Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. SEPTEMBER 2003 H VAÐ finnst okkur um Þing- velli? Án efa finnst fólki sem þangað kemur staður- inn fagur og tilkomumikið að standa við útsýnisskíf- una efst á Hakinu og horfa yfir Vellina og til fjallanna í norðri, austri og vestri. Vatnið grípur líka hugann fljótt og þegar geng- ið er niður Kárastaðastíg í Almannagjá taka við margar furður þar sem eru gjótur, skútar og svo gefur að líta gjár og hólma, brekkur og skógarlunda og kjarrbreiður. Gjárnar dular- fullar, óræðar og djúpar. Ef fólk tyllir sér að- eins á fögrum degi er margs að njóta þegar lit- ið er yfir. Stefnulítið rölt gefur sitt og þarna á fólki nú á tíðum að líða vel. Vert er að geta þess strax í upphafi að ým- islegt er nú gert til að laða fólk að Þingvöllum á vegum framkvæmdastjóra Þjóðgarðsins. Sér- stakur fræðslufulltrúi hefur gengist fyrir kynningargöngum á fimmtudagskvöldum og á öðrum tímum og ætla ég að vel hafi til tekist þótt enn séu miklir möguleikar ónýttir. Hér er mikil náttúrufegurð og þjóðarsaga. Þingvallavatn er nú eitt gjörkannaðasta stöðu- vatn á jarðarkringlunni eftir áratuga rann- sóknarstarf þar undir forystu Péturs Jónas- sonar vatnalíffræðings frá Miðfelli í Þingvallasveit. Einnig er mikið vitað um jarð- fræði svæðisins og gróðurfar. Um þingstörfin á ýmsum öldum eigum við miklar heimildir og ljóslifandi myndir af atburðum þarna höfum við í mörgum Íslendingasögum, Sturlungu og í biskupasögum svo að nokkrir helstu sagna- flokkar séu nefndir. Gleymum heldur ekki lagasafninu mikla frá þjóðveldisöld Grágás sem er í raun leiðbeiningarrit um hegðun og því bráðlifandi. Þessum mikla arfi ber okkur að miðla til þeirra sem koma á Þingvelli, bæði Ís- lendinga og annarra. Hvernig á að gera það? Skipulagt fræðslu- og skemmtistarf Um Þingvelli verður að hugsa í heild. Án efa vilja Íslendingar fá þar fræðslu og huga þarf jafnframt að þörfum erlendra ferðamanna. Nú hefur sýningarskáli verið reistur hjá útsýnis- skífunni fyrir ofan Almannagjá og gerbreytir allri aðstöðu. Eðlilegt virðist mér að skipta Þingvallaefni í þrjá flokka eftir því hvað á að gera, hvar og hvernig. Sýningarskálinn hlýtur að verða miðstöð fræðslustarfs. Þar ætti að vera það efni sem hentugast er að sýna í slík- um skála: jarðfræði Þingvalla, gróðurfar, fuglalíf og vatnið undursamlega. Þarna er stór- kostlegur heimur sem með nútímatölvutækni og grafík er hægt að opna svo að fólk horfi á svæðið allt öðrum augum þegar út er komið. Í sýningarskála ætti líka að vera yfirlit yfir sögu alþingis á Þingvöllum og ekki draga undan myrka kafla. Finnist mönnum það of mikið efni má skipta því í mörg myndskeið, en aðalatriði er að þarna fáist samhengi í sögu alþingis en ekki glefsur. Þarna þurfa að vera góðar merk- ingar örnefna á yfirlitskorti. Fólk ætti síðan að geta gengið frá skála að þessum stöðum og þá erum við komin að öðrum flokki eða þætti. Góðar merkingar örnefna og fróðleiksgreinar á skiltum sem segja hvað gerir staði eftir- minnilega, svipað og gert er í Elliðaárdalnum í Reykjavík. Með sama hætti mætti hafa nokkra vitneskju um fornleifar sem þarna hafa verið grafnar upp síðustu sumur og kunna að færa okkur nýja vitneskju um staðinn. Tilvísanir í sýningarskálanum eiga að vísa mönnum á þessa staði. Þá er komið að þriðja flokki eða hinum munnlega þætti. Það sem hér hefur verið sagt dregur ekki úr gildi hins munnlega þáttar í fræðlustarfi heldur eykur vægi hans. Nú hefur forvitni gesta verið vakin. Góðar frásagnir leið- sögumanns af því sem fram fór á Lögbergi, í lögréttu og dómstólum hafa sitt gildi. Og ekki má gleyma Drekkingarhyl, Brennugjá, Gálga- klettum og Höggstokkseyri þar sem hinsti dómur gekk fram, en það hörmungarefni sem tengist þessum stöðum veitir mikla innsýn í þjóðarsögu. En nú skapast miklir möguleikar vegna hins mikla efnis sem við eigum um Þingvelli og geymst hefur á sögubókum. Í Íslendingasög- um eru víða eftirminnilegir atburðir á Þing- völlum og lýsingar. Það má hugsa sér að frá- sagnaglaður leiðsögumaður bregði upp mynd af sviðinu og staðsetji en síðan bregði leikarar á leik í samtölum. Ég nefni dæmi. Úr Laxdælu þegar Guðrún Ósvífursdóttir og Þórður Ing- unnarson ræða um ástamál og manni finnst að Þórður allt að því hlaupi upp á Lögberg til að segja skilið við Auði konu sína. Eða þegar Höskuldur Dala-Kollsson biður Þorgerðar Eg- ilsdóttur fyrir hönd Ólafs sonar síns í sömu sögu. Og þarna blasir við ný leið. Hvað ræddu þau Þorgerður Egilsdóttir og Ólafur Hösk- uldsson í búðinni? Sagan segir það ekki en hér er tækifæri fyrir lipran rithöfund að láta það renna fram. Hliðstætt er í Njáls sögu þegar Gunnar á Hlíðarenda og Hallgerður langbrók ræða saman á Þingvöllum en höfundur nefnir ekki hvað þau hjöluðu, hefur eflaust talið það óþarft. Þannig getum við tengt leiðsögn og stutta leikþætti. En við höfum líka Þingvallaefni í Íslendinga- sögum sem er mun fyrirferðarmeira. Minna má fyrst á Ölkofra þátt sem gerist allur á Þing- völlum og leikur sig í rauninni sjálfur, jafn- bráðskemmtilegur og hann er. Mikið af efni Bandamannasögu gerist á Völlunum og er af- skaplega leikrænt vegna hinna líflegu samtala. Ekki er þörf á að þylja hér fleiri dæmi. En ég vil vekja athygli á einum möguleika. Hið einstæða lagasafn frá þjóðveldisöld, Grá- gás, getur nú skotist upp á stjörnuhimininn ef rétt væri á haldið. Grágás er leiðbeiningar um hegðun, eins og áður sagði. Nú þykja slíkar leiðbeiningar einar sér að jafnaði hvimleiðar, þú mátt þetta en ekki hitt o.s.frv. En þegar þær verða hluti af samfélagi lifna þær, rísa upp, ögra, skapa þverúð og geta leitt til nýrra lausna. Lítum á dæmi. Vilji móðir gifta sig á sonur hennar að koma á trúlofuninni, því sem þeir kölluðu festar. Sé enginn sonur þá gengur rétturinn til dóttur sem á bónda og skal hann ganga frá þeim hlutum. Sé nú ekki þessari dóttur til að dreifa fær faðir rétt til að fastna, næst bróðir samfeðra systur sinni. Ef ekki er bróðir skal móðir fastna dóttur sína. Í því eina tilviki fastnar kona konu. Lögrétta setti lögin en við vitum ekki hvað rætt var þar um efnið áður. Voru skiptar skoð- anir? Reyndu konur ekki að hafa áhrif á bænd- ur sína í þessum efnum og hvernig þá? Hvern- ig voru mál lögð fram? Reifaði lögsögumaður hugmynd sem einhver lögréttumaðurinn hafði gaukað að honum? Eða höfðu lögréttumenn fullt frumkvæði? Við getum hugsað okkur að konurnar hafi komið til þings til að hafa áhrif á bændur sína, bræður og vini. Það komi fram í orðaskiptum utan lögréttu. Þau orðaskipti mættu berast inn í lögréttu og valda þar eðli- legum deilum. Nútímakonur geta skipst á skoðunum við persónur sögualdar. Nú sátu 147 karlar í lögréttu þjóðveldistím- ans og ekki ástæða til að fylla þá tölu í ein- hverju leikatriði, en skoðanaskiptin við laga- setninguna geta vel komið fram. Með svipuðum hætti mætti skyggnast inn í dóms- kerfið með því að mál yrði lagt fyrir einhvern fjórðungsdóminn. Við getum hugsað okkur að maður hafi ráðist á mann, það sem þeir kölluðu frumhlaup. Hvernig átti að fara með það fyrir dómi? Hér geta orðaskipti þriggja manna brugðið upp mynd af málinu, árásarmannsins, þess sem ráðist var á og eins vitnis eða votts. Í samtölum þeirra kemur fram hvernig dóms- kerfið starfaði. Hér eru aðeins nefnd dæmi til skýringar en margt er ónefnt. Raunasagan Hvernig leið Þórdísi Halldórsdóttur sem var dæmd í héraði 1612 til að drekkjast eftir að hafa eignast barn með mági sínum Tómasi Böðvarssyni? Og Tómas hafði stokkið frá yf- irheyrslu á bak reiðskjóta sínum, riðið til skips og forðað sér til Englands. Þórdís hafði ekki lýst neinn föður að barni sínu fyrr en fulltrúi fógeta sýndi henni í héraði þumalskrúfuna. Taldi hún sig kannski vera María mey? Sýslu- maður draslaðist með hana til alþingis sumar eftir sumar án þess að mál hennar væri tekið fyrir. Hvað mátti hún þola fyrir augliti allra? Hvar var hún geymd öll þessi ár þar til henni var drekkt í Drekkingarhyl 1618? Stundum gekk erfiðlega að höggva á Högg- stokkseyri, Björn á Skarðsá lýsir slíku tilviki, og blautt var hrísið þegar brenna átti Lassa Diðriksson. Hví voru karlar brenndir og höggnir næstum eingöngu? Voru konur ekki hengdar? Spurningarnar vakna og svara er leitað. Hvað segir þetta allt um lögin og þjóðfé- lagið? Hnignun alþingis á 18. öld verður að koma fram í sýningarskála. Löngu úrelt er að leyna þessari hnignun. Valdakerfið breyttist og þar með urðu störf manna á alþingi önnur en áður var. Fólki þarf að verða ljóst að dauðvona stofnun var leyft að sofna þegar alþingi á Þing- völlum var lagt niður. Saga og náttúra Menn telja með réttu að náttúran á Þingvöll- um sé einstök. Skyldi hún hafa haft áhrif á mið- aldamenn? Um það ræða hinar gömlu miðalda- heimildir ekki. Vera má að riturum hafi fundist það blaður um ekki neitt. Gunnari á Hlíðar- enda fannst Fljótshlíðin fögur og líklegt er að hreint loft, ilmgrænt skógarkjarrið, svali Þing- vallavatns og söngur himbrimans hafi haft áhrif á hugsun, málflutning og tilfinningar miðaldamanna. Náttúruna höfum við tekið í arf og ber að hlúa að henni en breyta henni ekki, leyfa henni að halda sínu. Það er hennar réttur. Öxará var á miðöldum veitt í Þingvallavatn hjá Þingvallabænum en hafði áður runnið í vatnið niður undan Skálabrekku. Matseld þurfti vatn og menn hafa þvegið sér milli þing- starfa. Hestar í haga og menn brutu hrísið undir eldunartæki sín í eldstónum. Talið var að tuttugu hríshesta þyrfti í eina brennu, en brennutíminn var stuttur og níu voru brenndir í Brennugjá. Í jarðskjálftanum 1789 seig land allt að 1,5 m og hafði það veruleg áhrif á land- nýtingu og veiðar í vatninu. Átökin í Ölkofra þætti urðu í fyrstu vegna vangæslu Ölkofra með eld svo að kviknaði í goðaskógi sem goðar sögðust eiga. Hér var Skógræktarfélag Íslands stofnað 1899 og Dan- ir tóku að gróðursetja trjáplöntur æðimargar fram á 20. öld. Síðar tóku Íslendingar við og var sem viðhorfið þá væri að koma upp sem stærstum skógi. Nú eru viðhorf breytt og er Vinalundur erlendra heiðursgesta fyrir ofan Þingvelli til marks um það. Hugmyndin um þjóðgarð og hvernig starfað var í anda þeirrar hugmyndar er fróðlegt efni í menningarsögu. Hvað mætti gera? Með þessu sem nú hefur verið sagt er ekki verið að endurvekja fortíðina. Við höfum hvorki svo ríkulegar heimildir að það verði gert né getu til þess. En markmiðið ætti að vera að gera ferð til Þingvalla að lifandi reynslu í huga gesta. Og gestirnir geta verið börn og unglingar, fullorðnir innlendir sem er- lendir. Haga ber efni og framsetningu eftir því hver markhópurinn er hverju sinni. Verði Val- höll stækkuð liggur beint við að hafa þar sal til fyrirlestra og flutnings á alls konar efni. Efni frá þjóðveldisöld kallast á við efni frá síðari tímum. Þingvallahátíð mætti hugsa sér eina á hverju sumri. En þá verða menn að fara úr þjóðhátíðarfötunum. Reynsla undanfarin ár á að segja mönnum að þaulskipulögð hátið geng- ur gjarnan ekki upp og laðar fólk ekki að. Verst er þegar ekkert óvænt er og allt verður séð fyrir. Tekist hefur á Menningarnótt í Reykjavík að virkja sköpunarkraft fólksins svo að fjölbreytnin er ævintýri líkust. Af því má læra. En Þingvallaefni er svo fjölbreytt að þar er næstum hægt að láta allt koma á óvart og bera fram nýtt efni frá einu ári til annars. Þarna mætti hafa efni bæði á íslensku og á ensku en aðgreina vel. Barnaefni getur orðið ríkulegt og krakkar fengið nóg að gera. Forn- leifauppgröftur kann að leiða margt nýstárlegt í ljós. Hver hátíð getur haft eitt þema sem meginatriðin hverfast um. Ef virkja á fólk til verka má veita því nokkuð frjálsar hendur inn- an ákveðins ramma. Slík hátíð gæti orðið mót- vægi við útihátíðir verslunarmannahelgar því að hún yrði svo ólík þeim. Kaupstaðir halda sína dönsku, frönsku og færeysku daga á hverju sumri og er það vel. En Þingvellir eiga sér enga hátíð nema þegar menn verða að halda upp á afmæli eins og 1974 og 1994. Nú hefur því verið lýst yfir að Þingvellir verði sett- ir á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna á árinu 2004. Fróðlegt væri að vita hvað stjórn- völd ætla að gera staðnum til lyftingar af því tilefni. Hér þarf að vanda til verka og betra að fara hægt af stað og læra af reynslunni. Gróð- ur er þarna viðkvæmur sem ber að hafa í huga. En virðing fyrir staðnum ætti að vera í hásæti. Höfundur er sagnfræðingur og fyrrverandi kennari. ÞJÓÐARARFUR Á ÞINGVÖLLUM E F T I R H A U K S I G U R Ð S S O N Hvernig er hægt að gera heimsókn innlendra og erlendra gesta til Þingvalla að eftirminnilegri og innihaldsríkri ferð? Hér eru settar fram hugmyndir um það hvernig hægt er að miðla þjóðararfinum um Þingvelli sem varðveittur er á bókum og á annan hátt til þeirra sem koma þangað. Morgunblaðið/Ómar „Þingvallahátíð mætti hugsa sér eina á hverju sumri.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.