Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. SEPTEMBER 2003 5 leit að ókunnu eyjunni má ekki líta svona út, eins og hænsnakofi, sagði hún. Hún fleygði tómu hreiðrunum í sjóinn en lét hin eiga sig að sinni. Síðan bretti hún upp ermarnar og hóf að skrúbba þilfarið. Þegar hún hafði lokið því erf- iða verki opnaði hún seglageymsluna og tók að gaumgæfa ástand saumanna eftir þann óratíma sem liðinn var síðan þau svifu um höfin og þurftu að standast hraustlegar sviptingar vind- anna. Seglin eru vöðvar skipanna, við þurfum ekki annað en sjá hvernig þau þenjast út við álag, en – og það sama gildir um vöðvana – séu þau ekki í reglubundinni notkun linast þau upp, verða slyttisleg, þróttlaus. Og saumarnir eru eins og sinar seglanna, hugsaði ræstingakonan, ánægð yfir hvað hún var fljót að læra list sjó- mennskunnar. Hún sá að nokkrir saumar höfðu raknað upp, en lét sér nægja að merkja þá úr því að nálin og tvinninn, sem hún hafði áður not- að til að staga sokka skjaldsveinanna, það er að segja þar til í gær, dugðu ekki til seglaviðgerða. Hún uppgötvaði brátt að hinar geymslurnar voru auðar. Það skipti hana engu þó að ekkert púður væri í púðurgeymslunni að undanskild- um nokkrum svörtum ögnum á gólfinu, sem hún hélt í fyrstu að væru músaskítur, enda er það hvergi skráð í nein lög, alltént ekki sam- kvæmt skilningi ræstingakonu, að leiðangur í leit að ókunnri eyju þurfi nauðsynlega að vera herferð. Aftur á móti angraði það hana býsna mikið að algerlega skorti vistir í matargeymsl- una, ekki vegna hennar sjálfrar, sem var alvön orðin naumum matarskömmtum í höllinni, heldur vegna mannsins, sem fékk skipið að gjöf, innan skamms sest sólin og hann kemur þrammandi og heimtar mat eins og allir karl- menn strax og þeir koma heim, rétt eins og þeir einir væru með maga og þyrftu nauðsynlega að fylla hann. – Og ekki veit ég hvernig við förum að ef hann kemur nú með sjómenn með sér til að manna skipið, þeir eru feikileg átvögl, sagði ræstingakonan. Hún hefði ekki þurft að hafa þessar áhyggj- ur. Sólin var rétt hnigin í sæinn þegar mað- urinn, sem átti skip, birtist við enda hafnar- garðsins. Hann hélt á pakka undir handleggnum, en hann var einn síns liðs og nið- urlútur. Ræstingakonan fór og beið hans við landgöngubrúna, en áður en hún gat opnað munninn til að spyrja hvernig honum hefði gengið sagði hann: – Hafðu ekki áhyggjur, ég er hérna með mat handa okkur báðum. – Og sjó- mennirnir? spurði hún. – Enginn þeirra kom, eins og þú sérð. – En þú ert að minnsta kosti bú- inn að ráða þá? spurði hún aftur. – Þeir sögðu mér að ókunnar eyjar væru ekki lengur til og að jafnvel þótt þær væru til kærðu þeir sig ekki um að rífa sig upp frá þægindum heimila sinna og vellystingum farþegaskipanna til að lenda í æv- intýrum úti í hafsauga, í vonlausri leit rétt eins og við værum enn uppi á tímum hins myrka hafs. – Og hverju svaraðir þú? – Að hafið væri ævinlega myrkt. – Og sagðirðu þeim ekki frá ókunnu eyjunni? – Hvernig hefði ég átt að geta sagt þeim frá ókunnri eyju fyrst ég þekki hana ekki? – En þú ert viss um að hún sé til? – Eins viss og ég er viss um að hafið er myrkt. – Ein- mitt núna, þegar ég horfi á það héðan, vatnið grænt eins og jaði og himinninn eins og eldhaf, virðist mér það alls ekki myrkt. – Það er ímynd- un hjá þér, stundum virðast eyjarnar líka fljóta á vatninu, en svo er þó ekki. – Hvað ætlarðu að gera fyrst þú hefur enga áhöfn? – Ég veit það ekki enn. – Við getum sest að hérna, ég gæti boðist til að þvo skipin sem koma í höfnina, og þú … – Og ég? – Þú kannt áreiðanlega ein- hverja iðn, eitthvert fag eða starfsgrein eins og það er nefnt nú á dögum. – Ég kann það, kunni það og mun kunna það ef nauðsyn krefur, en ég vil finna ókunnu eyjuna, ég vil vita hver ég er þegar ég stend á henni. – Veistu það ekki? – Sá sem ekki fer frá sjálfum sér kemst ekki að því hver hann er. – Þegar heimspekingur konungs- ins hafði ekkert að gera settist hann hjá mér og horfði á mig staga sokka skjaldsveinanna, og stundum tók hann upp á því að hugsa heim- spekilega, hann sagði að allir menn væru ey- lönd, en það kom mér ekkert við af því að ég er kona, svo að ég gaf því engan gaum, hvað álítur þú? – Að nauðsynlegt sé að fara frá eylandinu til að sjá það, að við sjáum okkur ekki nema við komumst frá okkur. – Nema við komumst und- an sjálfum okkur, áttu við. – Nei, það er ekki eitt og hið sama. Eldhafið á himninum var að deyja út, skyndilega roðnaði vatnið, núna ef- aðist ekki einu sinni ræstingakonan um að hafið væri vissulega myrkt, alltént á ákveðnum tím- um. Maðurinn sagði: – Látum heimspeking konungsins um heimspekina, til þess er hann á launum, við skulum matast, en konan var á öðru máli: – Fyrst skaltu skoða skipið þitt, þú þekkir það aðeins að utan. – Í hvernig ástandi er það? – Nokkrir saumar á seglunum eru orðnir lélegir. – Fórstu niður í lestina, er mikið vatn í henni? – Á botninum er svolítið gutl í kringum kjölfest- una, en ég held það sé eðlilegt, að það geri skip- inu gott. – Hvernig veistu þetta? – Ég veit það bara. – En hvernig? – Á sama hátt og þú þegar þú fullyrtir við hafnarstjórann að þú myndir læra að sigla á sjónum. – Við erum ekki enn komin út á sjó. – En við erum samt á vatni. – Ég hef alltaf talið að til að læra siglingar sé aðeins um tvo sanna lærimeistara að ræða, annar þeirra sé sjórinn og hinn skipið. – Og himinninn, þú gleymir himninum. – Já, auðvitað, himinninn. – Vindarn- ir. – Skýin. – Himinninn. – Já, himinninn. Eftir minna en stundarfjórð- ung voru þau búin að skoða skipið, karavella, enda þótt breytingar hafi verið gerðar á henni, býður ekki upp á langar gönguferðir. – Hún er falleg, sagði maðurinn, – en ef mér tekst ekki að útvega nógu marga sjómenn til að sigla henni verð ég að segja konung- inum að ég kæri mig ekki leng- ur um hana. – Þú missir móðinn við fyrsta mótlæti. – Fyrsta mótlætið var að bíða eftir kon- unginum í þrjá daga, og ég gafst ekki upp. – Ef þú finnur ekki sjómenn sem vilja koma björgum við okkur sjálf. – Þú ert ekki með öllum mjalla, tvær manneskjur gætu ekki siglt svona skipi á eigin spýtur, ég yrði að standa við stýrið allan tímann, og þú, það tekur því ekki að að útskýra það, það væri óðs manns æði. – Við sjáum til, nú skulum við matast. Þau héldu upp á afturþilfarið, mað- urinn tautaði enn yfir því, sem hann nefndi óðs manns æði, og þegar upp var komið opnaði konan böggulinn sem hann hafði komið með, í honum var brauðhleifur, harður geitarost- ur, ólívur og vínflaska. Tunglið var ekki nema lófabreidd yfir sjónum, skuggar rárinnar og stórsiglunnar lögðust við fætur þeirra. – Karavellan okkar er verulega falleg, sagði konan, en leiðrétti sig svo: – Þín, karavell- an þín. – Ég er hræddur um að hún verði ekki mín lengi. – Hvort heldur þú siglir henni eða ekki er hún þín eign, konungurinn gaf þér hana. – Ég bað hann um hana til að geta leitað að ókunnri eyju. – Svona hlutir gerast ekki á ein- um degi, þeir þurfa sinn tíma, afi minn var van- ur að segja að sá sem ætlaði á sjóinn byggi sig út í landi, og þó var hann enginn sjómaður. – Við getum ekki siglt án áhafnar. – Þú varst búinn að segja það. – Og við þurfum að útvega okkur kynstrin öll af birgðum sem nauðsynlegar eru í ferð á borð við þessa, því að við vitum ekki hvar við lendum. – Vitanlega, og svo þurfum við að bíða eftir réttu árstíðinni, og leggja úr höfn þeg- ar sjávarföll eru hagstæð, og fá fólk hingað á hafnarbakkann til að óska okkur góðrar ferðar. – Þú ert að gera gys að mér. – Ég mun aldrei gera gys að þeim sem fékk mig til að ganga út um dyr ákvarðananna. – Fyrirgefðu mér. – Og ég geng aldrei um þær aftur, sama hvað gerist. Bjart tunglsljósið lýsti upp andlit ræstingakon- unnar. – Hún er falleg, hún er verulega falleg, hugsaði maðurinn, og í þetta sinn átti hann ekki við karavelluna. En konan, hún hugsaði ekki neitt, hlýtur að hafa hugsað það allt þessa þrjá daga sem hún opnaði dyrnar öðru hverju í hálfa gátt til að kanna hvort maðurinn væri enn að bíða fyrir utan. Hvorki skildu þau eftir brauð- mola né ostbita, ekki dropa af víni, ólívustein- unum fleygðu þau í sjóinn, þilfarið er eins hreint og það var þegar ræstingakonan strauk yfir það síðast. Gufuskip á leið til hafs gaf frá sér kraft- mikið blístur, líkt því sem stóru lagardýrin hljóta að hafa gefið frá sér forðum, og konan sagði: – Þegar kemur að okkur skulum við ekki hafa svona hátt. Þó að þau væru inni í höfninni ólgaði sjórinn svolítið eftir siglingu gufuskips- ins og maðurinn sagði: – En við skulum rugga miklu meira. Þau hlógu bæði, svo þögnuðu þau, eftir smástund stakk annað þeirra upp á að best væri að fara í háttinn. – Ekki svo að skilja að ég sé neitt sérstaklega syfjuð, og hann tók undir: – Ekki ég heldur. Síðan þögnuðu þau aftur, tungl- ið reis á himninum og hélt áfram að rísa, ein- hvern tíma sagði konan: – Það eru káetur niðri, og maðurinn svaraði: – Já. Þá stóðu þau á fætur og gengu undir þilfarið, og konan sagði: – Við sjáumst á morgun, ég ætla í þessa átt, og mað- urinn svaraði: – Og ég fer í þessa, við sjáumst á morgun. Þau sögðu hvorki á bakborða né stjórnborða, ugglaust vegna þess að þau voru enn nýgræðingar. Konan sneri sér við: – Ég var búin að gleyma þessu, hún dró tvo kertisstubba upp úr svuntuvasa sínum. – Ég fann þá þegar ég var að þrífa, en ég hef engar eldspýtur. – Ég hef þær, sagði maðurinn. Hún tók kertin, eitt í hvora hönd, hann kveikti á eldspýtu, síðan skýldi hann loganum undir hvelfdum fingrum sér, færði hann afar varlega að gömlu kveik- unum, það kviknaði á þeim, loginn varð smám saman bjartari eins og tunglsljósið áðan, andlit ræstingakonunnar baðað birtu, vart þarf að taka fram hvað hann hugsaði: – Hún er falleg, aftur á móti hugsaði hún: – Augljóst að hann sér ekkert nema ókunnu eyjuna. Svona geta menn misskilið merkingu augnaráðanna, einkum við fyrstu kynni. Hún fékk honum kerti og sagði: – Við sjáumst á morgun, sofðu vel. Hann langaði til að segja það sama með öðrum orðum: – Dreymi þig vel, þannig komst hann að orði. Inn- an skamms, þegar hann er kominn niður og liggur í kojunni sinni, detta honum í hug aðrar setningar, fyndnari, umfram allt áhrifameiri, eins og vera ber þegar karlmaður er einn með konu. Hann velti því fyrir sér hvort hún væri sofnuð, hvort hún hefði verið lengi að festa blund, síðan ímyndaði hann sér að hann væri að leita að henni og fyndi hana hvergi nokkurs staðar, að þau hefðu villst í gríðarstóru skipi, svefninn er slunginn töframaður, hann breytir hlutföllum hlutanna og fjarlægðunum milli þeirra, skilur að fólk, og það liggur hlið við hlið, sameinar það, og það sér naumast hvort annað, konan sefur nokkra metra frá honum og hann getur ekki nálgast hana, eins og það er nú auð- velt að færa sig frá bakborða á stjórnborða. Hann hafði óskað henni að hana dreymdi vel, en svo var það hann sem dreymdi alla liðlanga nóttina. Hann dreymdi að karavellan væri á siglingu um úthöfin, þríhyrnd seglin þrjú dásamlega þanin, hún skar sér leið gegnum öld- urnar meðan hann hélt um stýrið og áhöfnin hvíldi sig í forsælunni. Hann skildi ekkert í því hvernig sjómennirnir gátu verið þarna, þeir sömu og höfðu neitað að fylgja honum í leit að ókunnu eyjunni, líklega sáu þeir eftir rudda- skapnum og hæðninni sem þeir höfðu sýnt hon- um. Hann sá dýr vappandi hér og þar á þil- farinu, endur, kanínur, hænur, venjuleg alidýr, þau gogguðu í kornið eða nöguðu kálblöðin sem sjómaður henti til þeirra, hann mundi ekki eftir því að hafa flutt þau um borð í skipið, hvað sem því leið var eðlilegt að þau væru þarna, hugsum okkur að ókunna eyjan sé – eins og var oft raun- in fyrr á öldum – eyðieyja, allur er varinn góður, öll vitum við að það hefur alltaf verið auðveldara að opna dyr á kanínubúri og grípa kanínu á eyr- unum en að elta hana um fjöll og dali. Hann heyrði hesta hneggja niðri í lestinni, uxa baula, asna hrína, raddir þessara göfugu dýra sem við þurfum á að halda til stritvinnu, og hvernig komust þau hingað, hvernig rúmast þau í kara- vellu þar sem varla er pláss fyrir mennska áhöfn, skyndilega snerist vindurinn, stórseglið slóst til og flaksaðist, bak við það kom hann auga á nokkuð sem hann hafði ekki veitt athygli áður, hóp kvenna, og þó að hann kastaði ekki á þær tölu voru þær líklega jafnmargar og sjó- mennirnir, þær sinna sínum kvenmannsverk- um, enn ekki tímabært að þær sinni öðru, aug- ljóst að þetta hlýtur að vera draumur, aldrei ferðuðust menn með þessum hætti í raunveru- leikanum. Maðurinn við stýrið litaðist um eftir ræstingakonunni og sá hana hvergi. Kannski hún sé í kojunni á stjórnborða að hvíla sig eftir að hafa skúrað þilfarið, hugsaði hann, en var að blekkja sjálfan sig af því að hann veit vel, enda þótt hann viti ekki hvernig hann veit það, að á síðustu stundu ákvað hún að koma ekki með, stökk niður á hafnarbakkann og kallaði þaðan: – Vertu sæll, vertu sæll, fyrst þú sérð ekkert nema ókunnu eyjuna er ég farin. Henni skjátl- aðist, einmitt núna leitar hann hennar með aug- unum og finnur hana hvergi. Í sömu andrá þykknaði himinninn upp og það fór að rigna, og eftir rign- inguna tóku fjölmargar plöntur að spretta upp úr moldarsekkjunum, sem stóðu í röð meðfram borðstokknum, þeir eru ekki þarna vegna þess að menn óttist að ekki sé nægi- leg mold á ókunnu eyjunni, heldur af því að með þessu móti má vinna sér inn tíma, daginn sem við komum þurf- um við einungis að umplanta ávaxtatrjánum, sá fræjunum af litlu kornökrunum sem eru að þroskast hér, skreyta blómabeðin með blómunum sem munu springa út úr þess- um blómhnöppum. Maðurinn við stýrið spyr sjómennina, sem hvíla sig á þilfarinu, hvort þeir komi auga á nokkra ókunna eyju, og þeir svara að þeir sjái ekki nokkra eyju, hvorki ókunna né kunna, en að þeir séu að hugsa um að fara frá borði um leið og þeir sjái byggt land, svo fremi þar sé bryggja sem unnt sé að leggj- ast að, krá þar sem unnt sé að drekka og rúm til að gamna sér í, hér sé það ekki hægt inn- an um allt þetta fólk. – Og hvað með ókunnu eyjuna? spurði maðurinn við stýrið. – Ókunna eyjan er ekki til nema sem hugmynd í hausnum á þér, landfræðingar konungsins fóru að kanna landakortin og lýstu því yfir að ókunnar eyjar hafi ekki verið til um langt skeið. – Þið hefðuð átt að halda kyrru fyrir í borginni í stað þess að tefja för mína. – Við vorum að leita að betri stað til að búa á og ákváðum að nota okkur ferðina. – Þið eruð ekki sjómenn. – Vorum það aldrei. – Ég get ekki siglt skipinu einn. – Þú hefðir átt að hugsa út í áður en þú baðst konunginn um það, sjórinn kennir engum að sigla. Þá kom maðurinn við stýrið auga á land í fjarska og hugðist sigla þar fram hjá, ímyndaði sér að þetta væru hillingar frá öðru landi, mynd sem hefði ferðast um rúm- ið frá hinum enda heimsins, en mennirnir, sem höfðu aldrei verið sjómenn, mótmæltu, sögðu að einmitt þarna vildu þeir fara í land. – Þessi eyja er á kortinu, kölluðu þeir, – við drepum þig ef þú ferð ekki með okkur þangað. Þá sneri karavellan stafninum í átt að landinu af sjálfs- dáðum, sigldi inn í höfnina og lagðist upp að bryggjunni. – Þið megið fara, sagði maðurinn við stýrið, og um leið streymdu þau frá borði, konurnar fyrst, síðan karlmennirnir, en þau fóru ekki ein, þau tóku með sér endurnar, kan- ínurnar og hænurnar, þau tóku með sér uxana, asnana og hestana, og meira að segja mávarnir hófu sig til flugs hver á eftir öðrum og yfirgáfu skipið með unga sína í gogginum, slíkt afrek hefur aldrei fyrr verið unnið, en allt getur gerst. Maðurinn við stýrið fylgdist þegjandi með flótt- anum, hann gerði ekkert til að stöðva fólkið sem var að yfirgefa hann, það skildi þó að minnsta kosti trén eftir hjá honum, kornið og blómin, og klifurjurtirnar, sem vöfðu sig utan um möstrin og héngu niður borðstokkinn eins og blóm- sveigar. Svo mikið gekk á við brottförina að moldarsekkirnir höfðu rifnað og moldin dreift sér um allt þannig að þilfarið líktist pældum og sánum akri, ekki vantar nema örlítið meiri rign- ingu til að uppskeran verði góð. Maðurinn við stýrið hefur ekki sést matast síðan hann hóf ferðina til ókunnu eyjarinnar, það hlýtur að vera af því að hann er að dreyma, og ef hann sæi brauðbita eða epli í draumnum væri það hreinn uppspuni, ekkert annað. Rætur trjánna eru nú þegar teknar að skjóta sér inn undir þilfarið, þess er ekki langt að bíða að þanin seglin verði óþörf, nægir að vindurinn leiki um krónur trjánna og karavellan tekur stefnuna á áfanga- stað. Hún er skógur sem siglir og skoppar á öld- unum, skógur sem fuglar syngja í, hulin ráðgáta hvernig það má vera, fuglarnir hljóta að hafa verið einhvers staðar í felum og snögglega ákveðið að koma fram, ef til vill vegna þess að kornið er orðið þroskað og nú þarf að skera það upp. Þá skorðaði maðurinn stýrið og gekk út á akurinn með sigð í hönd, og þegar hann hafði skorið fyrstu öxin sá hann skugga til hliðar við skugga sinn. Hann vaknaði í faðmi ræstinga- konunnar, og hún í faðmi hans, líkamar þeirra sameinaðir, kojurnar sameinaðar, og óvíst hvort þetta er bakborði eða stjórnborði. Síðan, um leið og sólin var komin upp, máluðu mað- urinn og konan á báðar hliðar stafnsins nafnið, sem enn var eftir að gefa karavellunni, hvítum stöfum. Í aðfallinu um hádegisbil sigldi Ókunna eyjan loks á haf út, í leit að sjálfri sér. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir þýddi. Höfundur er portúgalskur rithöfundur. Hann hlaut nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1998.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.