Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. SEPTEMBER 2003 Maddama, kerling, fröken, frú… SVO árum skiptir hefur Katrín Þorvaldsdóttir unnið við leikmynda-og búningagerð en sýnir nú frjálsa sköpun í Gerðarsafni. Þar má sjá magnaða innsetningu hennar ásamt hljóðverki Hafdísar Bjarnadóttur rafgítarleikara og tónsmiðs. Katrín sýnir fjórtán stórar grímur/brúður auk fjölda minni gríma. Sýningin skiptist í þrjá hluta, einn þeirra sýnir nokkurs konar drottningar eða að- alskonur og minnir á ævintýraheim þar sem drottningar og prinsessur ráða ríkjum. Annar sýnir kvenmyndir sem eiga meira skylt við þjóð- sögur og landið okkar, sá þriðji kemur úr hafinu, kannski er það ríki dauðans. Sýning Katrínar nefnist Borðhald og fyrri hóparnir tveir, aðallinn og svo þær sem minna mega sín eru að mestu í kringum borðin, en ríki hafsins aðeins til hliðar. Borðin tvö skapa ákveðna þungamiðju sem heldur hópunum saman og myndar byggingu í heild sýn- ingarinnar. Grímur Katrínar hafa yfir sér alþjóðlegan, ekki síst austrænan blæ, enda mikil og löng hefð í austri fyrir hvers kyns grímum og brúðum. Henni tekst þó að gera grímurnar algjörlega að sínum eigin með frumlegri og áhrifamikilli efnisnotkun, ekki síst tekst henni vel upp með notkun þara og þangs. Hver gríma býr yfir sínum persónuleika en þó býr yfir heildinni sterklega sú tilfinning að hver gríma gæti verið ein hliðin á okkur sjálfum, nokk- uð sem kemur einnig fram í viðtali við listakonuna. Metsölubókin vinsæla Women who run with the wolves eftir Clarissu Pinkolu Estes er eitt af því sem kemur upp í hugann, en þar leitast höfundur við að finna lausn á stressvanda nútímakonunnar með því að leita að minnum í ævintýrum og þjóð- sögum og finna samsvörun við þau í lífi okkar í dag, finna tengsl nútímakonunnar við hið „villta sjálf“ og endurnýja þannig samband okkar við lík- amann og náttúruna. Það er einmitt sú tilfinning sem kemur fram á þessari sýningu, tilfinningin fyrir sterkum sköpunarkrafti sem sækir beint í undirdjúp sálarlífsins og minnir okkur á hversu margræðar og dularfullar manneskjur við erum öll. Tónlistin við sýninguna er afar viðeigandi, en Hafdís hefur á frumlegan hátt spunnið saman gít- arleik, sjávarhljóð, japanskt strengjahljóðfæri, grískt búsúkí, stofuklukku, hljóð í vatnsdropum, súkkulaðikex… að ógleymdu undirspili Páls Guð- mundssonar í Húsafelli á einstaka steinhörpu sína. Saman hafa þær Katrín og Hafdís skapað áhrifaríka, skemmtilega og óvenjulega sýningu. Þúsundþjalasmið skortir þrautseigju Helgi Hjaltalín Eyjólfsson sýnir nú fimmtu sýn- ingu sína undir nafninu Kjöraðstæður. Hann hef- ur áður sýnt smíðishæfileika sína en nú hefur hann smíðað heila sýningu úr tré, allt frá klósett- rúlluhöldurum til óræðrar kistu sem minnir bæði á líkkistu og ferðabox sem fest er á bílþak. Það býr margt í þessari sýningu Helga. Sjálfur nefnir hann í viðtali skort á þrautseigju í sam- félaginu, að hann vilji m.a. gefa mynd af manni sem aldrei lýkur við neitt, alltaf er byrjað á ein- hverju nýju og síðan hætt áður en það er tilbúið og rokið í það næsta. Þessi lýsing á ekki síst vel við hið nýjungagjarna efnishyggjusamfélag okkar Ís- lendinga. Það má líka skoða sýningu Helga líkt og væri hún líkan sem minnir á hvernig markaðssamfélag- ið reynir stöðugt að fá þegna sína til að lifa sam- kvæmt fyrirframákveðnum stöðlum, sbr. Ikea húsgögn og þar fram eftir götunum. Hið einsleita yfirbragð smíðisgripa Helga minnir á þá einsleitni sem boðið er upp á í dag, umhverfi okkar á fyrst og fremst að virka, ekki vera persónulegt. Í bók sinni Systeme des objets skrifar Jean Baudrillard um þessa þróun hlutanna í umhverfi okkar sem nú hefur átt sér stað svo lengi að við erum löngu orð- in samdauna henni og finnst hún sjálfsögð. Fjöldaframleidd heimili eru hluti af lífi okkar og enginn kippir sér upp við það. Fjölskyldumynstur og hegðun í samræmi við auglýsingar og sápu- óperur samtímans eru einnig orðin sjálfsögð. Val Helga á hlutum, klósettrúlluhaldarar, stofuklukkur og eitthvað sem minnir á titrara/ vopn/byssu/flaug? er í samræmi við þennan túlk- unarmöguleika, en í stofuklukkum og ljósmynd- um af skógi kallast á fortíðarþrá um leið og hinir hlutirnir minna meira á neyslusamfélag. Persón- an sem Helgi skapar með sýningu sinni, hinn ímyndaði karlmaður (en gæti kannski allt eins verið kona?) sem reynir af veikum mætti að smíða umhverfi sitt en gefst alltaf upp er hluti af þessum heimi. Og flottasti gripurinn hefur yfir sér mátu- lega dularfullt yfirbragð, kistan sem er á tvíræðan hátt „á fleygiferð inn í eilífðina“. Þessi túlkun mín er að vísu bara einn möguleiki á að nálgast sýn- ingu Helga en það telst honum til tekna hvað sýn- ing hans er laus við að vera borðleggjandi. Helgi kynnir hér til sögunnar áhugaverðan heim sem spennandi verður að sjá hvernig verður fylgt eftir. Smíðisgripir hans eru skemmtileg blanda af vönduðu handverki og kaldhæðni og hann býður áhorfandanum upp á vangaveltur í stað þess að veita svör. Kímera Orðabókarútskýringin sem ég fann á Kímera, en það er titill á einu verka Olgu Bergmann, alias Dr. B í kjallara Gerðarsafns, nær eiginlega að lýsa ágætlega sýningu Olgu í heild. Útskýringin á Kímera er á þessa leið: „…(í grískri goðsögn) eldspúandi óvættur, ljón að framan, geit í miðju og dreki að aftan (…) 2. ímynduð ófreskja. 3. fráleit hugmynd, óraunhæf von, tálsýn(…) 4. lífvera sem í eru vefir af ólíkum erfðafræðilegum uppruna; oftast notað um ágræddar plöntur.“ Það má segja að allir þessir þættir komi fram í verkum Olgu, nema kannski hin eldspúandi óvættur. Það er sem sagt Dr. B sem er mættur til leiks í Gerðarsafni og hefur ekkert slegið af, sýning Olgu er bæði fjölbreytt og forvitnileg. Kjarni hennar er náttúrugripasafnverk svokallaðs Dr. B en hann er tilbúin persóna sem Olga hefur skapað. Sköpun Dr. B er í takt við tilhneigingu samtímans til að líta á listamanninn sem vísindamann frekar en þann sem er undirorpinn náðarkrafti snilligáfu sinnar, einnig eru þó nokkrir listamenn sem hafa skapað sér alter ego til að finna verkum sínum við- eigandi farveg. Með Dr. B, starfi hans og safni hefur Olga einmitt skapað verkum sínum afar heppilegan ramma þar sem hún getur svo til vand- ræðalaust komið fyrir hverju sem hún vill. Þema verka Olgu er nútímasamspil náttúru og tækni og yfirbragð sumra verkanna er ekki laust við fortíð- arþrá þar sem töfrar safna eins og náttúrugripa- safna eru hafðir í hávegum, manni dettur líka í hug fyrsta afbrigði safna, svokölluð Wunder- kammer þar sem alls kyns forvitnilegum hlutum var safnað saman og þeir hafðir til sýnis. Olga leitar á nokkur mið á sýningu sinni og út- koman er missterk. Þannig er náttúrusinnuð ádeila augljós þáttur í verkum eins og Einkaland og Þjóðgarður, á kostnað hins undirfurðulega húmors og krafts sem býr í öðrum verkum þar sem ádeilan dylst frekar undir yfirborðinu. Dr. B á líklega eftir að þróa verk af þessum toga frekar. Mestmegnis stendur Dr. B í heimatilbúnum til- raunum með hráefni sín, tilraunum sem minna m.a. á erfðafræðitilraunir samtímans en um leið skapar Olga áhugaverð myndlistarverk, sérstak- lega eru skúlptúrar hennar spennandi, t.a.m. verkið Luðra. Hér sameinast á einkar skemmti- legan hátt einhvers konar húsgagn/hönnun, eitt- hvað sem líkist dýri og loks lífrænt form útfrymis, saman mynda þessir þættir eina heild sem er bæði húmorísk og um leið spennandi sem skúlptúr. Þessi skúlptúrverk Olgu finnst mér tvímælalaust áhugaverðasti þáttur sýningarinnar, þau láta minnst uppi en búa þó yfir mestum krafti. Sam- starf Dr. B og Olgu er yfirhöfuð afar frjótt og verður sterkara með árunum. Trommað á undirmeðvitundina á áhrifaríkri og óvenjulegri sýningu Katrínar Þorvaldsdóttur. Luðra, hluti af samstarfi Olgu Bergmann og Dr. B. Frumleg og framsækin í Gerðarsafni Hvað ræður för? Sýning Helga Hjaltalín í Gerðarsafni er opin og margræð. MYNDLIST Gerðarsafn Til 5. október. Gerðarsafn er opið þriðjudaga til sunnu- daga frá kl. 11–17. BORÐHALD, INNSETNING MEÐ GRÍMUM ÁSAMT HLJÓÐ- VERKI, KATRÍN ÞORVALDSDÓTTIR SKRAUT/KJÖRAÐSTÆÐUR, SKÚLPTÚR OG LJÓS- MYNDIR, HELGI HJALTALÍN EYJÓLFSSON NÁTTÚRUGRIPASAFN ÝMSIR MIÐLAR, OLGA BERGMANN Ragna Sigurðardóttir LAFÐIN af Warka, sem stundum er nefnd hin Súmerska Móna Lísa, komst nú í vikunni aft- ur á sinn stað í Bag- dad safninu. Styttan sem er 5.000 ára göm- ul var meðal þeirra muna sem stolið var úr safninu í Íraks- stríðinu. Sérstök rannsókn- arnefnd bandarískra og ír- askra sérfræðinga fannst svo lafðina í síðustu viku þar sem hún hafði verið grafin í jörð í bakgarði nokkrum og hefur henni nú aftur verið komið fyrir í sölum safnsins. Sinnuleysi versti óvinurinn BANDARÍSKI djasstónlist- amaðurinn Wynton Marsalis sagði í viðali við New York Times í vikunni að sinnuleysi væri versti óvinur menningar og gagnrýndi hann bandarísk yfirvöld fyrir að sinna listum og listakennslu ekki af meiri áhuga en raunin er. „Þegar kemur að menning- arsérkennum þjóðar þá er sinnuleysi versti óvinurinn. Og ég verð sífellt áhyggjufyllri vegna þess sem ég sé gerast hér. [...] Ég hef séð heilar kyn- slóðir Bandaríkjamanna sem eru með öllu fáfróðar um menningu sína,“ sagði Marsal- is og hvatti stjórnvöld til að auka fjárveitingar til lista- kennslu. Sjálfur tekur tón- listarmaðurinn, sem er list- rænn stjórnandi djassdeildar Lincoln Center, jafnan að sér gestatónlistakennslu í mennta- skólum víða um Bandaríkin er hann er á tónleikaferðalagi og hvatti hann aðra tónlistar- menn til að gera slíkt hið sama. „Peningarnir einir sér eru nefnilega ekki nóg. Það þarf líka að auka áhuga meðal foreldra og samfélagsins alls.“ Raspútín Rautavaaras NÝ ópera finnska tónskáldsins Einojuhani Rautavaaras var á dögunum frumsýnd í finnsku þjóðaróperunni í Helsinki. Viðfangsefni Rautavaaras að þessu sinni er rússneski múnk- urinn Raspútín og ævintýraleg ævi hans. Þykir tónskáldinu finnska hafa tekist vel upp með að túlka söguna í tónlist, en óperuna byggir Rautavaara að miklu leyti á sögulegum heimildum. Rautavaara, sem er með merkari tónskáldum Finna, semur óperuna í ný-róm- antískum stíl og þykir Raspút- ín öðlast aukin styrk fyrir hlýjuna, útgeislunina og ríku- legan stíl tónlistarinnar í verkinu sem fær víða að njóta sín í meðförum hljómsveit- arinnar. Þykir Raspútín, sem Rautavaara samdi sjálfur text- ann sérstaklega fyrir, líka vera einstaklega metn- aðarfullt verk þar sem kafað er mun dýpra en í flestum óp- erum. ERLENT Lafðin af Warka fundin Lafðin af Warka. Reuters Wynton Marsalis í góðri sveiflu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.