Morgunblaðið - 01.12.2004, Side 6
6 MIÐVIKUDAGUR 1. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Fyrsta bókin
um íslenska
stjörnuhimininn
Loksins er fáanleg handbók fyrir þá sem hafa unun af því að horfa
til himins á vetrarkvöldum. Með myndum og kortum og
greinargóðum upplýsingum er kennt hvernig best er að standa að
stjörnuskoðun hérlendis. Bók sem ekkert heimili getur verið án.
Í fyrsta sinn á Íslandi!
• 53 stjörnumerki sem sjást frá Íslandi
• Allt um stjörnuskoðun
• Örnefnakort af tunglinu
• Mikill fjöldi mynda og stjörnukorta
Stjörnuskífa
fylgir með!
KOMIN Í
VERSLANIR!
Hallgrímur Sigurðsson,fyrrum yfirmaður flug-vallarins í Kabúl, semlenti í sjálfsmorðs-
sprengjuárásinni í Chicken Street
ásamt fleiri friðargæsluliðum 23.
október sl., segir atburðinn hörmu-
legan og að það sé auðvelt að vera vit-
ur eftir á. Hann minnir á að engar
reglur hafi verið brotnar með ákvörð-
un um að fara í ferðina. Þá segist
hann hafa skilning á þeirri ákvörðun
utanríkisráðuneytisins að kalla sig
heim þrátt fyrir að hann hafi ekki
verið búinn að ljúka starfstímanum.
Ýmsar vitleysur hafi þá staðið óleið-
réttar í fjölmiðlum um málið.
Að sögn Hallgríms var aðdragandi
ferðarinnar sá að hann hafði nefnt
áhuga sinn á teppakaupum við tyrk-
neskan starfsmann í höfuðstöðvum
herja NATO í Kabúl. „Þessi maður
gjörþekkti til teppa auk þess sem
Tyrkir höfðu góð sambönd við kaup-
menn í Kabúl,“ segir Hallgrímur.
„Ástæðan fyrir því að þessi tiltekna
verslun á Chicken Street var valin
var sú að þarna versluðu diplómatar
og alþjóðlegir starfsmenn. Ég hafði
hvorki komið í þessa verslun né götu
en það hafði Tyrkinn hins vegar gert
og tekið frá 50 vönduð teppi til að
velja úr. Þar sem hann var á förum
heim til sín sagði hann mér að sam-
starfsmaður sinn og landi væri tilbú-
inn að fara með mér.“
Hallgrímur hafði samband við um-
ræddan mann 22. október og mæltu
þeir sér mót daginn eftir kl. 14 og
héldu af stað akandi ásamt Banda-
ríkjamanni og fimm Íslendingum.
„Við vorum komnir í verslunina milli
klukkan 14.25 og 14.30. Þá tóku við
hefðbundnir siðir sem felast í að
kynna sig og spjalla yfir tedrykkju
áður en farið er í viðskiptin. Það tók
sinn tíma að velja teppi og semja um
verð en síðan er árásin gerð klukkan
15.15.“
Hallgrímur segir að sá tími sem
mennirnir dvöldu í versluninni hafi
ekki skipt máli gagnvart því að árás-
araðilinn hefði haft tíma til að und-
irbúa árásina eins og haldið hefði ver-
ið fram.
Óþekktur maður á sveimi
„Samkvæmt þeim gögnum sem ég
hef frá herlögreglu er talið að þessi
óþekkti maður hafi verið á sveimi í
borginni dagana á undan í leit að
skotmarki. Þegar hann hafi séð bíl-
ana okkar saman hafi hann ráðist á
þá fyrirvaralaust. Þess ber líka að
geta að við vorum þrír að kaupa teppi
og því er ekki um að ræða að ég hafi
verið einn þarna í einkaerindum.“
Eftir árásina sem varð tveimur
konum að bana auk árásarmannsins
voru hinir slösuðu fluttir á hersjúkra-
hús. Hallgrímur fór að gefa skýrslur
um atburðinn og tilkynnti atburðinn
til Íslands innan við klukkustund frá
því hann átti sér stað. „Klukkustund
síðar fæ ég símtal að heiman og er
sagt að fréttamönnum hafi verið gefið
símanúmerið mitt. Skömmu síðar log-
ar síminn hjá mér og ég skyndilega
kominn með fréttamenn á línuna um
leið og ég er að ræða við Íslendingana
á flugvellinum og gefa skýrslu.
Það var því heilmikið álag á mér
auk þess sem ekki má gleyma að ég
var einn þeirra sem lenti í sjálfri árás-
inni. Þegar mér var sagt á spítalanum
að læknisaðgerðir á hinum særðu
gengju vel og ekki væri þörf á því að
ég væri þar um nóttina fór ég á flug-
völlinn og sendi menn til að vera hjá
strákunum daginn eftir. Þegar ég
kom á flugvöllinn hélt ég lokaðan
klukkustundarlangan fund með öllum
íslenskum starfsmönnum þar. Á
þessum fundi lét ég þessi orð falla:
„Shit happens“ sem voru mjög
óheppileg. Daginn eftir, sunnudag,
heyrði ég að þessi orð hefðu farið
mjög fyrir brjóstið á einhverjum. Það
var ekki ætlun mín að særa neinn og
ég sá að þetta hafði verið ákaflega
óheppilegt. Á fundi sem við héldum á
mánudeginum innan sama hóps var
málið tekið sérstaklega upp og bað ég
alla afsökunar á þessum ummælum.
Sú afsökunarbeiðni var tekin fyllilega
til greina og menn tókust í hendur og
klöppuðu hver öðrum á bakið, stað-
ráðnir í að vinna sig út úr því áfalli
sem fylgdi árásinni. Þetta mál var því
úr sögunni í mínum huga. Á þriðju-
degi koma Íslendingarnir sem særð-
ust af spítalanum og er vel tekið af
öllum starfsmönnum flugvallarins. Á
miðvikudagskvöldið var haldið
kveðjuhóf fyrir þá og allir hressir og
kátir. Þar gaf einhver þeim boli með
fyrrnefndum ummælum að gjöf og
var það gert í gríni. Menn hlógu að
þessu og hinir særðu gerðu að gamni
sínu. Þeir fóru síðan til Noregs og
hittu þar konur sínar á leiðinni heim
til Íslands. Einhverra hluta vegna
fóru þeir í bolunum heim til Íslands
sem var ákaflega óheppilegt. Þegar
þeir voru spurðir út í bolina sögðu
þeir þá ekki fela í sér neina gagn-
rýni.“
Ber engan kala til kvennanna
Hinn 15. nóvember var birt yfirlýs-
ing eiginkvenna þeirra íslensku frið-
argæsluliða sem voru með í förinni
þar sem sagði m.a. að þeir hefðu
klæðst bolunum við heimkomuna til
að tjá andúð sína á afgreiðslu Hall-
gríms með fyrrnefndum ummælum.
„Ég ber engan kala til þessara
ágætu kvenna og hef fullan skilning á
því að þær og fjölskyldur þeirra voru
undir gríðarlegu álagi, rétt eins og
mín fjölskylda. Það litla sem ég sá af
fjölmiðlaumræðunni sýndist mér að
hún væri allt í einu farin að snúast um
að láta þessa ágætu drengi, sem
stóðu sig með sóma, líta út eins og
kaldrifjaða gæja sem bæru ábyrgð á
dauða fórnarlamba árásarinnar. Ég
geri mér fyllilega grein fyrir því að
fjölskyldurnar hafa verið undir mikilli
pressu og skil málið þannig að þær
konur sem um ræddi hafi fyrst og
fremst verið að verja menn sína. Þær
gerðu það hins vegar með óheppileg-
um hætti með því að gera þessa
ákveðnu boli að umræðuefni og lýsa
því yfir að þeir væru gagnrýni á mig.
Ég get þó ekki tekið hana til mín því
málið var afgreitt og öllum var kunn-
ugt um það. Eiginkonum þeirra átti
að vera það ljóst að ég hafði beðist af-
sökunar á þessum orðum.“
– Þegar hinir særðu koma af spít-
ala til baka á flugvöllinn, var þeim þá
ljóst að beðist hafði verið afsökunar á
ummælunum?
„Ég geri ráð fyrir því. Þeir komu af
spítala á þriðjudegi og miðvikudegi
og menn eru að tala um þessa hluti al-
veg út í eitt. Þeir lýstu því líka yfir að
bolirnir fælu ekki í sér gagnrýni á
mig. Þetta var leiðinlegt og óheppi-
legt og ég lít frekar svo á að frétta-
menn hafi með þrýstingi sínum skap-
að þennan misskilning.“
Hallgrímur segir það af og frá að
hann hafi verið að drolla í teppaversl-
uninni og búið hafi verið að reka á eft-
ir sér nokkrum sinnum. „Það var
aldrei rekið á eftir mér og því skil ég
ekki hvernig sú umræða kom upp.“
– Var það ekki vegna látbragðs Ás-
geirs Ásgeirssonar fyrir utan versl-
unina? [Ásgeir er yfirmaður örygg-
isgæslu Íslendinga á flugvellinum í
Kabúl og í samantekt utanríkisráðu-
neytisins um atburðinn segir að hann
hafi með fasi og látbragði gefið þeim
sem inni voru til kynna að tímabært
færi að fara að tygja sig] „Ásgeir stóð
í hurðargatinu í seilingarfjarlægð frá
mér og ég gat ekki séð á honum að
ástandið væri ótryggt. Staðreyndin
er sú að aldrei var rekið á eftir mér.
Ég spurði samferðamenn mína hvort
þeir hefðu orðið varir við að það hefði
verið farið að reka á eftir okkur en
þeir höfðu heldur ekki orðið varir við
það.“
Fór ekki oft í bæinn
í einkaerindum
Hallgrímur segir það rangt sem
fram hefur komið að hann hafi oft far-
ið inn í miðbæ Kabúl í einkaerindum.
„Á þeim sex mánuðum sem ég var
þarna, minnist ég þess ekki að hafa
farið í eitt einasta skipti í einka-
erindum í bæinn. Hins vegar fór ég
vinnuferðir í bæinn 3–4 sinnum í viku.
Það hefur einnig komið fram að ég
hafi verið að senda menn fyrir mig í
einkaerindum í bæinn en það gerði ég
aldrei. Það eru 1.800 friðargæsluliðar
og hermenn á flugvellinum og ég var
með allt að 700 manns í vinnu á hverj-
um degi.“
Hallgrímur leggur áherslu á að ís-
lensku friðargæsluliðarnir á flugvell-
inum séu ekki að stunda hermennsku
þrátt fyrir vopnaburð.
„Þeir eru ekki þarna til að berjast
og eru sendir í loftvarnarbyrgi ef árás
er gerð,“ segir hann. Allt að 12 sinn-
um voru gerðar eldflaugaárásir á
Kabúl á starfstíma Íslendinganna á
flugvellinum og í eitt skiptið var skot-
ið í átt að flugvellinum. „Þetta eru
ekki menn sem grípa rifflana sína og
hefja skothríð. Við erum fyrst og
fremst friðargæslulið sem þarf að
vera vopnað í sjálfsvarnarskyni til að
uppfylla ákveðin skilyrði og skyldur.
Segjum að það hefði verið ráðist á
flugvöllinn og komið upp eldur, þá
hefðu íslenskir slökkviliðsmenn þurft
að ganga í slökkvistörf, rétt eins og
starfsbræður þeirra frá öðrum lönd-
um. En það hefði komið í hlut her-
manna að verjast árásum.“
Menn hafa vopn í neyð
Hallgrímur segir aðspurður að
ekki sé getið um það í starfslýsingu
friðargæsluliðanna undir hvaða
kringumstæðum eigi að beita byssum
og ekki sé til nein sérstök skilgrein-
ing á því hvað teljist vera neyð sem
kalli á skotvopnanotkun. „Ef menn
liggja undir árásum og telja vopna-
beitingu einu leiðina til að bjarga sér,
þá hafa menn vopn.“
– Er ekki ætlast til að Íslendingar
taki þátt í bardögum?
„Alls ekki. Það eru sérstakir menn
í því.“ Hallgrímur tekur fram að hann
hafi með margumræddri ferð á
Chicken Street ekki brotið neinar
reglur né fyrirmæli. Öryggisástand
hafi verið kannað ítarlega fyrir ferð-
ina og hvergi var talin hætta. „Við
skulum ekki gleyma því að hundruð
hermanna eru starfandi í borginni á
hverjum degi. Því til viðbótar eru
þúsundir starfsmanna hjálparstofn-
ana vítt og breitt um borgina. Það var
því ekki eins og við værum þeir einu
sem voru á ferð í bænum.
Þetta atvik var einstaklega hörmu-
legt og það er auðvelt að segja eftir á
að það hefði aldrei átt að fara þessa
ferð. En þegar ferðin var farin var
ástandið metið svo að það væri lág-
marksáhætta fyrir hendi. Við hefðum
aldrei farið ef ástandið hefði verið tal-
ið ótryggt. Ég get mjög auðveldlega
sagt að ég hefði viljað sleppa ferðinni
og óska þess heitast að ég hefði gert
það. En svona hlutir gera ekki boð á
undan sér, ekki frekar en önnur slys.“
– Kom aldrei til greina af þinni
hálfu að dvölin í versluninni væri orð-
in of löng?
„Satt að segja ekki.“ Hallgrímur
segist ekki hafa valið íslensku fylgd-
armennina til fararinnar enda ekki í
hans verkahring en segir eins og áður
hefur komið fram að betra hafi þótt
að hafa Íslendinga þar sem þeir töl-
uðu sama málið og voru vel þjálfaðir.
„Og það sannaði sig þegar þessar
hörmungar gengu yfir,“ segir hann.
„Því hefur verið haldið fram að menn
hafi verið „tilneyddir“ til fararinnar
en ég veit ekki um eitt einasta dæmi
þess. Aldrei neyddi ég nokkurn
mann.“
Um þá ákvörðun utanríkisráðu-
neytisins að skipta um flugvallar-
stjóra í Kabúl tveim vikum áður en
starfstími Hallgríms var á enda segir
hann: „Ég var kallaður heim mánuði
eftir árásina. Ef menn héldu að ég
hefði gert eitthvað af mér þá hefði
verið eðlilegt að kalla mig heim strax.
Þótt tímasetningin virkaði ein-
kennilega og kæmi mér upphaflega
þannig fyrir sjónir að það væri verið
að snupra mig fyrir eitthvað sem ég
vissi ekki hvað var, þá sá ég við nán-
ari skoðun að þetta var pólitísk
ákvörðun og ég skil hana vel. Um-
ræðan var orðin mjög einkennileg og
menn hafa talið það rétt að taka þessa
ákvörðun og kalla mig heim til skrafs
og ráðagerða.“
Hallgrímur Sigurðsson segir auðvelt að vera vitur eftir á um afdrifaríka ferð í Chicken Street
„Hefði óskað
þess heitast að
sleppa ferðinni“
Hallgrímur Sigurðsson telur orð sín „Shit
happens“ óheppileg um árásina á íslensku frið-
argæsluliðana í Kabúl fyrir fimm vikum. Í sam-
tali við Örlyg Stein Sigurjónsson segir hann
brottköllun sína ekki vera refsingu yfirvalda.
Morgunblaðið/Ómar
„Þetta eru ekki menn sem grípa rifflana sína og hefja skothríð.Við erum
fyrst og fremst friðargæslulið sem þarf að vera vopnað í sjálfsvarnarskyni
til að uppfylla ákveðin skilyrði og skyldur,“ segir Hallgrímur Sigurðsson.