Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 28.11.2004, Blaðsíða 20
20 | 28.11.2004 Frönsk vín hafa átt undir högg að sækja í samkeppni við vín frá öðrum ríkjum, ekki síst Nýja heiminum á síðustu árum. Hafa Frakkar orðið að sætta sig við að ungar vínframleiðsluþjóðir á borð við Ástrala og Chilebúa séu skyndilega farnar að selja meira vín á hefð- bundnum mörkuðum Frakka á borð við Norðurlöndin og Bretland. Þetta hefur vakið upp miklar umræður um stöðu víngerðarinnar í Frakklandi og nú nýlega birti eitt helsta dagblað landsins, Le Figaro, aðgerðaráætlun til að rétta við stöðu Frakklands. Alls taldi Figaro upp 20 hluti sem framkvæma yrði ef frönsk víngerð ætti að rétta úr kútnum. Sumar af hugmyndum Figaro eru byltingarkenndar, að minnsta kosti á frönskum mælikvarða. Þannig er mælt með því að leyft verði að nota eikarspæni til að bragðbæta ódýr vín – gera þau „eikuð“ – með því að láta vínið koma í snertingu við viðinn líkt og það hefði verið geymt á eikartunnum. Þessi aðferð hefur verið notuð nokkuð við framleiðslu ódýrari vína, ekki síst í Ástralíu, til að veita víninu vott af við. Figaro leggur einungis til að þetta verði heimilað í ódýr- ustu flokkum vína, þ.e. vin de table og vin de pays. Þá vill blaðið að til viðbótar við Appelation d’Origine (AOC) flokkunina, sem liggur til grundvallar flokkun franskra gæðavína, verði bætt efri flokki AOC d’Excellence. Einnig er mælt með því að flokkunarkerfi og merkingar verði einfölduð og að heimilað verði að bjóða upp á vín í óhefðbundnum pakkningum. Hvernig litist mönn- um á betri Bordeaux-vín í pappakössum? Fleiri hugmyndir munu ef- laust valda róti í hugum margra Frakka, s.s. sú að heimilað verði að blanda saman þrúgum af mismunandi framleiðslusvæðum. Aðrar eru hefðbundnari til dæmis sú að leggja áherslu á aukinn ferða- mannastraum þar sem ferðamenn sem kynnast frönskum vínum séu bestu sendiherrar þeirra. Figaro segir franska víngerð vera risa á brauðfótum og tími sé kominn á róttæk umskipti. En snúum okkur að vínúrvalinu hér heima og kíkjum á þrjú vín frá ná- grannaríkjum Frakklands, Ítalíu og Spáni. Planeta La Segreta Bianco 2002 er indælt vín frá Sikiley. Þetta er sann- kallaður þrúgukokkteill þar sem hér koma við sögu jafnt sikileysku þrúgurnar Grecanico, Fiano og þær frönsku Chardonnay, Sauvignon Blanc og Viognier. Það er ferskt með ljúfri angan af sætum ávöxtum, perum, ananas og kíví, nokkuð þykkt, endist vel og lengi. 1.290 krón- ur. 17/20. Casa de la Ermita Jumilla Petit Verdot 2001 er athyglisvert spænskt rauðvín úr þrúgunni Petit Verdot. Hefur þykka sæta angan, hnetu- súkkulaði, Basset’s konfekt, kirsuberjamauk, kryddað allt að því beiskt. Í munni þykkt og sýrumikið, með örlitlum keim af spíra. 2.390 krónur. 18/20 Loks afbragðs rauðvín frá Toskana á Ítalíu. Poliziano Vino Nobile de Montepulciano 2000. Hér er mikið súkkulaði í nefinu ásamt dök- kristuðum kaffibaunum og eik. Ávöxturinn er þroskaður, áferðin sæt og bragðið ristað, þróast út í núggat. Mjúkt, þykkt og þurrt. (Sérpönt- un). 19/20 VÍN Það átta sig kannski ekki allir á að margir af bestu veitingstöðum Evrópu eruá Norðurlöndunum. Í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi og fleiri borg-um og bæjum er að finna matargerðarlist á heimsmælikvarða. Einhver besti veitingastaður Norðurlanda er til dæmis á Regeringsgatan 111 í miðborg Stokkhólms. Þar ræður ríkjum Mathias Dahlgren sem fyrstur Norð- urlandabúa vann til gullverðlauna á Bocuse d’Or, sömu keppni og Hákon Már Örvarsson vann til bronsverðlauna á fyrir nokkrum árum. Veitingastaður Dahlgrens heitir Bon Lloc og var opnaður árið 2000. Áður hafði Dahlgren rekið agnarlítið veitingahús við Bergsgatan sem tók ein- ungis 38 gesti í sæti. Það er öllu rýmra á Bon Lloc, staðurinn tekur um 80 gesti í sæti. Húsnæðið var upphaflega tekið í notkun fyrir einni öld sem kvik- myndahús, varð síðan að leikhúsi en hefur und- anfarna áratugi verið nýtt undir veitingarekstur. Spennandi smáatriði | Dahlgren sækir mikið til Suður-Evrópu, ekki síst Spánar, í matargerð sinni og nafnið Bon Lloc er raunar tekið úr katalónsku og þýðir „góður staður“. Hann vill sjálfur skil- greina stíl sinn sem Estilo Nuevo Euro-Latino eða evró-latneska nýbylgjumatargerð. Frumleikinn er allsráðandi og Dahlgren umbyltir hráefnum og að- ferðum suður-evrópska eldhússins á stórfenglegan hátt. Réttirnir eru fullir af spennandi smáatriðum er koma gestum á óvart og gera máltíð á Bon Lloc að sannkallaðri matarupplifun. Það er langt síðan að ég hef stigið jafn heillaður upp frá borðum og eftir máltíð á Bon Lloc. Staðurinn sjálfur er hlýlegur, svolítið „retro“ í hönnun, áhrifin greinilega sótt til sjöunda áratugarins. Hlýleg eik er ráðandi ásamt rauðbrúnum flísum er veita Mið- jarðarhafshita inn á staðinn. Tjáningarseðillinn varð fyrir valinu | Máltíð á Bon Lloc byggist upp á fjöl- breyttum samsettum máltíðum. Vissulega er hægt að panta einn og einn rétt en matseðillinn byggist upp á fjórum matseðlum; Tradición, Expreción, Gustación og Ocación. Sem mætti þýða sem hefðbundni seðillinn, tjáningarseðillinn, smökk- unarseðillinn og viðhafnarseðillinn. Allt eftir því í hvaða skapi matargestir eru. Á hefðbundna matseðlinum eru þannig réttir sem hafa slegið í gegn á staðnum í gegnum tíðina, viðhafnarseðillinn byggist alfarið á humarréttum. Við réðumst hins vegar á tjáningarseðilinn sem er sá seðill sem endurspeglar best það sem Dahlgren er að bauka þessa stundina. Þetta er sjö rétta seðill og byrjar á litlum ljúffengum tapasréttum áður en haldið er yfir í fyrsta forréttinn, Pan con foie gras. Skemmtileg útfærsla á sígildum forrétti, gæsa- lifur með ristuðu brauði. Lifrinni hafði verið skeytt saman við brauðskífu og sett á grillpinna og þeim síðan stungið ofan í glös fyllt með poppbaunum. Líkt og blóm í vasa. Réttur fyrir augað ekki síður en bragðlaukana. Þá kom tún- fisksalat með mjúkum túnfisksneiðum, korn- hænueggi og Oscietre-kavíar úr írönskum styrjuhrognum. Næst baskneskur saltfiskréttur þar sem litlum kubbum af saltfiski var komið fyrir á majonessmurðum brauðbitum ásamt kryddjurtamauki. Fjórir ferkantaðir bitar á botni skálar sem bragðmiklu fisk- og grænmet- issoði var síðan hellt ofan í og gestir beðnir að bíða meðan brauðið saug í sig soðið. Þá grilluð spænsk butifarra-pylsa með káli og loks nýsjá- lenskt lamb áður en eftirrétturinn tók við. Ófyrirsjáanlegt | Hver réttur öðrum betri, allir komu á óvart, ekkert var fyrirsjáanlegt. Hráefni, eldun og útfærsla í hæsta gæðaflokki. Seðillinn kostaði 1.095 krónur sænskar sem getur ekki talist mikið miðað við hvað sambæri- legur matur myndi kosta t.d. í London eða París. Hægt er að fá vínglas valið með hverjum rétti en einnig verður að taka fram að vínlisti Bon Lloc er ekki síður þess virði að skoða en matseðillinn. Vínin vel valin og á ágætu verði. Þjónustan frábær, ungt starfsfólkið afslappað, upplýst og fag- mannlegt. Dahlgren hefur einnig ritað matreiðslubækur og mæli ég sterklega með bókinni Bon Lloc, sem seld er á staðnum, en hún er líklega með betri matreiðslubókum er gefnar hafa verið út á Norðurlöndunum. Full ekki einungis af uppskriftum heldur einnig hagnýtum upplýsingum og góðum ráðum fyrir tómstundakokkinn. MATUR OG VÍN | STEINGRÍMUR SIGURGEIRSSON SÆNSK-LATNESK MATARGERÐ Í HEIMSKLASSA Byggt er á fjórum matseðlum; hefðbundnum, tjáningar-, smökkunar- og viðhafnarmatseðli Matreiðslubók Mathias Dahlgrens er full af góðum uppskriftum og hag- nýtum ráðum og upplýsingum fyrir tómstundakokkinn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.