Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 11
búninga.“ Í dag á Kolfinna sex eða sjö barnabúninga, í stærðum eins árs og upp úr. „Það sem kostar mest við þessa búninga eru mill- urnar og svo náttúrlega hólkurinn því að það er ekkert belti við þá. Við hjónin tókum því upp hjá okkur að gefa stelpunum millur í afmælisgjafir og jólagjafir. Það var kannski eitt par af millum eða ein milla í senn þannig að þær eignuðust smátt og smátt heilt sett. Eftir því sem þær stækkuðu færði ég millurnar þeirra á stærri búninga.“ Hún segir dæt- urnar hafa verið hæst- ánægðar með þessar gjafir. „Þær voru mjög sáttar og ánægðar með búningana sína. Ég á líka tvær ömmustelpur sem elska að fara í þjóðbúninga og þegar þær koma hingað í heimsókn biðja þær iðulega um að fá að fara í búninga á meðan þær eru hjá mér.“ Sem fyrr segir er þjóðbúningaáhuginn ekki einskorðaður við kvenpening fjöl- skyldunnar heldur hefur maður Kolfinnu, Sverrir, verið iðinn við að viða að sér þjóð- búningaföngum þegar tækifæri hafa gef- ist. „Maðurinn minn hefur farið í Kola- portið og Fríðu frænku til að leita þar uppi millur og hólka og ýmislegt fleira sem hann hefur keypt. Hann gaf mér smátt og smátt stokkabelti með því að gefa mér nokkra stokka í einu en þeir eru mjög dýrir. Þegar ég varð fertug, árið 1984, gaf hann mér síðan skautbúning og það er þessi frægi skautbúningur sem forsetafrú- in klæddist þegar Ólafur Ragnar var settur inn í embætti í sumar.“ Sá búningur var saumaður árið 1938 á Jósefínu Helgadótt- ur en það var dóttir hennar, Evelyn, sem seldi Sverri búninginn. „Hann er þvílíkt djásn því að baldýringin, sem Jakobína Thorarensen saumaði, er alveg einstök. Gullþráðurinn er sérstaklega fallegur og ekkert farið að falla á hann og svo er list- saumur í pilsinu í sama mynstri og í treyjunni.“ Þau hjónin létu þó ekki þar við sitja því eftir að Kolfinna eignaðist skautbúning- inn saumaði hún sér svokallaðan kyrtil í tvígang, annan hvítan og hinn bláan, sem hún gaf sjálfri sér í fimmtugsafmælisgjöf, en kyrtillinn var notaður sem eins konar brúðarbúningur. Þá saumaði hún sér annan faldbúning fyrir sextugsafmælið í vor. Það minnsta sem Kolfinna hefur saumað í þessum dúr er hins vegar 19. aldar þjóð- búningur sem hún saumaði á eina af dúkkum dætranna. „Ég rændi þessari brúðu einhvern tímann því þær áttu allt of mikið af brúðum og léku sér ekki næstum því með allar. Búninginn saumaði ég úr afgöngum, meira í gamni en alvöru en síðan hefur brúðan stundum verið lánuð í skóla til að sýna krökkunum hvernig íslenskur 19. aldar upphlutur lítur út.“ Kolfinna hefur líka gert sitt til að grunnskólabörn læri þá dansa sem tilheyra búningunum því hún kennir dans og sund í Seljaskóla auk þess sem hún hefur skrifað kennslubækur í dönsum fyrir fyrstu bekki grunnskóla ásamt dóttur sinni. „Reyndar kalla ég þetta skemmtidansa, því þetta eru ekki bara þjóðdansar heldur allt mögulegt. Nokkra þeirra hef ég meira að segja samið sjálf við íslensk lög. Við höfum líka gert bók fyrir leikskólabörn en hana gáfum við út í minningu um lítinn dótturson minn sem við misstum. Núna erum við svo langt komnar með að gera námsefni fyrir fimmta til sjöunda bekk.“ Í fyrsta sinn á námskeið Maður veltir því fyrir sér hvað rekur Kolfinnu áfram í öllum þessum þjóðbúningaáhuga og saumaskap en í raun á hún ekkert einfalt svar við því. „Þetta er einhver árátta hjá okkur, mér finnst þetta bara svo skemmtilegt,“ segir hún með áherslu. „ Ég hef haldið áfram að sauma á dætur mínar eftir að þær urðu fullorðnar og svo fór maður að lána þetta og þannig vindur þetta upp á sig.“ Í ljós kemur að búningarnir hafa flestir verið lánaðir til notkunar við hátíð- leg tækifæri. „Það er geysilega mikill áhugi og hann er mikið að glæðast. Fermingarstúlkur fá talsvert lánað hjá mér og sömuleiðis konur sem eru að gifta sig. Þá vilja þær oft fá búninga á börnin sín líka. Síðan eru það peysufatadagarnir í Verslunarskólanum og Kvennaskólanum og Hamrahlíðarkórinn hefur fengið lánað hjá mér líka. Það er mjög gaman að klæða allt þetta fólk upp í búning og ég hef ekki fengið einn einasta í heimsókn sem ekki hefur kunnað að meta það. Ég held nefnilega að gallinn við það að stúlkur eru að fara í upphluti eða peysuföt af ömmu eða langömmu eða eitthvað slíkt sé að þeir passa ekki á þær og þá finnst þeim þetta púkalegt og asnalegt. Búningarnir verða að passa á viðkom- andi manneskju svo þeim líði vel í þeim og þær taki sig vel út.“ Karlkyns búningaunnendur hafa einnig leitað á náðir þeirra hjóna. „Það hafa örfáir herrar gift sig í búningunum hans Sverris og núna voru tveir piltar úr Kvennaskólanum sem fengu lánað hjá okkur fyrir peysufatadaginn hjá þeim. Þeir hafa svo mikinn áhuga á þessu og ég hefði getað lánað fleiri en maðurinn minn á bara tvo búninga. Þeir voru svo ánægðir og fannst þetta svo flott,“ segir Kolfinna með svo innilegri áherslu að ekki fer á milli mála að sjálf fær hún heilmikla ánægju út úr því að breiða út boðskapinn. Enda segir hún unga fólkið bera fyllilega virðingu fyrir því hversu mikil verðmæti eru á ferð þar sem búningarnir eru annars vegar. „Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því hversu verðmætt þetta er – silfrið, millurnar, beltið og hólkur- inn – þetta er allt rándýrt, fyrir utan alla handavinnuna.“ Þrátt fyrir að Kolfinna sé ekki jafniðin við saumana og áður er hún hvergi nærri hætt. „Veistu hvað ég gerði núna?“ segir hún leyndardómsfull á svip. „ Í sumar, þegar ég var á Þjóðbúningastofu að sýna forsetafrúnni búninginn minn, skráði ég mig í fyrsta sinn á námskeið í þjóðbúningasaumi. Ég hef nefnilega aldrei farið á námskeið,“ segir hún og skellihlær. „Þetta er merkisatburður hérna í fjölskyldunni. Ein dóttir mín sagði við mig að hana langaði að eignast nútímaupphlut þannig að ég bara skráði mig á námskeið því ég hef aldrei saumað 20. aldar upphlut, bara upphluti frá 19. öld.“ Hún segir dæturnar þó ekki jafnástríðufullar í búningaáhuganum og hún. „Þær kunna hins vegar að meta þessa búninga og hafa klæðst þeim við hátíðleg tækifæri. Þannig að þær sýna þeim áhuga en nei, þær eru ekki alveg jafnslæmar og ég. Þær verða það kannski seinna!“ | ben@mbl.is „Maðurinn minn hefur farið í Kola- portið og Fríðu frænku til að leita þar uppi millur og hólka og ýmis- legt fleira sem hann hefur keypt.“ Fjölskyldan í sínu fínasta pússi: Frá danssýningu í Þjóðleikhúsinu í janúar 1995. Fyrir aftan Sverri og Kolfinnu standa dæturnar í aldursröð frá vinstri: Hulda, Rannveig og Sólrún. 28.11.2004 | 11

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.