Morgunblaðið - 15.05.2005, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 15.05.2005, Blaðsíða 6
6 | 15.5.2005 Þ etta byrjaði þannig að ég hafði lengi verið tónlistarkennari og langaði til að skipta um starf,“ segir Anna Ragnhildur Ingólfsdóttir, sem þýðir og gefur út bækur sænska metsöluhöfundarins Lizu Marklund hér á landi. „Mig lang- aði til að prófa að þýða eitthvað eftir norræna höfunda. Ég hafði búið í Svíþjóð um árabil og tekið eftir hvað til voru margir góðir höfundar á Norðurlöndunum sem ekki eru gefnir út á Íslandi. Til dæmis Liza Marklund, ég hafði lesið Sprengivarginn og fannst tilvalið að byrja á henni. Mér datt reyndar fyrst í hug að stofna eigið fyr- irtæki um þetta, en fannst svo að það yrði kannski of stór biti fyrir mig og kynnti því höfundinn bókaútgáfunni Máli og menningu. Þar var samþykkt að gefa hana út og að ég myndi þýða bækurnar.“ Einyrkinn ARI | Mál og menning gaf út fyrstu þrjár sakamálasögurnar sem Anna þýddi eftir Lizu Marklund, en þegar hún var að byrja á þeirri fjórðu fannst henni að útgáfumálin væru ekki í þeim farvegi sem hún helst kysi. „Ég get auðvitað bara sagt frá þessu máli eins og það sneri við mér. En það voru miklar skipulagsbreytingar í gangi hjá Eddu útgáfu, en Mál og menning er eitt af forlögunum í þeirri samsteypu, og varð til þess að útgáfuáætlanir riðluðust og jafnvel ekki víst að haldið yrði áfram að gefa út bækur Lizu. Ég fékk mjög óljós svör þegar ég spurði hvað ætti að gera, sem kom mér afar illa því ég var þá farin að líta á þetta sem mína að- alvinnu. Það var þó ekki bara mín eigin fjárhagsafkoma sem var orðin ótrygg, mér fannst ég líka skuldbundin Lizu og fjölmörg- um lesendum hennar hér á landi. Ég lét þá í veðri vaka að ég hefði áhuga á að gefa bækurnar út sjálf. Ég talaði við Bengt Nordin, umboðsmann Lizu, sem sagðist ætla að ræða þetta við hana, enda hefð fyrir því að þýðendur haldi sínum höfundum, og öfugt, nema eitthvað rosalegt gerist. Ég fór raunar til annarra útgefenda hér heima, en þeir vildu ekki taka þátt í þessu með mér. Þetta endaði með því að Bengt Nordin sagði það eindreginn vilja Lizu að ég sem þýðandi hennar gæti einnig gefið bækur hennar út hjá mínu eigin fyrirtæki, og svo spurði hann mig hvað það héti. Ég var hvorki búin að stofna fyrirtækið né finna á það nafn, en svaraði bara umhugs- unarlaust: ARI – sem eru upphafsstafirnir í nafninu mínu.“ Og núna hefur ARI gefið út þrjár þýðingar Önnu á bókum Lizu Marklund, tvær sakamálasögur og heimildaskáldsöguna Hulduslóð, sem er fyrsta bók hennar og fjallar um heimilisofbeldi, skrifuð með fórnarlambinu Miu Eriksson og kom út árið 1995. „Þetta hefur gengið alveg prýðilega,“ segir Anna um reksturinn. „Bækurnar seljast vel og ég vissi svo sem að þær myndu gera það, lesendahópur Lizu hér á landi gerir ekkert nema að stækka. Bækurnar hafa allar verið ofarlega á sölulistum, meira að segja sú síðasta, Hulduslóð, sem er ekki hefðbundinn krimmi eins og hinar.“ En margt hlýtur þó að hafa komið henni á óvart við að gerast útgefandi á eigin þýðingum? „Ja, þegar ég hafði ákveðið að stofna þetta fyrirtæki settist ég niður og velti rækilega fyrir mér hvernig þetta væri allt saman gert. Ég hef fengist við ýmislegt um dagana sem kom mér til góða, eins og þegar ég vann á tónlistardeildinni á gömlu Gufunni og þurfti að semja kynningarefni fyrir þættina sem ég gerði. Nú, ég sá að ég þyrfti að fá mér góðan kápuhönnuð, sem er Pétur Baldvinsson og hann benti mér á Diljá Þórhallsdóttur sem brýtur bækurnar um og annast vefsíðuna www.ariutgafa.- net. Svo þetta er ekki bara ég ein. Varðandi dreifinguna hringdi ég í Bryndísi hjá Pennanum-Eymundsson og hún gaf mér góð ráð. Þetta hefur sem sé gengið nokk- urn veginn eins og ég sá fyrir. Eitt hefur þó komið mér skemmtilega á óvart og það var að kynnast starfsfólki bókabúðanna, enda keyri ég sjálf pantanirnar út á höf- uðborgarsvæðinu. Ég lendi yfirleitt á löngum kjaftatörnum í hverri búð og það ánægjulega er að fólkið er ekki bara þarna til að selja einhverjar bækur, það er miklu meira inni í hlutunum en ég átti von á, er vel lesið og miðlar manni af fróðleik sínum.“ Liza er mikil nútímamanneskja | Liza Marklund fæddist árið 1962 og hafði starfað við blaðamennsku og sjónvarpsþáttagerð um langt árabil áður en hún fór jafnframt að skrifa bækur. Hún hef- ur alltaf verið mjög virk í þjóðfélagsumræðunni og notar form sakamálasögunnar til að kryfja þau mál sem á henni brenna, iðu- lega þær myndir sem kúgun og ofbeldi í garð kvenna getur tekið á sig. „Liza er mikill femínísti,“ segir Anna, „en horfir þó ekki á heiminn með þeim ein- földu gleraugum að allir karlmenn séu vondir. Mér finnst hún í bókum sínum vera að reyna að komast að því hvað býr að baki þegar fólk fremur óhæfuverk. Hún bein- ir mikið athyglinni að konum og börnum, því þau verða oftast fyrir hinu líkamlega ofbeldi. En karlarnir hafa það heldur ekki of gott í sögum hennar. Mér finnst hún þannig fyrst og fremst vera nútímamanneskja, bækur hennar fjalla um fólk sem mað- ur getur rekist á næst þegar maður fer út að versla. En þetta eru vissulega oft rosaleg- ir hlutir og ég hef heyrt karla segja: Er Liza Marklund ekki rosalega frek? Er hún gift ennþá? – Já, hún er gift, segi ég, og mjög viðkunnanleg eins og við fengum að kynn- ast þegar hún heimsótti Ísland í fyrra.“ Anna situr nú við að þýða bókina Friðland, sem er framhald Hulduslóðar og ætlar að gefa hana út í haust. „Hvað þá tekur við verður bara að koma í ljós,“ segir hún. „Ég verð þá búin að þýða allar bækur Lizu Marklund og verð því að bæta við mig öðrum höfundi, þar sem tilvera fyrirtækisins byggist á því að gefa út tvær bækur á ári. Ég veit bara að ég ætla að halda áfram því þetta er svo spennandi og skemmti- legt.“ | pallkristinn@internet.is ARI þýðir og gefur út sænska metsöluhöfundinn á Íslandi Bækur Lizu Marklund á íslensku: Sprengivargurinn – 2001 Stúdíó sex – 2002 Paradís – 2003 Villibirta – 2004 Úlfurinn rauði – 2004 Hulduslóð – 2005 Allt að gerast í skottinu hjá Önnu, sem þýðir, gefur út og dreifir. Er þessi Liza Marklund ekki rosaleg frekja? L jó sm yn d: K ri st in n In gv ar ss on

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.