Morgunblaðið - 31.03.2005, Blaðsíða 28
28 FIMMTUDAGUR 31. MARS 2005 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
Þ
að féllu mörg gullkorn í
beinni útsendingu
fréttastofu Stöðvar 2
frá komu Bobbys
Fischers til Íslands í
síðustu viku. „Þetta var glæsileg
lending hjá flugmanninum,“ sagði
Ingólfur Bjarni. „Geturðu veifað
okkur Páll [út um glugga flugvél-
arinnar]. Við sjáum vel inn um
gluggann,“ sagði Kristján Már
Unnarsson.
Guðmundur Steingrímsson,
pistlahöfundur Fréttablaðsins, tal-
aði um að hann hefði fengið „bjána-
hroll“ við að horfa á þessa útsend-
ingu. Hann var ekki einn um það.
„Og hann er væntanlega á leið-
inni í rúmið núna,“ sagði Ingólfur
Bjarni. Fékk Fischer þó til sín aftur
nokkru síðar, þá höfðu stöðvarmenn
ekið um með hann stundarkorn til
að hrista af sér aðra fréttamenn.
Var Bobby Fischer raunverulega
frjáls maður meðan á þessum bíltúr
stóð? Vissi hann hvað til stóð, þ.e. að
það átti að aka honum aftur út á
flugvöll þar sem fréttamaður Stöðv-
ar 2 beið? Ef hann vissi það ekki, ef
hann áttaði sig ekki á því að það var
alls ekkert verið að aka honum heim
á hótel; má þá ekki halda því fram
að völdin hafi verið tekin af honum?
Ef Fischer vissi ekki hvað til stóð
var hann þá ekkert undrandi yfir
því að vera kominn aftur á sama
stað, þ.e. út á Reykjavíkurflugvöll,
þrátt fyrir að hafa verið inni í bíl í
dágóða stund?
Maður skyldi ætla það.
Ég fullyrði ekkert um svör við
þessum spurningum en þær leita á
mig. Mér þætti alvarlegt ef Bobby
Fischer hefði verið leystur úr prís-
und í Japan til þess eins að vera
gerður að sirkusdýri íslenskrar
sjónvarpsstöðvar.
Í vinstra horni sjónvarpsskjásins
í útsendingu Stöðvar 2 stóð „Fisc-
her kemur heim“. Þetta var yf-
irskrift hinnar beinu útsendingar.
„Welcome home, Bobby,“ stóð líka
á spjöldum sumra þeirra sem voru
komnir út á flugvöll til að fagna
skáksnillingnum fyrrverandi.
En var Bobby Fischer að koma
heim? Hefur hann einhvern tímann
átt heima á Íslandi? Hefur hann yf-
irhöfuð í hyggju að eiga heima á Ís-
landi? Auðvitað tengist íslenskur
ríkisborgararéttur mannsins ekkert
heimili hans – nema ríkisborg-
ararétturinn hafi verið skilyrtur því
að hann byggi á Íslandi.
Svo var auðvitað ekki.
Það berast fréttir af því að
Bandaríkjamenn muni hugsanlega
kefjast framsals Fischers af íslensk-
um stjórnvöldum. Fram kom raun-
ar í Morgunblaðinu í gær að Davíð
Oddsson utanríkisráðherra hefði
sagt að Íslandi bæri ekki skylda til
að verða við framsalskröfu nema
brotið sem krafan beindist að væri
jafnframt brot gegn íslenskum lög-
um. En hvað ef Bandaríkjamenn
ákæra Fischer fyrir brot á skatta-
lögum eða lögum um pen-
ingaþvætti, eins og kom fram að
væri til skoðunar vestra; hvað gerist
þá?
Spyr sá sem ekki veit.
Er kannski hugsanlegt að Fisch-
er muni þurfa að setjast að í ein-
hverju landi, sem hefur alls engan
framsalssamning við Bandaríkin?
Flest Evrópuríki hafa að vísu
slíkan framsalssamning við Banda-
ríkin, það á þó ekki við um Rússland
og Úkraínu, svo dæmi séu tekin.
Þessar vangaveltur eru kannski
út í hött, um þetta veit ég ekkert og
kemur í sjálfu sér ekki við. Bobby
Fischer er opinber persóna, hann á
samt rétt á einhverju einkalífi eins
og aðrir. Það er hans mál að ákveða
hvar hann á heima, ekki okkar Ís-
lendinga.
Jafnvel þó að Bobby Fischer til-
heyri nú hinni íslensku þjóð skv.
laganna hljóðan.
Það má annars segja að timb-
urmenn þeirrar ákvörðunar Alþing-
is, að veita Bobby Fischer rík-
isborgararétt, séu hafnir.
Ákvörðunin fordæmd í leiðara The
Washington Post, hvorki meira né
minna. Erlendir fjölmiðlar leitast
svo við að útskýra hvers vegna Ís-
lendingar leggi slíka lykkju á leið
sína til að hjálpa þessum manni.
Skilja ekki neitt í neinu, víðast hvar
annars staðar hafi Fischer komið
sér út úr húsi.
Þvílík upphefð fyrir litla Ísland.
Öll upphefð kemur að utan, eða svo
segir sagan.
Mig grunar að okkur líði bara vel
yfir allri þessari athygli, okkur þyk-
ir bara gaman að geta storkað stór-
veldinu. Bobby Fischer kom okkur
á kortið 1972 og nú hefur hann gert
það aftur. Persónulega er ég samt
ekki á þeirri skoðun að þetta sé eitt-
hvert sérstakt fagnaðarefni.
Menn segja að íslensk stjórnvöld
og Alþingi hafi ákveðið að hjálpa
Bobby Fischer af mannúðarsjón-
armiðum.
Vissulega var undarlegt að hon-
um skyldi haldið í fangelsi í Japan í
marga mánuði án ákæru. Það var í
sjálfu sér gott að geta bjargað hon-
um þaðan. Ég hef hins vegar
skömm á þeim sjónarmiðum sem
hann hefur látið í ljós og vona að
það eigi við um flesta Íslendinga.
Á Íslandi gildir skoðanafrelsi.
Skoðanafrelsi þýðir samt ekki að
mönnum sé frjálst að segja hvað
sem er. Frelsi fylgir ábyrgð.
Það gengur sannarlega ekki að
segja, líkt og Guðrún Ögmunds-
dóttir, þingmaður Samfylking-
arinnar, gerir í viðtali við Frétta-
blaðið sl. þriðjudag að sjálfur sé
Bobby Fischer gyðingur og að þess
vegna gildi það einu „hvaða skoð-
anir hann hefur á eigin kynþætti“.
Kynþáttafordómar eru kynþátta-
fordómar, svo einfalt er það. Bobby
Fischer getur ekki sagt hvað sem
hann vill um gyðinga bara út af því
að hann er sjálfur gyðingur (muna
ber í þessu sambandi að Fischer
neitar sjálfur að kannast við að vera
gyðingur). Það kemur ekki til
greina að menn horfi í gegnum fing-
ur sér með það, að hann viðhafi
ærumeiðandi ummæli, gerist sekur
um kynþáttafordóma, bara af því að
hann er Bobby Fischer og af því að
hann tefldi nokkrar skákir við Borís
Spasskí hér á Íslandi fyrir þrjátíu
árum eða svo.
Upphefð
Íslendinga
Það má annars segja að timburmenn
þeirrar ákvörðunar Alþingis, að veita
Bobby Fischer ríkisborgararétt, séu hafnir.
Ákvörðunin fordæmd í leiðara The Wash-
ington Post, hvorki meira né minna.
david@mbl.is
VIÐHORF
Davíð Logi Sigurðsson
ÍSLANDSVINURINN hefur rétt
fyrir sér í þessu efni eins og svo
mörgum öðrum. Hins-
vegar ber að skoða það
að skömmtunin er
samskonar hvort sem
hún er mæld í klukku-
stundum eða kílóum.
Öll stjórnun sem lýtur
að skerðingu er
skömmtun, e.t.v. væri
nær að tala um hafta-
stefnu. Þegar út í það
er farið er öll stjórnun
argasti sósíalismi horft
frá sjónarhóli yfirlýs-
ingaglaðs stjórnleys-
ingja. Nafnið skiptir
ekki höfuðmáli þegar
eðlið er eitt og hið sama. Hvort sem
um er að ræða aflamark eða sókn-
armark, þá er hámark til staðar sem
ekki er skynsamlegt að virða að vett-
ugi. Það má vera ljóst að rígur og tog-
streita hverfa ekki eins og dögg fyrir
sólu við nafnbreytingu, á fisk-
veiðistjórnuninni einni. Þó að hlutföll
eða hlutverk breytist verður úlfúð
ekki eytt. Nýir menn í nýrri aðstöðu
kunna að segja nýja hluti en tor-
tryggni verður sennilega enn til stað-
ar.
Þeir eru margir sem fundið hafa
aflamarkskerfi margt til foráttu. Of
oft er gagnrýni á vinnubrögð og fiski-
fræði Hafrannsóknastofnunar, hér
eftir Hafró, blandað saman við gagn-
rýni á fiskveiðistjórnarkerfið. Fisk-
veiðistjórnarkerfið er ekki hugarsmíð
fiskifræðinga á Hafró. Tillaga um
kvótaskiptingu við þorskveiðar kom
fyrst fram á Fiskiþingi 1978. Fyrir
liggur og auðsýnt er að frumvarp um
aflamarkskerfi var ekki samþykkt á
Alþingi fyrr en að lokinni umræðu á
Fiskiþingi. Ári síðar kom fram ósk
frá hagsmunaaðilum um framleng-
ingu kerfisins.
Komist fróðir menn, hvort sem
þeir vinna hjá Hafró eða á eigin veg-
um, að því hve stórir fiskistofnarnir
eru, má gera ráð fyrir að þeir hinir
sömu telji að veiða megi
eitthvert ákveðið hlut-
fall hvers stofns fyrir
sig án þess að ganga of
nærri stofninum. Þá er
einfaldara að gefa ráð-
leggingu sem miðar við
massa fremur en tíma.
Vilji menn stjórna fisk-
veiðum, takmarka að-
ganginn, er hentugra að
nota eina og sömu að-
ferð við að stýra veiðum
í sama stofn sem og
stofna sem svamla um á
sama tíma um sömu
svæði. Líkt og með fjöl-
breytt fyrirkomulag skattlagningar
virkar fjölbreytt form fiskveiðistjórn-
unar illa. Líkur á undanskotum og
lögbrotum aukast með auknum fjölda
undanþága. Það kynni ekki góðri
lukka að stýra þorskveiðum út frá
lönduðum lífmassa en ýsu miðað við
tíma lengd sem skip væru að veiðum.
Ef menn eru yfirhöfuð ásáttir um
það að útlitið fyrir sjávarútveginn
hafi ekki verið bjart þegar auðsýnt
þótti að flotinn var stærri en nokkru
sinni áður og sóknargetan meiri, á
svig við fyrirheit um útfærslu land-
helginnar til verndunar fiskistofn-
anna hafi sókn aukist, Hafrann-
sóknastofnun gaf út svarta og
kolsvarta skýrslu um ástand fiski-
stofnanna, Íslenskur sjávarútvegur
hafði brennt sig á ofveiði síldar, sam-
fara kólnun sjávar.
Þá hljóta menn að sjá að eitthvað
þurfti að gera fyrr en síðar. Þá
reyndu menn að komast að sam-
komulagi, það var ekki hlaupið að því,
en meiri hluti þingmanna studdi upp-
hafleg áform um aflamarkskerfi þá
sagði þáverandi sjávarútvegs-
ráðherra markmiðið vera að „kapp-
hlaupið yrði sem minnst um að ná afl-
anum, kostnaðurinn sem minnstur og
áhuginn fyrir því að gera sem mest
verðmæti úr þessum afla verði sem
mestur“. Þannig hófst 20 ára törn
hvar reynt var að breyta og bæta
fiskveiðistjórnkerfið, að því ferli hafa
margir komið og sennilega hafa enn
fleiri einhverja skoðun á því. Lífið í
hafinu er líkt og á landi marg-
breytilegt og illmögulegt að segja
með fullri vissu hvað komi til með að
gerast á morgun. Við þurfum eftir
sem áður að búa sem best í haginn
fyrir morgundaginn, það gerum við
ekki með ásökunum um landráð eða
algjöru afskiptaleysi gagnvart þeim
sem eru á öndverðum meiði heldur
með samstarfi. Sínum augum lítur
hver á silfrið, ef menn stunda skot-
grafahernað þá er hætt við að stríð-
andi aðilar fjarlægist sannleikann
fremur en að nálgast hann, á því þurf-
um við ekki að halda.
Kílógramm eða klukkustund
Arnljótur Bjarki Bergsson
fjallar um stjórnun fiskveiða ’Lífið í hafinu er líkt ogá landi margbreytilegt
og illmögulegt að segja
með fullri vissu hvað
komi til með að gerast á
morgun.‘
Arnljótur Bjarki
Bergsson
Höfundur er sjávarútvegsfræðingur
og formaður Hins íslenzka sjáv-
arútvegsfræðafélags.
„Kvótaskipan er skammtan,
skammtan er sósíalism og sósíalism
er tað svarta búskaparliga.“
Óli Breckman, þá þingflokksformaður
Fólkaflokksins, maí 2001.
Ellegar í lauslegri yfirfærslu:
Kvótakerfi er skömmtun, skömmtun
er sósíalismi og sósíalismi er svart-
hol hagfræðinnar.
FÓLK sem ég hitti segir stundum
við mig „ég er alltaf á leiðinni að fara
að hreyfa mig … en það er bara eitt
...“ og svo kemur afsökun fyrir því af
hverju viðkomandi er ekki nú þegar
byrjaður að hreyfa sig
reglulega. En hverjar
eru helstu afsak-
anirnar fyrir því að æfa
ekki reglulega og að
hægt sé að taka þessar
afsakanir gildar?
Hér á eftir fara vin-
sælustu afsakanirnar
fyrir því að æfa ekki
reglulega. Þetta eru lé-
legar afsakanir og
greinarhöfundur tekur
undir orð Covert Bai-
ley sem er mikill sér-
fræðingur á sviði
heilsuræktar í Bandaríkjunum.
Hann segir „Það er ekki til nein gild
afsökun fyrir því að æfa ekki reglu-
lega!“
1. Ég er slæm/ur í baki: Lykillinn
að sterku baki eru nokkrir djúplægir
kviðvöðvar sem liggja eins og
korselett um miðjuna á okkur. Þess-
ir vöðvar eru undirstaða styrks í
baki og vernda gegn bakmeiðslum.
Ef þú ert með veikt bak ættirðu að
vinna að því að styrkja þessa vöðva.
Ef þú þjáist vegna meiðsla er ekki
endilega nauðsynlegt að hætta öllum
æfingum heldur kann að vera að
nauðsynlegt sé fyrir þig að breyta
um áherslur í æfingunum í samræmi
við ráðleggingar læknis.
2. Ég er of þreytt/ur: Svo fram-
arlega sem þú ert ekki verulega van-
svefta eða nýkomin(n) úr fjarlægu
tímabelti er engin ástæða til að
sleppa æfingu þegar þú finnur fyrir
þreytu. Þjálfun mun einmitt hressa
þig við. Rösk ganga í 10 mínútur get-
ur gefið þér allt að tvær klukku-
stundir af aukinni orku. Ef þú átt
kost á er gott að æfa á morgnana því
þá er orkan mest hjá mörgum eftir
góða næturhvíld. Gættu líka að því
að þú borðir nóg. Láttu ekki líða
marga tíma á milli máltíða og fáðu
þér kolvetnaríka fæðu
klukkustund fyrir æf-
ingu, t.d. banana.
Drekktu einnig nóg af
vatni, það getur hresst
þig við
3. Ég hef ekki tíma:
Margir æfa ekki því
þeir telja sig ekki hafa
tíma í annríki dagsins.
En góð æfing fram-
kallar aukna orku og
framkvæmdagleði. Þú
finnur fyrir minni
streitu, ert skýrari í
kollinum og færð skýr-
ari sýn á hlutina. Þú einfaldlega
kemur meiru í verk ef þú æfir. For-
gangsraðaðu því betur, finndu tíma
til að hreyfa þig og þú afkastar
meiru.
4. Ég hef ekki efni á því að æfa:
Hreyfing þarf ekki að kosta krónu.
Farðu út að ganga, skokka eða hjóla.
Hitt er annað mál að æfingar í lík-
amsræktarstöð setja ákveðinn aga á
viðkomandi og þar er mests árang-
urs að vænta. Kaup á langtímakorti í
líkamsræktarstöð eru bestu kaupin
og geta auk þess verið tímarammi
utan um sett langtímamarkmið. Þú
getur einnig fjárfest fyrir lítinn pen-
ing í æfingamyndbandi og gert æf-
ingar heima í stofu. Finndu fastan
tíma, 30–60 mín. 5x í viku, og láttu
ekkert hafa áhrif á að þú svíkist und-
an!
Þegar viðkomandi segjast ekki
hafa efni á því að fara í líkamsrækt-
arstöð mættu viðkomandi einnig
velta fyrir sér forgangsröð varðandi
eyðslu.
5. Ég fæ alltaf eymsli og lík-
amlega vanlíðan eftir æfingar: Þá
er ástæðan sú að þú byrjar of geyst.
Þú átt ekki að þurfa að ofreyna þig
til að ná árangri. Þegar þú stundar
þolþjálfun er þumalputtareglan sú
að þú getir haldið uppi samræðum
við aðra á meðan. Þú átt ekki að vera
móð(ur) og másandi við æfingarnar.
Í styrktarþjálfun er nauðsynlegt að
þú takir á – öðruvísi nærðu ekki ár-
angri. Notaðu þyngstu lóð sem þú
getur lyft 12–16 sinnum. Það er góð-
ur mælikvarði á þyngd til að nota.
Þú átt að finna til smávægilegs
bruna eða hita í vöðvum en alls ekki
stingandi sársauka.
6. Ég sá engan árangur og hætti:
Þjálfun er lífsstíll. Þú breytir ekki
lífi þínu á einum degi. Byrjaðu með
lítil markmið. Fljótlega ferðu að
finna þá auknu vellíðan sem fylgir
því að æfa reglulega. Eftir 2–3 mán-
uði ferðu svo að sjá verulegar breyt-
ingar á líkama þínum. Þú verður að
gefa þér tíma til að sjá árangurinn.
En líttu á útlitsbreytingar sem bón-
us. Besti ávinningurinn fyrir þig er
bætt heilsa og betri líðan.
Já, það er ljóst að afsakanirnar
fyrir því að æfa ekki reglulega halda
illa eða alls ekki.
Það er ekki ástæða til annars en
að drífa sig af stað og byrja að
stunda reglubundna þjálfun í dag!
Topp 6 afsakanir
fyrir að æfa ekki
Ágústa Johnson fjallar um
gildi líkamsþjálfunar ’Það er ekki til nein gildafsökun fyrir því að æfa
ekki reglulega!‘
Ágústa Johnson
Höfundur er framkvæmdastjóri
Hreyfingar.