Morgunblaðið - 22.07.2004, Blaðsíða 25
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. JÚLÍ 2004 25
Elskuleg frænka okkar,
PÁLÍNA BETÚELSDÓTTIR,
lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund
að morgni sunnudagsins 18. júlí.
Jarðarförin auglýst síðar.
Bræðrabörn.
Ástkær eiginkona mín,
SIGURLÍNA RUT ÓLAFSDÓTTIR,
Stekkjargerði 10,
Akureyri,
lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri föstu-
daginn 16. júlí.
Jarðarförin auglýst síðar.
Stefán Bragi Stefánsson.
✝ Borghildur Krist-ín Magnúsdóttir
fæddist á Hólum í
Steingrímsfirði 13.
ágúst 1915. Hún lést
á Landspítalanum í
Fossvogi 12. júlí síð-
astliðinn. Foreldrar
hennar voru Magnús
Steingrímsson, bóndi
og hreppstjóri á Hól-
um í Steingrímsfirði,
og Kristín Árnadótt-
ir, húsfreyja á Hól-
um. Borghildur var
yngst sex systkina en
hin voru Ingimundur
Tryggvi, 1901-1933, Steingrímur,
1903-1924, Guðbrandur, 1907-
1994, Skúli, 1908-1940 og Petrína,
1911-1991. Fósturbræður Borg-
hildar voru Elías Jónsson og
Steingrímur Loftsson sem báðir
eru látnir.
Einkasonur Borghildar er
Magnús Haraldsson, tæknifræð-
ingur í Reykjavík, f. 7. maí 1948,
kvæntur Kristjönu Gísladóttur.
Börn þeirra eru: a) Gísli Þór, í
sambúð með Kristínu G. Sæ-
mundsdóttur, og b) Borghildur
Kristín. Barnabarnabörn Borg-
hildar eru Pétur Már og Hildur
Una Gíslabörn.
Árið 1962 giftist
Borghildur Magnúsi
Ingimundarsyni frá
Bæ í Króksfirði, f.
1901, d. 1982. Magn-
ús var ekkjumaður
og átti átta uppkom-
in börn og eitt fóst-
urbarn þegar hann
kvæntist Borghildi.
Yngstur þeirra er
Gunnlaugur, f. 1945,
sem bjó á heimili
föður síns og Borg-
hildar um nokkurra
ára skeið.
Borghildur gekk í
húsmæðraskólann á Laugalandi
veturinn 1938–39. Haustið 1944
fékk hún sveinsbréf í kjólasaumi
og vorið 1945 einnig í kvenna-
klæðskurði. Þremur árum síðar
öðlaðist hún meistararéttindi í
þessum greinum. Hún starfaði síð-
an að iðn sinni, en var einnig ráðs-
kona í vegagerð nokkur sumur,
ráðskona hjá Búnaðarfélagi Ís-
lands um skeið, og í nokkur ár
stundaði hún búskap með Magn-
úsi manni sínum á Kletti í Geira-
dal.
Útför Borghildar verður gerð
frá Neskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Í bljúgri bæn og þökk til þín.
Þetta var eitt það fyrsta sem kom
upp í huga mér, er við litla fjöl-
skyldan sátum við dánarbeð ást-
kærrar tengdamóður minnar.
Margs er að minnast og margs að
þakka eftir 38 ástkær og farsæl ár
sem aldrei bar skugga á.
Frá því við hittumst fyrst er ég
kom á heimili Borghildar og Magn-
úsar, hefur faðmur hennar ætíð ver-
ið opinn mér. Hún tók mér ekki
bara sem tengdadóttur, heldur nán-
ast sem dóttur. Ég gleymi aldrei
fyrsta matarboðinu til hennar. Það
var á sólríkum vordegi og sonurinn
átti 18 ára afmæli. Þar voru nokkrir
úr fjölskyldunni saman komnir til
að fagna og sjálfsagt til að skoða
mig. Þar á meðal var systir hennar
Petrína sem var mér einnig eins og
tengdamóðir. En hún eignaðist
aldrei börn sjálf og var Maggi minn
augasteinninn hennar eins og móð-
ur sinnar.
Það voru erfið sporin eftir gang-
stéttinni þar sem þær systur biðu
okkar á tröppunum til að heilsa mér
og gera þetta sem þægilegast fyrir
mig. Þegar inn var komið blasti við
það fallegasta uppdekkaða borð
sem ég hafði séð. Allt það fínasta
var borið fram, postulín, kristall og
silfur. Ekki dró úr fegurðinni að allt
glitraði þetta í sólinni við fallega
handverkið hennar, sem allir þekkja
sem henni kynntust. Frá þeirri
stundu hefur hún borið mig á hönd-
um sér og allt viljað fyrir mig og
fjölskylduna gera. Það vorum ekki
bara ég og fjölskyldan sem fengum
að njóta verka hennar og ótakmark-
aðrar hjálpar heldur nánast allir
sem henni kynntust. Við áttum
margar yndislegar stundir saman
og líka erfiðar í veikindum mínum.
Þá stóð hún eins og klettur við hlið
mér og alltaf náðum við að brosa
aftur. Á árum áður þurfti hún að
hafa talsvert fyrir lífinu, sérstak-
lega þegar hún ung stúlka annaðist
um sjúka systur sína og þær nokkr-
um árum seinna ólu saman upp son
Borghildar. Ég gæti skrifað mikið
meira um þessa stórbrotnu og
glæsilegu konu en læt hér staðar
numið.
Nú þegar að leiðarlokum er kom-
ið, vil ég þakka henni fyrir allt það
andlega og veraldlega sem hún gaf
mér og fjölskyldu minni af sinni ein-
stöku umhyggju og hlýju, sem ég
mun að eilífu geyma í hjarta mínu.
Handverkið hennar mun ætíð ylja
mér og gleðja. Góð mamma gleym-
ist aldrei. Guð blessi minningu
hennar.
Kristjana.
Ég var heppin í æsku. Ég átti
nefnilega tvær föðurömmur, syst-
urnar sem ólu pabba upp, amma
Bogga og frænka (Petrína). Þær
voru ólíkar en samrýndar og mót-
aðist ég af áherslum, skoðunum og
lífsmottóum þeirra.
Amma áleit að maður væri met-
inn af verkum sínum. Hjálpsemi,
vandvirkni og dugnaður eru orð
sem lýsa henni.
Hún var iðin og einstaklega lagin
í höndunum, alltaf við saumaskap
eða postulínsmálun. Víða liggja eftir
hana listavel gerðir hlutir og á ég
marga slíka með fangamerki okkar.
Ég man vel þegar hún eitt sinn lét
draum minn rætast í æsku. Þá hafði
ég trúað henni fyrir því að mig
langaði alveg sérstaklega í kjól eins
og stelpurnar í sjónvarpsþáttunum
„Húsinu á sléttunni“. Hún saumaði
þennan dýrindis kjól, mér leið eins
og prinsessu og hún var heimsins
besta amma. Í dag er hún allsstaðar
nálægt á heimili mínu þar sem hún
saumaði notalegasta sængurverið
mitt, bjó til jóladúk sem ég held
sérstaklega upp á og get dekkað
upp með jólakaffistellinu sem hún
málaði. Þegar ég kúri við sjónvarpið
vöðla ég um mig teppinu með fanga-
merki okkar á. Það er alltaf nota-
legt að hafa ömmu nálægt í hvaða
mynd sem það birtist. Þegar ég
gisti hjá henni stjanaði hún við mig
á alla kanta, fór iðulega með mig í
Vesturbæjarlaugina og eldaði og
bakaði allt sem var í uppáhaldi hjá
mér.
Uppi á vegg hjá mér hanga ein-
föld spakmæli: Ráðið til að eiga vini
er að vera vinur. Vinamörg var hún
og sinnti þeim af alúð. Ef hún var
ekki að sauma eða mála í seinni tíð,
var hún í heimsókn einhversstaðar
og iðulega tekinn með heimabakst-
ur eða blómvöndur. Ósjaldan eftir
heimsóknirnar kom hún svo til baka
með flíkur sem þurfti að laga eða
hannyrðir vinkvennanna sem þurfti
að klára.
Hún var hæglát, raungóð og fljót
til hjálpar ef einhversstaðar bjátaði
á. Í seinni tíð sátum við stundum
saman og spjölluðum. Þá spurði hún
mig um vinahópinn minn. Ef hún
hafði einhvern pata af að einhverjir
þeirra væru að ganga í gegnum
tímabundna erfiðleika minnti hún
mig á að vera til staðar fyrir þá og
svo fylgdist hún með hvernig úr
rættist.
Þó að sárt sé að sjá á eftir þeim
sem maður elskar kveð ég þig sátt
þar sem ég veit að þér auðnaðist
löng og góð ævi. Ég trúi því líka og
treysti að ég muni ávallt finna fyrir
nærveru þinni og að þú munir heim-
sækja mig í draumi svo við getum
brallað eitthvað saman líkt og við
frænka gerum stundum.
Vertu blessuð elsku amma.
Borghildur Kr. Magnúsdóttir.
Nú hefur dauðinn lagt sína líkn-
andi hönd yfir ástkæra föðursystur
mína, Borghildi Kristínu. Hún ósk-
aði þess að fá að hverfa héðan eftir
erfið veikindi og varð henni að ósk
sinni. Hún var yngst systkina sinna
sem fæddust og ólust upp á Hólum í
Steingrímsfirði. Faðir minn (Guð-
brandur) dó fyrir 10 árum, þar á
undan kvaddi Petrína. Þrír bræður
dóu langt fyrir aldur fram, öllum
mikill harmdauði. Nú eru Hólar
löngu farnir í eyði og hefur tíminn
lagt sína hönd yfir bæjarrústirnar,
svo að varla mótar fyrir húsatóft-
unum. Þannig líða kynslóðir hjá og
smám saman fyrnist yfir allt og nú
hefur hún kvatt síðust þeirra sem
lifðu og hrærðust á Hólum. Amma
mín, Kristín, var þar mikil og mynd-
arleg húsmóðir og má segja að hún
hafi verið ekta íslensk sveitakona
sem klæddist alltaf peysufötum,
trúði á álfa og sagðist oft hafa séð
bláklædda álfkonu í dalnum ekki
langt frá bænum. Afa mínum,
Magnúsi, kynntist ég því miður
aldrei.
Bogga (eins og hún var kölluð af
sínum nánustu) stendur okkur, sem
hana umgengumst, ljóslifandi fyrir
sjónum. Stórglæsileg, myndarleg
með blik í móbrúnum augum, fal-
lega brosið hennar og stórir spé-
koppar, há kinnbein og enni, hend-
urnar einhverjar þær fallegustu
sem ég hef séð. Þetta voru engar
venjulegar hendur. Þær voru gædd-
ar töfrum. Allt sem þær snertu varð
bæði fallegt, gott og ljúffengt. Allt
sem Bogga festi hönd á varð snortið
göldrum. Hún saumaði, bróderaði,
málaði, eldaði og töfraði allt mögu-
legt og ómögulegt fram. Bogga var
listamaður af guðs náð, en jafn-
framt menntuð í kjólasaumi og var
hún meistari í þeirri grein. Var það
ekki ónýtt að eiga slíka frænku, sem
gat saumað á mann glæsifatnað úr
næstum engu, eins og ég fékk að
reyna, fyrst 11 ára gömul. Þannig
var, að ég fór suður til hennar í
heimsókn. Þá var verið að sýna My
Fair Lady í Þjóðleikhúsinu og
ákveðið var að ég mætti fara á sýn-
ingu. En nú voru góð ráð dýr, ekk-
ert fínt til að fara í. En hún Bogga
bjargaði því. Fann eitthvert græn-
köflótt efni (ég hallast helst að því
að það hafi verið borðdúkur eða
gamlar gardínur) og úr þessu varð
svo fallegur kjóll að það er alveg
með ólíkindum að hugsa til þess
hvað hún gat. Í þessum glæsikjól,
settum rykkingum og blúndum, fór
ég svo í Þjóðleikhúsið. Og þannig
gekk ég í hamarinn, inn í álfabyggð-
ina, uppáklædd og fín eins og álf-
konan hennar ömmu minnar forð-
um. Ég get fullyrt það að mér
fundust búningarnir á sviðinu og
kjólarnir hennar Völu Kristjáns
ekki komast í hálfkvist við búning-
inn minn. Og enn var hún að, mörg-
um áratugum seinna, töfrandi fram
listaverk. Það eru ekki nema tvö ár
síðan hún gaf mér átta litla dúka,
alla saumaða með harðangurs- og
klaustursaumi. Það eru gersemar
sem ég mun hafa í öndvegi.
Ég kveð mína kæru frænku með
söknuði, votta öllum þeim sem unnu
henni og elskuðu hana mína dýpstu
samúð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(Vald. Briem.)
Kristín Guðbrandsdóttir.
Fyrst man ég föðursystur mína á
Hólum í Steingrímsfirði þar sem
hún sinnti búi með foreldrum sín-
um, einstæð móðir með þriggja ára
son. Þá var ég fimm ára og komin í
heimsókn til afa og ömmu. Á Hólum
gekk hún í öll útiverk á smekkbux-
unum, verklagin með afbrigðum,
stór og þróttmikil. Orðheppin var
hún líka og fylgdi orðum sínum
gjarnan eftir með því að skella á
læri og hlæja við.
Þessi glaðværa kona átti létt með
að nálgast börn og unglinga, bæði
sanngjörn og umburðarlynd, og þeir
eiginleikar hennar urðu mér dýr-
mætari gjöf en flestar aðrar í lífinu.
Mitt elsta barn ól ég í skjóli hennar,
sautján ára einstæð móðir. Þótt
Boggu yrði á að dæsa yfir kunn-
áttuleysi unglinganna í getnaðar-
vörnum fann ég hvern dag með-
göngunnar að með viðmóti sínu var
hún meira en sammála Kristínu
ömmu minni, sem þá bjó á heimili
hennar og taldi allt líf sem kviknaði
í móðurkviði „guðs gjöf“ og bæri að
taka sem slíkri.
Um árabil hélt Borghildur heimili
í Reykjavík með Petrínu systur
sinni og saman ólu þær upp Magnús
son Boggu, augastein beggja og eft-
irlæti. Síðar gekk Bogga í hjóna-
band með Magnúsi Ingimundarsyni,
miklum öðlingi. Þó voru þessar
ólíku systur alltaf samferða meðan
báðar lifðu. Bogga var atorkukonan,
manneskja framkvæmdanna, en
Pettý hæglátari og stundum eins og
hugsuðurinn í því sambandi. Þannig
bættu þær hvor aðra upp á þann
hátt sem góðar systur geta gert.
Petrína studdi Boggu með íhygli
sinni, en hagleikskonan systir henn-
ar launaði með dýrlegum flíkum
sem voru þeirrar náttúru að geta
leynt því sem leyna þurfti hjá Petr-
ínu. Hún bar samfallið lunga eftir
erfið veikindi á unga aldri, en þegar
Petrína var komin í flíkurnar sem
Borghildur hafði saumað var varla
að sjá að hún bæri þessa byrði. Og
Pettý var ekki ein um það að njóta
góðs af gáfum Boggu. Það er til
marks um samband þeirra systra að
þegar Petrína féll frá sótti slíkt
þunglyndi um skeið að þessari glað-
lyndu saumakonu að hún fékk ekki
varist. En yfirvann það samt eins og
allt annað.
Ekki fékk frænka mín þó varist
hrörnun sinni frekar en aðrir menn.
Þar sem hún lá lömuð eftir heila-
blóðfall, en með óbrenglaða hugsun
og dómgreind, óskaði hún þess eins
að þurfa ekki að lifa við kröm og
upp á aðra komin. Og auðvitað varð
þessari gæfukonu að ósk sinni.
Magnúsi frænda mínum og hans
fjölskyldu færi ég innilegar sam-
úðarkveðjur fjölskyldu minnar.
Blessuð sé minning Borghildar
Magnúsdóttur.
Anna Gígja Guðbrandsdóttir.
Okkur systur langar til að þakka
Borghildi fyrir öll þau góðu og inni-
haldsríku samskipti sem við áttum í
gegnum árin og ekki síst þann
stuðning og góðvild sem við áttum
alltaf vísa hjá henni.
Það var alltaf ljúft að heimsækja
Borghildi og afa á Klett og á Haga-
melinn og síðan Borghildi á Afla-
grandann. Hún átti mjög fallegt
heimili og var myndarleg húsmóðir.
Hún tók alltaf vel á móti okkur,
lagði á borð og bauð upp á veitingar
og henni þótti alveg ómögulegt ef
ég vildi ekki þiggja af henni annað
en vatnsglas og spurði hvaða kúr ég
væri nú komin í. Henni þótti nú
ekki mikið til þess koma að bjóða
upp á vatn enda rausnarleg við sitt
fólk og góður gestgjafi.
Það var alltaf gaman að tala við
hana og það var hægt að ræða um
allt á milli himins og jarðar, hún
hafði áhuga á öllu og hennar skoð-
anir voru alltaf ferskar og skemmti-
legar. Hún var hrein og bein og
sagði sína meiningu, hún var ung í
anda og með góða kímnigáfu og oft
laumaði hún út úr sér skemmtileg-
ustu athugasemdum sem geymast
með minningu um góða og fallega
konu.
Ég veit að það er mömmu mikið
áfall að missa Borghildi því þær
áttu mikil samskipti alla tíð og áttu
gott og traust samband sín á milli.
Við dánarbeð pabba stóð hún eins
og klettur við hlið allrar fjölskyld-
unnar og sat með mömmu svo dög-
um skipti uppi á spítala og veitti
okkur öllum af óendanlegum styrk
sínum og hlýju.
Við kveðjum þig, elsku Borghild-
ur, með djúpu þakklæti í hjarta og
biðjum góðan guð að geyma þig og
gefa fjölskyldu þinni styrk.
Hjördís Sjafnar Ingimundar-
dóttir, Laufey Anna
Ingimundardóttir.
Elskuleg vinkona mín Borghildur
Magnúsdóttir hefur kvatt þennan
heim á miðju sumri og minning-
arnar sem hún skilur eftir sig eru
bjartar og hlýjar. Leiðir okkar lágu
fyrst saman sem litlar stelpur
heima á Ósi í Steingrímsfirði, en þar
bjuggu foreldrar hennar í sjö ár.
Hún var sex ára en ég fjögurra ára.
Hún hefur verið mér sem besta
systir allar götur síðan og aldrei
slitnað upp úr þeim vinskap. Eftir
að Bogga fluttist aftur að Hólum í
Staðarsveit með foreldrum sínum
skrifuðumst við á, en pósturinn fór
hálfsmánaðarlega innan sveitar. Þá
var hvorki sími né útvarp. Sextán
ára gömul fór Bogga til Reykjavík-
ur og lærði saumaskap hjá Aðal-
heiði Stefánsdóttur á Vesturgöt-
unni. Seinna fór hún í Iðnskólann og
aflaði sér sérréttinda til að sauma
kápur og dragtir. Saumaskapur
varð eitt af hennar aðalstörfum.
Einn hvítan kjól saumaði hún svo
fínan að hún varð að hafa hann inn-
an í hvítum poka á meðan hún fald-
aði hann. Fyrst saumaði hún í
heimahúsum, en eftir stríð setti hún
upp saumastofu með vinkonu sinni
Rúnu Guðmundsdóttur og ráku þær
hana í nokkur ár. Margar fallegar
flíkur saumaði Bogga á mig og mín
börn.
Ég kveð þig síðast allra litla leiksystirin mín,
við löngum höfum saman reynt að gleðjast.
Í hinsta sinni vina ég horfi í augun þín,
það er heilög stund er góðir vinir kveðjast.
Um leið og ég og fjölskylda mín
þökkum Boggu samfylgdina send-
um við syni hennar Magnúsi Har-
aldssyni, fjölskyldu hans, ættingjum
og vinum samúðarkveðjur.
Ása G. Kristjánsdóttir frá Ósi.
BORGHILDUR
KRISTÍN
MAGNÚSDÓTTIR