Fréttablaðið - 29.12.2005, Qupperneq 8
29. desember 2005 FIMMTUDAGUR
NOREGUR Sovéskir vísindamenn
rannsökuðu norðurpólinn, sjávar-
botninn, dýpt sjávar, þykkt íssins
og seltu sjávarins í kalda stríð-
inu. Þessar upplýsingar þurftu
kjarnorkukafbátar Sovétmanna
til að geta falið sig undir norður-
skautsísnum í kalda stríðinu.
Þetta kemur fram í bók sem kom
út í Rússlandi í fyrra og var þýdd
nýlega á norsku.
Á vefmiðli norska dagblaðsins
Aftenposten kom fram í gær að
Rússar ættu einstakt gagnasafn
um hafsbotninn og fróðleik um
það sem gerðist undir hafsbotni.
Þetta væru dýrmætar upplýsing-
ar sem engin önnur þjóð hefði
aðgang að og gætu komið sér vel
þegar farið yrði að leita að olíu og
gasi svo norðarlega.
Norskir vísindamenn segja
rússnesku vísindamennina hafa
notað aðrar aðferðir og dregið
aðrar ályktanir. „Meðan talið er
á Vesturlöndum að ísinn bráðni
á norðurpólnum og að norður-
póllinn verði íslaus eftir fimmtíu
ár telja rússnesku vísindamenn-
irnir að bráðnun leiði til þess að
ferskvatn aukist og ísinn aukist
því fremur en hitt,“ segir norskur
vísindamaður.
Verkefni Sovétmanna var svo
leynilegt að vísindamennirnir
höfðu fyrirmæli um að taka líf sitt
ef þeir kæmust í hendur Banda-
ríkjamanna. Vísindamennirnir
voru allt að tuttugu talsins. - ghs
NORÐURPÓLLINN Rússneskir vísindamenn
rannsökuðu norðurpólinn gaumgæfilega í
kalda stríðinu og búa yfir mikilli vitneskju
um hafið og hafsbotninn.
Rússneskir vísindamenn rannsökuðu Norðurpólinn í kalda stríðinu:
Telja að pólísinn aukist
HEILBRIGÐISMÁL Lyfjastofnun og
landlæknir hafa enn til skoðunar
markaðsátak lyfjaframleiðand-
ans Novartis sem hófst um miðj-
an desember í samstarfi við lík-
amsræktarstöðina World Class.
Lyfjafyrirtækið greiðir kostnað
sjúklings af líkamsræktinni noti
sá hinn sami blóðþrýstingslyfið
Valsartan.
Félag íslenskra heimilislækna
hefur skrifað landlækni og varað
við markaðsátaki fyrirtækisins,
bæði vegna persónuverndar- og
faglegra sjónarmiða. „Spurningin
er hvort svona markaðsátak geti
orðið til þess að einstaklingur komi
til læknis og fari fram á að fá eitt-
hvað ákveðið lyf vegna þess að hann
sjái af því fjárhagslegan ávinning.
Þetta getur sett lækni í dálítið sér-
staka stöðu,“ segir Elínborg Bárð-
ardóttir, formaður félagsins.
Rannveig Gunnarsdóttir,
forstjóri Lyfjastofnunar, segir
að samkvæmt lyfjalögum sé
bannað að beina auglýsingum um
lyfseðilsskyld lyf til almennings.
„Hugmyndin var alltaf sú að það
væri læknir sem tæki ákvörðun um
hvort sjúklingi yrði vísað á lyfið og
bent á þetta markaðsátak eða ekki,“
segir hún og bætir við að málið sé
enn í skoðun hjá Lyfjastofnun.
Sigurður Guðmundsson
landlæknir segir umfjöllun
embættisins um málið ekki held-
ur lokið. „Eina erindið sem okkur
hefur borist um þetta er bréf
Félags íslenskra heimilislækna,“
segir hann og bætir við að um átak-
ið verði fjallað „ekki síður á sið-
ferðilegum og faglegum nótum, en
lagalegum“.
Kristinn D. Grétarsson, sölu-
og markaðsstjóri Novartis, legg-
ur áherslu á að fyrirtækið hafi
eingöngu kynnt átakið læknum, en
farið hafi verið af stað með það um
miðjan nóvember. Þá segist hann
hafa kynnt Lyfjastofnun fyrirætl-
anirnar.
Karl Andersen, formaður
Hjartasjúkdómafélags íslenskra
lækna, segist líta markaðsátakið
jákvæðum augum. „Þetta er svo-
lítið óvenjuleg markaðssetning og
þegar eitthvað nýtt kemur fram
fara sumir ósjálfrátt í varnarstell-
ingar. Þarna er lyfjafyrirtæki sem
ákveður að hætta að nota peninga
til kynningarstarfs og setja frekar
í eitthvað sem kemur sjúklingum til
góða. Lyfið er gott og ég hætti ekki
að nota það þótt sjúklingurinn fái
einhvern bónus.“ Karl segist fagna
því ef framtak fyrirtækisins verði
til þess að blóðþrýstingssjúkling-
ar fylgi frekar ábendingum lækna
um aukna hreyfingu. „Ég veit að í
kjölfarið mun sjúklingurinn þurfa
minna af lyfjum og þar kemur
sparnaður á móti, honum kemur til
með að líða betur og lifa lengur.“
olikr@frettabladid.is
LÍKAMSRÆKT Í LAUGUM Karl Andersen, sérfræðingur í hjartalækningum, segir alþekkt að
sjúklingar fylgi ekki ráðleggingum lækna um breyttan lífsstíl og líkamsrækt og fagnar því
nýstárlegri markaðssetningu á nýju blóðþrýstingslyfi. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Markaðssetning nýs
lyfs ennþá í skoðun
Hvorki Lyfjastofnun né Landlæknisembættið hafa lokið skoðun sinni á
markaðsátaki á nýju blóðþrýstingslyfi. Framleiðandi lyfsins borgar fyrir líkams-
rækt sjúklinga. Hjartalæknir fagnar framtaki lyfjaframleiðandans.
KARL ANDERSEN
Karl er formaður
Hjartasjúkdóma-
félags íslenskra
lækna.