Fréttablaðið - 11.09.2007, Qupperneq 17
Mæður og börn geta nú æft saman í mömmu-
þreki, nýju námskeiði sem Borghildur Sverris-
dóttir kennir hjá Heilsuakademíunni.
„Við ætlum að koma líkamanum í fyrra horf, eftir
meðgöngu og fæðingu. Styrkja miðsvæðið sem hefur
verið undir mestu álagi undanfarna mánuði. Það
verður gert með styrkingu og góðri brennslu. Lóð,
teygjur og boltar verða notuð og áhersla lögð á mjúkar
hreyfingar, sem gera má heima og með barninu.“
Þetta segir einkaþjálfarinn Borghildur Sverrisdóttir
um námskeiðið mömmuþrek sem hún hefur umsjón
með hjá Heilsuakademíunni og verður til að byrja með
í nýja íþróttahúsinu við Lækjarskóla. Námskeiðið
verður einnig kennt í Heilsuakademíunni í Egilshöll.
Að hennar sögn er nýbökuðum mæðrum velkomið
að mæta með börn sín á námskeiðið, enda tímarnir
skipulagðir og hugsaðir þannig að barnið verði hluti
af æfingunum. Til marks um það ætlar hún að kenna
æfingar þar sem þyngd barnsins kemur í stað lóða,
ásamt því að veita ráð í tengslum við grindarbotns- og
mjóbaksæfingar.
„Svo er ég með áskorunarnámskeið fyrir konur,
sem ég hef verið að þróa en er nú komin með það inn
í Heilsuakademíuna,“ segir Borghildur. „Það var að
seljast upp á það en það næsta hefst eftir átta
vikur.“
Áherslan verður ekki bara á djöflast, heldur koma
huganum í rétt lag og vinna með markmiðasetningu.
Nota hugann til að gera hreyfingu og hollt og gott
mataræði að lífsstíl. Þess vegna mæli ég með að þátt-
takendur verði með alveg til jóla. Þá eru meiri líkur á
að langtíma árangur náist.“
Borghildur tók hugarfarslega þáttinn meira inn í
eigin þjálfun fyrir nokkrum árum og sá þá hversu
áhrifarík markmiðasetning og hugarfarsbreyting er.
Hún telur að hugurinn verði því miður alltof oft út
undan í umræðunni um bætt heilsufar, en hann verði
að vera með í för eigi árangur að nást.
„Ég ætla að nota nokkrar mínútur til að fara yfir
markmiðin í hverjum tíma. Enda trúi ég að mínútunni
sé sannarlega vel varið ef það er gert.“
Barnið
með í
ræktina