Fréttablaðið - 13.04.2007, Síða 26
greinar@frettabladid.is
Forystueðli íslenskra kinda og sauðfjárkynið okkar er ein-
stakt í heiminum, sagði í frétt RÚV
7. apríl, og jafnframt að bera megi
saman eðli forystukinda og mann-
skepnunnar. Kannski tilviljun en
samt skemmtilega táknrænt að
sama dag var kynnt Gallupkönn-
un um vinsældir stjórnmálaleiðtog-
anna. Geir er vinsælastur, þá Stein-
grímur og svo Ómar. Í fréttinni
kom líka fram að forystufé hefur
löngum þótt til vandræða í smala-
mennsku þar sem sjálfstæður vilji
þess stangast stundum á við vilja
bændanna. Kannski Geir sé bónd-
inn og nýliðinn Ómar hin óstýriláta
forystugimbur?
Eitt af því sem vekur athygli eru
óvinsældir Ingibjargar Sólrúnar.
Ekki síst vegna þess að hún hefur
verið talin foringjaefni frá upp-
hafi stjórnmálaferils síns. Án þess
að leggja mat á pólitískar áherslur
hennar eða tengsl við sauðfjár-
kynið er áhugavert að grípa niður
í stjórnmálasögu hennar út frá
styrkleikamælingu skoðanakann-
ana. Slíkar kannanir endurspegla
einmitt það þrástef tíðarandans að
stjórnmál snúist sífellt meira um
einstaklinga en málefni.
Á tímabilinu 1997-2001 mældi
Gallup ánægju fólks með störf
nokkurra þekktra Íslendinga,
þ.m.t. forsætisráðherra og borg-
arstjóra sem á þessum tíma voru
Davíð Oddsson og Ingibjörg Sól-
rún. Ánægja með störf Ingibjarg-
ar á tímabilinu mældist frá 63% til
78%. Ánægja með Davíð Oddsson
mældist umtalsvert lægri eða frá
43% til 69%, en hann er af mörg-
um talinn eiga einn glæsilegasta
feril íslenskra stjórnmálamanna.
Hér þarf auðvitað að hafa í huga
að borgarstjóraembættið er alla
jafna ekki eins „pólitískt“ eða um-
deilt og forsætisráðherraembætt-
ið. Í desember 2001 mældi Gallup
ánægju með borgarstjórn Reykja-
víkur. Tæp 39% sögðust ánægð
með meirihlutann en miklu fleiri
voru ánægðir með borgarstjórann
eða 62% og ljóst að Ingibjörg naut
meiri hylli en meirihluti borgar-
stjórnar (Gallup 2002).
Í aðdraganda kosninganna 2003
spurði Gallup um viðhorf til stjórn-
málaforingja sem forsætisráð-
herraefna. Ingibjörg hafði yfir-
burðastöðu en 73% töldu að hún
myndi „standa sig vel“ sem forsæt-
isráðherra, næstur kom Davíð með
62% og aðrir foringjar neðar. Ríf-
lega helmingur bar „mikið traust“
til hennar, talsvert fleiri en treystu
hinum foringjunum. Þá töldu 78%
Ingibjörgu „málefnalega“, þar sem
hún deildi fyrsta sætinu með Stein-
grími J. (Gallup 2003). Í rannsókn
Ólafs Þ. Harðarsonar eftir kosn-
ingarnar 2003 var enn spurt um
afstöðu til leiðtoganna. Af þeim
sem tóku afstöðu sögðu jafnmarg-
ir að Ingibjörg og Davíð Oddsson
„endurspegluðu skoðanir sínar vel“
eða 29%, aðrir leiðtogar voru miklu
neðar. Þessar kannanir voru gerðar
eftir umdeilt brotthvarf hennar úr
stóli borgarstjóra.
Hvað hefur eiginlega gerst síðan
2003 þegar Ingibjörg var talin trú-
verðugur og áhrifamikill leiðtogi
af þjóð sinni, hefur hún gert eitt-
hvað af sér? Verðskuldar hún þess-
ar óvinsældir – og það meðal kyn-
systra sinna? Það er rannsóknar-
efni fyrir fræðinga hvað skýri
þennan viðsnúning. Hvaða þýðingu
hafði formannsslagur Samfylkingar-
innar 2005 og nýtt hlutverk Ingi-
bjargar? Gleymum ekki að það var
ný reynsla fyrir þjóðina að kona
felli sitjandi stjórnmálaforingja.
Jóhanna Sigurðardóttir tapaði jú
þegar hún skoraði Jón Baldvin á
hólm í formannskjöri árið 1994.
(Nei, hér er ekki verið að gleyma
formannsslag Margrétar Frímanns-
dóttur og Steingríms J. en munur-
inn er sá að þá var formannssætið
laust). Að sækjast eftir forystu-
hlutverki er auðvitað áhættusamt
uppátæki fyrir konur, eins og Halla
Gunnarsdóttir fékk að reyna á dög-
unum í KSÍ og Siv í Framsóknar-
flokknum. Nema kannski að taka
rækilega fram fyrst að maður bjóði
sig EKKI fram sem kona held-
ur á eigin verðleikum. Rétt eins og
konur séu almennt án verðleika eða
bjóði sig iðulega fram á forsend-
um kynsins en ekki hæfileikanna –
öfugt við karla?
Og hvaða þýðingu og áhrifa-
mátt hafa fjölmiðlar? Rannsókn-
ir sýna að fjölmiðlaumfjöllun um
stjórnmálakonur gengur mikið út á
útlit, framkomu, klæðnað og tilvís-
anir í kyn fremur en gerendamátt
og athafnir. Arna Schram skrifaði
skemmtilega grein í Morgunblað-
ið árið 2003 þar sem hún lagði út af
frétt í DV með yfirskriftinni „Lipp-
onen gæti misst völdin í hendur
konu“, en „konan“ var Anneli Jäätt-
eenmäki þáverandi formaður Mið-
flokksins í Finnlandi. Ein af þeim
sem hefur rannsakað hlut fjölmiðla
í að skapa eða draga úr trúverðug-
leika kvenna í stjórnmálum er fjöl-
miðlafræðingurinn Karen Ross.
Þeir sem vilja fræðast meira ættu
endilega að drífa sig á fyrirlest-
ur hennar í hádeginu í dag í Há-
skóla Íslands um stjórnmálakon-
ur sem fréttaefni. Þótt samlíking-
in við sauðfjárkynið sé skemmtileg
er sá grundvallarmunur á kind-
um og fólki að kindahjörðina skort-
ir tungumál, menningu og sjálfs-
vitund. Rollur hvorki lesa blöð
né fylgjast með fjölmiðlum, þær
myndu aldrei spyrja: „Hvar hún
fékk þessa skó?“
Íslenska forystukindin
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Fram-sóknarflokks í Reykjavík hefur ákveð-
ið að láta hendur standa fram úr ermum
í umhverfismálum í borginni og vera um
leið öðrum sveitarfélögum til fyrirmyndar.
Borgarbúar munu nú reglulega verða varir
við vistvænar breytingar í borginni.
Reykjavíkurborg ætlar t.d. að leggja sitt
af mörkum til að gera þjónustu Strætó betri. Þannig
munu reykvískir námsmenn fá ókeypis í strætó
næsta vetur. Þetta atriði felur í sér fjölmörg tæki-
færi og ég hvet reykvíska framhaldsskóla og há-
skólanemendur til að nýta sér það. Samgöngur eru
helsti orsakavaldur mengunar í borginni og ef náms-
menn taka að líta á Strætó sem góðan valkost mun
draga úr þessari mengun – auk þess draga þeir úr
eigin samgöngukostnaði til og frá skóla.
Ég er viss um að einhverjir námsmenn munu
fresta kaupum á bifreiðum og nota hagstæðar al-
menningssamgöngur í borginni. Einnig má nefna að
það verður betra að ferðast með strætisvögnum en
áður því að allar lykilbiðstöðvar munu birta raun-
tímaupplýsingar og biðstöðvar fá heiti sem
birtast mun á ljósaskiltum um borð í vögnun-
um. Þá fær strætó oftar forgang í umferðinni
á völdum stofnbrautum.
Græn skref í Reykjavík eru í tíu flokkum
og er þar fjölmargt að nefna sem borgarbúar
eru hvattir til að kynna sér, t.a.m. munu öku-
menn visthæfra bifreiða geta lagt ókeypis í
bílastæði borgarinnar. Visthæfar bifreiðar
teljast þau ökutæki sem nota bensín eða dísil
en hafa lítinn útblástur og eru sérlega spar-
neytin. Þetta græna skref er m.a. hvatning til
borgarbúa um að nota slíkar bifreiðar í borginni.
Þá vil ég einnig nefna að göngu- og hjólreiðastíg-
urinn frá Ægisíðu upp í Elliðaárdal verður breikkað-
ur, upphitaður og vatnshönum þar fjölgað. Þetta er
viðleitni til þess að gera hjólreiðar að raunveruleg-
um samgöngumáta í borginni.
Ég hvet borgarbúa til að kynna sér á heimasíðu
Reykjavíkurborgar framkvæmdaáætlun í umhverfis-
málum sem við höfum nú hrint í framkvæmd, m.a.
um visthæfari leik- og grunnskóla, göngugötu, meiri
endurvinnslu og betri loftgæði í borginni.
Höfundur er formaður ungra framsóknarmanna og
varaformaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar.
Strætó raunhæfur valkostur
E
itt stærsta vandamál Samfylkingarinnar hefur verið
skortur á stöðugleika í málflutningi. Oft og tíðum hafa
viðbrögð í röðum flokksins einkennst af tilviljana-
kenndum viðbrögðum við einstökum atburðum í sam-
félaginu og ekki alltaf verið ljóst af hvaða heildarsýn
þau hafa verið sprottin.
Slíkt er fremur einkenni smáflokka, en þeirra sem ætla sér
leiðandi stöðu í litrófi stjórnmálanna. Í vikunni kynnti Samfylk-
ingin skýrslu í ritstjórn Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráð-
herra, Seðlabankastjóra og forstjóra Norræna fjárfestingar-
bankans. Skýrslan gefur greinargóða mynd af helstu vanda-
málum efnahagskerfisins og helstu úrlausnarefnum sem bíða
ábyrgra stjórnvalda á komandi kjörtímabili.
Í skýrslunni eru með efnislegum hætti gagnrýnd lausa-
tök í efnahagsstjórninni og togstreitan milli ákvarðana ríkis-
stjórnar og Seðlabanka sem hefur hamlað því að tök hafi náðst
á þenslunni í efnahagslífinu. Um leið og finna má harða gagn-
rýni á ríkisstjórnina verður ekki annað séð en að um leið sé færð
fram býsna óvægin sjálfsgagnrýni.
Samfylkingin gerði mistök í umræðu um fjárlög þegar einungis
var að finna frá hennar hendi tillögur um aukin útgjöld í bullandi
þenslu í hagkerfinu. Skýrslan nú, sem er afar vönduð og sjónar-
miðin vel rökstudd, er mikilvægt skref og stefnubreyting frá upp-
hlaupsstjórnmálum til umræðu á grundvelli heildarsýnar á sam-
félagið og þróunar þess á komandi árum. Slíkt er fagnaðarefni og
mikilvægt að flokkurinn nýti landsfund sinn til að sýna í verki að
hentistefnan sé að baki og fram undan sé tími yfirvegaðrar fram-
tíðarsýnar sem byggð sé á raunsæi og ábyrgð. Slík sýn er einkenni
stórflokka, líka þegar á móti blæs í skoðanakönnunum.
Eins og við er að búast er svo yfirgripsmikið útspil gagnrýnt á
ýmsa vegu. Það er fyllilega eðlilegt. Hins vegar er nauðsynlegt
að svara jafn vel rökstuddri og yfirvegaðri sýn með sama hætti.
Meðal þess sem leiðari Morgunblaðsins gagnrýnir með gífur-
yrðum er fullyrðingar skýrslunnar um frumkvæði Íbúðalána-
sjóðs á lánamarkaði sem höfðu í för með sér aukna þenslu. Slík
gagnrýni lýsir lítilli þekkingu á lögmálum frjáls markaðar og
þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Leiðarar Morgunblaðs-
ins hafa tíðum verið eins og nátttröll í morgunskímu þess dags
þegar þjóðin innleiddi opið vestrænt hagkerfi eins og það tíðk-
ast hjá nágrannaþjóðum okkar.
Samfylkingin þarf að senda skýr skilaboð á landsfundi sínum
um að hugur fylgi máli. Sjálfstæðisflokkurinn heldur einnig
landsfund og spennandi verður að sjá hvort milduð verður hin
Thatcheríska sýn á evruna sem ásamt þögn hefur verið inntakið
í afstöðu flokksins til framtíðarstöðu þjóðarinnar í alþjóðamálum
síðustu ár.
Mikilvægt skref í
átt að heildarsýn
Skráðu þig fyrir 15. maí 2007.
MA
í skattarétti