Morgunblaðið - 15.05.2005, Blaðsíða 10
10 | 15.5.2005
málin reiprennandi. Auk þess að skrifa eigin ljóð og prósa, þýðir hún texta annarra á
milli málanna þriggja, íslensku, sænsku og spænsku eftir atvikum. Hún ritstýrði m.a.
sýnisbók íslenskra bókmennta, Aurora, sem kom út í Svíþjóð fyrir fáeinum árum. Þá
heitir hennar nýjasta ljóðabók Lífið er tangó. Nema hvað?
Í Chile hefur Helen dvalið í tvígang með dætrum sínum. „Upphaflega átti þetta að
verða puttaferðalag en breyttist í búferlaflutninga. Ég kenndi stelpunum heima við
og þær tala báðar spænsku, eins og sænsku. Nú er Svanhildur tvítug en Elsa 25 ára og
hún á soninn Jaheim. Þær búa báðar í Svíþjóð.“
Svo kom Argentína inn í myndina. Nýlega fór Helen til Argentínu í þriðja skiptið á
einu ári þegar hún fékk styrk til þess að þýða argentínsk tangóljóð á sænsku. Unnusti
hennar, Miguel Romero, er Argentínubúi og virkur í tangómenningunni þar syðra.
Hann rekur tvo tangóstaði í Buenos Aires og Helen er nú orðin jafnoki hans að því
leyti að hún rekur tangóstaðinn La Vikinga og keypti nýlega helminginn í öðrum
stað, Rouge, sem er „þekktasti tangóstaður heims á fimmtudögum!“ eins og hún
kemst að orði. „Fólkið fór fljótlega að kalla mig la vikinga – sumir vita jafnvel ekki
enn hvað ég heiti,“ segir Helen og kveður það hafa verið röggsemi norrænu kon-
unnar, sem réð nafngiftinni. Og hún hefur sannarlega hrist upp í tangóheimi borg-
arinnar á stuttum tíma, þótt hún vilji ekki gera úr því hetjusögu. „Það var lang-
tímamarkmið mitt að flytja til Buenos Aires. Þegar ég var þar í mars síðastliðnum
ákvað ég að flytja í nóvember og opna þá tangóstað. En kærastinn minn sagði við
mig: Af hverju ekki núna? Og þar sem ég er svolítið skrýtin, sagði ég já.“ Þetta kom
mörgum í opna skjöldu. „Þegar ég keypti staðinn voru liðnar
tvær vikur síðan ég kom til Buenos Aires. Fólk hristi bara höf-
uðið og tautaði: Sos loca!“
Tónlist fyrir hjartað | Tangóstaðir í Argentínu kallast milonga og á
hverjum vettvangi geta verið fleiri en einn „staður“, að sögn Hel-
enar. Unnusti hennar rekur þannig tvo mismunandi „staði“, ann-
an á þriðjudögum og hinn á sunnudögum, á vettvangi sem heitir
Sabor a Tango. „Svo rek ég minn stað, La Vikinga, á mánudög-
um og ég kalla hann anti-milonga, því hann er óhefðbundinn að
mörgu leyti. Við erum ekki með hefðbundinn tangó heldur nú-
tíma- og elektró-tangó. Jafnvel tónlist sem er ekki einu sinni
tangótónlist, en samt hægt að dansa tangó við.“ Dagskráin er
fjölbreytt, stundum eru danssýningar en einnig lifandi tónlist,
enda koma gestirnir fyrst og fremst til að dansa sjálfir. „Við erum
með þekktustu tangóhljómsveitir Argentínu. Svo stefnum við að stórri fiesta einu
sinni í mánuði, á þeirri fyrstu verða tangótískusýning, loftfimleikar, hljómsveitin Nar-
cotango og fleira.“
En það er ekki aðeins með uppbroti á hinni klassísku milonga sem Helen hefur
sýnt djörfung. Nýlega skrifaði hún grein í tangóblaðið El Tangauta, sem birtist undir
yfirskriftinni Revolución femenina (Kvennabylting). „Í Argentínu bjóða konur ekki
upp í tangó. Þegar ég kom, norræna konan, byrjaði ég að bjóða upp mönnum sem
höfðu boðið mér upp og það vakti athygli.“ Hún útskýrir að konur sitji alla jafna í
röð, eins og bekkjarrósir, og bíði þess sem verða vill. „Mér finnast þetta ekki mjög
sniðugar reglur, en ég virði þær og finnst stundum gaman að þeim. Hins vegar finnst
mér, árið 2005, tími til kominn að hleypa jafnrétti inn í þennan heim og datt í hug að
nauðsynlegt væri að starta byltingu í tangóheiminum í Buenos Aires.“ Helen hlær,
bendir á að tangóstaðir þar séu 130 talsins og hefðirnar víða rótgrónar. „Og auðvitað
skrifaði ég þessa grein sem próvókasjón, en inntakið er sem sagt að slappa aðeins af.
Oft dansa nefnilega karlarnir við okkur til þess eins að sýna hvað þeir eru klárir og
gleyma að þeir eru með viðkvæma veru í höndunum. Versta sem ég veit er karl sem
býður mér upp og stjórnar mér svo eins og ég væri traktor. Í tangó þarf ekki að stýra
með valdi og það myndu karlarnir skilja ef þeir dönsuðu stundum kvenhlutverkið.
Eins myndum við skilja ýmsa erfiðleika þeirra ef við prófuðum að dansa sem karlar.“
Greinina endar Helen á að segja: „… óttist eigi, ég mun alltaf taka dansherra fram yf-
ir konu!“ Hún segist hafa fengið mikil og skemmtileg viðbrögð við greininni og von-
ast nú til þess að gagnkvæmur skilningur kynjanna aukist í tangóheiminum. Sem er
samhljóða svarinu við spurningunni um hvað sé svona skemmtilegt við tangó: „Fyrir
mér er það tónlistin, hún talar til mín. Að dansa við góða tónlist er eitthvað sem nær
alveg að hjarta- og sálarrótum. Og maður verður að tengjast dansfélaga sínum og tón-
listinni, annars gengur dansinn ekki upp.“
Þótt fólk gangi á hólm við gamla hefð, þarf það ekki að jafngilda niðurrifsstarfsemi.
Helen segist á tangóstaðnum sínum, La Vikinga, ná til unga fólksins í gegnum óhefð-
bundnu tónlistina – þess vegna hljóti að vera bjart framundan. Og aðsóknin er góð sem
næst með því að Helen fer sjálf út af örkinni með flugrit og tekur persónulega á móti
fólkinu sem mætir. „Maður þarf að vera sýnilegur meðan verið er að byggja upp traust
og ímynd. Fólk vill vita hverjir reka staðina sem það sækir.“ Herma heimildir að hún sé
fyrsti útlendingurinn og ein alfyrsta konan sem opnar tangóstað í höfuðborginni. Og
svo dansar hún sjálf. „Við Miguel erum kannski svolítið extrím, þegar okkar stað lokar
förum við á næsta stað, þaðan í salsa eða á karabískan stað, þannig að kvöldmaturinn
frestast stundum til átta að morgni.“ Allt í takti við tímaskyn Argentínubúa, sem á betur
við lífsklukku Helenar en hið sænska.
Ísland togar og sleppir | Fyrir rúmum áratug gerði Helen til-
raun til þess að búa heima á Íslandi á ný, ásamt dætrunum.
„Þá fundum við mikið fyrir smæð landsins. Þá meina ég
bæði landsins og landans,“ segir hún og bregður höndunum
upp að augunum eins og röri. Hún notar ekki orðið þröng-
sýni, þótt hún meini það. „Ég fann þarna í fyrsta sinn að Ís-
land er eyja. Ég hafði náttúrulega alltaf vitað það, en þarna
fann ég fyrir því. Ekki hægt að skreppa til meginlandsins á
bíl, maður komst ekki einu sinni Reykjanesbrautina fyrir
ófærð. Þannig að ég flutti út aftur og þá fór búslóðin í þriðja
sinn yfir hafið.“ Ytra hefur Helen verið dugleg við að kynna
íslenska menningu í Svíþjóð. „Við skipulögðum núna síðast
tónleika með reggí-sveitinni Hjálmum, það var rosalega
gaman,“ segir hún og vísar í framtak Íslendingafélagsins.
„Það er meira að segja til sænsk glímudeild í Malmö.“ Hún
segir starf Íslendingafélagsins mikið hafa breyst, nú sé það
fyrst og fremst upplýsingaveita fyrir þá sem setjast að í Sví-
þjóð og stór hluti starfseminnar fari fram í gegnum net og
tölvupóst. „En við fundum reglulega og höfum yfirleitt ein-
hverjar uppákomur einu sinni á önn.“
Helen er að auki formaður Íslenska kvennanetverksins á
Skáni, sem er félagsskapur íslenskumælandi kvenna. Þá er
hún formaður Författarcentrum í Málmey, fyrir Suður-Sví-
þjóð, en það er ein fjögurra deilda í samnefndu landssam-
bandi, sem skipuleggur og útvegar höfundum „vinnu“ við
upplestra, kynningar og fleira, en í Svíþjóð er einnig starf-
rækt hefðbundið rithöfundasamband. „Í Författarcentrum
eru flestir félagarnir Svíar, eða skrifa í það minnsta á sænsku,
en aðrir geta einnig sótt um og verið teknir inn. Við erum
með lektora sem lesa fylgigögn umsókna á frummálinu, höf-
undarverkið er þannig metið og dæmt. Í félagsskapnum er
töluvert af höfundum sem skrifa á spænsku, arabísku, pers-
nesku – það kemur heim og saman við stærstu innflytj-
endahópana á svæðinu.“
Ljóðahátíðin í Lundi verður svo haldin í haust í fjórða sinn. „Ég kem heim [til Sví-
þjóðar] í ágúst og verð fram í september, það passar fínt fyrir hátíðina og ég mun að
þessu sinni tengja hana barnabókahátíð sem fram fer á sama tíma í Lundi.“ Spurt er
hvernig hátíðin er rekin. „Þetta er mjög lítið demókratískt sænskt – þetta er diktator-
ísk hátíð, ég ræð öllu.“ Helen hlær og útskýrir að hún hafi tekið að sér að setja hátíð-
ina á laggirnar eftir að aðrir gengu úr skafti vegna vantrúar á verkefnið. „Ég ákvað að
sýna þeim að þetta væri víst hægt.“ Þess vegna, vegna þess að hún trúir á það sem
hún gerir, er hún listrænn stjórnandi, framkvæmdastýra og alþjóðatengill í aðdrag-
anda hverrar hátíðar. Ekki fyrr en hátíðin sjálf hefst aukast mannaforráðin; vinir,
vandamenn og tæknifólk mæta til aðstoðar. „Ég hef tvær ástríður í lífinu, tangó og
bókmenntir. Allt sem ég geri tengist þessu tvennu á einhvern hátt. Ísland er alltaf til
staðar og ég kem þegar ég vil, en ég sé ekki fyrir mér að búa hérna í nánustu framtíð.
Það er mikið til veðráttan, einangrunin. En auðvitað togar landið að mörgu leyti í
mig, ekki síst að fá að búa í lifandi tengslum við móðurmálið... ég þekki mig hins veg-
ar og veit að ég myndi ekki haldast lengi við.“ | sith@mbl.is
KONA ER EKKI TRAKTOR
Við opnun tangóstaðarins La Vikinga var
mikið um dýrðir, m.a. las fim tangómær sig
niður úr loftinu við undirleik hljómsveitar.
Helen í karlmannsgervi að loknu
þemakvöldi á tangóstað hennar,
Loftet, í Málmey. Þemað var
„hlutverkaskipti“.
„Ég fann þarna í fyrsta
sinn að Ísland er eyja.
Ég hafði náttúrulega
alltaf vitað það, en
þarna fann ég fyrir því.“