Morgunblaðið - 08.07.2005, Page 39
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. JÚLÍ 2005 39
MINNINGAR
Þú með þína styrku hönd
sem leiddi okkar vinabönd.
Þín ævinlega hlýja var
er okkur hér að garði bar.
Um æfidaga langan veg
er margs að minnast, þakka þér
umhyggjunnar gleði dug
það ávallt var þér efst í hug.
Sólarlagsins roðan skín
að kveldi sérhvers dags á ný
þótt lífið áfram haldi hér
þér samfylgd þína þökkum vér.
Kveðja
Svala, Bjarni Sævar
og börn.
Já.
Sæl, amma mín, þetta er
Katla.
Sæl og blessuð, hvernig
hafið þið það? Hvað segir
Sunna Dís, er hún hress?
Finnst henni alltaf jafn
gaman á barnaheimilinu?
Ertu ánægð í vinnunni? En
Örvar? Og svona hélt hún
áfram, þangað til hún var
búin að fá að vita allt sem
hún vildi vita.
En hvað segir þú, amma
mín?
Ooh, svosem ekkert.
Bless.
Mikið á ég eftir að sakna
þeirra.
Katla Stefánsdóttir.
Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson.)
Elsku langamma, takk
fyrir okkur.
Gísli Freyr og Hjördís.
HINSTA KVEÐJAElsku besta Hadda mín. Minning-
arnar streyma fram um skemmtileg-
an tíma austur á Hornafirði og þau
forréttindi að fá að kynnast svona
góðri konu. Þú Hadda mín, systir
hennar ömmu, sem mér þótti alltaf
svo vænt um, ert farin frá okkur.
Minningarnar um allar góðu stund-
irnar austur á Hornafirði eru svo
dýrmætar. Ávallt notalegt að koma á
heimili þitt og þú tókst alltaf vel á
móti öllum. Mikill höfðingi varstu
heim að sækja og ég skil ekki enn í
dag hvernig þú fórst að því að bera
fram allar þessar kræsingar sem þú
virtist hrista fram úr erminni. Eftir
að amma flutti suður fækkaði heim-
sóknunum á Höfn en alltaf heyrði ég
í þér öðru hvoru og þú fylgdist vel
með mér og mínum. Það þótti mér
mjög vænt um. Seinast er ég hitti þig
sumarið 2003 á Humarhátíð þá
varstu svo ánægð með að fá að hitta
gullmolann minn hana Hugrúnu Ósk
sem þú hafðir aldrei séð. Hugulsemi
þín og umhyggja í garð mín og minn-
ar fjölskyldu er ómetanleg, jafnt við
gleði og sorg. Mikið er ég þakklát að
hafa kynnst þér elsku Hadda mín en
núna ertu komin á betri stað þar sem
ég veit að verður tekið vel á móti þér.
Kveð með söknuði.
Erna Sif Auðunsdóttir.
Ég var að komast á skólaaldur
þegar ég fór til dvalar á heimili
Höddu móðursystur minnar, Agga,
Stefáns og Borgþórs í nokkra mán-
uði. Ingibjörg systir mín fór til hinn-
ar móðursystur okkar, Möggu, en
þær systur bjuggu á Sólhól, hvor á
sinni hæðinni. Bróðir okkar var al-
varlega veikur og foreldrar okkar
voru langdvölum erlendis eða fyrir
sunnan. Það var ekki hægt að hugsa
sér betri heimili en á Sólhól. Dag-
urinn byrjaði snemma hjá Höddu og
hlustuðum við saman á morgunút-
varpið. Ég var að stíga mín fyrstu
skref í skólanum og hjálpaði Hadda
mér við lærdóminn. Hún kenndi mér
vísur og gátur. Ég svaf inni í svefn-
herbergi hjá Höddu og Agga. Á nátt-
borðinu hjá Agga var vekjaraklukka
sem lá á hliðinni til að hún gengi. Ég
vaknaði stundum við það á nóttunni
að Aggi, sem var vélstjóri í frystihús-
inu, fór um miðja nótt niður á
bryggju og út í frystihús til að at-
huga hvort allt væri í lagi. Þegar því
var lokið lagðist hann aftur til
svefns.
Samviskusemi og trúnaður við allt
sem Hadda og Aggi tóku sér fyrir
hendur var einstakur. Hadda hafði
mikil áhrif á mig á mínum upp-
vaxtarárum og eftir að ég stofnaði
fjölskyldu lá leiðin alltaf til Höddu og
Agga þegar fjölskyldan var á ferð-
inni fyrir austan, þar var okkur tekið
opnum örmum. Hadda fylgdist vel
með fólkinu sínu og fylgdist einnig
mjög vel með málefnum líðandi
stundar og gaman var að ræða við
hana um menn og málefni. Það er lán
að hafa átt Höddu að og þakka ég
henni fyrir allt og allt.
Við Kristín og dætur vottum Stef-
áni, Borgþóri og fjölskyldum þeirra
samúð okkar.
Helgi Óskar.
Hún var systurdóttir ömmu minn-
ar og elst af systrunum þremur. Það
var ekki oft, sem ég hitti hana hérna
fyrir sunnan. Helst var það, þegar
þau Arngrímur áttu eitthvert erindi í
bæinn, og þá komu þau að sjálfsögðu
ævinlega heim á bernskuheimili mitt
til að hitta okkur, sérstaklega þó
ömmu mína.
Hrafnhildur var ákaflega trygg-
lynd og frændrækin. Eftir að móðir
mín lést, þá hringdi hún jafnaðarlega
í mig til að heyra í mér, og brátt var
ég farin að hringja í hana, ef ég hafði
ekki heyrt í henni í nokkurn tíma. Ég
hafði ekki talað mikið við hana fram
að því, enda töluðu þær móðir mín
aðallega saman í síma, en við Hrafn-
hildur gátum alltaf fundið eitthvað
til að tala um, eftir að við byrjuðum
að hafa símasamband, og maður kom
aldrei að tómum kofunum hjá henni.
Hún var fróð um menn og málefni og
hafði sínar ákveðnu skoðanir, sem
hún lét óspart í ljós, og gat verið
ákaflega hreinskilin og hispurslaus,
ef því var að skipta. Maður vissi því
alltaf, hvar maður hafði hana. Hún
var líka ættfróð, og hafði yfirleitt
alltaf einhverjar fréttir að færa af
frændfólkinu, þegar hún hringdi til
mín og spjallaði við mig. Það var
helst, að maður frétti eitthvað af því í
gegnum hana og gæti líka hringt til
hennar til að spyrja frétta, ef maður
náði ekki í hinar systurnar, enda var
Hrafnhildur eiginlega sú einasta
þeirra, sem hafði nokkurn veginn
stöðugt og reglulegt samband við
mig.
Hrafnhildur var komin á hjúkr-
unarheimilið á Höfn undir það síð-
asta, enda farin heilsu. Sú hvíld, sem
hún hefur nú fengið, var kærkomin.
Engu að síður skilur hún eftir sökn-
uð. Ég kveð hana því á þessari
stundu með innilegu þakklæti fyrir
frændræknina og trygglyndið auk
hinnar góðu viðkynningar.
Ég bið Guð að geyma hana, þar
sem hún er. Aðstandendum öllum
votta ég innilega samúð mína.
Blessuð sé minning Hrafnhildar
frænku.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir.
Frá því að ég man eftir mér hefur
Hadda verið hluti af minni tilveru.
Þær systur Hadda og mamma ásamt
fjölskyldum bjuggu í tvíbýlishúsi við
Bogaslóð 6, Hornafirði (Sólhól).
Vegna frændsemi var samgangur
meiri en gengur og gerist en þrátt
fyrir talsverðan ágang, ekki síst frá
okkur á efri hæðinni, þá man ég ekki
eftir neinum árekstri né skugga á
þeirri sambúð. Á meðan ég bjó á
Höfn var notalegt að þiggja morgun-
kaffið hjá Höddu og fá upplýsingar
um gang mála við sjávarsíðuna því
þar var Hadda alltaf á heimavelli.
Síðar, eftir að ég var fluttur frá
Höfn, var jafn notalegt að halda
tengslum við staðinn með því að
hringja í Höddu. Það kom mér alltaf
jafn þægilega á óvart hve vel hún var
að sér um gang mála í atvinnulífinu
og þá sérstaklega um það sem snerti
sjávarútveginn. Ég og fjölskylda
mín áttum oft leið um Hornafjörð og
fyrsti valkostur varðandi gistingu
var alltaf á Sólhól. Þrátt fyrir að
móðir mín hafi þá verið flutt þá leið
okkur best þar og átti Hadda stóran
þátt í því. Þessi væntumþykja gagn-
vart Höddu var ekki einskorðuð við
mig heldur alla í minni fjölskyldu.
Eftir að Hadda flutti á Skjólgarð var
tilfinningin allt önnur og tómlegri að
gista á Sólhól. Ég og fjölskylda mín
viljum þakka Höddu fyrir samferð-
ina. Við vottum Stefáni og Borgþóri
og fjölskyldum þeirra samúð okkar.
Ingi Már.
Vinkona mömmu og vinkona okk-
ar, Hrafnhildur Gísladóttir, er kvödd
í dag. Allt frá því þær voru litlar
stelpur í Breiðdalnum var mikill vin-
skapur milli systranna af bæjunum
Þverhamri og Selnesi. Vinátta og
tryggð sem þær áttu alla ævi. Við
fórum ekki heldur varhluta af allri
þeirri elsku og umhyggju sem þær
Hrafnhildur og systur hennar
bjuggu yfir. Það er ekki síst þeirra
vegna að við höfum sterkar taugar til
Austurlands og þá sérstaklega til
Hornafjarðar sem er og verður í
okkar huga fallegasti staður lands-
ins.
Upp úr miðri síðustu öld var
mamma með okkur nokkur sumur á
Höfn. Þar vann hún við að sníða fatn-
að fyrir flinkar saumakonur staðar-
ins. Við stelpurnar vorum frjálsar
eins og fuglarnir þessi yndislegu
sumur þegar alltaf var sól og hiti. Þá
voru ófáar ferðirnar farnar út á Sól-
hól til Höddu og Möggu eða á sím-
stöðina til Guðbjargar. Alls staðar
var okkur vel tekið og allt gert til
þess að okkur og mömmu liði sem
best.
Löngu seinna þegar við, Ágústa
og Mansý, unnum á Hótel Höfn átt-
um við griðastað hjá Höddu og
Agga. Þar gátum við gengið inn og
út eins og við vildum jafnvel með alla
okkar vini og kunningja með okkur.
Hrafnhildur Gísladóttir var ein-
staklega hlý kona sem hafði lag á að
hæna að sér fólk. Hún sýndi alltaf
áhuga á okkur og börnunum okkar.
Sendi jafnvel gjafir til útlanda handa
þeim. Umhyggju sína sýndi hún
kannski best þegar hún hringdi til
Önnu Þóru bara til að áminna hana
um að borða rétt og hreyfa sig svo
hún þyrfti ekki að líða fyrir bein-
þynningu seinna, en þá kvöl þekkti
Hrafnhildur vel.
Að leiðarlokum þökkum við elsku-
semi Hrafnhildar og biðjum henni
allrar blessunar. Stefáni, Borgþóri
og þeirra fólki sendum við okkar
innilegustu samúðarkveðjur.
Ágústa, Anna Þóra, Sigrún
og Margrét (Mansý).
Mikil heiðurskona kveður, Hrafn-
hildur Gísladóttir, eða „Hadda á
Stöðinni“, eins og flestir þekktu
hana. Hún var mikil vinkona mín.
Á æskuárunum á Höfn varð ég
þess aðnjótandi að vera samvistum
með Höddu marga parta dags.
Hadda var einstaklega góð kona,
hjartahlý og vinsæl eftir því. Ekki
átti það síst við um okkur litlu hnoðr-
ana sem vissum að góðgætishillur
Höddu voru yfirleitt talsvert girni-
legri en allar hirslur kaupfélagsins
og það kann að hafa verið vegna
ágengni minnar í byrjun að mjög
sterk vináttubönd tókust með okkur
Höddu.
Fyrir utan svo hinar mörgu strok-
ur á vanga, heitan klút í þrútið og
kalt andlit, þá er mér afskaplega ljúf
minningin um skeiðasettið sem
Hadda gaf mér í 10 ára afmælisgjöf.
Gullfallegar matskeiðar í gjafa-
pakkningu, eitthvað sem maður
hafði aldrei séð fyrr. Ein þessara
skeiða er enn „smakkskeiðin“ í eld-
húsinu heima.
Við krakkarnir sem komum frá
stórum og efnaminni heimilum fór-
um ekki varhluta af góðmennskunni
hennar Höddu því „sælla er að gefa
en þiggja“ voru klárlega einkunnar-
orð hennar í verki.
Hadda var ein fárra húsmæðra á
Höfn sem unnu ávallt úti. Hún var
röddin á símstöðinni, „Stöðin“ þar
sem allir áttu erindi á í þá daga,
hvort sem um var að ræða að ná
sambandi við vini víðsfjarri eða kom-
ast í tengsl við umheiminn á annan
hátt.
Konurnar „á Stöðinni“ voru
tengslanet þess tíma og þess vegna
líka fannst mér Hadda alltaf vera
þessi heimskona sem allt vissi, fylgd-
ist vel með og var vakandi yfir vel-
ferð samborgaranna. Að sitja með
Höddu, hlusta og þiggja góð ráð er
mér ofarlega í huga á þessari stundu.
Árin liðu og „unglinga-fullorðins-
tímabilið“ tók völdin. Samskiptin
minnka en aðeins tímabundið. Það
kom fyrir seinni árin að stutt helg-
arferð var gerð á Höfn án viðkomu
hjá Höddu. Þá var ekki laust við að
kenndi sektar eða söknuðar en svo
rifjaðist upp þessi setning sem var
henni svo töm: „Jæja Brynjar minn,
mikið þykir mér nú vænt um að þú
skulir heimsækja gamla konu en –
nú skaltu drífa þig svo fólkið þitt
þurfi ekki að bíða eftir þér.“ Þokka-
leg afsökun þetta, fyrir mig, en veit
þó að mér er fyrirgefið.
Stjórnsemi Höddu voru fá tak-
mörk sett en það var góð stjórnun
sem einkenndist af umhyggju og
virðingu fyrir öllu og öllum.
Það er ekki af tilviljun sem yngri
dóttir mín fékk nafn Hrafnhildar og
er ávallt kölluð Hadda. Hún bjó um
margra ára skeið í Ameríku en það
hamlaði ekki þeirri eldri að fylgjast
með. Í síðustu heimsókn nú um
hvítasunnuna gat hún jafnvel frætt
mig um hagi dótturinnar sem ég
vissi ekki um og svo sagði hún, sjáðu
hana og benti á fallega mynd í glugg-
anum af þeim nöfnum, er hún ekki að
útskrifast næsta vor í hjúkrunar-
fræðinni? Þetta var alveg rétt hjá
henni – ef guð lofar.
Það hefur ekki verið létt fyrir
þessa lífsglöðu konu að vera nánast
bundin sjúkrarúminu síðustu miss-
eri en það er eitthvað sem við fáum
ekki ráðið. Það var sannarlega gott
að hitta hana, við þetta tækifæri, því
eitthvað sagði manni að kannski færi
að styttast í kveðjustund hérna meg-
in. – Og heimsóknin endaði að sjálf-
sögðu svona, „jæja, góði, nú skaltu
drífa þig, góði, svo fólkið þitt þurfi
ekki að bíða“.
Elsku Hadda, takk fyrir sam-
fylgdina, takk fyrir allt, þín verður
sárt saknað.
Stefáni, Borgþóri og fjölskyldum
þeirra sendum ég og fjölskyldan
innilegar samúðarkveðjur.
Brynjar Eymundsson.
Það er svo margt að minnast á,
margar glaðar stundir.
Jæja elsku Hadda mín, nú er kom-
ið að kveðjustund. Svo lengi sem ég
man hefur þú tekið þátt í mínu lífi
svo skrýtið og sorglegt er að kveðja
þig nú.
Hjá þér átti ég athvarf svo lengi
sem ég man.
Það sem fyrst kemur upp í hugann
er auðvitað ég sitjandi við eldhús-
borðið hjá þér með heimsins bestu
brúnköku í annarri og mjólkurglas í
hinni og þú flögrandi um til að vita
hvort þú getir ekki gefið mér eitt-
hvað meira að borða. Og þarna í eld-
húsinu töluðum við um allt milli him-
ins og jarðar enda varst þú ung í
anda og áttir auðvelt með að tala við
ungt fólk og ná til þess.
Eftir því sem árin liðu færðum við
samræður okkar yfir í stofuna þar
sem þú gast setið og haft það nota-
legt en auðvitað færðum við líka
brúnkökuna með.
Þú varst eins konar sameiningar-
tákn okkar stórfjölskyldu og má
segja að þú hafir starfað sem tengi-
liður svo nú þegar þú ert farin reyn-
um við að gera okkar besta til að
halda því starfi áfram.
Á milli okkar var ávallt yndislegt
samband og sagði ég þér að þú værir
mér sem besta amma og þá varstu
nú hrærð en alltaf vissir þú allt um
mig og mína og fylgdist með mér
þegar ég var við nám og hafðir mik-
inn áhuga á því.
Þú varst hrædd um að mér myndi
leiðast á Höfn en sem betur fer var
ég nýbúin að segja þér að það þýðir
ekki neitt að láta sér leiðast og mað-
ur verður bara að horfa til framtíðar
og þú varst ánægð með þau svör og
einnig að ég skyldi ákveða að drífa
mig í kennaranám.
Ég á eftir að sakna þín svo mikið
að orð fá því ei lýst, en ég hugga mig
við það að þú varst sátt og ég veit að
það átti ekki við þig að vera rúm-
liggjandi dag og nótt.
Fósturlandsins Freyja,
fagra vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár.
Þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.
(Matthías Jochumsson.)
Ég sendi fjölskyldunni allri sam-
úðarkveðjur, guð blessi minningu
Hrafnhildar Gísladóttur.
Ragnheiður R.
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlý-
hug við andlát og útför eiginmanns míns,
föður okkar, tengdaföður og afa,
RAGNARS KRISTÓFERSSONAR,
Ólafsvegi 14,
Ólafsfirði.
Sérstakar þakkir til starfsfólks dvalarheimilis-
ins Hornbrekku, Ólafsfirði.
Hallfríður Margrét Magnúsdóttir,
Kristinn Kristófer Ragnarsson,
Ása Jóhanna Ragnarsdóttir, Ingi Vignir Gunnlaugsson,
Sigríður Anna Ragnarsdóttir, Haukur Friðriksson,
Sveina Guðbjörg Ragnarsdóttir
og barnabörn.
Innilegt þakklæti til allra þeirra, sem sýndu
okkur samúð og hlýhug við andlát og útför
ástkærs eiginmanns, föður okkar, tengda-
föður og afa,
KONRÁÐS GÍSLASONAR
frá Frostastöðum,
Furulundi 4,
Varmahlíð.
Sérstakar alúðarþakkir fá læknar og starfsfólk á gjörgæsludeild FSA
fyrir einstaka umönnun og hlýju.
Helga Bjarnadóttir,
Gísli Rúnar Konráðsson,
Sigurlaug Kristín Konráðsdóttir,
Bjarni Stefán Konráðsson, Ágústa Ólafsdóttir,
Kolbeinn Konráðsson, Linda Gunnarsdóttir,
Þorleifur Konráðsson, Anna María Gunnarsdóttir
og afabörn.