NT - 06.10.1985, Blaðsíða 12

NT - 06.10.1985, Blaðsíða 12
1 2 Sunnudagur 6. október NT Frakkar hafa lært svolítiö af reynslunni og núorðið er það ekki kallað ónytjungsháttur þar í landi að fást við frjálsa listsköpun; fremur er slíkt talið samfélaginu til góðs. ís- lendingar hafa afturámóti ekkert lært af örlögum Jónasar Hallgríms- sonar svo dæmi sé tekið. En einn daginn verður bara að læra soldið. Já það var þetta með ruglun skynfæranna Kibbi minn. Rimbaud stendur einfaldlega í þeirri stöðu þarna í Charleville á síðustu öld, að vera svo skelfilega forvitinn um veruleikann; allar dýptir hans og víddir. Hann langar tilað kynnast því sköpunarverki sem hann er dottinn inní, kanna þann huga sem hann er með í hausnum og þær kenndir sem brjóstið hýsir; hvað ætli þetta sé nú og hvað skyldi vera þar að finna? En hann rekur sig fljótt á, að aðrir spyrja ekki slíkra spurn- inga og telja vænlegra að vera duglegir í vinnunni og standa sig; vera einsog hinir, búið spil. Rim- , baud kallinn verður þá bara að svala forvitni sinni einn og fer útí tilraunir, athuganir á möguleikum og þanþoli hugarins. Hann er ekki smáborgaraleg skitukind einsog þú Kibbi, sem ald- rei leggur útí neitt nema vera fyrir- fram öruggur um að sleppa heill og óskaddaður and- líkam- og fjár- hagslega útúr því. Þetta er maður; manneskja. Hann stendur einfald- lega andspænis því að lifa á jörð- inni, og í Ijósi þeirrar staðreyndar er ýmsu til hættandi svoað það líf geti staðið undir nafni. Hann sér sjálfan sig utanfrá; hann sér að hann sjálfur og sýn hans á veruleikann er ekkert annað en ófrjáls pródúksjón ákveðinna að- stæðna og ákveðins samfélags. Skynfærin eru ófrjáls og allt það mat sem hann leggur á vpruleikann, jafnvel í smæstu atriðum, sem og möguleikana í veruleikanum, er ekki orðið til af frjálsri hugsun, heldur innrætt. Með öörum orðum: samfélagið og tímarnir hafa þröngv- að uppá hann ósönnum viðmiðun- um, falskri sjálfsímynd, staðlaðri upplifun. Þetta er það sem nú á dögum er kallað uppeldismaskinan. Og til þess að losna úr viðjum þessa falska veruleiks, þarf að brjóta af sér alla hlekki vana- skynjunar og viðtekins mats, og þá er það sem brenglun skynfæranna kemur inní. Það þarf að rústa „sjálf- um sér.“ Hann horfir á sig utanfrá, sér sig í 3. persónu; hann sjálfur er eins- konar tilraunadýr sjálfs sín í leit sinni að sannleika - ekki öryggi eða status. Allt skal lagt að veði! Og þessi skynjun hans á sjálfum sér sem viðfangsefni í víðara samhengi en hinn sjálfsgjarni meðalmaður fær áttað sig á, er undirstrikuð í orðunum: „Það er vitlaust að setja: ég hugsa. Maður á að segja: ég er hugsaður." Hann er einskonar áhorfandi að tilurð hugsana sinna, horfir á þær brjótast út. Hann sjálfur er farvegur æöri afla, innilegur mót- takandi mystískra opinberana, en ekki montroggið stórskáld sem ber sér á brjóst. Þar liggur munurinn Kibbi. Og með því að rækta með sér þessa fjarlægð frá sjálfum sér, er hann þess umkominn að etja sér útí ótrúlegustu svaðilfarir; reyna á sjálf- um sér öll form ástar, þjáningar og brjálsemi; ástunda vægðarlausa brenglun allra skynfæra. Þetta er leit að sannleika og þekkingu Kibbi, ólíkt því að skolast gegnum lífið með skyn- og kynfærin dauf, van- og misnotuð. Svo vitnað sé í hann sjálfan: „Ótrúleg písl, þarsem mað- ur hefur þörf fyrir alla sína trú, allan ofurmannlegan mátt, og þar sem maður verður í samfélagi manna sá sjúki, glæpamaðurinn, sá útskúfaði, - og sá vitri! - því miður kemst að því óþekkta.“ Rimbaud lítur semsé á ruglun skynfæranna sem aðferð tilað leysa úr læðingi ofurmannlegan kraft og öðlast dýpri og sannari innsýn í rök og rökleysur tilvistarinnar. Þetta er einnig fólgið í því að kalla yfir sig slíkar firna píslir, að eina hugsan- lega lausnin erfólgin í „kraftaverki", - og það er spurning um líf eða dauða. Öll þessi reynsla veitir þekk- ingu á hinu ókunna, sú þekking veitir vald til galdurs; já Kibbi garla- karl, hefurðu nokkuð stúderað Jón lærða? Enda sökkti Rimbaud sér oní dulfræði, jafnhliða því sem hann jós í sig því sem þeir fordómafullu kalla eiturlyf, - leitaði opinberana í Búddisma, Platóni, kabbalafræðum og gullgerðarlist, svo nokkuð sé nefnt. Útúr öllum þessum hamagangi komu síðan einhver mestu afreks- Ijóð sem úr skáldi hafa runnið á síðari tímum og táknuðu gagngera umbyltingu fransks skáldskapar. Nýjar dyr stóðu opnar: möguleikar mannshugans margfaldir á við það sem áður hafði verið talið, tungu- málið endurnýjað og merkingasvið þess útvíkkað svo um munaði. Og um munar enn. Mikill hluti þeirra 20. aldar Ijóðlist- ar, sem hefur að einhverju marki getað rykkt andlega leitandi mönn- um áfram, byggir mjög á þeim grunni sem Rimbaud lagði, ekki síst með „Árstíð í Víti" og „Uppljóm- unum“. Allur módernismi er meira og minna útfærsla á þeim hugmynd- um sem Rimbaud barði í gegn milli tektar og tvítugs, og ekki víst að við Kibbi værum svona sperrtir ef þessi drengur hefði ekki lagt sig í lífs- háska tilað opna okkur brautir. Gallinn við okkur Kibba er afturá- móti sá, að við erum hálfgerðar raggeitur. Eitt höfuðeinkenni á ís- lenskum nútímaskáldskap er hug- leysi; þetta eru hnyttnar samsuður værukærra velferðardýra; í mesta lagi rolulegar „ádeilur" sem misskil- inn gálgahúmor tekur allan brodd úr, því þess er einum of vandlega gætt að styggja ekki neinn framúr hófi. Við lifum að sönnu á tímum andlegrar lömunarveiki. Núorðið þarf að leita logandi Ijósi í samtíma- bókmenntum okkar, - nenni ekki einusinni að minnast á myndlistina, - stofuskrautið, - tilað finna snefil af því ákalli sem eitt sinn var kjarni þess sem kallaðist íslensk menning. Og æ verður vandfund- nara það sem frá upphafi hefur verið talið til höfuðdyggða alls skáldskapar: hreinlyndi. Illa komið fyrir okkur Kibbi. Hvað er til ráða? Framhald í næsta blaði. 'l/r tvnHI* li »■* ' ‘ i\ O tVK ~ Jón Guðmundsson lærði var meistari I hvítum galdri á píslaröldinni sautjándu, ofsóttur fyrir réttlætiskennd og sannleiksást. Hér er mynd eftir hann af rostungi. Kibbi má lita. / Háttvirtir lesendur Enn vil ég minna ykkur á aö senda mér vísur í þáttinn, væri ekki upplagt að hagyrðingar hér og þar um landið sendu hver öðrum vísur í gegnum þáttinn?,, eða þá að landshlutar kvæðust á í þættinum, vil ég í því sambandi minna á vísu Hermanns Jónassonar. Sunnlendinga sé ég hóp sem til lítils dugar. Þegar Drottinn þessa skóp þá var hann annars hugar. En þessi vísa var kveðin í þing- veislu er norðlenskir og sunnlenskir þingmenn kváðust á. Steinn Sigurðsson er eitt sinn var skólastjóri í Vestmannaeyjum kvað. Nýrra efna vant er val vandi góöu að sleppa. Fár veit hverju fagna skal fæstir hvad þeir hreppa. Um andlitsfarðann orti Steinn: Farðans tál með tískudaun trúi ég margan ginni Oft er fólgið flagð á laun fögru undir skinni. Garðar Halldórsson fyrrum bóndi í Hríshóli í Reykhólasveit var eitt sinn að salta gærur í frosti og kulda í sláturhúsinuM Króksfjarðarnesi þá kvað hann: Þrekið hef ég þegar misst það af kulda stafar Máski ég hljóti hlýrri vist hinum megin grafar. Ekki er frítt ég öfundi íss við kaldan sæinn Þá sem húka í helvíti heitir allan daginn. Ekki veit ég eftir hvern næsta vísa er en hún gæti verið úr Vestmanna- eyjum eða norðan úr Hornbjargi: Stúlkan er sem stærðar fjall standbergjuð og gljúframörg. Hún ætti að fá sér kræfan kall og kenna honum að síga í björg. Sveinbjörn Beinteinsson kvað til stúlku einnar: Mælist varla meir en spönn mittið afar netta. Þú ert orðin allt of grönn á ég að laga þetta? Hér kemur enn ein ófeðruð vísa: Öllum getur yfirsést einkanlega í húmi. Heyrði ég nefndan heiðurs- prest sem hafði villst á rúmi. Aldrei veit maður hvenær má búast við næstu kosningum, svo það skað- ar varla að rifja upp gamla vísu eftir Sigurð Jónsson frá Brún. Best er að segja sannleikann svo hann birtist vinum. Djöfullinn hirði D-listann og drjúgan slurk af hinum. Guðmundur Gunnarsson sem bjó á Tindum á Skarðströnd á fyrri hluta þessarar aldar kvað um hreppsnefnd- arfund á Skarðströnd. Fram og aftur enn er hér elgur kjafta vaðinn. Kominn rafta uppí er axarskafta hlaðinn. Og um mann er þótti í meiralagi óábyggilegur til munnsins kvað Guð- mundur. Tala geiragautur kann glaður tveimur munnum. Fjölda eyru fyllir hann fréttum heima unnum. Er húfa Boga Brynjólfssonar þá sýslumanns Húnvetninga fauk af honum og á haf út kvað Einar Stefáns- son frá Blönduósi. Húnvetninga henti slys hér fór ver en skyldi. Húfan fór til helvítis hausnum ekki fylgdi. Vafalaust er gott að vita hvar hið besta er að finna þegar maður finnur til hins illa inni í sér, Anna Eggerts- dóttir frá Steðja kvað. Eru að bresta öll mín ráð illa lesti að fela. En allt hið besta ef að er gáð er í hesti og pela. Anna orti einnig næstu vísu. Fer ég nú að fara á bak fáðu þér snafs á meðan. Eftir svona andartak er ég farin héðan. Séra Sigurður Norðland í Hindisvík á Vatnsnesi kvað. Þeir sem geta ekki ort afþví rímið þvingar. Ættu að stunda annað sport eða hugrenningar. Og eftir Sigurð er líka þessi sléttu- bandavísa. Snjórinn hlánar, færist fjær fannir beggja hlíða. Sjórinn blánar, grundin grær gaukar hneggja víða. Látum þessu svo lokið að sinni. Stefán Jóhannesson Kleifum Gilsfirði 371 Dalasýslu Sími 93-4772 FLUGLEIÐIR GERA ÞÉR KLEIFT AD TAKA ELSKUNA ÞÍNA MEÐ “fyvvT 1NNANLANDS Ef þú ferðast mfkið með Flugleiðum innanlands átt þú það á „haettu" að fá einn daginn frímiða upp í hendurnar, sem gildir til hvaða áfangastaðar okkar sem er innanlands — fram og til baka. Við gefum þér nefnilega punkta í hvert skipti sem þú ferðast með okkur og þegar þú ert búin/n að fljúga 13-17 sinnum á fjórum mánuðum finnst okkur tími til kominn að við borgum farið — ekki þú. Fáðu safnkort hjá afgreiðslufólki Flugleiða og láttu það kvitta fyrir þegar þú kaupir flugmiða. Við munum sjá um það að skrá puhktana og senda þér frímiðann — og þá getur þú tekið elskuna með þér í flugið til tilbreytingar - frítt... FLUGLEIÐIR

x

NT

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: NT
https://timarit.is/publication/305

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.