Morgunblaðið - 17.08.2004, Blaðsíða 41
MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. ÁGÚST 2004 41
HLJÓÐFÆRIÐ með tregatóninn verður í
öndvegi á tónleikum í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar í kvöld. Þetta er auðvitað hljóðfæri
tangósins, bandoneon, og sá sem um vélar er
bandoneonleikarinn franski, Olivier Manoury.
Við köllum hann auðvitað bara Olivier á ís-
lenska vísu, því tengsl hans við landið og ís-
lenska tónlistarmenn eru löng og sterk.
Hingað hefur hann margoft komið og leikið
með konu sinni Eddu Erlendsdóttur píanóleik-
ara, bæði á Sumartónleikum á Kirkjubæj-
arklaustri og víðar. Hann kynnti Íslendingum
tregaheim tangósins á sínum tíma, og starf-
rækir enn tangóhljómsveitina Le Grande
Tango með íslenskum tónlistarmönnum.
Í Sigurjónssafni ætlar hann þó að vera
aleinn, með þessa sérstöku og smávöxnu
nikku, sem eitt sinn var kölluð konsertína, en
fékk yngra nafn sitt af Þjóðverjanum Band,
sem vann á sínum tíma að tæknilegum end-
urbótum á hljóðfærinu. Bandoneon er búið að
ganga í gegnum ýmsar raunir á ævi sinni; –
kannski að það hafi eitthvað með tregatóninn
að gera; það var lagt til hliðar þegar alvöru
harmónikka kom til sögunnar; – ja nema helst
í Argentínu; og þegar Olivier ætlaði að kaupa
sér bandoneon, lagði afgreiðslumaðurinn hart
að honum að vera nú ekki að svoleiðis vitleysu,
enda léki ekki nokkur sál á svoleiðis hljóðabelg
lengur. Framtíðin lægi miklu frekar í raf-
magnsorgeli!
En Olivier lét ekki plata sig, – hann keypti
hljóðfærið, og kannski á hann sjálfur einmitt
stóran þátt í þeim vinsældum og virðingu sem
hljóðfærið nýtur í dag, enda sjálfur einn virt-
asti bandoneonleikari Frakka. „Það er mikil
nostalgía í tóni bandoneonsins, og virkilega
erfitt að spila glaðlega tónlist á það. Þetta er
ekki glatt hljóðfæri, en sorgin getur jú líka
verið falleg,“ segir Olivier um hljóðfærið sitt
og tónlistina.
„Á tónleikunum ætla ég að spila suður-
ameríska músík, mest frá Argentínu, en líka
frá Brasilíu; lög eftir sjálfan mig og svo djass-
standarda og tangó. Þarna eru fyrir utan mín
verk, verk eftir Astor Piazzolla, Thelonious
Monk, Antonino Carlos Jobim, Bill Evans,
Francisco de Caro og Carlos Gardel.“
Round About Midnight er eitt af þekktustu
lögum Monks, og Volver meðal kunnustu
tangóa Gardels, gjörólík tónlist sem gefur vís-
bendingu um breiddina í prógrammi kvöldsins.
„Það er ekki hægt að dansa við tangóana þeg-
ar ég er einn að spila, ég leyfi mér að spila
hægar og á íhugulli hátt en annars. Það má
segja að þetta sé tónleikamúsík, og aleinn gæti
ég ekki haldið uppi balli. Fyrir það þarf hljóm-
sveit.“
Bandoneon á rætur sínar að rekja til Þýska-
lands um 1860. Þá var bara hægt að spila í
einni tóntegund, en smátt og smátt var radd-
sviðið stækkað. „Þá kom Heinrich Band til
sögunnar, en hann samdi bæði fyrir hljóðfærið
og skrifaði heilmikið um það og um tæknina
við að leika á það. Eftir hans dag var hljóð-
færið nefnt eftir honum. Þegar harmónikkan
kom til sögunnar, komst bandoneon úr tísku
og var ekki lengur notað í Þýskalandi. En í
Argentínu var það enn notað eftir 1900. Þar í
landi sá fólk einhverja sjálfsmynd í þessu
tregafulla hljóðfæri. Það var ekki spilað á
bandoneon annars staðar í Suður-Ameríku. Í
Argentínu varð hefð til, en á dögum rokksins,
dvínuðu vinsældir þess aftur. En í dag hefur
hljóðfærið vaknað til lífsins á ný. Ég hef aldrei
hitt manneskju sem hefur ekki þótt tónninn í
bandoneon fallegur. Það elska allir þetta hljóð-
færi; sem betur fer fyrir mig,“ segir Olivier, og
bætir því við að samt séu það enn tiltölulega
fáir sem leiki á það, enda sé það erfitt. Í dag er
þó farið að smíða ný bandoneon og bandoneon-
leikurum fjölgar.“
Olivier segir að í langan tíma hafi hljóðfærið
hvergi verið þekkt nema í Argentínu og
Úrúgvæ. En svo kom Astor Piazzolla og allt
breyttist. „Piazzolla kom til Parísar frá Arg-
entínu og hélt áfram að spila sína tangótónlist
þar. Þaðan barst hún um allt. Í dag er nafn
hans auðvitað heimsfrægt. Í gegnum tónlist
Piazzollas komst hljóðfærið aftur til vegs og
virðingar. Á sjöunda og áttunda áratugnum
voru Argentínumenn eiginlega líka hættir að
spila á bandoneon,“ segir Olivier og rifjar upp
að maðurinn í hljóðfærabúðinni í París forðum,
hafi einmitt bent honum á, að meir að segja
Argentína væri full af atvinnulausum band-
oneonleikurum. Hljóðfærið „framtíðarlausa“
kostaði því nánast ekki neitt.
„Mér fannst þessi tónn bara alltaf svo fal-
legur og tónlistin líka. Ég byrjaði bara að spila
eftir eyranu, og fljótlega var ég farinn að spila
í neðanjarðarlestinni.“
Olivier segir að það hafi ekki verið mikið mál
að kynna bandoneon og tangótónlist fyrir Ís-
lendingum á sínum tíma; þeir hafi sýnt þessu
skrýtna hljóðfæri mikinn áhuga, og þar hafi
hann verið heppinn. „Tangótónlistin gekk
strax vel í Íslendinga, enda er hún ekkert
exótísk. Þetta er tónlist sem kemur frá Evr-
ópu. Þau tónskáld sem mest sömdu áttu lang-
flest rætur að rekja til Evrópu. Þótt tangóinn
sé sagður eiga sínar rætur í Argentínu, þá er
hann ekki líkur suður-amerískri tónlist; hefur
til dæmis ekki þann afrískættaða rytma sem
tónlist í Brasilíu hefur. Tangóinn er miklu
frekar í ætt við rómantíska tónlist Evrópu,
enda voru 70% íbúa argentínu af ítölskum upp-
runa. Í tangóinum heyrir maður áhrif úr
ítölsku óperunni. Um 1930 flutti líka fjöldi
manns frá Mið-Evrópu til Argentínu, bæði
gyðingar og þeir sem voru að flýja kreppu-
ástand. Gyðingarnir voru margir vel menntað-
ir í klassískri tónlist. Argentína var rík á þess-
um tíma, og þar var eitt frægasta óperuhús í
heimi, Teatro Colón. Með þessu vel menntaða
tónlistarfólki, sem kunni vel til verka; – til
dæmis að útsetja, komst tangóinn í annað
veldi, og varð einhvers konar listmúsík, leikinn
af hljómsveitum og með þeirri hljómaskipan
sem fólk í Evrópu þekkti vel. Tangóinn hafði
því alltaf talsverða sérstöðu í Suður-Ameríku.“
Olivier hefur skýringu á tregatóninum í
tangóinum, og þeirri þrúgandi tilfinningu fyrir
þránni eilífu sem honum fylgir. „Þetta er tón-
list innflytjenda, og innflytjendur eru aldrei
fullkomlega hamingjusamir. Þeir ferðast ekki
til að skoða sig um. Þeir hafa átt erfitt og mega
þrá og sakna. Það er svolítið eins með blúsinn.
Þetta eru kenndir sem allt mannkyn þekkir.“
Tónleikar Oliviers Manourys í Listasafni
Sigurjóns Ólafssonar hefjast kl. 20.30 í kvöld.
Það elska allir
þetta hljóðfæri
Tónlist | Olivier Manoury leikur á bandoneon í Sigurjónssafni í kvöld
Olivier Manoury: „Mér fannst þessi tónn svo
fallegur og tónlistin líka.“
Morgunblaðið/Jim Smart