Morgunblaðið - 28.11.2004, Page 16

Morgunblaðið - 28.11.2004, Page 16
Þessu fylgdi mikill kvíði og ég fór að lesa minningargreinarnar í Morgunblaðinu og leita að sjálfum mér. Og ég þorði ekki að sofna, heldur spilaði á gítar fram í nóttina, þar til ég valt út af af þreytu. Þá hjálpaði Björk kona mín mér með skilningi og já- kvæðni svo mér tókst að brjótast út úr þessum vítahring. Síðan hef ég unnið að því að ná upp mínu fyrra þreki. Ég varð að hætta að vinna í fimm mánuði, en ég skildi nú aldrei ljósmyndavélina alveg við mig. Verstu eftirköstin eru stöðugt suð sem ég hef í hausnum. Mér skilst ég verði að læra að lifa við það. Ég tel mig hafa sloppið blessunarlega vel.“ – Hvað olli áfallinu? „Mér var sagt að þetta hafi verið vírus og að það séu meiri líkur á að vinna í lottói þrisvar í röð en verða fyrir svona áfalli. Það var mér mátulegt að vinna ekki í lottó- inu!“ Svo verður hann alvarlegur og bætir við: „Annars er það nú meira en marg- faldur lottóvinningur að sleppa svona vel frá þessu! Ég átti náttúrlega ekki að lifa þetta af. Á tímabili fannst mér þetta vera búið. En þegar ég fann fyrir návist Garðars Guðmundssonar heila- og taugaskurðlæknis, vissi ég að mér var borgið. Ég sagði reyndar við Garðar seinna, að ég bæri slíkt traust til hans að ég hefði hleypt honum með skiptilykil inn í hausinn á mér. Hann bara brosti.“ Ég spyr Raxa, hvort áfallið hafi breytt einhverju um viðhorf hans til lífsins. „Já. Það hefur gert það. Ég er til dæmis miklu umburðarlyndari en ég var. Og í stað þess að líta á lífið sem endalaust, þá veit ég einhvern veginn betur, að það er það ekki. Um leið verður það dýrmætara. Mér þykir líka vænna um allt í kring um mig, sér- staklega samferðarmennina; fjölskyldu mína og fólkið í kring um mig. Ég átti það til að vera fúll út í einhvern í góðan tíma, en nú nenni ég því ekki! Það borgar sig ekki að eyða tíma í slíkt; fer bara illa með mann sjálfan. Ég hef alltaf farið til að ljósmynda, þegar kallið berst; aldrei sagt nei. Mér hefur oft brugðið, en ég hef aldrei orðið illa hræddur. Ég er líka alltaf mjög varkár. Og ég hef oft snúið við. Kannski hef ég teflt á tæpasta vað. Þá geri ég það ennþá, en á annan hátt. Ég veit ekki hvort ég get útskýrt þetta fyrir öðrum. Það er öðru vísi og einhvern veginn ber ég meiri virðingu fyrir lífinu.“ Fjársjóðir landsins liggja undir En það er ekki einasta, að Raxi hafi einbeitt sér að því að mynda fólkið í landinu. Hann hefur líka birt lesendum Morgunblaðsins landið í allri sinni dýrð. Í þeim hópi eru mjög minnisstæðar þrjár greinar, sem hann vann fyrir Morgunblaðið; Landið sem hverfur, þar sem hann lýsti í máli og myndum því landsvæði, sem fara mun undir Hálslón Kárahnjúkavirkjunar. Og hann hefur verið víðar á ferð. „Það stingur í hjartað að horfa upp á það, hvernig menn ganga á landið okkar. Satt að segja er það með ólíkindum, hvað margir staðir, sem liggja undir, eru fjársjóðir landsins. Ég nefni bara Langasjó. Þetta bláasta og fallegasta stöðuvatn á jörðunni, ætla menn að gera að drullupolli með því að veita Skaftá í hann og svo á að dæla honum yfir í Tungnaá. Ég var þarna á ferð um daginn og hitti mann á vatnsbakkanum. Þegar ég sagði honum, hvað ætti að gera, þá hvítnaði hann allur í framan og hvæsti: Það er kominn tími til að hætta öllu kurteisishjali við þessa menn. Við verðum að spyrna við fótum. Mér þykir vænt um að hitta svona menn. En ég furða mig oft á því, hvað Íslend- ingum upp til hópa er sama um landið. Ég fyrir mitt leyti vil ekki, að börnin mín fái reikning fyrir meira rugli á þessu sviði. Verðmæti íslenzkra náttúrperla er mun meira en menn gera sér grein fyrir.“ Bítlarnir voru bezta klukkan Bókin Andlit norðursins hefur verið nokkuð lengi á leiðinni. Til þess liggja ýmsar ástæður, en Raxi þurfti meðal annars að tvígera myndirnar og varð þá að hlusta á Bítlalög í ár. „Þetta með Bítlana kom þannig til, að þegar maður er að framkalla, þá hefur mað- ur við höndina klukku, því lýsingin þarf að vera svo nákvæm. Ég átti enga klukku en komst upp á lagið með að nota bítlalög til að telja fyrir mig. Reyndar prufaði ég líka Rolling Stones, en þeirra tónlist var einhvern veginn öðruvísi, hraðari, þannig að þeir eyðilögðu heilmikið af pappír fyrir mér. Bítlarnir voru því mín klukka. Það tók mig hálft ár að gera myndirnar og ég var auðvitað orðinn anzi brattur í Bítlunum, þegar það var liðið! Myndirnar sendi ég svo á sýningu í New York. Þar settu menn á sig hvíta hanzka áður en þeir snertu á myndunum, en þegar þær komu heim aftur, tóku tollararnir bara á þeim með fitugum fingrum og settu brot í þær svo ég varð að gera þær allar upp á nýtt. Það kostaði annað hálft ár með Bítlunum!“ – Og hvaða Bítlalag heldurðu þá mest upp á? „I'll follow the sun.“ Loftmyndir, og auðvitað svarthvítar Nú þegar norðurhjari Ragnars Axelssonar lítur dagsins ljós á bók, liggur beint við að spyrja, hvort hann sé kominn með nýtt verkefni í fangið. „Þessi bók átti að vera komin út fyrir löngu. Það voru ýms ljón í veginum; satt að segja vissi ég ekki að það væru svona mörg ljón á Íslandi! En á meðan öfluðu mynd- irnar mér verðlauna og viðurkenningar erlendis. Segir ekki máltækið, að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi? Það á greinilega við um ljósmyndara líka! En nú sé ég fyrir endann á þessu. Og ég er mjög sáttur við útkomuna, eins og hún er, og bæði stoltur og glaður, þegar ég fletti bókinni. Og þá get ég svo sem sagt þér frá nýjustu dellunni minni. Ég er að safna loftmynd- um, svarthvítum auðvitað, sem eru allt öðru vísi en það sem ég hef gert áður.“ Þar með er Raxi þotinn út í daginn, með linsuna á lofti. | freysteinn@mbl.is M or gu nb la ði ð/ Ó la fu r K . M ag nú ss on Raxi á flugi yfir Langasjó; bezta og bláasta stöðuvatni á jörðunni. L jó sm yn d: H ar al du r Þ ór S te fá ns so n

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.