku þegar læknisfræði á í hlut og sletta því óspart. Hvað er hjartaöng? Mörg sjúkdómsheiti hafa verið ÓTTAR GUÐMUNDSSON þýdd yfir á íslensku en eru læknum oft mjög ótöm og þeim finnst því erfiðara að nota þau en latnesku nöfnin. Þannig finnst læknum auð- veldara að segja angina en hjarta- öng, en bæði orðin þýða hið sama, eða brjóstverkir. Stundum verður úr þessu hinn mesti hrærigrautur tungunnar sem jafnvel læknirinn sjálfur á erfitt með að skilja til fullnustu og öllu ægir saman. Læknar verða oft að temja sér 2 tungumál, eitt sem þeir nota við sjúklinginn sjálfan og annað sem þeir nota þegar þeir tala við kollega sína eða starfsbræður, eins og það heitir á tungu Snorra og Egils. Setn- ingin „sjúklingurinn er dekomp- enseruð obís kona“ þýðir: Um er að ræða of feita konu með hjartabil- un. Ef einhver segir, að sjúklingur- inn sé passífur og alltof kom- plæant, þýðir það að sjúklingurinn erauðsveipuroghlutlaus. „Dement kall með inkontinens", þýðir á venjulegu máli, að þar sé á ferð gamall ellihrumur maður með þvagleka. Margir sjúklingar reyna að temja sér þetta tungutak lækn- anna og sérlega þeir sem hafa verið lengi erlendis. Slíkir sjúklingar setja lækninn sinn alltaf í vörn, enda veit enginn hvernig á að taka mönnum sem sletta á tungumáli, sem þeir eiginlega hafa engan rétt á að nota. Samskipti lækna við slíka menn minna á samtal Ólafs Kára- sonar við prestinn í Heimsljósi. Eftir því sem Ólafur var guðrækni- legri í tali varð presturinn varari um sig. Tvírœð tunga En vandinn varðandi tungutak lækna er meiri en sletturnar einar. Oft reyna læknar að segja eitt en tekst að segja eitthvað allt annað. Þá eiga sjúklingarnir stundum erfitt með að ráða í rúnirnar. Einn frændi minn fór í hjartarit og spurði svo lækninn sinn hvað ritið hefði sýnt. Læknirinn sagði að ritið hefði eiginlega ekki sýnt neitt sér- stakt, bara smáfrumubreytingar, en það væri allt í lagi. Hann skyldi lifa eðlilegu lífi um alla framtíð eins og ekkert hefði í skorist, enda væri ekkert að óttast. Hann ætti þó að forðast allt stress, fara sér hægt og borða enga fitu. Þessi frændi minn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Annars vegar sagði jú læknirinn að allt væri í lagi með ritið en hann sagði líka, að frændinn þyrfti að gera ýmislegt svo hann gæti lifað eðlilegu, löngu lífi. Annar frændi minn fór í blóðrannsókn og spurði síðan um sökkið sitt. Læknirinn sagði að það væri alveg eðlilegt, kannski fullhátt, en innan eðlilegra marka. Þó væri kannski öruggara að taka það upp á nýtt, einhvern tímann strax í næstu viku og taka þá í leiðinni nokkrar aðrar blóð- prufur, svona til að vera alveg viss, og jafnvel væri ekki úr vegi að fara í lungnamynd líka. — En var sökk- ið eðlilegt? spurði þá frændi minn forviða. — Já, það var eiginlega alveg eðlilegt og ekkert sem þú þarft að hafa áhyggjur af, en þetta er þó öruggast svona. Vondar bólgur Með tilkomu nýrra lækna og aukins upplýsingaflæðis til al- mennings um heilsu og sjúkdóma vilja flestir fá meiri upplýsingar um heilsufar sitt og ástand en áður tíðkaðist. Þegar ég var að byrja í læknisfræðinni lágu upplýsingar til sjúklinganna ekki á lausu. Þá var talað um bólgur við öll tækifæri, sama hvað var að sjúklingnum. Sumir voru með óvenjuslæmar bólgur og urðu að fara í langvar- andi geislameðferð vegna þeirra, aðrir voru með góðkynja bólgur og fengu penicillin. Enginn þorði að nefna orðið krabbamein við neinn. Þetta voru stundum erfiðir tímar þegar læknarnir töluðu skringilegt felumál inni á stofunum í áheyrn sjúklingsins en skiljanlegra lækna- dulmál sín á milli. Þannig sögðu þeir sín á milli: — Þessi maður er með inoperabe! tumor í colon (æxli í ristli sem ekki er hægt að skera) en sögðu svo við sjúklinginn: — Þú ert með slæmar bólgur i ristli sem ekki er hægt að komast að. Oftlega virtust allir vita hvað merkingar- leysi þessara orða var mikið. Við vissum, að sjúklingurinn vissi, að við vissum, að hann vissi, að þarna var tungumálið notað til að segja hlutina öðruvísi en þeir voru. Borið á milli lœkna Þegar sjúklingar segja öðrum læknum, hvað hinn læknirinn sagði, þá reyna læknar alltaf að setja sig í spor starfsbróðurins og túlka ummælin út frá þvi. Sjúkling- urinn segir þannig að KK læknir hafi sagt sér að hjartataugarnar væru mikið bólgnar og hann þyrfti þeirra vegna að vera á meðferð með valíum. Þá veit læknirinn, að KK læknir hefur álitið þennan sjúkling taugaveiklaðan og gefið honum valíum þess vegna en ákveðið að kalla einkennin eitthvað annað. Hjartataugabólga er hugtak sem menn nota mikið án þess að vita til fullnustu hvað það þýðir. Á tækniöld er þýðingarmikið að fólk fái að vita hlutina eins og þeir eru í raun. Ég tel, að allir eigi fullan rétt á að vita hvað að þeim er. Ef einhver skilur ekki lækninn sinn verður viðkomandi að hvá og ef það dugar ekki til spyrja á nýjan leik. Ef ekkert dugar verður annað- hvort að hafa með sér orðabók á næsta fund eða skipta yfir á skiljan- legri lækni. ■ dagbókin hennar dúllu Kœra dagbók. Eiginlega er það nú meiriháttar kraftaverk að ég skuli yfirleitt vera að skrifa í þessa dagbók í dag. Það munaði nefnilega litlu að ég (og reyndar öll heila familían, eins og hún leggur sig) yrði úti í veðrinu á sunnudaginn. Ég get svoleiðis svar- ið það! Og allt var þetta út af þessu ömurlega ættarmóti, sem amma á Einimelnum var búin að pína pabba og mömmu til að mæta á með mig og Adda bróður. (Stebba systir laug því að hún þyrfti að lesa undir próf og slapp. Sú var næstum orðin rík, maður. Hún hefði bæði erft okkar íbúð og helminginn af Einimelnum, ef við hefðunr ekki bjargast úr lífsháskanum!) Hver heilvita maður gat auðvitað séð það strax um morguninn að það var kolófært í þetta félagsheinrili, sem ættarmótið átti að vera í, en hún amma er náttúrulega engin venjuleg Ella. Hún heimtaði að við kæmum að sækja hana klukkan ell- efu, eins og búið var að ákveða — og ekkert ntúður. Hún væri sko búin að skreyta terturnar og hana- nú! Mamma var þó nreð heilmikið múður, en þegar hún sá að pabhi ætlaði út i veðrið vildi hún frekar fara líka en biða stressuð heima. Það var svo kolbrjálað rok og mikill bylur, þegar við komum á Einimelinn, að amma ætlaði aldrei að komast út í bílinn. Samt fór pabbi og náði í lerturnar þrjár, þannig að hún þurfti bara að hugsa urn sjálfa sig á mannbroddunum. En hún meikaði þetta og skipti rjómakökunum niður á okkur í aft- ursætinu, þó hún hefði langbesta plássið til að halda á einhverju frammí hjá pabba. Og síðan hófst ævintýrið: Við komumst á einhvern óskilj- anlegan hátt alla leið að Kópavogi, en móts við bensinstöðina með pissandi stráknum (eða er það fisk- ur, sem gubbar?) biluðu vinnukon- urnar og það varð gjörsamlega von- laust að sjá út um framrúðuna. Svo aumingja pabbi varð bara að stíma beint inn í næsta skafl til að teppa ekki alla götuna. Hann reyndi auð- vitað að laga vinnukonurnar þarna úti í miðjum skaflinum, en pabbi er nú ekki sá alklárasti í bílaviðgerð- um. (Honum finnst hann standa sig rosa vel, ef honurn tekst að setja vatn i rúðupissið, og kallar það að „dytta að bílnum“!) Viðgátum þess vegna ekkert gert nema bíða í bíln- um eftir að veðrið batnaði og ein- hver kæmi að hjálpa okkur. Amma hafði bitið það í sig að fólk gæti dáið úr kolsýru, ef það léti bíl vera í gangi í snjóskafli, og þess vegna jagaðist hún þangað til pabbi slökkti á vélinni. Það varð strax al- veg ógeðslega kalt í bílnum, en þannig þurftum við að dúsa í fjóra klukkutíma, takk fyrir kærlega! Það var nákvæmlega ekkert að gera, nema borða stríðstertur með puttunum þangað til þeir voru orðnir beinfrosnir... Ég skil ekki hvernig ég lifði þetta af, en eitt er víst: Ég ætla aldrei aftur í lífinu að fara í Frúna í Hamborg! Bless, Dúlla.

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.