Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 8
8 | 28.11.2004 íska plötu með mér í gamla daga, sagði hann við mig: „Hvað ertu að pæla í þessu, láttu það bara vaða!“ Rödd okkar óperusöngvaranna er auðvitað miklu meira unn- in en rödd poppsöngvaranna og kannski svolítið viðkvæmari fyrir bragðið.“ Skífan gefur út diskinn en flest lögin eru samin sérstaklega fyrir Kristján. Hann heldur svo sjálfur um tónsprotann og stjórnar upptökum en platan hefur verið í vinnslu í á þriðja ár. „Við, sem unnum saman að þessari plötu, bundumst miklum vinaböndum við gerð hennar. Suma af þessum strákum hef ég þekkt í mörg ár eins og t.d. Franco Fasano sem er algjör fróðleiksbrunnur um poppið og rosalega fínn músíkant. Hann er líka frábær textahöfundur og þarna eru ofboðslega fínir og fal- legir textar um hluti sem skipta virkilegu máli.“ Kristján tekur dæmi af öðru lagi plötunnar, Par- lami di te, sem sjö ára dóttir hans, Rannveig, tekur þátt í að flytja með honum. „Fyrir nokkrum árum söng ég á aðfangadagskvöld í Vatíkaninu fyrir páfann og þeir tónleikar voru síðan sendir út til tveggja millj- arða kaþólikka úti um allan heim. Upp úr því kynntist ég konu sem heitir Ines Viaud en það er hún sem samdi þetta lag og textann. Hún er úr strangkaþólskri fjöl- skyldu og hefur átt mjög erfiða ævi. Hún varð ástfangin 16 ára gömul og varð þá ófrísk sem var náttúrulega alveg bannað í kaþólskri fjölskyldu þannig að hún var hrein- lega rekin að heiman. Hún hraktist til Bandaríkjanna og kynntist þar pilti sem er maðurinn hennar í dag. Hins vegar kynntist hún aldrei pabba sínum almennilega og sá hann ekki aftur fyrr en í jarðarförinni hans. Hún sagði okkur frá þessu þegar hún var einu sinni hjá okkur í kvöldmat eftir að hún Rannveig mín kom og kyssti mig á kinnina og sagði „Buona notte, pappa“, eða góða nótt, pabbi. Þá fóru tárin að renna hjá þessari konu því hún hafði aldrei upplifað þetta með pabba sínum.“ Hann segir að upp úr þessu hafi textinn orðið til en í honum biður barnið pabba sinn um að tala við sig. „Það var svo Jóna, konan mín, sem stakk upp á því að láta Rannveigu lesa fyrstu línurnar sem síðan fleyta mér áfram inn í lagið. Það er svolítið skrýtið að rúmlega fimmtugur maður segi: „Talaðu við mig, pabbi,“ en þegar stelpan byrjar er eins og ég hverfi aftur í tímann og tali sjálfur sem barn.“ Syngur fyrir krabbameinssjúka | Öll lögin á diskinum eru flutt á ítölsku og ensku enda segir Kristján standa til að gefa hann út erlendis. „Það er í skoðun hjá Sony, EMI- útgáfunni og BMG. Þetta eru mjög stór fyrirtæki og þar sem platan varð ekki til fyrr en fyrir mánuði er ekki að vænta afstöðu þeirra svona fljótt. Enda sögðu þeir í Sony Milano mér að ég væri helvíti ýtinn og eiginlega að gera þá vitlausa!“ Tvö laganna á plötunni eru eftir Gunnar Þórðar- son, m.a. hið þekkta „Við Reykjavíkurtjörn“ sem í út- gáfu Kristjáns nefnist „A night in Reykjavík“. Hann segir þó alls ekki um þýðingu á ljóði Davíðs Oddssonar að ræða, heldur frumsaminn texta sem Pétur Knútsson eigi heiðurinn af. „Við töluðum samt um að halda svip- uðu andrúmslofti sem ég álít að hafi tekist mjög vel.“ Það er þó ekki bara platan sem dró Kristján til landsins að þessu sinni heldur einnig tónleikar, sem voru haldnir í Hallgrímskirkju á fimmtudag, föstudag og laugardag, til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Þetta er annað árið í röð sem Kristján leggur málefninu lið með þessum hætti. „Það var ofsalega gaman hjá okkur og gott andrúmsloft. Það eina sem varpar skugga á þetta er ótrúleg árátta Íslendinga að þurfa alltaf að sverta hluti. Það er endalaust verið að búa til einhverjar sögur um launin mín og í fyrra var t.d. sagt að það yrði ekkert eftir af innkomunni því að ég myndi taka allt.“ Kristjáni er mikið niðri fyrir þegar hann segir þetta víðsfjarri. „Menn eru að gera þetta af heilum hug og hjarta og fólk á bara að reyna að sjá það eins og það er. Öll innkoman rennur til málefnisins en auðvitað er kostnaður af svona stóru batteríi. Ég gerði t.d. miklar kröfur varðandi framkvæmdina og fyrir bragðið er meiri kostnaður en ég er viss um að við fáum það allt til baka.“ Hann segir ýmis stórfyr- irtæki hafa lagt sitt til af mörkum til að mæta kostnaðinum og nefnir Kaupþing Búnaðarbanka, Toyota og Icelandair sem dæmi. Það er ekki tilviljun að Kristján hefur kosið að styðja þetta málefni. „Fyrri konan mín dó úr krabbameini og hún var ekki einu sinni orðin þrítug. Það var skelfilega erfitt. Þetta stendur mér því nærri enda var þetta þriggja ára drama í lífi mínu sem m.a. hafði mikil áhrif á frama minn innan söngsins. Ég söng varla í tvö ár því ég þarf að vera hamingjusamur til að syngja.“ Bíður eftir símtali frá Sinfó | Hann segir talsvert um að hann sé beðinn um að syngja á styrktartónleikum á borð við þessa. „Maður verður einhvers staðar að setja mörkin og við Jóna ákváðum að ég myndi einbeita mér að þeim atburðum sem eru til styrktar krabbameinssjúklingum.“ Hann segir minna um að „opinberir aðilar“ óski eftir því að hann komi heim að syngja. „Ég hef ekki sungið fyrir op- inbera aðila eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperuna eða Þjóðleikhúsið í mörg ár. Ég söng síðast óp- eru hér á landi í Laugardalshöll árið 2000 og mig er farið að lengja eftir að heyra í Sinfóníuhljómsveitinni.“ Sömu- leiðis segist hann vel geta hugsað sér að syngja í upp- færslu á Pagliacci eða Óþelló í Þjóðleikhúsinu. „Ég hef ekki sungið óperu þar í 10 ár.“ Allt annað hangir á spýtunni þegar kemur að íslensk- um almenningi sem er iðinn við að sækja tónleika með Kristjáni. „Ég hef farið í tónleikaferðalag hringinn í kringum landið og selt 14–15 þúsund miða. Það tel ég góða aðsókn. Ég man eftir því í gamla daga þegar við fórum um Austfirði og eins á Vestfirðina, að það þurfti oft að setja upp hátalara fyrir utan tónleika- staðina og stundum var fleira fólk fyrir utan en inni. Í gamla daga þegar ég var að syngja í Þjóðleikhúsinu voru biðraðir alveg niður á torg. Eins hefur plötu- salan verið mjög góð og ég vona að sú verði líka raunin með þennan disk.“ Talið berst að fjarbúðinni frá Íslandi. „Við búum við Garda-vatnið þar sem við erum búin að vera í 18 ár. Þetta er yndislegur staður úti á landsbyggð- inni,“ segir Kristján með glampa í augunum. „Mað- ur starfar alltaf í stórborgum en ég gæti ekki hugsað mér að búa í stórborg og enginn af okkur í fjölskyld- unni. Þarna er allt annað umhverfi þannig að það er mjög auðvelt að skipta um gír og slaka vel á, t.d. með því að fara í hjólatúra eða göngutúra.“ Ekki spillir veðrið heldur fyrir en að sögn Kristjáns er hitastigið á bilinu 14–20 gráður á þessum árstíma. Það voru því töluverð viðbrigði að lenda í nístingsfrosti á Keflavík- urflugvelli á dögunum. „Ég kom í algjöran byl og það var yndislegt,“ segir hann með áherslu. „Maður á von á þessu á Íslandi og þegar maður er á Íslandi er ekkert hægt að vera að hugsa um veðrið. Þú verður bara að vera jákvæður og hugsa um eitthvað allt annað.“ Kristján hefur ekki setið með hendur í skauti þann stutta tíma sem liðinn er frá því að hann lenti og m.a. heim- sótt vini og vandamenn á Akureyri. „Ég tók m.a. utan um gamla yfirkennarann minn og bað hann um að fyrirgefa hvað ég var baldinn sem krakki. Þá flóði hann bara í tár- um og sagði að ég hefði aldrei verið vondur. Ég var mikið lifandi strákur og þeir þurftu að hafa dálítið mikið fyrir mér í skólanum. Mig vantaði einhverja fyllingu í gamla daga og var ofsalega eirðarlaus. Svo fann ég það sem mig vantaði í tónlistinni og í því að fara út í hinn stóra heim og syngja í óperuhúsum. Þá bara féll þetta allt í réttan farveg.“ Kristján hefur þó síður en svo sagt skil- ið við þjóðina enda kemur hann hingað til lands a.m.k. einu sinni á ári. „Börnin mín koma líka alltaf á hverju ári til að hitta afa og ömmur og vini og kunningja. Þau þurfa að kynnast fjölskyldunni og ekki síst að læra tungumálið og halda lífi í því. Þau eru uppalin á Ítalíu og hluti þeirra er fædd- ur þar þannig að ekki veitir af.“ Stoppið verður ekki langt að þessu sinni og Kristján gerir ráð fyrir að hverfa aft- ur til Ítalíu í byrjun desember. „Héðan fer ég beint á æfingar í Mílanó til að æfa fyr- ir mjög fallegan jólakonsert sem verður útvarpað beint, bæði í sjónvarpi og út- varpi. Síðan fer ég til Aþenu að syngja í óperuhúsinu þar og svo til Rómar og Buenos Aires í Argentínu. Næstu tvö ár eru mjög glæsileg og ég er með mjög þétta dagskrá framundan.“ En fyrst er það jólafríið, sem Kristján ætlar að njóta með fjölskyldunni heima við Garda-vatnið. „Og við ætlum á skíði í Ölpunum líka,“ segir hann glaðbeittur að lokum áður en hann tæmir úr kaffibollanum og heldur út í íslenskan vetrarsort- ann. | ben@mbl.is ÞARF AÐ VERA HAMINGJUSAMUR TIL AÐ SYNGJA „Enda sögðu þeir í Sony Milano mér að ég væri helvíti ýtinn og eiginlega að gera þá vitlausa!“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.