Morgunblaðið - 28.08.2005, Síða 25
skepna
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28. ÁGÚST 2005 25
um orðaleikjum. Sá rammíslenzki
húmor sem birtist í ritinu Íslenzk
fyndni var oft frekar frumstæður, þó
að undantekningar mætti finna. Svo-
kallaður „verstöðvahúmor“ hefur allt-
af átt fylgi að fagna og í framhaldi af
honum hafa einstöku skemmtikraftar
þróað klámfengna brandarasmíð,
sem ég hef að minnsta kosti ekki
smekk fyrir.
Eitt af því sem Halldór Laxness
gerði uppreisn gegn og hafði ímugust
á í íslenzku samfélagi var allur þessi
ruddalegi og frumstæði húmor, enda
var hann sjálfur íðilfínn húmoristi og
beitti honum við ólíklegustu aðstæð-
ur, samanber „Nokkuð fleira sem ég
get gert fyrir yður?“ eftir að ökuníð-
ingur hafði neytt hann til að aka út í
skurð. Þó að Laxness væri áhrifamik-
ill tókst honum ekki að umbreyta
skopskyni landans og sama má segja
um hinn sérstæða húmor Þórbergs.
Tíðarandinn er skrýtin skepna, en
ljóst er að eftir því sem fjölmiðlar
verða áhrifameiri verður auðveldara
að hafa áhrif á hann. Frá mínum sjón-
arhóli lítur hann bærilega út og mér
finnst margt í tíðarandanum mun
skárra en það var fyrir nokkrum ára-
tugum. Mér lízt þó einna verst á
hvernig tilslökunarstefna í skólum og
í fjölmiðlum fer með móðurmálið. Þó
að ég hafi haft lúmskt gaman að þátt-
um Sylvíu Nætur, vona ég bara að
talsmáti hennar verði engum að fyr-
irmynd.
Það eru vond tíðindi, ef sönn eru, að
margir kennarar séu hættir að nenna
að andæfa og líti á klúðrið og málleys-
urnar sem „eðlilega þróun“. Á Morg-
unblaðinu hafa menn haft metnað til
að hlú að góðu, íslenzku ritmáli og
vonandi er sú stefna enn við lýði. En
mig rak í rogastanz nýlega þegar vit-
laus fallbeyging í fyrirsögn æpti á les-
endur í Tímaritinu, en vona að það
hafi bara verið einstakt óhapp og þau
verða alltaf, hvernig sem maður vand-
ar sig.
Að byggja hús
Á umliðnum áratugum var sú af-
staða nokkuð almenn að það að
byggja yfir sig væri mesta stórvirki í
lífi hvers manns. Það er dæmi um
breyttan tíðaranda að í þessu efni hef-
ur orðið mikil viðhorfsbreyting. Á
stríðsárunum og lengi vel þar á eftir
varð algengt, og eiginlega sjálfsagt,
að húsbyggjendur ynnu sjálfir að öllu
sem þeir gátu og þannig byggðist þá
svo til allt Smáíbúðahverfið. Bæði í
smærri bæjum, svo og til sveita, hefur
það verið eins. Þá fóru menn beint úr
vinnu á byggingarstað og þar var
puðað framundir miðnættið. Eins og
nærri má geta var margt í þeirri
vinnu hreinræktað fúsk, en það þótti
ekki koma að sök þá.
Oft hefur verið vakin á því athygli
uppá síðkastið að menn virðast vera
hættir að byggja yfir sig sjálfir. Það
er naumast til lengur að maður fái
einfaldlega lóð og byggi sitt hús. Nú
er byggingarbransinn látinn verktök-
um eftir; byggingaheildsalar koma
við sögu og flýta fyrir því að verktak-
inn geti bara snúið sér að næsta verk-
efni, en kaupin eru langoftast gerð
hjá fasteignasölum. Með þessu móti
vinna fagmenn bæði stórt og smátt og
byggingar taka skemmri tíma. Þótt
einhverjir vilji gjarnan standa í þessu
sjálfir, og telji sig geta sparað fáeinar
krónur, þá losnar fólk almennt við þá
áraun sem húsbygging var.
Aðeins hef ég einu sinni byggt yfir
mig og mína eins og það var kallað;
blokkaríbúð við Kleppsveg á árunum
milli 1956 og 1960. Þá voru bílar ekki
orðnir almenningseign og ég fór á
reiðhjóli dag hvern úr vinnunni á
byggingarstað og reyndi að gera eitt-
hvað til gagns, en sóttist seint og
mörg urðu mistökin. Svo var annar
fúskari fenginn til að smíða eldhús-
innréttingu, sem þótti svo afleit að
henni var hent. Heilt sumar fór í að
sparsla, slípa og lakkmála eldhús og
bað; galin vinnubrögð sem fljótlega
lögðust af þar á eftir. Þannig var
þetta almennt og ég hygg að flestir af
eldri kynslóðinni hafi reynslu af þessu
frá yngri árum sínum.
Sem betur fer hefur það að byggja
hús færzt í skynsamlegra horf og þeir
koma að verkinu sem til þess hafa
kunnáttu og tæki og bankarnir sjá um
að velta kostnaðinum út í framtíðina,
helzt 40 ár.
Treyst á handaflið
Ég tel þó víst að það sem við upp-
lifðum í íbúðabyggingum um og fyrir
1960 sé hreinasti barnaleikur hjá því
sem menn komust í fyrr á síðustu öld.
Ekki var það sízt þegar reynt var að
steinsteypa hús á fyrstu þrem áratug-
um aldarinnar. Innst í Hnappadal,
þar sem enn er afskekkt byggð og var
það í enn ríkari mæli fyrir um 75 ár-
um, réðist bóndinn í Hraunholtum,
Magnús Sumarliði Magnússon, í að
byggja á jörðinni veglegt steinhús
eftir þeirrar tíðar mælikvarða. Þetta
hús reis árið 1930, í upphafi krepp-
unnar miklu, en hefur því miður verið
brotið niður. Vandamálið þarna var
að ná í steypumöl, sem ekki var til í
næsta nágrenni. Hinsvegar reyndist
vera allgóð malarnáma vestur við
Oddastaðavatn í nokkurra kílómetra
fjarlægð. Meinið var að vegarlaust
var þangað og á kafla var yfir úfið
hraun að fara.
En Magnús bóndi lét það ekki aftra
sér. Hann fór á staðinn með nokkra
áburðarhesta, mokaði mölinni í poka
og hengdi á klakk. Engar smáræðis
lyftingar það. Þannig reiddi hann
heim möl í húsið og ekki dugði minna
en þúsund hestburðir. Ég sé í anda
flesta nútímamenn, jafnvel á bezta
aldri, leika þetta eftir. Menn fá óðar í
bakið ef þeir reyna á það eitthvað sem
heitið getur og væru líklega búnir að
vera eftir tíu poka.
Þetta og margt fleira hafði ég upp-
úr krafsinu á nýlegri ferð um Kol-
beinsstaðahrepp og Hnappadal vegna
væntanlegrar bókar um Snæfellsnes
og Mýrar. Önnur merkileg afreks-
saga úr þessari byggð er frá eyðibýl-
inu Syðri-Skógum undir hlíð Fagra-
skógarfjalls. Þar bjó einsetubóndinn
Magnús Hallbjörnsson á árunum
1917-1967, en húsakynnin í afar litlum
torfbæ hafa ugglaust ekki verið uppá
marga fiska. Hálfsjötugur að aldri
sneri Magnús sér að því að láta
drauminn rætast og byggja hús og
það skyldi vera steinsteypt. En það
var sömu annmörkum háð og hjá
Magnúsi Sumarliða í Hraunholtum,
nefnilega þeim að möl í steypu var
hvergi nálæg. Hún fannst að vísu í
þriggja kílómetra fjarlægð, við farveg
Hítarár, en hvort sem það var vegna
þess að hér skorti hesta, eða Magnúsi
hefur bara hugnast handaflið betur,
þá fór svo að hann lagði af stað með
hjólbörur, fyllti þær og einhvern veg-
inn þrælaðist hann með þær heim.
Ekki einu sinni, eins og nærri má
geta, heldur líklega nokkur hundruð
sinnum, en um það er engar upplýs-
ingar að hafa.
Húsið í Syðri-Skógum stendur enn
og vissulega er það ekki stórt. Magn-
ús lét það snúa eins og tíðkast hafði
þegar torfbæir voru byggðir; gaflinn
sneri fram. Á mælikvarða nútíðar hef-
ur ekki þurft nein ósköp af steypu í
húsið, en trúlega hefur Magnús orðið
að fara æði margar ferðir með hjól-
börurnar sínar.
Þegar þeir unnu afrek sín í hús-
byggingum Magnúsarnir tveir í Kol-
beinsstaðahreppi, var líklega enn við
lýði viss aðdáun á líkamlegu erfiði.
Það var hluti af tíðarandanum og
þótti bera vott um leti ef menn unnu
sér í haginn til að minnka erfiði og
fæstir vildu láta telja sig með letingj-
um. Sú breyting hefur orðið á tíðar-
andanum að nú vilja menn gjarnan
erfiða hressilega í líkamsræktar-
stöðvum en líkamlegt erfiði í vinnunni
er ekki vinsælt og ber einungis vott
um slæmt skipulag og ónóga tækni.
Höfundur er rithöfundur og
myndlistarmaður.
Rannsóknasjóður
Rannís
Rannsóknamiðstöð Íslands,
Laugavegi 13, 101 Reykjavík,
www.rannis.is
Umsóknarfrestur 1. október 2005
Stjórn Rannsóknasjóðs auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum með
umsóknafrest 1. október 2005.
Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi. Í þeim
tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga,
rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Með
hugtakinu vísindarannsóknum er átt við allar tegundir rannsókna;
grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir.
Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og
tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna.
Eftirfarandi atriði vega þungt samkvæmt almennri stefnu Vísinda- og
tækniráðs frá 18. desember 2003 og síðari ályktunum ráðsins:
• Að verkefnið stuðli að uppbyggingu á vísindalegri og tæknilegri
þekkingu.
• Að verkefnið hafi mikið gildi og miði að vel skilgreindum
ávinningi fyrir íslenskt samfélag eða atvinnulíf.
• Að verkefnið stuðli að myndun rannsóknarhópa og
þekkingarklasa og stuðli að samvinnu milli háskóla,
rannsóknastofnana og fyrirtækja.
• Að verkefnið feli í sér þjálfun ungra vísinda- og tæknimanna.
• Að verkefnið stuðli að alþjóðlegri sóknargetu íslenskra
vísindamanna og aukinni þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði
vísinda.
Rannsóknasjóður veitir þrenns konar styrki með umsóknafrest
1. október:
• Öndvegisstyrki.
• Verkefnisstyrki.
• Rannsóknastöðustyrki.
Styrkirnir eru veittir til allt að þriggja ára í senn. Umsækjendur sem hlutu
styrk til verkefna árið 2005 með áætlun um framhald á árinu 2006 skulu
senda áfangaskýrslu til sjóðsins eigi síðar en 1. nóvember 2005.
Ítarlegar upplýsingar um styrkina og umsóknareyðublöð fyrir hverja
styrktegund er að finna á heimasíðu Rannís (www.rannis.is). Þar er einnig
úthlutunarstefna Rannsóknasjóðs birt í heild sinni.