Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 13
É g heyri alveg, þegar Raxi nálgast mig; hann er með hláturinn í farangrinum og getur ekki stillt sig um að lauma einhverju að samstarfsmönnum okkar; einhverju krassandi. Þetta er eins og að standa í fjörunni og finna ölduna færast nær. Svo sezt hann gegnt mér með bros á vör og blik í augum. „Þegar ég var strákpatti þá skoðaði ég Moggann, myndirnar hans Óla K. Svo var ég í sveit á Kvískerjum. Þar voru gömul blöð og ég lagðist yfir myndirnar í þeim. Þegar ég kom í bæinn, keypti ég gömul blöð og þá eingöngu til þess að skoða myndirnar í þeim. Ég hugsa að ég hafi tekið þetta svona, af því að ég gat aldrei teiknað. Og get reynd- ar ekki enn. Ef ég teikna Óla prik þá hlæja börnin mín. En að skoða myndir í blöðum og á bókum. Það var minn heimur. Eiginlega lít ég á ljósmyndirnar mínar sem mín málverk. Pabbi var með margar dellur; ein af þeim var ljósmyndadella og hann lánaði mér myndavélar. Mína fyrstu ljósmyndavél fékk ég svo í fermingargjöf. Ég var sítakandi myndir og svo framkallaði ég á baðinu heima. Á sumrin tók ég myndir með bræðr- unum á Kvískerjum; þeir voru að taka myndir af náttúrunni, dýrum og gróðri. Ég fékk dellu fyrir fuglunum. Þá komst ég að því að fuglar kunna bara að telja upp að einum. Ég setti upp kassa við skúmshreiður og ef ég gekk einn að kassanum, kom hann ekki. En ef við vorum tveir og hinn fór til baka, þá kom skúmurinn óðar og sett- ist á. Og ég náði fínum myndum af honum úr kassanum!“ – Þú hefur þá strax ætlað að verða ljósmyndari, eða hvað? „Ég ætlaði að verða atvinnumaður í fótbolta. En flugið og ljósmyndin toguðu líka í mig. Og þau urðu ofaná.“ – Þar hefur landsliðið misst af miklu! „Já hugsaðu þér bara,“ segir Raxi og hlær við. En þótt Raxi hafi ekki orðið atvinnuflugmaður, má segja, að flugið sé stór hluti af hans ljósmyndastarfi. „Ég lærði að fljúga og nú flýg ég á vél, sem við pabbi smíðuðum. Svo á ég smáhlut í fleiri vélum með bræðrum mínum. Það eru einar fimm flugvélar í fjölskyldunni!“ Óli K. hljóp strákinn niður og út á það var hann ráðinn „Ég labbaði sextán ára gamall inn á Moggann að leita mér ljósmyndavinnu. Ég var þá svo heppinn að Ólafur K. Magnússon kom á fleygiferð og hljóp mig niður! Hann stoppaði við og spurði, hvað ég væri að gera og þegar ég sagði honum erindið, sagði hann, að það vantaði mann í sportið. Svo tók hann undir handlegginn á mér og leiddi mig til Steinars J. Lúðvíkssonar, sem sendi mig á völlinn til prufu. Þar tókst mér nógu vel upp til þess að vera ráðinn til sumarsins. Síðan hef ég verið Moggamaður!“ Raxi lærði ljósmyndun hjá Ingibjörgu Kaldal og fór á námskeið í Bandaríkjunum hjá Mary Ellen Mark, sem er talin einn áhrifamesti ljósmyndari allra tíma. Lærifaðir hans á Mogganum var svo Ólafur K. Magnússon. – Hvað þarf ljósmynd að hafa til að teljast góð? „Í mínum huga er ljósmynd annaðhvort góð eða vond. Það er ekkert til þar í milli. Það getur tekið sinn tíma fyrir ljósmynd að sanna sig eða líða undir lok. Ég hef horft á sumar mynda minna í allt að tvö ár áður en þær tóku skarið af því hvort þær ætluðu að lifa eða deyja. Góð ljósmynd. Það er ljósmynd sem lifir af.“ Raxi er maður svarthvítu myndarinnar. Af hverju það? „Litirnir eru þarna. Það er sáralítil ögrun í þeim. Og allir eru að taka litmyndir. En ég vildi vera öðru vísi. Svarthvíta ljósmyndin stendur einhvern veginn svo sér, það er svo skemmtileg vinna að búa til andrúmsloftið í svarthvítri ljósmynd. Svarthvíta myndin stendur upp úr. Dýrustu ljósmyndir í heiminum eru svarthvítar, þótt ég hafi ekki fundið til þess í veskinu mínu!“ – Ennþá! „Já. Ennþá,“ segir Raxi og hlær dátt. Hverfandi mannlíf á eyjatríóinu í norðrinu En þótt peningarnir hafi látið á sér standa, hafa ljósmyndir Raxa aflað honum verðlauna og viðurkenninga á erlendri grund. Þar segir mest af myndum, sem hann GÓÐ LJÓSMYND LIFIR AF Ragnar Axelsson ljósmyndari, Rax eins og hann merkir myndirnar sínar, eða Raxi eins og hann er kallaður, er stöðugt á ferð og flugi með ljósmyndavélina á lofti. Hann ekur á ákveðinn stað, tekur þar fram flugvélina sína og flýgur á vit ævintýranna. Þau ævintýri sjá lesendur Morgunblaðsins síðan á síðum blaðsins. Eftir Freystein Jóhannsson Í starfskynningu | Ragnar Axelsson hóf ung- ur störf hjá Morgunblaðinu, en fyrst kom hann á starfskynningu á ritstjórnina. Í frétt blaðsins frá 12. febrúar árið 1975 er fjallað um það að tveir ungir skólamenn, Ragnar og Magnús Narfason, kynntu sér þar blaða- mennsku. Ólafur K. Magnússon, sem varð lærimeistari Ragnars, tók myndina. 28.11.2004 | 13

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.