Fréttablaðið - 16.11.2005, Side 38
MIÐVIKUDAGUR 16. NÓVEMBER 2005 MARKAÐURINN10
F R É T T A S K Ý R I N G
„Þegar Milestone hóf að skoða mögulega
fjárfestingu í Sjóvá var okkur auðvitað
ljóst að fyrirtækið var álitlegur fjárfest-
ingakostur og gott og spennandi fyrir-
tæki í stöðugum rekstri. Það hefði mikla
þekkingu á þessum markaði og hæft
starfsfólk,“ segir Karl Wernersson,
stjórnarformaður Sjóvár og einn aðaleig-
andi þess.
Með aðkomu nýrra eigenda hafa tals-
verðar breytingar átt sér stað á skipulagi
Sjóvár og stjórnendateyminu. Í síðustu
viku var tilkynnt að Þór Sigfússon taki við
af Þorgils Óttari Mathiesen sem forstjóri
fyrirtæksins. Ráðning Þórs og Helga
Bjarnasonar, tryggingastærðfræðings í
starf aðstoðarforstjóra er að mati Karls
endapunkturinn á þeirri vinnu sem fram
hefur farið við að straumlínulaga rekstur-
inn og skerpa áherslur.
FJÁRFESTING TIL LANGS TÍMA
Karl bendir á að það hafi legið fyrir að Sjó-
vá væri kannski ekki nógu góður fjárfest-
ingarkostur fyrir Íslandsbanka vegna
reglna um að eign fjármálafyrirtækis í
öðru fjármálafyrirtæki skerði eigið fé
þess fyrrnefnda. Íslandsbanki var að vaxa
hratt og ein leið í því að sækja meira eigið
fé var að selja Sjóvá. Enda kom á daginn
að um 200 milljarðar losnuðu þegar hlut-
urinn var seldur. „Af þeim sökum vaknaði
sá áhugi hjá Milestone að ganga fram fyr-
ir skjöldu og gerast kjölfestuhluthafi og
leiðandi afl í Sjóvá,“ segir Karl.
Karl leggur ríka áherslu á að Milestone
komi inn í félagið til þess að vera þar til
langs tíma. Sjóvá hefur um árabil verið
eitt af sterkustu fyrirtækjum landsins.
Ímynd fyrirtækisins er mjög sterk, inn-
viðirnir traustir og starfsfólk býr yfir
gríðarlegri reynslu og þekkingu. Að auki
hefur afkoman verið afar góð á síðustu
árum og félagið skilað góðri arðsemi.
Karl er spurður að því hvernig fjárfest-
ingin í Sjóvá falli að fyrri fjárfestingum
hans. Hann segir að fjárfestingar hans
hafi miðast við það að kaupa eins stóran
hlut og hægt var hverju sinni. Markmið
hans er alltaf að hafa áhrif. „Þetta tæki-
færi sem við fengum til að kaupa stóran
hlut í Sjóvá gaf okkur möguleika að koma
að einu stærsta og öflugasta fyrirtæki
landsins með þeim hætti að geta haft áhrif
á reksturinn til lengri tíma.“
Margir töldu að Karl hefði greitt full-
hátt verð Sjóvá á sínum tíma eða 17,5
milljarða króna fyrir tvo þriðju hluta
hlutafjár en hann lítur ekki svo á: „Þetta
er stærsta tryggingafélag landsins sem
var metið á 26 milljarða. Til samanburðar
var markaðsvirði TM um 22 milljarðar. Af
okkar hálfu var þetta talið gott kaupverð.
Mikil tækifæri felast í félaginu og það hef-
ur staðið undir okkar væntingum varðandi
rekstur og hagnað það sem af er ári.“
NÝ FORYSTA
Þór Sigfússon, nýr forstjóri hjá Sjóvá, seg-
ir að tilfinningin að skipta um starfsvett-
vang sé mjög góð. „Ég hef hitt flesta
starfsmenn og líst vel á aðstæður. Við
Helgi finnum hlýja strauma og teljum að
það séu miklir möguleikar hér. Helgi kem-
ur inn með reynslu úr tryggingargeiran-
um og mun einbeita sér að þeirri starf-
semi. Það er mitt hlutverk að leiða hópinn.
Við teljum að hópurinn í kringum okkar
búi yfir fjölbreyttri reynslu og fjölbreytni
í aldri.“
Stærsta breytingin á skipuriti félagsins
felst í því að það er betur aðgreint annars
vegar á milli vátryggingastarfseminnar
og hins vegar fjárfestingastarfseminnar.
Innan fjárfestingasviðsins eru tvær sjálf-
stæðar einingar og tvær sjálfstæðar
tekjueiningar eru innan vátryggingasviðs-
ins auk stoðeininga sem styðja við þann
flókna rekstur sem felst í tryggingastarf-
semi.
Karl segir að tækifæri liggi í trygg-
ingastarfseminni. „Það er áskorun að gera
betur í tryggingaþættinum. Það dylst eng-
um sem skoðar afkomu íslenskra trygg-
ingafélaga undanfarin ár að afkoman af
vátryggingarekstri er neikvæð. Hún er
ekki ásættanleg,“ segir hann.
Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi að
taka til í þeim ranni. Allir kostnaðar- og
tekjuliðir hafa verið teknir til endurskoð-
unar í samvinnu við starfsfólk. „Vinnan er
hafin og væntum við þess að sjá árangur
erfiðsins á næstu tólf til átján mánuðum.“
ÁHERSLA Á VERND
Tryggingamarkaður í eðli sínu er nokkuð
þroskaður markaður þar sem mikil sam-
keppni ríkir. Bæði Karl og Þór nefna að
áherslan á aukna vernd er sterkari hjá
neytendum í dag heldur en hún var. Tæki-
færin felast í því að bjóða upp á nýjar og
fjölbreyttari tegundir trygginga þannig að
hagsmunir hvers einstaklings og hverrar
fjölskyldu séu uppfylltir betur en gert er í
dag.
„Við sjáum að allir þeir fjöldamörgu Ís-
lendingar sem halda til starfa í útlöndum
uppgötva að það sem þeir litu á sem sjálf-
sagðan hlut, eins og öryggi og þau lífsgæði
sem fólust í því hér heima, er ekki það
sama í öðrum löndum. Ég lít svo á að Sjó-
vá, sem leiðandi fyrirtæki, hafi mjög stóru
hlutverki að gegna í þessum efnum hér
heima og það getur verið í tengslum við
margháttað forvarnarstarf og við getum
séð fyrir okkur í framtíðinni að félagið
hafi meiri afskipti af fjárfestingum á þeim
sviðum,“ segir Þór.
Hann nefnir sem dæmi aðkomu Sjóvár
að fjárfestingum í umferðarmannvirkjum
í framtíðinni. „Um allan heim eru umferð-
armannvirki að verða einkarekin. Hvers
vegna skyldi ekki eitt öflugasta fyrirtæki
landsins sem hefur hagsmuni af betri um-
ferðarmenningu og -mannvirkjum ekki
koma með beinni hætti að slíkum þáttum í
framtíðinni?“
METNAÐUR HEIMA FYRIR
Karl er spurður um sókn Sjóvár á erlend-
ar slóðir: „Við munum einbeita okkur á
næstu mánuðum að því að ná fullkomnum
tökum á rekstri vátryggingafélagsins áður
en ráðist verður í mikla útrás á vátrygg-
ingasviði. Það er nægur metnaður fyrir
því að vinna á innanlandsmarkaði.“
Þór bendir á að félagið hafi hafið útrás
á ákveðnu leyti, það er að fylgja sínum fé-
lögum eftir í útrás. „Við teljum mikilvægt
í þessu að við getum aðstoðað þau hvar
sem þau eru og boðið heildstæða þjónustu
fyrir þau. Þetta er verkefni okkar í útrás
og einmitt þess vegna leggjum við áherslu
á náið samstarf við alþjóðlega aðila sem
hafa yfirburðaþekkingu á þessu sviði.“
Sjóvá hefur nýverið gert samning við
Royal & SunAlliance sem tryggir að Sjóvá
getur boðið upp á þjónustu í 130 löndum.
„Þetta þýðir að þau fyrirtæki sem við
þjónum geta tryggt starfsstöðvar sínar í
öllum þessum löndum.“
Einnig sjá menn mikla möguleika felast
í dótturfélögum Sjóvár á borð við Securit-
as og fasteignafélaginu Klasa sem Þorgils
Óttar mun stýra og vera einn stærsti eig-
andi að. „Það félag hefur á einu ári vaxið
úr engu í að það verða með eignir upp á 5,5
milljarða,“ nefnir Karl að lokum.
Sjóvá undir nýrri forystu
Hið rótgróna tryggingafélag Sjóvá-Almennar hefur farið í gegnum talsverðar breytingar á árinu í
kjölfar eigendaskipta. Karl Wernersson, stjórnarformaður Sjóvár, segist hafa mikinn metnað fyrir því
að efla félagið sem hann lítur á sem langtímafjárfestingu. Eggert Þór Aðalsteinsson hitti þá Karl og
Þór Sigfússon, nýskipaðan forstjóra, að máli og spjallaði við þá um fyrirtækið.
ÞÓR SIGFÚSSON, NÝR FORSTJÓRI
SJÓVÁR, OG KARL WERNERSSON,
STJÓRNARFORMAÐUR „Þetta tækifæri
sem við fengum til að kaupa stóran hlut í
Sjóvá gaf okkur möguleika að koma að
einu stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins
með þeim hætti að geta haft áhrif á rekst-
urinn til lengri tíma,“ segir Karl.
Fr
ét
ta
bl
að
ið
/G
VA
10_11_Markadur-lesið 15.11.2005 14:50 Page 2