Morgunblaðið - 24.07.2005, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. JÚLÍ 2005 27
Kapítalisminn
hrósar sigri
Checkpoint Charlie,
á gatnamótum Fried-
richstrasse og Zimm-
erstrasse, var sú
landamærastöð, sem flestir fóru um sem á
annað borð var leyft var að fara milli Austur-
og Vestur-Berlínar. Það var afkáraleg reynsla
að ganga eftir Friedrichstrasse, gefa sig fram
við verðina vestan megin, framvísa pappírum
og láta vísa sér áfram yfir til austur-þýzkra
landamæravarða, sem skoðuðu öll skilríki í
krók og kring, leituðu í farangri og létu menn
horfa upp í vélbyssuhlaup ef þeir þóttust ætla
að flýta sér um of í gegnum stöðina; halda svo
áfram göngunni eftir götunni, sem áfram bar
sama nafn en leit út eins og hún væri í annarri
borg og öðrum tíma. Í stað Benz og BMW-bíla
í Vestur-Berlín komu reykspúandi Trabantar
og Wartburgar alþýðulýðveldisins, enn voru
skörð í húsaraðirnar við götuna, í búðunum var
lítið til og vökul augu hers og lögreglu hvíldu á
öllum.
Í dag ganga menn norður Friedrichstrasse
og hægja í bezta falli á göngunni til að virða
fyrir sér varðskúrinn, sem enn stendur á miðri
götunni sem minnismerki um horfinn tíma.
Sumir staldra kannski við á áhrifamiklu, einka-
reknu safni sem segir í máli og myndum sögu
skiptingar borgarinnar, uppreisnarinnar í
Austur-Berlín, byggingar múrsins og ótal
hetjulegra flóttatilrauna, sem sumar tókust en
aðrar leiddu til dauða eða fangelsisvistar. En
svo er hægt að ganga áfram norður Fried-
richstrasse, í átt að breiðgötunni Unter den
Linden, og velta því fyrir sér hvernig vestrænt
athafnalíf hefur gersamlega lagt undir sig
þessa gömlu aðalgötu. Byggt hefur verið upp í
götin og gott betur; mörg af ljótustu húsum
kommúnistatímans hafa vikið fyrir öðrum og
skárri byggingum. Bílar með tvígengisvél eru
bannaðir í hinni nýju Berlín. Þar sem áður
voru fremur búðir til málamynda en að þar
fengist í rauninni eitthvað, er nú hægt að
kaupa bókstaflega allt sem hugurinn girnist og
öll frægustu vörumerki heimsins blasa við.
Kapítalisminn hrósar sigri á Friedrichstrasse.
Montbyggingar
bíða niðurrifs
Byggingarnar, sem
áður voru helzta stolt
kommúnista-
klíkunnar, sem
stjórnaði Austur-Þýzkalandi, eru nú aðallega
til vandræða í borgarskipulaginu. Við Schloss-
platz, eða Hallartorg, sem hefur endurheimt
sitt forna nafn eftir fáeina áratugi sem Marx-
Engels-Platz, stendur hinn hryllilegi kumbaldi
Palast der Republik. Lýðveldishöllin var þing-
hús Alþýðulýðveldisins. Hún er nú lokuð og
tóm vegna asbestmengunar og bíður niðurrifs.
Á sama stað stóð áður hin forna höll Prússa-
konunga, Berliner Stadtschloss. Hún slapp til-
tölulega lítið skemmd úr stríðinu en forystu-
menn Alþýðulýðveldisins létu brjóta hana
niður árið 1951, réttum 500 árum eftir að
bygging hennar hófst, til að byggja hina skelfi-
lega ljótu lýðveldishöll – sögðu konungshöllina
tákn um „prússneska hernaðarhyggju“. (Á sín-
um tíma var þó lítinn mun að sjá á Berlín und-
ir stjórn kommúnista og t.d. á tímum her-
mannakonungsins Friðriks Vilhjálms I að því
leyti að þar varð varla þverfótað fyrir mars-
érandi hersveitum, sem áttu að sýna mátt rík-
isins.) Nú er hafin hreyfing fyrir því að end-
urbyggja konungshöllina, en ekki hefur tekizt
að fjármagna þann draum.
Steinsnar austar, á Alexanderplatz, skrifuðu
Austur-Berlínarbúar eigin sögu á sínum tíma;
þar komu þeir saman á mótmælafundum í nóv-
ember 1989, sem urðu til þess að stjórnin gafst
upp og gaf þegnum sínum ferðafrelsi. Eftir
það varð hrun Alþýðulýðveldisins ekki umflúið.
Við torgið eru menn nú byrjaðir að brjóta nið-
ur suma steinsteyputurnana sem mynduðu
„viðskiptahverfi“ gömlu Austur-Berlínar.
Breiðgatan, sem liggur í suðaustur frá torginu,
Karl Marx-Allee, hefur hins vegar verið friðuð
sem dæmi um sósíalískan arkitektúr. Sú
ákvörðun er í anda Berlínarbúa, að strika ekki
yfir ljótu kaflana í sögunni, heldur að minnast
þeirra og gera að víti til varnaðar. Berlín er
borg, sem þeir sem vilja muna – og læra af
sögunni – ættu að kynnast.
Berlín glímir við sinn skammt af vanda-
málum; fjármál borgarinnar eru í mesta ólestri
eftir allar hinar dýru framkvæmdir síðustu ára
og atvinnuleysið er gífurlegt, ekki sízt í austur-
hlutanum. En krafturinn, sem býr í hinni sam-
einuðu Berlín, er algjör andstæða við það
þrúgandi andrúmsloft, sem þar ríkti á dögum
kalda stríðsins. Berlín er ekki lengur á jaðr-
inum, ekki útvörður Vesturlanda á svæði óvin-
arins. Hún er á ný orðin miðpunktur á meg-
inlandi Evrópu og sýnir í hnotskurn þá
möguleika, sem felast í falli járntjaldsins og
innreið lýðræðis og markaðshagkerfis í Aust-
ur-Evrópu eftir áratuga niðurlægingu stríðs og
harðstjórnar.
ESB og aust-
urstækkunin
Það er því enginn
staður betur til þess
fallinn að ræða um
stækkun Evrópusam-
bandsins til austurs en einmitt Berlín. Aust-
urstækkunin snýst öðru fremur um endursam-
einingu Evrópu; útflutning friðar, lýðræðis og
velmegunar, sem ríkt hefur í Vestur-Evrópu
frá því um miðja síðustu öld, til austurhluta
meginlandsins.
Olli Rehn, sem fer með málefni stækkunar
ESB í framkvæmdastjórn sambandsins, flutti
fyrirlestur í Berlín fyrr í mánuðinum á vegum
Institut für Europäische Politik, eins og sagt
hefur verið frá hér í blaðinu. Rehn fjallaði þar
um þau vandkvæði, sem frekari stækkunar-
áform væru komin í vegna niðurstöðu þjóð-
aratkvæðagreiðslnanna um stjórnarskrá ESB í
Hollandi og Frakklandi. Framkvæmdastjórinn
viðurkenndi hiklaust að óánægja með stækk-
unina hefði verið ein af ástæðum þess að
stjórnarskráin féll. Fólk hefði m.a. óttazt að
verkafólk frá Austur-Evrópu kæmi og tæki
störf þess, auk þess sem andúð á Tyrkjum og
hugsanlegri aðild þeirra hefði haft sitt að
segja. Raunar þurfti ekki annað en að hlusta á
spurningar þýzkra embættismanna og sér-
fræðinga á eftir erindi Rehns til að átta sig á
að efasemdirnar um frekari stækkun ESB eru
víðar en í Frakklandi og Hollandi.
Framkvæmdastjórinn benti hins vegar á að
atvinnuleysi, vandi velferðarríkisins og áhrif
hnattvæðingar á vinnumarkaðinn hefðu ekkert
með stækkun Evrópusambandsins að gera.
Hann nefndi hið fræga dæmi um pólsku pípu-
lagningamennina, sem sagðir hafa verið taka
vinnu frá frönskum pípurum, og benti á að það
vantaði þúsundir pípulagningamanna í Frakk-
landi til að anna verkefnum. Fall járntjaldsins
og stækkun Evrópusambandsins í framhaldi af
því hefði skilað ríkjum Vestur-Evrópu efna-
hagslegum ávinningi, ekkert síður en fyrrum
austantjaldslöndum.
„Flauelsbyltingarnar í Mið- og Austur-Evr-
ópu árið 1989 opnuðu markað 100 milljóna
manna fyrir fyrirtækjum Vestur-Evrópu. Stór-
kostleg viðskiptatækifæri urðu til þeirra
vegna, til dæmis fyrir franskar stórmarkaða-
keðjur, hollenzka framleiðendur símabúnaðar
og matvælafyrirtæki, og fyrir ótal fyrirtæki
þýzku millistéttarinnar, sem selja vörur sínar í
Mið- og Austur-Evrópu,“ sagði Rehn.
Hann sagði að fyrst og fremst væri stækkun
Evrópusambandsins þó spurning um öryggis-
mál á tímum, sem með réttu eða röngu væru
kenndir við átök menningarheima. Rehn vísaði
m.a. til hryðjuverkanna í London og hinnar
nýju ógnar, sem Vesturlöndum stafar af ísl-
ömskum öfgamönnum. Hann rifjaði upp að á
tíma kalda stríðsins hefði tvenns konar stefna
þótt nauðsynleg í samskiptum við Sovétríkin;
annars vegar að halda þeim í skefjum með öll-
um ráðum, hins vegar að efna til tengsla og
samstarfs við þjóðirnar handan við járntjaldið.
Þessi stefna hefði átt ríkan þátt í að Berl-
ínarmúrinn féll.
Rehn sagði að svipuð stefna væri nauðsynleg
í samskiptum Íslams og Vesturlanda. „Evrópu-
sambandið mun sýna staðfestu gegn hryðju-
verkum og halda hvers konar öfgabókstafstrú
rækilega í skefjum. En um leið munum við
halda áfram að byggja brýr til hófsamra afla
innan Íslam, sem virða lýðræðisleg gildi,“
sagði Rehn og bætti við að þetta væri ekki sízt
ástæðan fyrir því að Tyrklandi hefði verið heit-
ið viðræðum um aðild að Evrópusambandinu.
Að hindra
uppgang
öfgastefnanna
Í umræðum að erindi
Rehns loknu benti
hann á að þeir, sem
mest hefðu fagnað
eftir að Frakkar og
Hollendingar felldu
stjórnarskrá Evrópusambandsins, hefðu verið
þrír hópar; þjóðernisöfgamenn í ríkjunum á
vestanverðum Balkanskaga, bókstafstrúar-
menn í Tyrklandi og ákveðinn hluti stjórn-
málastéttarinnar í Rússlandi. Þessum öflum
þætti það ekki verra, að Evrópusambandinu
mistækist það ætlunarverk sitt að stækka enn
til austurs svæði lýðræðis, mannréttinda og
frjálsra viðskipta.
Framkvæmdastjórinn vitnaði til Konrads
Adenauers, sem sagði: „Mannkynssagan er
líka summa þess, sem hefði mátt forðast.“ Og
hann hélt áfram: „Væri ESB betur sett án
ríkja Mið- og Austur-Evrópu, þar sem stöð-
ugleiki, lýðræði og æ meiri velsæld ríkir nú?
Væri ESB betur sett ef Tyrkland sneri við
okkur baki og hafnaði gildum lýðræðisins?
Höfum við efni á að vesturhluti Balkanskagans
verði nýtt gettó í Evrópu? Þetta er það sem
við hættum á, ef við hættum við stækkun sam-
bandsins.“
Olli Rehn hefur rétt fyrir sér. Stækkun Evr-
ópusambandsins snýst ekki sízt um að halda
áfram að bæta fyrir þann skaða, sem tvær
heimsstyrjaldir og tvær öfgastefnur alræðis-
sinna, nazisminn og kommúnisminn, hafa unnið
í Evrópu. Með því að útiloka löndin í Austur-
og Suðaustur-Evrópu frá aðild að sambandinu
eiga menn á hættu að öfgastefnurnar, hvort
sem þær kenna sig við þjóðerni, trúarbrögð
eða einhvern isma, nái fótfestu á ný.
Í Berlín verður það einkar áþreifanlegt að
stækkun Evrópusambandsins og áframhald-
andi útbreiðsla þeirra gilda, sem það stendur
fyrir, hefur ekkert með pólska pípulagninga-
menn eða tyrkneska verkamenn að gera. Málið
snýst um að koma í veg fyrir að þeir skelfilegu
atburðir, sem eru skráðir óafmáanlega í sögu
þessarar stórmerkilegu, evrópsku milljóna-
borgar, endurtaki sig nokkurn tímann. Evrópa
þarf á að halda stjórnmálaleiðtogum, sem geta
útskýrt þennan raunveruleika fyrir kjósendum
sínum.
AP
Horft úr loftbelg yfir Potsdamer-torgi norður eftir Ebertstrasse í Berlín, þar sem
múrinn stóð áður. Fremst er minnismerkið um fórnarlömb helfararinnar, þá bygg-
ingarlóð bandaríska sendiráðsins. Næst kemur Brandenborgarhliðið og Pariser
Platz, þar sem sendiráð Bretlands og Frakklands hafa flutt inn í nýjar byggingar.
Fjærst sést þinghúsið, Reichstag, og skrifstofubyggingar þingsins, sem tengdar eru
saman með brú yfir ána Spree.
„Í Berlín verður það
einkar áþreifanlegt
að stækkun Evrópu-
sambandsins og
áframhaldandi út-
breiðsla þeirra
gilda, sem það
stendur fyrir, hefur
ekkert með pólska
pípulagningamenn
eða tyrkneska
verkamenn að gera.
Málið snýst um að
koma í veg fyrir að
þeir skelfilegu at-
burðir, sem eru
skráðir óafmáan-
lega í sögu þessarar
stórmerkilegu, evr-
ópsku milljónaborg-
ar, endurtaki sig
nokkurn tímann.“
Laugardagur 23. júlí