Morgunblaðið - 15.11.2004, Síða 33

Morgunblaðið - 15.11.2004, Síða 33
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 15. NÓVEMBER 2004 33 MENNING T he Fall er hiklaust eitt það allra besta sem breska pönkið gat af sér og eina sveitin sem hefur starfað óslitið frá stofnun árið 1977. Meira máli skiptir þó að gæðin hafa verið merkilega jöfn allan þenn- an tíma og er síðasta plata sveitarinnar, The Real New Fall LP (Formerly Country on the Click), ein sú sterkasta plata sem sveit- in hefur gert frá upphafi. Þessi uppáhalds sveit John Peel heitins er leidd af Mark E. Smith, óskoruðum höfuðpaur, sem hefur keyrt sveitina áfram af miklu harðfylgi í gegnum árin og rekið mann og annan eins og að drekka vatn (eða bjór öllu heldur), en það eru engar ýkjur að rétt undir hundrað manns hafa farið í gegnum raðir The Fall. Hljómsveitin hélt síðast tónleika hér- lendis árið 1983 í Austurbæjarbíói, 6. maí. Tónleikarnir hafa komið út á plötu og segja Fall-pælarar að þeir hafi verið með bestu tónleikum sveitarinnar frá upphafi. Um þessar mundir er Fall í roknastuði og hafa tónleikar þeirra að undanförnu verið að fá lofsamlega dóma. Eða eins og Mark E. Smith sagði nýlega í viðtali við þýska blaðið Taz. „Trúið mér, The Fall skiptir meira máli nú en nokkru sinni.“ Manchester kallar Nú viðurkennist fúslega að greinarhöf- undur var temmilega taugaóstyrkur fyrir viðtalið við Smith. Við erum jú að tala um sjálfan Mark E. Smith! Gangandi goðsögn, síðpönkari allra tíma, eitilharður foringi einnar áhrifamestu nýrokksveitar sögunnar. Og altalaður fyrir skapgerðarbresti og -sveiflur. Fýldur og kurfslegur en um leið blessaður með miklu náðarvaldi og óneit- anlegum sjarma. Púff! En hvað gerist svo. Jú, Mark skríkti og hló, var í rokna stuði, grínaði og grallaði eins og mesti galgopi. Eftir um mínutu spjall var blaðamanni létt. Mark E. Smith er fínn gaur! Og vinalegri en margir „eðli- legri“ menn sem hann hefur rætt við. Viðtalið var því að sönnu áhugavert, mjög svo reyndar. Maðurinn er þá orðinn fremur lifaður;tannlaus og þykkur Manchest- erhreimur ásamt áratuga löngu fylleríi gerðu það að verkum að Smith var vægast sagt illskiljanlegur. Viðtalinu hafði verið frestað trekk í trekk og var það íðilfögur kona Smith, Elenor Poulou, sem hafði haft milligöngu um við- talið en hún leikur nú á hljómborð í Fall. Hún og Smith giftu sig árið 2001 og þegar maður sér þau saman sannfærist maður enn frekar um að maðurinn búi yfir einhverjum ofursjarma. „Halló!,“ heyrist hinum megin á línunni, röddin hressileg og hvellin. „Mark?“ svara ég . Því er játað kurt- eislega og í framhaldi kynnir blaðamaður sig. Mark svarar að bragði: „Já ... uu ... halló herra minn, hvernig líð- ur þér?“ Röddin er hikandi og kurteis. Er ég með réttan mann á línunni? Ég svara, segi að mér líði vel og spyr hann á móti hvernig hann hafði það. Mark svarar ógreinilega en mér heyrist allt vera í lagi hjá honum líka. Það liggur auðheyranlega vel á okkar manni. Mark er brattur. „Fyrirgefðu þetta með töfina,“ segir hann svo. Mark E. Smith bað mig afsökunar! Ég segi honum þá að spenna fyrir tón- leikana hérlendis sé að magnast, hvort sem það er rétt eða ekki. Ef það er réttlæti til í heiminum ætti hún a.m.k. að vera að magn- ast. „Ha .... já ... ég .... ég .... ég er ... mjög,“ heyrist hinum megin á línunni vandræða- lega og ég skýt því þegar inn spurningu til að redda málum. Manstu eitthvað eftir síðustu heimsókn? „Ja já ... bíddu það eru tuttugu ár síðan eða eitthvað svoleiðis er það ekki (á ensku: „innit?“). Það var gott, það var gott (10 sek- úndur af einhverju óskiljanlegu) þú ert lík- lega of ungur til að muna eftir því er það ekki?“ Jú, ég var átta ára þegar þið komuð... Við þetta svar rekur Mark upp rokna hlátur, hvellan og skæran. Eftir þetta er eins og hann tjaslist aðeins saman. Hann á greinilega góðar minningar frá Íslandi. „Þetta voru frábærar heimsóknir. Ég kom svo aftur fyrir tíu árum síðan og naut mín vel. Hékk í viku. Ég komst í kynni við Sykurmolagengið í fyrri heimsóknum og þekki dálítið til þeirra.“ Höfundur hefur einmitt heyrt frá tveimur mismunandi heimildarmönnum að þeir hafi orðið var við Smith fyrir u.þ.b. tíu árum síð- an þar sem hann var spásserandi úti á Sel- tjarnarnesi. Utan garðs Þessir tónleikar ykkar í Austurbæjarbíói eru kirfilega í sögubókunum hérlendis. „Já,“ svarar Smith stuttlega. Humm ... og þú hittir Megas? „Já,“ svarar hann, frekar þurrlega. Erum við að missa manninn? Best að grípa til leynivopnsins. Til hamingju með nýju plötuna. Hún er frábærlega vel heppnuð! „U .. u. já ... þakka þér fyrir,“ segir Smith þá og verður við þetta ögn hressari. Þið gáfuð hana út aftur vegna netleka... „Já það er rétt, það er rétt. Hún átti koma út hjá Mute útgáfunni (Depeche Mode, Nick Cave) en þeir voru ekki hrifnir af plötunni.“ Já! (með Jóns Ársæls áherslu). „Þannig að við ákváðum að grufla aðeins í henni frekar“ Við þetta síðasta svar kemur vandræða- leg þögn þar sem blaðamaður reynir að upphugsa einhverja glúrna spurningu. Mark er hins vegar fyrri til. „Hvaða staður er þetta sem við erum að fara að spila á,“ segir hann sakleysislega. Það er skal ég þér segja sami staður og þið spiluðuð á síðast... „Ó, í alvöru! Þú ert að grínast í mér. Ég man vel eftir þeim stað. Frábært.“ Já, það er búið að endurreisa staðinn sem tónleikastað. „Gott, gott. Það er gott. Alveg indæll staður.“ Mark fer í framhaldinu að rifja upp ný- yfirstaðna Bandaríkjaför sveitarinnar og er ekki par ánægur með staðina þar „Það má hvergi reykja þar! Við vorum að spila í einhverjum ansk... klúbbi og hann var jafn stór og eldhúsið mitt (hlær). Þetta var hræðilegt! (og hlær meira og lengur). Það má varla opna glugga í New York leng- ur!“ Jamm ... það er meira rokk hér. Þú mátt reykja eins og þig lystir... „Þú segir það! Ha ha ha (og svo fram- vegis). Guði sé lof.“ Nú er saga Fall nokkuð merkileg. Hátt í þrjátíu plötur... „Eitthvað svoleiðis ... ég er hættur að telja ... (hlátur samfara einhverju óskilj- anlegu).“ Hvað heldur þér eiginlega gangandi? „Ja ... ég hef alltaf eitthvað að segja ... það er nú bara þannig. Mér nægir að kveikja á útvarpinu til að sannfærast um að nú sé tími á nýja plötu.“ Þannig að þetta er þín hugsjón fyrst og fremst. „Já (ákveðinn).“ En hvar myndir þú setja Fall í samhengi við þessa fyrstu Manchester pönkbylgju, Buzzcocks, Joy Division og allt það? „Við stóðum alltaf utan við þetta sannast sagna. Við vorum eiginlega svona lands- byggðarmenn. Við vorum frá Norður- Manchester en hin böndin voru frá Suður- Manchester.“ Mannaskipan góð Spjallið er loks farið að rúlla ágætlega en er um leið komið nær endalokunum. Ég ákveð að spyrja framkvæmdastjórann hvort hann sé ánægður með mannaskipanina í Fall í dag. „Ég er mjög ánægður. Það er reyndar ekki sama mannaskipan og var á plötunni [eitthvað sem kemur engan veginn á óvart]. Ég er búinn að bæta við gítarleikara og er kominn með betri trommara.“ En þú sjálfur, hvað ertu að hlusta á? „Ég? ... aðallega gamalt rokk og ról, Gene Vincent og svoleiðis. Ég er líka mikið að hlusta á Lee „Scratch“ Perry, þú veist, reggígaurinn. Hann var að túra um Bret- land um daginn en því miður missti ég af honum.“ Fall túrar mjög mikið. Er það grundvöll- urinn að starfseminni, lífæð sveitarinnar? „Ja ... (löng þögn) við verðum bara að halda áfram að vinna. Það skiptir öllu mál- i.The Fall er í feiknaformi núna get ég sagt þér og ég vil ekki missa þetta niður. Svo þurfum við einfaldlega að borga reikn- ingana. Maður er alltaf skítblankur (hlær).“ Það sem ég er að „fíla“ best við ykkur er þessi mjög svo stöðugi straumur af út- gáfum. Það er aldrei hvíld virðist vera... „Ég hata það þegar menn eru að lufsast svona með þetta. Ég var einmitt að tala um þetta í gær, sum bönd spila t.d. bara á tveimur eða þremur tónlistarhátíðum á ári. Það gengur náttúrulega ekki. Þetta dregur úr sköpunarkraftinum.“ Ný plata? „Vonandi getum við byrjað á nýrri plötu í janúar. Við verðum að kýla á þetta sem fyrst (hlær).“ Á meðan sveitin er heit? „Einmitt!,“ segir Smith glaðbeittur og hlær sínum lokahlátri. „Ég hef alltaf eitthvað að segja“ Á miðvikudaginn heldur hin goðsagnakennda breska sveit The Fall tónleika í Austurbæ. Arnar Eggert Thoroddsen ræddi af því tilefni við leiðtogann, hinn eina sanna Mark E. Smith. Mark E. Smith á sviði. Mynd frá tónleikum í bænum Carrboro, Norður Karólínu, 11. júlí 2003. Miðasala á tónleikana stendur yfir í Aust- urbæ og á www.midi.is. Miðaverð er 3200 krónur. Á tónleikunum koma einnig fram Vonbrigði og Dr. Gunni. arnart@mbl.is Hex Enduction Hour (1982) Að flestra mati er þetta besta plata sokka- bandsáranna en frá og með Perverted by Language (’83) skiptir sveitin um gír. Reynd- ar voru The Fall á mikilli sigurbraut, listrænt séð, þessi fyrstu ár og Grot- esque (After the Gramme) frá 1980 er alls ekki síðri plata. Platan var gerð stuttu eftir fyrstu heimsókn sveitarinnar hingað til lands og inniheldur m.a. lagið „Iceland“ þar sem Megas er nefnd- ur til sögunnar. Auk þess prýðir bakhlið um- slagsins forláta mynd af Ásmundi Jónssyni, Smekkleysugúrú. Hér er sveitin í toppformi, sumir segja að sveitin hafi aldrei gert betur, fyrr eða síðar. Live at The Witch Trials (1979) Fyrsta plata Fall er ekki tónleikaplata eins og mögulega er hægt að lesa úr titlinum. The Fall sýnir hér strax og sannar að hún er al- gerlega í eigin deild og skringilegt plötuheitið er ein birtingarmynd þess (fyrsta smáskífa sveit- arinnar heitir t.a.m. Bingo-Master’s Break- Out!). The Fall stígur hér fram í miðju pönkfári en er ekki pönksveit. Leiðtoginn Mark E. Smith hefur orðið fyrir áhrifum frá þýsku súrkálssrokki (Can), rokkabillíi og almennum furðulegheitum og útkoman einstök. Línur hvað framhaldið varðar því þegar nokkuð skýrar og á ferðinni alveg afskaplega tilkomumikill frumburður. Middle Class Revolt (1994) Tíundi áratugurinn þykir vera vafasamur hvað The Fall varðar en það er langt í frá að innblásturinn hafi tekið sér endanlegt frí frá hinum magnaða Mark E. Smith. Á þessu tímabili kynnir hann til sögunnar nokkuð einstaka sýn á það hvernig á að gera hlutina í popp/rokki. Þ.e. að dæla út plötum linnu- laust en ekki hangsa í þrjú, fjögur ár á milli platna eins og algengt er. Middle Class Revolt er önnur platan sem sveitin gerði fyrir bandarísku útgáfuna Mata- dor (hin er The Infotainment Scan frá 1993) og er heilsteyptasta verk Fall frá þessum áratug, þó að orðið „heilsteypt“ eigi varla við sveit eing og Fall. Einnig er hiklaust hægt að mæla með áðurnefndri The Infotainment Scan (1993) og Levitate (1997). The Real New Fall LP (Formerly ’Country On The Click’) (2003) Þetta er nýjasta plata Fall og er hún ein- faldlega frábær, á hvaða mælikvarða sem er. Undarlegur titillinn stafar ekki einvörðungu af Fall-legum æringjahætti heldur vísar í það að plat- an lak út á netið (og hét þá Country on the Click) og ákvað Smith þá að endur- hljóðrita hana að hluta. Tuttugusta og þriðja hljóðversplata Fall er ein af þeirra allra bestu og jafn framsækin og ögr- andi og annað í neðanjarðarbransanum í dag. Fyrsta lagið, hið snilldarlega „Green Eyed Loco-Man“ gefur strax til kynna að eitthað stórkostlegt er í vændum. Það veldur manni nettum heilabrotum hvernig maðurinn fari að þessu, orðinn 47 ára gamall. This Nation’s Saving Grace (1985) Besta „Brix“ platan en svo er tímabilið nefnt er kona Smith, Brix Smith, var í sveitinni en lék hún á gítar. Hún léði Fall melódíska áferð og var hæstu hæðum náð í þessu verki og hljóm- sveitin einstaklega örugg á því, sjá lög eins og „Cruisers Creek“, „Spoilt Victorian Child“ og „Gut of the Quantifier“. Í kjöl- far plötunnar varð Fall nánast „vinsæl“ og náði meira að segja að pota nokkrum lögum inn á breska vinsældalistann. Við brotthvarf Brix (eftir Seminal Live, 1989) skreið Fall á nýjan leik neðanjarðar og hefur verið þar síðan. Aðrar „Brix“ plötur sem verð- ugt er að nefna eru The Wonderful and Frig- htening World of the Fall (1984) og hin oft og tíðum vanmetna I Am Kurious Oranj (1988) Fimm fræknar Fall-plötur

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.