Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. SEPTEMBER 2003 3 S TUNDUM er sagt að fiskar sjái ekki vatnið sem þeir synda í. Ég veit ekki hvað fiskar sjá. Ég þykist þó vita að í þessu orðtaki sé sann- leikur fólginn, sem má heim- færa á mannlífið, því oft og iðulega veitum við því litla athygli sem næst okkur er og hugmyndir sem móta sýn okkar á lífið og tilveruna eru margar of hversdagslegar til að við veltum þeim fyrir okkur. Margir ganga til dæmis að því vísu að allir menn séu jafningjar og eigi að hafa sama rétt, siðferði og stjórnmál skuli snúast um hamingju fólks og farsæld, hvaðeina sem gerist eigi sér skýringar sem hægt er að grafast fyrir um með vísinda- legum aðferðum og að þekkingu manna fleygi fram svo þeir kunni, geti og viti meira í dag en í gær. Þótt þessar hug- myndir þyki sjálfsagðar nú voru þær einu sinni róttækar og ferskar. Við nútímamenn búum að arfi vísinda- byltingar og upplýsingar og hugmyndir sem spekingar á borð við Galíleó Galíleí (1564-1642), Rene Descartes (1596-1650), Benedict Spinoza (1632-1677), John Locke (1632-1704) og Isaac Newton (1642-1727) mótuðu á 17. öld eru okkur eins sjálfsagðar og ætla má að vatnið sé fiskunum. Við verð- um þeirra ef til vill helst vör þá sjaldan við reynum í alvöru að skilja fólk sem hugsar öðru vísi, fólk sem ekki hefur mótast af vís- indalegri hugsun og upplýsingu. Það er erfitt að orða nákvæmlega áhrif þessara frumkvöðla í vísindum og heim- speki nútímans, því merking orðanna sem við notum til að tjá hugsun okkar breyttist í meðförum þeirra svo það er langt frá því að vera einfalt mál að gera grein fyrir hugarheimi gamla tímans, þess tíma sem var fyrir sigra upplýsingarinnar. En þótt það sé erfitt hafa margir reynt. Að minni hyggju er skáldsagan Líflæknirinn eftir Svíann Per Olov Enquist með merkari til- raunum sem gerðar hafa verið til lýsa hug- arheimi sem stendur á þröskuldi nútímans. Þar er sagt frá viðleitni Struense læknis við dönsku hirðina til að hrinda hugsjónum upplýsingarstefnunnar í framkvæmd í Danmörku. Struense (1732-1772) fæddist réttum 100 árum seinna en Spinoza og Locke. Sú sann- færing að menn eigi að nota skynsemi sína til að hugsa sjálfstætt og hvers kyns skoð- anir skuli gagnrýndar og prófaðar er meðal þess sem hann tók í arf eftir þessa heim- spekinga frá öldinni áður. Hann hafði það einnig frá þeim að allir menn séu jafnir, hafi allir sams konar skynsemi til að bera, sama siðferði gildi fyrir þá alla og stjórn- mál eigi að snúast um farsæld almennings. Saga þeirra umskipta í hugmyndasög- unni sem hófust um öld fyrir daga Stru- ense hefur verið sögð aftur og aftur og hver kynslóð sagnfræðinga sér hana í nýju ljósi. Eina gerð hennar ritaði Ágúst H. Bjarnason (1875-1952) af mikilli list í fimmta bindi af Sögu mannsandans. Meðal þess sem gerði útgáfu Ágústs sérstaka á sínum tíma var álit hans á hollenska heim- spekingnum Spinoza. Hann fær talsvert meira rúm en aðrir frumkvöðlar í heim- speki og vísindum 17. aldar og Ágúst full- yrðir að hugsun hans marki aldahvörf í heimspeki Vesturlanda (bls. 222). Flestir aðrir fræðimenn á sviði hugmyndasögu töldu Descartes og Locke helstu bylt- ingamenn í heimspeki seinni alda. Fyrir skömmu bættist Ágúst þó liðsauki þegar stórvirkið Radical Enlightenment, Philo- sophy and the Making of Modernity 1650- 1750 eftir Jonathan I. Israel kom út árið 2001. Í þeirri miklu bók færir Israel góð rök fyrir því að áhrif Spinoza á þróun upp- lýsingarinnar hafi verið miklu meiri en sagnfræðingar hafa almennt talið. Með því að plægja gegnum heilu bókasöfnin og rýna í ritlinga og blaðagreinar frá Hol- landi, Frakklandi, Englandi, Ítalíu og fleiri löndum Evrópu hefur Israel komist að þeirri niðurstöðu að undir lok sautjándu aldar hafi menntamenn hvarvetna hvíslast á um kenningar Spinoza og skrifað um þær undir rós. Í kringum aldamótin 1700 sner- ist ritskoðun í Evrópu að verulegu leyti um að hefta útbreiðslu á kenningum þessa hugrakka gyðings frá Amsterdam. Hann var jafnvel talinn hættulegasti maður álf- unnar. Þegar Spinoza var 24 ára gamall hafði hann mótað eigin sýn á tilveruna og hafnað trú feðra sinna. Öldungarnir í samkundu- húsi gyðinga ráku hann úr söfnuðinum og bannfærðu með formála sem í lauslegri þýðingu er eitthvað á þessa leið: „Bölvaður sé hann um daga og bölvaður sé hann um nætur, bölvaður þegar hann leggst að kveldi og bölvaður þá hann rís að morgni, bölvaður þegar hann gengur út og bölvaður þegar hann kemur inn. Drottinn mun ekki fyrirgefa honum, heldur mun heift og reiði Drottins geisa móti honum og færa honum alla fordæming sem lögmálið greinir frá í ritningunni og Drottinn mun afmá nafn hans af jörðinni.“ Á þessum árum var skoðanafrelsi meira í Hollandi en öðrum löndum og þar var tek- ist á um djörfustu hugmyndirnar. Róttækir hugsuðir frá Frakklandi og víðar leituðu þar hælis og fengu bækur sínar gefnar út. En jafnvel hinni frjálslyndu borgarastétt Hollands blöskraði boðskapur Spinoza og hann var ekki aðeins útskúfaður af söfnuði sínum heldur voru bækur hans bannaðar. Í mörgum öðrum löndum Evrópu hefðu yfir- völd tekið hann af lífi, en í Hollandi fékk hann að lifa í friði, þótt hann mætti ekki prenta bækur sínar. Spinoza varði tíman- um til að ræða heimspeki við vini sína og slípa sjóngler. Ekki er vitað hvort hann stundaði sjónglerjasmíðina til að afla tekna eða hvort tilgangur hennar var einkum að þjóna vísindunum og smíða betri smásjár en til voru. Ástæðan fyrir því að Spinoza ógnaði við- tekinni heimsmynd var að nokkru sú að hann steypti helstu hugsjónum trúleys- ingja og efnishyggjumanna frá öllum tím- um saman í skipulega heild, kerfi sem menn fundu enga leið til að hrekja með skynsamlegum rökum. En þetta er ekki öll sagan, því Spinoza skar sig líka úr fyrir þá sök að hann treysti eigin skynsemi, hugsaði algerlega sjálfstætt og tók ekki mark á neinu kennivaldi. Fleiri ástæður má nefna fyrir því hve hættulegur Spinoza var talinn. Fimbulfamb og staðlausir stafir vekja sjaldan reiði og heift. Ef fræðilegar vanga- veltur og heimspekileg rök fá menn til að kreppa hnefa og gnísta tönnum þá er það oftast vegna þess að þær bregða birtu á eitthvað sem þeir vilja að sé hulið. Ofsa- fengin viðbrögð gamla samfélagsins við dagfarsprúðum handverksmanni og heim- spekingi sem skrifaði bækur um að náttúr- an sé allur veruleikinn, líkami og sál einn og sami hlutur, allir menn jafningjar, lýð- ræði farsælasta stjórnarformið og það sæmi ekki skynsömum mönnum að trúa bókstaflega á kraftaverk, hindurvitni og furðusögur úr eldgömlum helgiritum verða tæpast skýrð með öðru en því að sannleik- anum er hver sárreiðastur. Um sumt má líkja Spínóza við Sókrates. Sá síðarnefndi vakti yfir vöggu heimspek- innar í Grikklandi fyrir rúmum 2400 árum en sá fyrrnefndi studdi upplýsinguna í Vestur-Evrópu fyrstu fetin. Báðir höfnuðu viðteknum hugmyndum um undirstöðu og réttlætingu siðferðis og samfélagshátta en voru samt til fyrirmyndar um heiðarleika og góðmennsku og báðir fóru meira en lítið í taugarnar á veraldlegum og andlegum yfirvöldum. Þótt hugsjónir upplýsingarinnar séu ef til vill orðnar of sjálfsagðar til að við velt- um þeim mikið fyrir okkur skyldum við ekki ætla að þær hafi unnið neinn fullnaðarsigur. Bókstafstrú, rökleysis- hyggja, afneitun á sammannlegu siðferði og urgur út í vísindi, tækni og framfarir eru enn til og meðal annars þess vegna á Spinoza erindi við samtímann. SPINOZA OG UPPLÝSINGIN RABB A T L I H A R Ð A R S O N this.is/atli JÓN HELGASON Í EYRARSUNDI Heim skal nú vitjað til Hadesar bústaða dökkra, hugur mun særast unz tómlætið gerist hans brynja, augað mun daprast við umlyking sífelldra rökkra, eyrað mun sljóvgast er skrímsli í loftinu drynja. Gustar um þiljur, og særinn á súðunum niðar, síðustu dofnandi kvöldgeislar leiðina vísa … Hverfandi frelsi! ó sól þú er sígur til viðar, sé ég þig aftur úr djúpunum ljómandi rísa? Stjarnanna þúsundir tindra um himinsins hvelfing, heilagur eldur í víðáttu geimanna lifir; engu að síður er ljós þeirra lifandis skelfing lítið hjá öllu því myrkri sem nóttin býr yfir. Jón Helgason (1899–1986) var textafræðingur og skáld. Hann er nú skáld mánaðarins í Þjóðmenningarhúsinu. Ljóðið var ort um veturnætur 1940 og kom út í ljóðabókinni Úr landsuðri (2. útgáfa 1948). José Saramago las upp úr sögu sinni um ókunnu eyjuna á Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir skömmu. Hér er sagan birt í heild sinni í þýðingu Sig- rúnar Ástríðar Eiríksdóttur en sagan segir frá manni sem fer til kóngsins að biðja sér skips til að leita að ókunnu eyjunni. Claude Cahun var franskur ljósmyndari og rithöfundur sem tók þátt í byltingu súrrealismans á síð- ustu öld. Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir segir frá lífi og list þessarar listakonu sem fór ekki troðnar slóðir. Valkyrjur gegndu fleiri hlutverkum en að kjósa val fyrir Óðin og Freyju, segir Elías Snæland Jónsson í grein þar sem hann fer í slóð val- kyrja í íslenskum fornbókmenntum. Þingvellir hafa mikið aðdráttarafl en er ekki hægt að gera eitthvað til þess að fólk fái meira út úr heimsókn sinni þangað? Haukur Sigurðsson bendir á ýmsa möguleika á að miðla menn- ingararfi Þingvalla á lifandi hátt fyrir áhugasama gesti staðarins. FORSÍÐUMYNDIN er af Björnsbakaríi, Vallarstræti 4. Myndina tók Magnús Ólafsson árið 1910 og er hún á sýningu á myndum hans sem verður opnuð í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í dag. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 3 9 . T Ö L U B L A Ð - 7 8 . Á R G A N G U R EFNI

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.