NT - 19.06.1985, Blaðsíða 8

NT - 19.06.1985, Blaðsíða 8
Miðvikudagur 19. júní 1985 8 KP Jónas Guðmundsson rithöfundur Fæddur 15. október 1930 - Dáinnð. júní 1985 Jónas Guðmundsson, rithöf- undur og listmálari, er látinn eftir harða en stutta sjúkdóms- raun. Hann andaðist í Borgar- spítalanum um hádegi fyrra sunnudag, og var þá séð fyrir nokkru að hverju fór, þótt lækn- ar berðust af miklu hugrekki við að bægja frá honum banameini hans. Fer þó jafnan svo, að maður trúir illa og seint að góður félagi sé genginn. Sú varð raunin í þetta sinn, þótt Jónas væri ekki nema fimmtíu og fjögurra ára að aldri, þegar þroski með vitsmunum gerir einstaklingnum fært, einkum þeim sem við Iistir fást, að miðla af auði reynslu sinnar í meiri mæli en tími var til á tíð bú- stangs og veraldegra umsvifa. Jónas lifði merkilegu lífi og sviptivindasömu og minnti stundum á þá örfáu Islendinga, allt frá Halldóri Snorrasyni til vorra tíma, sem lögðust í víking eða settu sig í stríð í öðrum löndum, að mestu til að efla skilningarvitin og eiga nokkra sögu að leiðarlokum. Jónas átti nóga sögu og kom það meðal annars fram í því hve honum var létt um að segja frá eða skrifa. . En heimaslóðir voru honum þó kærastar, eins og málverk hans benda til, þarsem hann undi sér við að færa í liti og sólskin gömul sorgbitin hús, höll undir skjóli bárujárns, eða niðurlúta báta í fjörukambi eftir að skipshafnir höfðu yfirgefið þá í leit að lífshamingjunni. Allt þetta spratt fram úr höndum hans með yfirsvip áreynsluleysis kunnáttumanns- ins, sem hafði næga reynslu til að skilja hvar sorgin átti heima, og Itvar gleðidagur reis yfir austurfjöllum. Vinir Jónasar frá unglingsár- um hér í Reykjavík minnast enn þeirrar veislu skemmtileg- heita, sem alltaf stóð í kringum hann á þeim tíma. Hnyttinyrði fuku af vörum hans alveg ósjálf- rátt og án nokkurrar áreynslu, og enn löngu síðar þótti mönn- um liann bæði gamansamur og snjallyrtur á góðum stundum. Voru þó löng ár og mikil höf sigld í millitíð. Eins og oft er venja um slíka menn hlaut hann nafn að auðkenni eftir að liafa setið í Stýrimannaskólanum hjá Friðrik Ólafssyni 1954-56. Var hann þá nefndur Jónas stýri- maður og jafnan síðan, þótt margar bækur lægju að baki og margt málverkið hefði séð dags- ins Ijós, og jafnvel þótt hann fengi skipstjórnarréttindi á varðskipum 1958. Þessari stýri- mannsnafnbót undi hann vel, enda löngum með hugann við sjó og sjómenn, og var nú á vordögum orðinn skipherra á Árvakri, einu skipa landhelgis- gæslunnar. Eftir Jónas hafa komið út einar tólf bækur, frásagnir af sjómönnum, smásögur, leikrit og skáldsögur, þar sem byggt er m.a. á líf hans sjálfs, eins og í bókunum Grænlandsfarið og Kuldamper Absalon, sem urðu til eftir siglingar hjá Konung- Iegu dönsku Grænlandsverslun- inni. Sem rithöfundur var Jónas skemmtinn og alþýðlegur í skrifum og brá fyrir sig stíl- brögðum, sem voru mjög ein- kennandi fyrir persónu hans og því lítt tillærð. Hann sigldi einn- ig til Suður-Ameríku, en þaðan fékk ég bréf frá honum eitt sinn með lýsingu á hafnarborgum í ríkjum konkvistadoranna. Auga hans var næmt, eins og málverkin bera vitni um, og hef ég lengi saknað sagna úr suðr- inu. t>ær koma ekki héðan af. Maður sem situr um að komast í siglingar í útlöndum þarf stundum lengi að bíða á sjó- mannaheimilum í erlendum borgum, og þann tíma notaði Jónas til að skrifa „heim“. En hann var líka fundvís á íslend- inga og eitt sinn minntist hann á fyrrverandi bæjarstjóra utan af íslandi, sem vann fyrir sér með því að raka laut' í görðum Kaup- mannahafnar. Og þar sem þeir voru báðir Ijúfmenni í sjálfskip- aðri útlegð varð þessi lýsing mannsins sem beið eftir skipi á manninum sem beið ekki neins í senn átakanlegoggrátbrosleg. Þannig nýtti Jónas sér reynsluheim sinn til hins ýtrasta, og var stundum eins og hann yrði áhorfandi að sjálfum sér í margvíslegu veraldarvafstri. En það var grunnt á glaðværðinni og þeim glaða þyt sólvindanna, sem leikur um sæfarann þegar landfestar liafa verið leystar. Mörg áhugamál toguðust á um atgervi Jónasar. Vist hans í Stýrimannaskólanum bendir til þess að hann hugðist leggja sjómennsku fyrir sig, þó fyrst og fremst til að geta orðið nýtur starfsmaður landhelgisgæslunn- ar, en hjá henni hóf hann störf árið 1952. Níu árum síðar lauk hann sjóliðsforingjaprófi í skóla amerísku strandgæslunnar í Yorktown í Virginíufylki. En fjölþættar gáfur hans leiddu hann á aðrar brautir og upp úr 1962 fór hann að starfa að listum og menningarmálum. Þar fékk frískleg og uppáfinningar- söm sköpunargáfa lians notið sín. Fyrir utan að vera í stjórnum rithöfundasamtaka. og nú í ann- að sinn formaður Félags ís- lenskra rithöfunda, átti hann sæti í stjórn Farmanna- og fiski- mannasambandsins og var rit- stjóri tímarita, sem sjómanna- samtök gáfu út. Frá árinu 1974 ritaði hann að staðaídri um menningarmál í Tímann, en upp á síðkastið skrifaði hann vikulegar greinar í DV. Skrif um menningarmál hafa löngum verið þrúguð af pólitík, og tók Jónas þátt í því af meðfæddri kátínu blandaðri háði, hvenær sem tilefnin bárust honum í hendur. Varð oft af þessu nokk- urt fjaðrafok, en þá var honum mest skemmt, þegar andstæð- ingar hans fundu honum mest til foráttu. Þrátt fyrir það var Jónasi ekki í nöp við nokkurn mann. Þetta var honum glíma, sem hann þreytti af íþrótt eins og forn-rómverskur skylminga- maður, svo að þeir sem trúðu á málstaðinn stóðu móðir eftir og vissu ekki alltaf að undan voru fæturinir, svona í óeiginlegri merkingu sagt. Jónas var í Framsóknar- flokknum og lét það ekki liggja í láginni. Talaði hann stundum unt „okkur framsóknarmenn", og mátti þá búast við nýrri hrinu af samlagssvæðum stjórnmál- anna. Hann sat í fulltrúaráði flokksins í Reykjavík og í stjórn Reykjavíkurhafnar fyrir flokkinn. Og hafi eitthvað skilið á stundum á milli hans og flokksins, þá var það vegna þess að Jónas var gamall vesturbæ- ingur, sem taldi með réttu að flokkurinn ætti líka að vera til utan samlagssvæðanna-. Við síð- asta forsetaframboð var Jónas einn af sveinum Alberts Guð- mundssonar, fjármálaráðherra, og hafði það verkefni helst, vegna þekkingar sinnar á lífþ sjómanna, að fylgja Albert á fundum í sjávarplássum. Þar, var Jónas í essinu sínu, enda talaöi hann tungumál sem hinir sæbörðu skildu. Jónas var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Oddný Gríms- dóttir, og eignuðust þau einn son, Grím, sem nú er fullorðinn maður. Eftirlifandi kona Jónas- ar er Jónína Herborg Jónsdótt- ir, leikkona, og eignuðust þau fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur. Fjölskyldan býr nú við þungan harm, en börn Jónasar og Jónínu eru enn ung að árum. Jónas bjó vel að fjölskyldu sinni. Til sumardvalar fyrir börn- in endurbyggði hann gamalt hús á Eyrarbakka, Berg.og var ekki nema örstutt þaðan út í guðs- græna náttúruna. Jónas sýndi þessari endurbyggingu mikinn áhuga og vann ötullega að því að gera hana þannig úr garði, að vel færi um fjölskylduna. Urðu jafnan nokkrar sögur af ferðum austur, einkum að vetrarlagi í misjöfnum veðrum, þegar flytja þurfti smiði og pípu- lagningamenn á staðinn. Berg er fyrir nokkru orðið hið ágæt- asta hús og hefur fjölskyldan haft af því full not undanfarin ár. Jónas var ættaður frá Eyrar- bakka, en faðir hans var sonur Péturs skólastjóra á Eyrar- bakka. Þeir bræður, synir Péturs, voru þekktir menn og athafnasamir. Það var því eng- in furða þótt Eyrarbakki yrði fyrir valinu þegar Jónas valdi sér sumarhús handa sér og fjöl- skyldunni, enda lýsir það rækt- arsemi siglingamannsins. Við brottför Jónasar Guð- mundssonar er skylt að þakka löng og góð kynni. Engan var betra að hafa með sér í margvís- legum orrahríðum og skylming- um og engan var meiri hvíld að tala við þegar alvörumálum hafði verið vikið til hliðar. Hann var hinn káti félagi og úrræða- góði og hafsjór af upplýsingum um ólíklegustu hluti. Yfirleitt hafði hann fyrir vana að hlusta á erlendar útvarpsstöðvar á fréttatímum, og vissi því um stóra atburði áður en þeir voru tíundaðir hér - ef þeir voru þá tíundaðir yfirleitt. Við áttum langt samstarf um málefni rit- höfunda og áhugi hans og vel- vilji fleytti okkur yfir margt skerið. Nú síðast, þegar hann gegndi formennsku í félagi okkar, tók hann að sér mikið fleiri störf en honum bar. Þann- ig var hann í einu og öllu, þar sem sterklega þurfti að róa. í rauninni verða öll orð fátæk- leg og einskisnýt gagnvart þeirri óafturkallanlegu staðreynd sem dauðinn er. Og þótt manni finn- ist að andlát Jónasar s.é fánýt sóun, þegar ekki var um eldri mann að ræða, sem að auki var umsvifamikill höfundur ritaðs máls og málverka, verður sú tilfinning aðeins hjómið eitt samanborið við þá miklu sorg, sem fjölskylda hans hefur orðið fyrir. Við sem hittum hann næst- um daglega söknum vinar í stað, en fjölskyldan saknar föð- ur og eiginmanns, þrekmennis- ins góða sem voru allir vegir færir fyrir skammri stundu. Við vottum Jónínu Herborgu, og börnunum hennar ungu, samúð okkar þó að við vitum hvað það nær skammt. Indriði G. Þorsteinsson Nú hefur verið kallaður til feðra sinna Jónas Guðmunds- son stýrimaður og rithöfundur. Ég kynntist Jónasi þegar hann rak fasteignasölu í vesturborg- inni í Reykjavík íkringum 1964. Þeir voru þarna saman í darr- aðardansinum hann og Sigurður heitinn Pétursson tengdasonur Eysteins Jónssonar fyrrverandi ráðherra. Margar ánægjustund- ir átti ég með þessum tveim heiðursmönnum, en Sigurður er fallinn frá fyrir mörgum árum, og nú er Jónas burt kallaður aðeins 54 ára og er að honum fráföllnum mikil eftir- sjá. Með Jónasi Guðmundssyni er genginn mikill þjónn fólksins. Hann hafði rekið fasteignasölu, verið í innflutningi, stundað málaralist með ágætum árangri, verið stýrimaður í flota land- helgisgæslunnar, en það sem hann er kunnastur fyrir eru rithöfundarstörf hans, bæði á sviði blaðamennsku, upplesari á eigin efni í útvarpi og ritstörf að bókmenntaverkum. Jónas Guðmundsson er genginn til feðra sinna, skarð hans verður vandfyllt. Hann lætur eftir sig hlýtt handtak til samferðamann- anna, sem honum kynntust. Ég bið fjölskyldu Jónasar Guðmundssonar gæfu og gengis og veit að minningin urn góðan dreng mun fylla húsið af sálarró, þó hann'komi aldrei aftur. Ég kveð Jónas Guðmundsson með orðunum, hafðu heila þökk fyrir samfylgdina. Eiginkonan og börnin hafa misst mest, en þjónn fólksins, eins og ég nefndi Jónas jafnan með sjálfum mér, sem farinn er svo langt frá okkur, mun verða hér áfram á meðal okkar, í dagsverki sínu sem aldrei verður lokið. Hafðu heila þökk Jónas Guðmundsson rithöfundur. Sumarliði Steinarr Benedikts- son rithöfundur Kveðja frá Félagi íslenskra rithöfunda Jónas Guðmundsson, rithöf- undur, andaðist síðastliðinn sunnudag í Borgarspítalanum í Reykjavík, aðeins fimmtíu og fjögurra ára að aldri. Félagar í Félagi íslenskra rithöfunda munu sakna vinar í stað, því Jónas var einn ötulasti aðilinn í þeirri baráttu, sem félagið á í um þessar mundir við að ná fullum rétti, eins og því ber í landi þar sem félagafrelsi ríkir. Félagið kveður nú formann sinn, en það var í annað sinn sem hann gegndi þeirri trúnaðar- stöðu. Áður hafði hann sinnt formennsku í félaginu tímabilið 1976-77. Jónas lét sig mjög varða réttindamál rithöfunda og tók af alhug þátt í félagsstörfum þeirra. Helsta áhugamál hans á síðari árum var efling félagsins, svo það mætti verða sem best í stakk búið til að halda uppi merki rithöfunda, verja áunnin réttindi þeirra og auka svigrúm þeirra og áhrif. Fyrir þetta þakkar félagið formanni sínum nú að leiðarlokum. Við vottum fjölskyldu hans og öðrum að- standendum samúð okkar. Stjórn Félags íslenskra rithöfunda Kveðja frá Framsóknar- félagi Reykjavíkur í síðasta mánuði kom ég að máli við Jónas Guðmundsson og bað hann að flytja erindi á skemmtun, sem haldin var á vegum Framsóknarfélags Reykjavíkur. Var það auðsótt, enda málið honum skylt, þar sem hann átti sjálfur sæti í stjórn félagins. Erindi hans fjall- aði um sólarlag lífsins, snilldar- lega flutt, eins og hans var von og vísa. Engan, sem á hlýddi renndi þá í grun, að svo skammt yrði í sólsetur fyrirlesarans, enda kom ótímabært og skyndi- legt fráfall Jónasar Guðmunds- sonar vinum hansogsamherjum í opna skjöldu. Á lífsferli sínurn kom Jónas Guðmundsson víða við, og þótt hann hafi verið þekktari fyrir rithöfundarstörf og listmálun en stjórnmálavafstur, þó tók hann engu að síður virkan þátt í borgarmálastörfum fyrir Fram- sóknarflokkinn í Reykjavík. Sem slíkur átti hann sæti í hafnarstjórn Reykjavíkur og er óhætt að fullyrða að þekking hans á sjávarútvegi og reynsla hans sem skipstjórnarmanns hafi komið góðum notum í því starfi. Um langt árabil var Jónas Guðmundsson blaðamaður á Tímanum og annaðist þar bók- mennta- og listgagnrýni. Naut hann virðingar sem slíkur og var það tjón fyrir blaðið, þegar hann hvarf af þeim vettvangi. Það er skarð fyrir skildi í stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur, þegar Jónas er horfinn á braut. Honum fylgdi kraftur og elja. Og ávallt sá hann nýjar hliðar á málum, því að hann var hugmyndaríkur með afbrigðum. En fyrst og síðast hugsaði og starfaði Jónas sem Reykvíkingur. Honum var annt um borgina sína og hags- muni íbúa hennar. Um það bera ótal blaðagreinar hans glöggt vitni. Fyrir hönd stjórnar Fram- sóknarfélags Reykjavíkur þakka ég Jónasi samfylgdina, og votta eiginkonu hans og fjölskyldu samúð. Alfreð Þorsteinsson form. FR Kveðja f rá borgarmálaráði Framsóknarflokksins Við kölluðum hann stundum þúsundþjalasmiðinn. Hann var líka ýmist titlaður stýrimaður, málari eða rithöfundur. Sumir töluðu um framsóknarmanninn Jónas Guðmundsson. Allar þessar nafngiftir segja sitt. Vissulega var hann óvenju- legur um margt. Afköst við ritstörf og málaralist voru með ólíkindum. Þóvirtist hann ávallt eiga aflögu stund til annarra verka. Hann átti fjölda vina og kunn- ingja enda mannblendinn og hafði gaman af að blanda geði við fólk. Hann var ekki aðeins ræðinn heldur litríkur í máli og orðheppinn í besta lagi. Jónas Guðmundsson átti sæti í Hafnarstjórn Reykjavíkur síð- astliðin sjö ár. Þar var vissulega réttur maður á réttum stað. Þar naut sín vel reynsla hans frá sjómannsárunum. Á sjó- mennsku og siglingum hafði hann brennandi áhuga og var fjölfróður um allt sem að því laut. Það var því engin tilviljun að uppáhaldsmyndefni hans voru skip, bryggjur og haf. 1 borgarmálaráðinu var hann allan þann tíma er hann var í Hafnarstjórn. Hann stansaði jafnan stutt á fundum okkar enda í mörgu að snúast. Hann leit þó jafnan inn, sagði skoðun sína á þeim málefnum sem um var rætt, og kryddaði ræðuna með gamanmáli sem lá honum svo létt á tungu. Svo var hann þotinn og stóllinn var auður eftir. Það gladdi okkur þó jafn- an er hurðin féll að stöfum að við gátum átt von á honum síðar. Nú hafa umskipti orðið. Stóll- inn er auður og hurð hefur fallið að stöfum. Um þær dyr er aðeins gengið til einnar áttar og enginn sern um þær fer kemur aftur. Jónas Guðmundsson hefur kvatt fyrir fullt og allt. Við söknum hans öll og vott- um Jónínu og börnunum okkar dýpstu samúð.

x

NT

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: NT
https://timarit.is/publication/305

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.