Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 14
hefur tekið á Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum af lífsháttum, sem eru að láta undan síga. Af hverju þetta verkefni um heim á hverfanda hveli? „Þetta byrjaði með mynd, sem ég tók 1986 af Axel á Gjögri í bátnum sínum og hund- inum hans, Týra, sem var svo sjóhræddur að hann fór aldrei á flot, heldur beið alltaf á sama steininum í fjörunni. Axel sagði mér þá söguna af hákarlinum, sem hann snaraði sofandi og dró í land. Hann batt svo trilluna og fór heim, en í millitíðinni vaknaði hákarlinn og sleit trilluna í tvennt. Og ég hef aldrei séð skutinn síðan, sagði Axel! Það kviknaði á einhverri peru hjá mér, þegar ég hitti Axel. Hann vakti upp hjá mér karl- ana í sveitinni. Þeir voru svona flottar týpur, miklir karakterar og sagnamenn. Þeir létu ekki aðra segja sér fyrir um það, hvernig þeir ættu að lifa lífinu. Þeir höfðu búið um sig í undirmeðvitundinni og þegar Axel á Gjögri birtist, þá kviknaði eitthvað innra með mér og ég fór skipulega að leita uppi fólk, sem kaus sér sinn sérstaka lífsmáta í trássi við þjóð- félagsþróunina í kring um það. Ég fann svona fólk líka í Færeyjum og Árni Johnsen kynnti mig fyrir Grænlandi. Þar með var ég kominn með eyjatríóið í norðrinu og hverfandi mannlíf; veiðimennirnir í Grænlandi yfirgefa ísinn og flytja í blokkir, þar sem þeir gera ekki neitt. Í Færeyjum leggja litlu þorpin upp laupana hvert af öðru og hér heima fækkar þeim óðum sem lifa sínu sjálf- stæða lífi í návígi við náttúruna. Margir halda að ég sé bara að safna skrýtnum körlum og kerlingum. En það er fjarri lagi. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu fólki og af henni eru ljósmyndirnar sprottnar. Þetta er upp til hópa eldklárt fólk, sem vill vera í náttúrunni og fá að lifa á sinn sérstaka hátt í friði. Það er í raun ákaflega sorgleg staðreynd, að þetta fólk skuli vera síðustu móhíkanarnir.“ Hlaupið á jökum upp á líf og dauða Þessar myndatökur hafa ekki alltaf verið dans á rósum, heldur hefur Raxi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar lent í tvísýnu. „Sumt hefur verið erfiðara en annað. Það slær ekkert út að ljósmynda á Grænlandi. Það gerir kuldinn. Ljósmyndavélarnar frjósa og filmurnar verða stökkar. Og líkamlegt og and- legt álag er mikið. Svo eru þessi ferðalög ekki bara erfið, heldur líka dýr.“ Í einni Grænlandsferðinni voru Raxi og Árni Johnsen í hálfan mánuð með veiðimönn- um norður í Thule. Morgun einn, er þeir vöknuðu hafði íshellan, sem þeir sváfu á, brotn- að frá landföstum meginísnum og þar á milli komin vök með litlum jökum. Veiðimenn- irnir drifu sig strax upp á fast, en Árni og Raxi töfðust við að taka saman nauðsynlegustu föggurnar. „Og síðan hófst æðislegasta jakahlaup, sem ég hef tekið þátt í um ævina. Þetta var hlaup upp á líf og dauða. Að það skyldi heppnast þakka ég Árna, því hann eggjaði mig stöðugt áfram, reyndar hvatti hann mig til að fleygja ljósmyndavélunum frá mér, en ég neitaði. Sumt af því sem ég var með var ég með í láni og maður hendir því ekki í sjóinn sem maður er með í láni! Á endanum kippti Árni mér upp á fast, þegar ég var að renna ofan í krapann. Vanir menn!, sagði hann um leið. Það grátbroslega í þessu öllu saman er, að jakann, sem við sváfum á, rak aftur inn að fastaísnum, þannig að við hefðum bara getað flotið á honum í eina fimm tíma og komist auðveldlega aftur í land. Nú eða orðið á undan Haraldi Ólafssyni á Norðurpólinn!“ En grínlaust má geta sér til, að ef hann hefði ekki komizt af jakanaum, væri hann ekki að rifja þessa sögu upp fyrir mér. Öðru sinni lenti Raxi í svakalegu veðri fyrir utan Scoresbysund. „Það var svo mikið rok að við fukum á haf út. Ísinn var svo mikil glæra og það var svo hvasst að hundarnir spól- uðu bara og við réðum ekki neitt við neitt. Annar veiðimaðurinn tók þá algjört kast á hundunum, sem náðu loks í snjó og þá virkuðu nagladekkin! En það tók tímann sinn að ná til fastalandsins og þegar við komumst í kofann, þá var það eins og að koma inn á fimm stjörnu hótel. Við spiluðum Ólsen Ólsen okkur til dægrastyttingar og ég tapaði kuldagall- anum mínum.! En ég fékk að halda honum þangað til við vorum komnir vel á þurrt!“ Atvikamikill jóladagur En það er ekki einasta á erlendri grund, sem Raxi hefur komizt í hann krappan. Starf fréttaljósmyndarans er líka krefjandi. „Ég man vel, þegar Sigurbáran strandaði. Það var í marz 1981. Við vorum eina flug- vélin, sem flaug þann daginn. Það var kolvitlaust veður og við vorum hátt í klukkutíma yf- ir skipinu. Við héngum bara í ólunum og vorum ýmist uppi í lofti eða klesstir ofan í sætin. Og önnur hver mynd sem ég tók var bara út í loftið. Þetta var töff! Og aldrei gleymi ég jólunum 1986. Á jóladagsnótt sökk flutningaskipið Suðurland í hafinu milli Íslands og Noregs, um 290 sjómílur austnorðaustur af Langanesi. Það var með síldarfarm á leið til Murmansk. Sex skipverja fórust en fimm var bjargað um borð í þyrlu frá danska varðskipinu Vædderen, sem flutti skipbrotsmennina til Færeyja. Á jóla- dag sökk enska tankskipið Syneta við Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar og þar fórst öll áhöfnin; 12 manns. Við flugum á jóladag austur; Agnes Bragadóttir, Árni Johnsen, Árni Sæberg og ég – flugstjóri í ferðinni var Halldór Árnason, og mér tókst að ná myndum af stefni Synetu, sem þá maraði enn við Skrúðinn, og héldum svo áleiðis til Færeyja með millilendingu á Hornafirði, þar sem við tókum eldsneyti. Enda eins gott, því þetta Færeyjaflug varð nokk- uð skrautlegt. Fyrir utan allan hristinginn, fengum við sennilega á okkur eldingu, mið- stöðin sló út og brunalykt lagði um flugvélina. Það ríkti þögn um borð, aðeins vélardyn- urinn og veðurhamurinn. Við náðum til Færeyja, en þá höfðum við svo mikinn mótvind, að á vélinni var bara eldsneyti til tuttugu mínútna flugs. Og tíu mínútum eftir að við lent- um, lokaðist flugvöllurinn og var lokaður í hálfan annan sólarhring. En okkur tókst að ná samtölum við skipbrotsmennina af Suðurlandi og björgunarmenn þeirra og senda heim. Þetta var satt að segja alveg svakaleg ferð. Jólasteikin þessi jól var hamborgari með rauðkáli!“ Og Raxi dæsir yfir endurminningunum. Fjölskyldan; Ragnar Axelsson og fjölskylda með heimilishundinum Gretti; Kristinn Jón Einarsson, Tinna Dögg Ragnarsdóttir, Darri Ragnarsson, Ragnar Axelsson, Björk Hreiðarsdóttir, Embla Eir Kristinsdóttir og Jón Snær Ragnarsson. Myndir úr bók Ragnars Axelssonar, Andlit norðursins. GÓÐ LJÓSMYND LIFIR AF

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.