Lesbók Morgunblaðsins - 11.12.2004, Blaðsíða 19

Lesbók Morgunblaðsins - 11.12.2004, Blaðsíða 19
yfir samsærismönnunum, og hlustaði á hvert einasta orð í framburðinum gegnum túlka. Það var átakanlegur partur veraldarsögunnar – t.d. sat fasistinn Jagoda hér árum saman sem innan- ríkiskommisar og formaður GPU! Réttarhöldin stóðu 8 tíma á dag í 12 daga. Þeir voru allir skotnir nema þrír“ (414). Halldór Guðmundsson veltir þessum misvís- andi orðum fyrir sér og spyr hvort nafni sinn hafi einfaldlega trúað áróðrinum, verið blekktur eins og segir í Skáldatíma. Halldór telur að trú sé lykilorð í skynjun Laxness á Sovétríkjunum (318) en að þau hafi einnig verið honum „hugsjón æðri mönnunum“ (421) sem hann hafi talað dyggilega fyrir, jafnvel eftir að hann fylgdist með handtöku Veru Hertzsch og hlaut að verða ljóst að ekki var allt með felldu. En Halldór velt- ir því einnig fyrir sér hvort Laxness hafi ekki átt hagsmuna að gæta í Sovétríkjunum: „Var hann ekki að vonast eftir því að þau yrðu bakland hans í útgáfu, leið hans til alþjóðlegrar frægðar?“ Halldór kemst að þeirri niðurstöðu að þetta hafi ekki ráðið úrslitum. Þessa díalektísku aðferðafræði notaði Viðar Hreinsson einnig í ævisögu sinni um Stephan G. Stephansson sem kom út í tveimur bindum árin 2002 og 2003. Viðar rekur aðferðina til samræðu- hugmynda rússneska heimspekingsins Mikails Bakhtin en kenningar hans notfærði Halldór sér einmitt er hann skrifaði magistersritgerð um Vefarann mikla í byrjun níunda áratugarins. Munurinn á þessum tveimur ævisögum er sá að Halldór treystir ekki jafn mikið á aðferðina og Viðar, hann fylgir henni ekki jafn tryggilega. Halldór notar hana til að vega og meta sann- leiksgildi heimilda sinna og dregur iðulega skýr- ar ályktanir af samræðum þeirra á meðan Viðar stefnir saman ólíkum röddum, bæði Stephans sjálfs og úr samtíma hans, en varast að láta eigin rödd yfirgnæfa sögusviðið algerlega, eins og hann hefur orðað það sjálfur (Lesbók 4.10. ’03). Það er helsti gallinn á bók Halldórs Guð- mundssonar að hann grípur iðulega fram í fyrir heimildunum og hinni sögulegu framvindu. Og athugasemdirnar eru satt að segja æði sérkenni- legar á stundum, einkum þó þær sem fjalla um ýmis einkenni á rithöfundum og skapandi fólki. Á einum stað er til dæmis talað um að Laxness hafi verið „uppfullur af þeirri ókyrrð sem grípur skapandi fólk þegar því finnst það vera að sóa tíma sínum“ (46) og það er talað um að rithöf- undar hugsi á ákveðinn hátt (176) og sígildan vanda höfundarins (181) að ógleymdum „helsta lærdóm skáldsagnahöfundarins: ef ætlunin er að hrífa lesendur með sér verður hann að vera jafn slyngur að útmála hið illa og predika hið góða“ (188). Sum frammíköllin virðast vera komin frá útgefandanum Halldóri Guðmundssyni svo sem eins og þegar talað er um rithöfund sem frum- gerð fjölmiðils sem kunni ekki að þegja yfir leyndarmáli (498) en önnur eru ættuð aftur úr rómantík nítjándu aldarinnar þegar skáld og listamenn voru taldir öðruvísi en annað fólk, full- ir af skapandi anda, frumleika, snilligáfu og ann- arri ókyrrð í sálarlífinu. Það er til dæmis talað um andvökusýnir sem valdi Laxness ofsakvíða og dauðahræðslu þegar hann er á mótunarárum en slíkum köstum lýsir hann í nokkrum textum sínum. Engar efasemdir eru hafðar uppi um þessar lýsingar í ævisögunni heldur þvert á móti sagt að þær skili sér „auðvitað […] í reynslusarp skáldskaparins, sálarglíman ber vitni um fæð- ingarhríðir snilldarinnar“ (100). Með þessum út- leggingum virðist Halldór ekki gera annað en að viðhalda mýtum rómantíkurinnar og verður það að teljast óþarfi í vandaðri ævisögu á borð við þessa. Það hefði að minnsta kosti mátt velta því upp hvort þarna væri ekki á ferðinni þekkt rit- klif úr bókum frá mótunarárum Laxness svo sem Inferno eftir Strindberg sem hann þekkti vel og dáði. Það er einnig athyglisvert að skáldið gagnrýnir einmitt nálgun af þessu tagi í ævisögu Peters Hallbergs um sig, Den store Vävaren, þar sem „sálarhræringar frá gelgjuárunum“ eru notaðar til þess að skýra almenn einkenni hans sem fullorðins rithöfundar. Að mati Laxness eru „alskonar hræðslur og fóbíur“ normalar með „venjulegu „heilbrigðu“ og siðferðilegu uppeldi“ (589). Laxness taldi fáa hafa verið jafn lausa við alls konar fóbíur og sjálfan sig eftir að hann komst á fullorðinsár, eins og fram kemur í ævi- sögunni, en Halldór Guðmundsson telur það hafa verið rétt hjá Hallberg að hlusta ekki á þessar aðfinnslur skáldsins: „Það má vel vera að flestir unglingar hafi lifað sömu sálarhræringar og Halldór, en þeir gera það hver með sínum hætti og í hans tilviki reyndust þær undanfari mikillar listsköpunar“ (590). Halldóri sést yfir það að hann er hér að lepja upp aldagamlar goð- sagnir um listamanninn sem sérstakan tilfinn- ingamann. Skáldskapur eftir allt Halldór segir í bókinni að ævi rithöfundar hljóti „ávallt að vera einn af lyklunum að verkum hans og í tilviki Halldórs [sé] 20. öldin í taumlausum öfgum sínum lykill til skilnings á hugsun hans“ (425). Þetta er í raun eina aðferðafræðin sem orðuð er í bókinni og hún segir í raun allt sem segja þarf um ævisögulega nálgun höfundarins. Halldór leitar ekki í aðrar kenningar til að nálg- ast ævi eða verk Laxness. Hann virðist raunar forðast kenningastagl sem er að vissu leyti skiljanlegt í bók af þessu tagi. Á einum stað er þó nafn franska fræðimannsins Rolands Barthes nefnt í sambandi við kenningu hans um punkt sem er í sumum ljósmyndum og breytir skynjun okkar á myndinni allri „vegna þess að hann skýst út úr henni einsog ör sem stingur okkur“ (313). Slíkur punktur telur Halldór að mál Veru Hertzsch sé í ævisögu Halldórs Laxness en hið sama má raunar segja um þessa óvæntu birtingu Rolands Barthes í ævisögu Halldórs Guðmunds- sonar um skáldið, hann stingur eins og ör og vekur mann til umhugsunar um það hvers vegna höfundurinn nýtir sér ekki meira af slíkum tól- um sem bókmenntafræðin er rík af nú til dags. Formlegur frágangur ritsins er að flestu leyti til sóma. Það er þó undarlegt að í rúmlega átta hundruð síðna bók skuli ekki vera atrið- isorðaskrá. Það hefði auðveldað leit í verkinu og sömuleiðis skáletraðir titlar. Ekki gafst tóm til þess að fara grannt ofan í meðferð heimilda í rit- inu en þó má hafa orð á einum forvitnilegum punkti í því sambandi. Í „geðveikismálinu“ svo- kallaða árið 1930, þar sem því var haldið fram í pólitískum deilum að Jónas frá Hriflu væri sinn- isveikur, var skrifuð nafnlaus grein í Morg- unblaðið 6. mars með skömmum um Halldór Laxness sem hafði komið Jónasi til varnar. Í henni var Laxness kallaður „hinn alkunni trúar- vingull og flagari“ en daginn eftir birtist þessi texti á síðu þrjú í blaðinu: „Misprentun. Í grein- inni Hrafnar í blaðinu í gær misprentaðist „flag- ari“, er átti að vera „flakkari.““ Þessi bráð- fyndna en sennilega heiðarlega leiðrétting hefur farið framhjá Halldóri við ritun ævisögunnar. Þrátt fyrir leiðréttinguna fór Laxness reyndar í meiðyrðamál við blaðið. Ævisaga Halldórs Laxness eftir Halldór Guð- mundsson er bráðskemmtileg og afar læsileg bók. Þrátt fyrir að vera 824 síður er frásögnin hröð og spennandi. Ljóst má vera að Halldór vinnur með heimildir sem margar hverjar hafa ekki verið rannsakaðar áður svo sem bréfasafn Ingibjargar Einarsdóttur. Í bókinni er dregin upp mynd af Halldóri Laxness sem líklega á eft- ir að hafa talsverð áhrif á skilning þjóðarinnar á skáldinu í náinni framtíð. En það er líka eðli skrifa sem þessara að þau búa til mynd af svipum liðins tíma. Um þá iðju sagði Laxness sjálfur: „Það held ég mér sé líka með öllu ógern- ingur, að draga upp persónu eftir veruleikanum. Ef ég hefði þann hæfileik myndi ég áreiðanlega fara að skrifa ævisögur manna. Nú fer í staðinn svo, að ef ég ætla að reyna að draga upp mynd, þó ekki sé nema í eftirmæli, af raunverulegum manni, þá verður úr því skáldsagnapersóna – og þetta sé ég sjálfur þegar ég er búinn að draga upp myndir, en get aðeins ekki að því gert“ (680). Þetta á við um alla ævisagnaritun, hún er eins konar skáldskapur eftir allt, hugmynd höfund- arins um „manninn“. Og einmitt það er Halldór Laxness nú; menningarsögulegt hugtak sem slegist er um hvað merkir. Halldóri til „Halldórs“ Þröstur Helgason Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. desember 2004 | 19 Saga og málefni Suður-Afríku eruviðfangsefni stjórnmálafræð- ingsins R W Johnson í nýjustu bók hans South Afr- ica: the First Man, the Last Nation eða Suður Afríka: Fyrsti maðurinn og síð- asta þjóðin eins og heiti hennar gæti útlagst á ís- lensku. Að mati gagnrýnanda Daily Telegraph er Johnson nákvæmur í lýsingum sínum á sögu Suður-Afríku og hlífir engum. Þannig við- urkennir hann fylli- lega þann árángur sem náðst hefur með starfi Afríska þjóðarráðsins (ANC) á sama tíma og hann gagnrýnir ýmis mistök í stjórnsýslunni. Thabo Mbeki, forseti landsins gagnrýnir Johnson þá fyrir að horfa að nokkru leyti framhjá ógninni sem stafar af eyðnivandanum og láta m.a. hjá líða að bjarga lífi fjölda barna. Þó skrif Johnson bjóði vissulega upp á rit- deilu að mati gagnrýnandans segir hann bókina engu að síður einkar vel skrifaða og nauðsynlega lesingu sem vefengi ýmsar mýtur um sögu lands- ins.    Rúm tuttugu ár eru nú liðin fráþví að Marilyn Robinson sendi síðast frá sér skáldsögu sem jafn- framt var hennar fyrsta, en Rob- inson fékk mikið lof fyrir þá bók, Housekeeping. Robinson sendi nú á dögunum frá sér sína aðra bók, Gilead sem New York Times lýsir sem trúarlegri, ritgerðarlegri og logandi rólegri. Sögusvið Gilead er samnefndur bær í Iowa á sjöunda áratugnum og er sagan sögð frá sjónarhorni prests á níræðisaldri sem nýlega hefur frétt að hann sé með hjartakveisu og telur sig nú eiga skammt ólifað. Á þessum alvar- legu nótum ákveður hann að skrifa sjö ára syni sínum langt bréf sem er í bland byggt á endurminningum, dagbókarköflum og ráðleggingum um góða hegðun. Bókin er að sögn gagnrýnanda blaðsins krefjandi, al- varleg og skýr lesning sem á köflum minni á 19. aldar höfunda á borð við Ralph Waldo Emerson, Henry Dav- id Thoreau og Herman Melville.    Skemmtilegurhúmor og fjöldi gaman- sagna einkennir bók Lars Movin, Udspil, eða Út- spil, sem byggð er á samtölum við fyrrum íþrótta- manninn Torben Ulrich. Segir gagnrýnandi danska blaðsins In- formation samræður þeirra Movin og Ulrich ná yfir einkar breitt svæði og að lesandinn geti ekki annað en hrifist með umræðum sem ná allt frá íþróttum yfir í austurlensk trúar- brögð.    Nýjasta bók Alice Munro býrekki yfir sama styrk og hennar fyrri verk að mati gagnrýnanda New York Times. Bókin nefnist Runaway, sem þýða mætti sem Strokumaðurinn, en sögurnar þrjár, Chance, Soon og Silence, sem bókin geymir segja allar frá sömu persón- unni, Juliet og átakamiklum æviferli hennar. New York Times segir Run- away hins vegar nokkuð tilgerðar- lega lesningu og ekki búa yfir sama flæðinu og fyrri verk Munro, þó höf- undurinn fjalli þar um svipað efni og í sínum fyrri skrifum.    Norski rithöfundurinn LarsRamslie fjallar um sirkus- listamennina og síamstvíburgana Earl og Betty í nýjustu skáldsögu sinni, Uglybugly. Bókin er í senn háðsk skopstæling á dæmisögu sem og skáldsaga sem fjallar um lík- amlega og félagslega niðurlægingu og heldur hún lesandanum föngnum íblendnum greipum hryllings og hrifningar. Erlendar bækur Lars Movin Alice Munro ÁHUGAMÁL manna eru misjöfn. Sumir eru á þeysireið um allan heiminn en aðrir hafa hægt um sig og sinna einhverju grúski. Öllum er það þó sameiginlegt að vera að leita að einhverju og kanna sér til hug- arhægðar og ánægju. Kveikjan að baki er að líkindum hin sama hjá öllum, löngunin eftir að kynna sér eitthvað hulið eða bragð- mikið. Mér segir þó svo hugur, að það áhugamál, sem flestir gætu sameinazt um, væri stjörnuskoðun. Hvað það nákvæm- lega er, sem gerir stjörnuskoðun að heillandi viðfangsefni, skal ósagt látið, en kannski er það vegna þess að þessir raun- verulegu hlutir himinhvolfsins eru dulræð- ir í huga okkar, andinn fer á flug og enn fleiri spurningar vakna en við fáum svör við. Svo langt sem sögur herma hafa menn gefið stjörnunum gaum og velt fyrir sér gangi himnintungla. Margt af því sem telst til heimsmyndar okkar á rætur sínar að rekja til þessara fornu spekinga, sem skyggndust upp í stjörnuhimininn á bökkum Evfrats- fljóts og Nílar löngu fyrir daga Krists. Margt bitastætt hefur verið skrifað á íslenzku um stjörnufræði, en bókin, sem hér er til umfjöllunar, er handhægur leiðarvísir handa almenningi til þess að hefja stjörnuskoðun af sómasamlegu viti. Greint er frá, hvernig og hvar bezt er að standa að verki og ýmis hollráð gefin til þess að sjá betur en ella einstök stjarnfyrirbæri. Þá er ferðast um sólkerfið og sagt frá reikistjörnum, fastastjörnum og öðrum tilbrigðum á himnum. Einnig er ítarlegur kafli um notkun bókarinnar, þar sem gerð er grein fyrir hreyfingu himinhvelfingar og kort af 53 stjörnumerkj- um skýrð. Meginhluti bókarinnar er síðan leiðarvísir um stjörnuhimininn frá hausti fram á vor. Þar er farið eftir stjörnumerkjunum, þau skýrð, sýnd kort af þeim og get- ið um áhugaverðar stjörnur í hverju merki. Mikilsvert er fyrir byrjendur, að þessum stjörnum er ágætlega lýst og þess getið, hvort nægjanlegt sé að nota handkíki eða ekki. Í lok bókar er síðan fróðlegur kafli um tunglið. Þá skal þess getið, að hverri bók fylgir stjörnuskífa, sem sýnir himinhvelfinguna eins og hún lítur út séð frá Íslandi á hverj- um tíma. Segja má, að viðhlítandi árangur í stjörnuskoðun náist ekki nema menn hafi yfir að ráða stjörnusjónauka. Slík tæki kunna að vera nokkuð dýr og því ekki á færi allra að eignast þau. Rétt er því að benda á Stjörnuskoðunarfélag Seltjarn- arness, sem er opið öllu áhugafólki og á öfl- ugasta stjörnusjónauka hér á landi. Þessi ágæta bók er fyrst og fremst ætluð okkur, sem höfum takmarkaða þekkingu á stjörnuhimninum. Helzt er að henni að finna, að letrið er víða fullsmátt og svo hitt, að gagnlegt hefði verið að hafa hnitmiðaða atriðaskrá og orðskýringar, svo að fljótlegt væri að slá upp merkingu á einstökum fræðiorðum. Útgáfa þessarar bókar er afskaplega lofs- vert framtak og höfundur hefur augljóslega lagt sig í framkróka um að gera hana sem bezt úr garði. Óyggj- andi er, að bókin mun nýtast þeim vel, sem hafa þegar stundað stjörnuskoðun, og jafnframt auðvelda og örva þá, sem hafa ekki enn kynnt sér „þetta stórfenglegasta viðfangsefni, sem mannsandinn hefur sett sér að kanna“ eins og eitt sinn var að orði komizt. Lofsvert framtak Ágúst H. Bjarnason BÆKUR Náttúrufræðirit Höfundur: Snævarr Guðmundsson. 152 bls. Útgefandi: Snævarr Guðmundsson og Mál og menning. Reykjavík 2004 Íslenskur stjörnuatlas Snævarr Guðmundsson Eldfærin og fleiri ævintýri eru eftir H.C. Andersen. Á þessari ný- útkomnu hljóð- bók les Halla Margrét Jóhann- esdóttir leikkona 8 af hinum sí- gildu ævintýrum meistarans, í þýð- ingu Steingríms J. Thorsteins- sonar. Þau eru: Eldfærin, Nýju fötin keisarans, Prinsessan á bauninni, Litla stúlkan með eldspýturnar, Næturgalinn, Ljóti andarunginn, Hans klaufi og Þumalína. Útgefandi er Hljóðbók.is. Hljóð- bókin er 149 mínútur að lengd. Verð kr. 1.999. Nýjar bækur Ljósberar og lög- málsbrjótar er eftir Þorstein Antonsson. Í bókinni eru þættir af mönn- um úr þjóðarsög- unni sem á fæstra færi var að tjónka við, en bjuggu allir yfir mögnuðum sagn- aranda. Sumir urðu þjóðkunnir menn, aðrir lifðu alla ævi á jaðri mannlífs og menningar, á mörkum vits og vitfirringar. Enginn þessara manna lét samferðamenn sína ósnortna. Suma elskar þjóðin, aðra hefur hún elskað að hata. Útgefandi er Pjaxi ehf. Bókin er 156 bls. Verð kr. 3.900.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.