Lesbók Morgunblaðsins - 11.12.2004, Blaðsíða 17

Lesbók Morgunblaðsins - 11.12.2004, Blaðsíða 17
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. desember 2004 | 17 Mannapar er eft- ir Barbara Tayl- or. Örnólfur Thorlacius þýddi. Í þessari bók kynnist lesandinn líkamsgerð og hátterni mannapa og sækir heim af- skekkt búsvæði þessara merku dýra. Brugðið er ljósi á lífshætti þeirra og umhverfi með einstæðum náttúruljósmyndum og greinargóðum skýringarteikningum og varpað er ljósi á lífsbaráttu ap- anna frá sjónarhóli þeirra sjálfra. Margt er líkt með skyldum og sjá má margvíslegan samanburð sem sýnir furðunáinn svip með mönnum og frændum þeirra af apaætt. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 64 bls. Verð kr. 2.480. Nýjar bækur Fílar er eftir Barbara Taylor. Björn Jónsson þýddi. Í þessari bók er brugðið ljósi á líkamsgerð og lífshætti fílanna, þessara gáfuðu og dularfullu dýra, sem ráða ríkjum í náttúru Afríku og Asíu. Hér má lesa um hin ýmsu not sem fíllinn hefur af rananum, um flóknar leiðir fíla til samskipta innbyrðis, auk þess sem lesandinn lærir að þekkja Afr- íkufíla frá þeim asísku. Fjallað er um helgisögur og þjóðsagnir af fílum frá ýmsum tímum. Bókina prýða vand- aðar skýringarmyndir og fjöldi ljós- mynda. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 64 bls. Verð kr. 2.380. Óþekkta konan er eftir Birgittu H. Halldórs- dóttur. Hér lætur lög- reglukonan unga, Anna Káradóttir, til sín taka á nýj- an leik, en hún kom til sögunnar í síðustu bók Birgittu, Tafli fyrir fjóra. Öldruð kona finnst látin í ris- íbúð á Vesturgötunni í Reykjavík. Slíkur atburður sýnist í fljótu bragði eðlilegur, en annað á eftir að koma á daginn. Rétt í sama svip finnst ung, erlend súludansmær myrt í garði í Grafarvogi. Ekki er hægt að sjá neitt sameiginlegt með örlögum þessara gjörólíku kvenna. Fljótt koma þó í ljós þræðir sem tengja þær saman og við það hefst óvænt atburðarás. Sumir þeir sem Anna treystir best eru að leggja á ráðin um myrkraverk og þegar þeir láta til skarar skríða er dauðinn aftur á næsta leiti. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 192 bls. Verð kr. 3.980. Freyja er eftir Johanne Hilde- brandt. María Bjarkadóttir þýddi. Sögusviðið er Svíþjóð á brons- öld. Æsir, sem komu úr austri, fara um landið, ræna og drepa og brenna bæi. Hofgyðjan Freyja fer á fund óvinanna til að reyna að semja um frið. Allt breytist hins vegar þegar hún hittir höfðingjasoninn Þór og með þeim takast for- boðnar ástir. Líf þeirra er hvað eftir annað í veði og notað sem skiptimynt í samningum milli herskárra andstæðinga. Höf- undur notar fornar goðsagnir um átök ása og vana til að skapa heim þess fólks sem síðar varð að goðum hins forna átrúnaðar for- feðra okkar, Freyju, Óðins, Þórs, Loka og annarra íbúa Valhallar. Þetta er fyrsta bók höfundar af þremur um veröld í fjarlægri for- tíð þar sem forneskja og rammir galdrar takast á en mannlegar tilfinningar eru svipaðar þá sem nú. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 352 bls. Verð kr. 3.980. JÓN Viðar Jónsson er sagður hafa rifið þá glansmynd sem Sigurður Nordal teiknaði fyrir okkur Íslendinga af lífsnautnamanninum og skáldinu Jóhanni Sigurjónssyni. Hann notar nýja aðferð til að nálgast líf skáldsins og verk hans. Hann horfir á hann með augum samtíðarmanna Jóhanns, sálfræðing- anna Freud og Jung og svolítið eins og Stan- islavski horfði á leikarann. Hann horfir á ein- staklinginn, einstaklinga, hið innra líf, dulvitundina, djúpið. Hver er þá hin nýja mynd? Jú. Jóhann var ekki bóhem heldur oftast skelfingu lostinn lítill drengur sem hafði týnt mömmu sinni, týnt heimalandinu, týnt barnatrúnni og glímdi við að axla ábyrgð á eigin lífi í tómleika stórborg- arinnar Kaupmannahafnar – úr þeirri glímu spann hann stórvirki: Varð tímamótamaður, fyrsti módernistinn í íslenskri ljóðagerð, vann sér alþjóðahylli fyrir leikrit sín. Hefði unnið miklu meira hefði hann ekki verið svo móður- bundinn að hann tók upp samband við eldri konu sem gefin var fyrir drykkjuskap; hefði orðið enn meiri snillingur, notið enn meiri hylli, hefði hann ekki stofnað til skyndikynna við aðra konu, fengið sárasótt og dáið fyrir aldur fram. Best hefði honum þó farnast hefði hann trúað á guð. Þá væri hann líklega í dag eins frægur og Ibsen. Ég hlakka til að lesa bókina Kaktusblómið og nóttin, um ævi og skáldskap Jóhanns Sigur- jónssonar, því Jón Viðar er sjaldnast að skafa neitt utan af hlutunum. Bókin er byggð upp sem safn tiltölulega sjálfstæðra kafla eða rit- gerða sem hver um sig fjallar um ákveðið atriði eða þátt í lífi Jóhanns og list. Forfeður, föð- urgarðurinn höfuðbólið Laxamýri, fimmtán ára á málfundum í menntaskóla í Reykjavík, af- staðan til kvenna, í fyrsta sinn í stórborg, greining Jóns Viðars á ljóðum, vinirnir, áhrif Strindbergs og annarra skálda, Nietzsche, hjónabandið með Ingeborg, greining á leik- ritum. 38 kaflar samtals. Horft á verkin, í nær- mynd, ótengd því sem er að gerast í lífi skálds- ins; horft á líf skáldsins ótengt því sem er að gerast í umhverfi hans. Víðtæk og vönduð heimildasöfnun um æviferil Jóhanns og stöðug samtöl við texta þeirra fræðimanna og rithöf- unda sem áður hafa fjallað um skáldið. Lesturinn tekur langan tíma. Ég þarf að fletta upp í ævisögu Helga Toldberg, Matthíasi Viðari, leikritum Jóhanns, TMM og í viðamikl- um heimildaskránum, viðaukanum, bréfum Jó- hanns til Ib. Það er skemmtilegt. Hef ég heyrt þetta áður? Sagði hann þetta virkilega? Er þetta ekki þversögn? Hvernig er hægt að túlka þetta svona?! Ég les og les. Þegar upp er staðið og ég legg bókina loksins frá mér, er margt sem þarfnast umhugsunar og umræðu. Kannski helst það hvað rekur túlk- andann til að lyfta upp einmitt þessu skáldi núna? Krýna það sem mesta tragiker íslenskra bókmennta? Vilja fá okkur um leið til að horfa á hann sem lítinn skjálfandi dreng á leiksviði í Kaupmanna- höfn – upplifa líf hans sem harm- leik ekki nautn? Hvers vegna vill hann koma skikki á líf þessa stráks, láta hann verða fullorðinn, sigrast á „andlegu ofurvaldi“ móðurkviðarins – og andlegu of- urvaldi ástkonunnar? Er það öðr- um drengjum til eftirbreytni? Verða drengir virkilega snillingar ef þeir forðast það að reykja, drekka, spila fjárhættuspil og sofa hjá? Flytur afneitun kyn- hvatarinnar (fullnægingarinnar) þá nær snilldinni? Nær guði? Bjargar hún þeim frá tómhyggjunni? Og hvers vegna Freud og Jung? Andstætt Freud leit Jóhann sjaldnast á konuna sem viðfang, í fleiru en einu verka hans er hún jafnvel miðlæg á leiksviðinu. Hvers vegna líka, við túlkun leikritanna, þörfin að vilja beygja þau öll nema Mörð Val- garðsson undir þessa einu einföldu hugmynd – þrá karlmannsins eftir að verða fullorðinn? Losna undan móðurinni? Keyra lesandann áfram eftir einu spori, þar sem hvorki er hægt að horfa til hægri eða vinstri, upp eða niður, aldrei út, aðeins inn. Er það sjálfhverfa okkar tíma sem leiðir þar Jón Viðar eða er hann bara að prófa hvernig Freud og Jung virka með Stanislavski? Og hvers vegna er ekki gert betur grein fyrir því hvernig lesa má þessa túlkun út úr leiktextanum, samtölum? Greiningin á ljóð- unum er mun nákvæmari. Og þessi afstaða til konunnar? Jóni Viðari finnst til dæmis sá lestur réttur, í anda Freud, að Halla í Fjalla-Eyvindi, kasti Tótu litlu í foss- inn vegna þess að hún líti á hana sem keppi- naut. Eða eins og hann orðar það nákvæmlega: „Maður hennar er sýnilega mjög hrifinn af barninu. Þegar óvænt atvik gefa henni tækifæri til að losa sig við það, grípur hún það. Hann skal ekki elska nokkra manneskju aðra en hana.“ (199). Hin óvæntu atvik eru reyndar að sýslumaður ræðst að útilegumönnum til að taka þau föst – og hin mikla hrifning Kára á barninu birtist þannig í verkinu að hann segir við það eina setningu, sýnir því annars engan áhuga. En í heimi karlmannsins er hann náttúrlega sá öxull sem allt snýst um. Sjálfsagt og rétt að gera Höllu, sem er aðalpersóna verksins og merkileg persónusköpun í íslenskum leikbók- menntum, að viðfangi aukapersónunnar Kára! Jóni Viðari er líka mikið í mun í túlkuninni á Fjalla-Eyvindi að lesa skilning sinn á sambandi Jóhanns og Ib inn í verkið, en á því sambandi virðist öll túlkunin um móðurbindingu byggjast – og á þeirri staðreynd helst að Ingeborg var nokkrum árum eldri en hann. Jón Viðar les til dæmis úr 4. þætti (bls. 200) að þar sé Kári að berjast við „að komast útúr steinrunnum móð- urkviði sem mun lykjast um hann einsog gröf ef hann sigrast ekki á honum. Hann er Jóhann að berjast við móðurvaldið í eigin lífi – einnig eins- og hann kynnist því í skiptum við ástkonu sína, þessa konu sem virtist öðrum þræði gera hon- um gott, brýna hann til dáða en eyddi honum þó upp, át hann – eins og hrægammur.“ (Hér vísar orðið hrægammur í fornt egypskt tákn um móðurina.) En það er víðar sem Jón Viðar notar neikvæð orð, tákn, um Inge- borg sem var af samferðamönnum talin skemmtileg kona, hafði siglt um öll heimsins höf, hélt skáldinu uppi í fjöldamörg ár, kenndi honum dönsku og deildi við hann um skáld- skap og listir. Þessari konu gerir Jón Viðar upp ýmsar hvatir og af- hjúpar í umtali um hana og í orð- notkun afstöðu til kvenna sem er skylt að benda á. Jón Viðar eins og Freud telur listamanninn vera karlmann sbr. bls. 46 þegar hann spyr: „bjó hann (Jóhann) yfir því beina sambandi við kvenlega þætti sjálfsins sem sum- ir telja að einkenni marga mikla listamenn?“ Og hver staður konunnar er fáum við að vita á bls. 175: „Hún (Ingeborg) verður ekki átalin fyrir að ætlast til þess að maðurinn sæi henni far- borða. En konur hafa getað unnið sitthvað nyt- samlegt þó þær væru þannig settar. Ib skipti hins vegar öllu að lifa í munaði. Að dönskum hætti skipti hana mestu að „hygge sig“. Eftir að þau Jóhann höfðu fest ráð sitt og eru sest að úti í Charlottenlund reynir á hana að þessu leyti og þá sýnir hún sitt rétta andlit. Jóhann var ekki sterkur á svellinu en það var Henrik Ibsen ekki heldur á yngri árum. Hann eignaðist hins vegar konu sem leit á það sem köllun sína að styðja við bakið á honum, gera honum kleift að rækta list sína og halda burt öllu sem trufl- aði. Þegar gamlir drykkjufélagar bönkuðu upp á og vildu fá skáldið út á lífið, stóð Suzanna Ib- sen við dyrnar eins og kerúb með sveipanda sverð og hleypti engum inn. En Ib lokaði eng- um dyrum a.m.k. ekki nema stund og stund. Annars hefði hún dáið úr leiðindum.“ Það var nefnilega það. Það var von að það færi illa fyrir Jóhanni, – hann yrði ekki heimsfrægur – hafi gleymst! Það er margt fleira í hugmyndafræði þeirri er liggur að baki þessari bók sem vekur hjá mér spurningar og þyrfti að ræða. Margt líka sem vekur hjá mér áhuga og ég hef gaman að og muna leita aftur í. Þó ekki væri nema til þess að reyna að skerpa hugsunina. En fyrir konur er það alvarlegt mál, þegar það gerist að karlmenn finna hvöt hjá sér til þess að skrifa doðranta til að upphefja aðra karlmenn að þeir skuli þá telja ástæðu til að gera lítið úr konum í leiðinni og/eða byggja að- ferðir sínar á hugmyndakerfum sem eru kven- fjandsamlegar. Þess vegna hef ég takmarkað mig við þetta eitt. Ég geri ráð fyrir að karl- menn séu sér oft varla meðvitandi um að þeir séu að tala niður til kvenna. Það er þeim svo eðlilegt að völdin og hugmyndirnar liggi hjá þeim. Eða getur maður trúað öðru um menn er taka sjálfa sig, lífið og bókmenntirnar alvar- lega? Hvað ber þá að gera? Ég veit bara eitt, að svar við því finnst ekki hjá Freud. Hvaða gagn er að Freud? María Kristjánsdóttir BÆKUR Ævisaga Höfundur Jón Viðar Jónsson. 430 bls. Bókaútgáfan Hólar 2004 Kaktusblómið og nóttin, um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar Jón Viðar Jónsson FAY Weldon er flestum kunn sem afkastamikill rithöfundur og róttækur áhrifavaldur í kvenna- bókmenntum. Sögur hennar snúast jafnan um krísur miðaldra kvenna, ástir þeirra og örlög. Sem dæmi mætti nefna Brandara breiðvöxnu konunnar, Ævi og ástir kvendjöfuls og Praxis sem lesin var í útvarp í þýðingu Dagnýjar Krist- jánsdóttur snemma á níunda áratugnum og þótti bæði frumleg og djörf. Nýlega sendi Weldon frá sér skáldsöguna Bulgari-sambandið sem er til- komin á óvenjulegan hátt. Ítalska skartgripafyr- irtækið Bulgari fékk Weldon til að skrifa fyrir sig bók þar sem heiti fyrirtækisins kæmi við sögu, a.m.k. tólf sinnum. Bókin var fyrst gefin út í tak- mörkuðu upplagi og henni einungis dreift til val- inna viðskiptavina. Urðu nokkur blaðaskrif vegna þessa og þótti mörgum tiltækið svik við málstað listarinnar – að höfundurinn seldi markaðs- öflunum sálu sína og skrifaði bók eftir pöntun en ekki af innblæstri, auk þess sem Weldon beit höf- uðið af skömminni með því að mæta í útgáfuteitið með lánshálsmen frá Bulgari sem var metið á eina milljón enskra punda. En bókin er svo skemmtileg aflestrar að maður gleymir því að hún er dulbúin auglýsing – sem er auðvitað varasamt. Bulgari-sambandið er einföld og hefðbundin ástarsaga og stendur fyllilega fyrir sínu sem slík. Grace Salt er niðurbrotin, miðaldra kona sem hefur nýlega gengið í gegnum erfiðan skilnað en eiginmaður hennar lét hana róa fyrir yngri og fallegri konu. Eiginmaðurinn, Barl- ey (59), er vellríkur og uppveðraður yfir nýju konunni og fjörugu kynlíf- inu en saknar stundum friðsæld- arinnar og öryggisins með þeirri gömlu; nýja konan, Doris Dubois, er fögur fjölmiðlakona á frama- braut (illgjörn tæfa); og Grace er tryggðin og gæðin uppmáluð: Allt eru þetta einfaldar og fyrirsjáanlegar stað- almyndir í góðri ástarsögu. Listmálarinn ungi, Walter Wells, kemur svo eins og prins með sinn mjúka pensil og vekur Grace til lífsins á ný, ástin blómstrar og sagan leiðist út í fantasíu: Grace yngist og fríkkar með degi hverjum meðan Walter eldist fallega og þroskast. Dramb, losti og græðgi verða svo hinum vondu að falli og í lok sögu fá þeir makleg málagjöld meðan góðu per- sónurnar uppskera ást og virðingu. Sagan er reyndar ekki alveg einföld því yfirgengilegt snobbið í samkvæmislífinu, spilling og hræsni í samskiptum fólks og undirferlið í viðskiptaheim- inum eru dregin fram í dagsljósið, háðskur stíll sögunnar beinist ekki síst að yfir- borðsmennsku og efnishyggju og Bulgari-hálsmenið dýra sem sagan snýst að miklu leyti um er tákn botn- lausrar græðgi og öfundar. Þórunn Hjartardóttir þýddi bók- ina snöfurmannlega úr ensku og er hér á ferð glæsileg frumraun hennar í bókmenntaþýðingum. Weldon segir svo um allt fjaðrafokið í persónulegu bréfi til Þórunnar: „Þeim var bara illa við bókina prinsippsins vegna, það hefði gegnt allt öðru máli ef fólk hefði verið búið að lesa hana og verið óánægt. En einhvern veginn var ég talin hafa „selt mig“ þó að í mínum huga séu útgefendur í dag enn frek- ar að selja sig með því að segja rit- höfundum hvað þeir eigi að skrifa. Nú og svo hrundu Tvíburaturnarnir! Og eftir það var eig- inlega öllum alveg sama“ (262). Víst er að enda- lausar auglýsingar dynja á okkur hvert sem litið er og fjölmiðlar og markaðsöfl stjórna lífi okkar ljóst og leynt. Ef bókmenntirnar verða einnig vettvangur auglýsingamennskunnar, styrktar af stórfyrirtækjum gegn íhlutun í listaverkinu, hvar endar þetta þá allt saman? Undirrituð er reyndar alveg til í að skrifa netta skáldsögu sem gerist í KB-banka eða í höfuðstöðvum Baugs gegn sann- gjarnri þóknun, áhugasamir hafi samband sem fyrst … Höfundur til sölu BÆKUR Þýdd skáldsaga eftir Fay Weldon. 263 bls. í fallegu broti með eftirmála þýðanda og bréfi frá höfundi. Þórunn Hjartardóttir þýddi. Salka 2004 Bulgari-sambandið Steinunn Inga Óttarsdóttir Fay Weldon

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.