Fréttablaðið - 29.10.2007, Blaðsíða 16

Fréttablaðið - 29.10.2007, Blaðsíða 16
greinar@frettabladid.is Pósthúsið - S: 585 8300 - www.posthusid.is Nú þegar farið er að myrkva úti viljum við vinsamlega minna íbúa á að hafa kveikt á útiljósum við heimili sín til að auðvelda blaðberum Fréttablaðsins aðgengi að lúgu. Munum eftir útiljósunum ! Fyrirfram þakkir, dreifing Fréttablaðsins Stjórnendur hjá ríkisstofnunum tóku nýlega þátt í könnun á eigin vegum, að því er mér skilst, þar sem þeir komust að þeirri niðurstöðu að þeim bæri meiri völd til að ráðskast með réttindi og kjör starfsmanna. Þar með ættu þeir að geta rekið fólk skýringalaust ef svo bæri undir. Þar er átt við að losna þurfi við svokallað lögbundið áminningaferli við uppsagnir. Það felur það í sér að ef reka á starfsmann þurfi að veita honum við- vörun og gefa honum kost á því að leiðrétta hugsanlegan misskilning eða bæta sig í starfi ef viðkomandi hefur ekki staðið sig í stykkinu. Þetta ferli er til þess að koma í veg fyrir geðþóttastjórnun og jafnframt tryggja sjálfsögð mannréttindi á vinnustað. Sú ranghugmynd hefur lengi verið á sveimi um opinbera starfsmenn, að við þeim sé ekki hægt að hrófla hvað sem á gengur. Fyrir það fyrsta taka vinnustaðir iðulega breyt- ingum í samræmi við breyttar aðstæður. Þá er hægt að ráðast í skipulagsbreytinar og hreinlega leggja niður störf. Viðkomandi starfs- maður átti við slíkar aðstæður rétt á svokölluðum biðlaunum í bætur, í sex mánuði eða tólf eftir starfsaldri viðkomandi. Biðlaunarétturinn gildir þó aðeins fyrir þá sem voru í starfi fyrir 1997 því þá var þessi réttur afnuminn illu heilli. Í annan stað er hægt að segja fólki upp störfum en þá með skýringum sem eiga að þola dagsljósið. Í rauninni snýst þetta fyrst og fremst um að fólk tali saman og að á stjórnanda hvíli skyldur, ekki síður en starfsmanni. Í þriðja lagi er þess að geta, að hafi starfsmaður brotið alvarlega af sér er brottrekstur heimill. Ef um er að ræða samskiptavanda á vinnustað getum við ekki gefið okkur að sökin sé starfs- mannsins, stjórnandinn gæti verið vandamálið. Ég þekki fjölda vandaðra stjórnenda hjá hinu opinbera, sem líður ágætlega við það lagalega og samningsbundna umhverfi sem þeim er búið. Skyldu það vera vanhæfustu stjórnendurnir sem mest ásælast aukin völd? Höfundur er formaður BSRB. Vanhæfir stjórnendur Ú tvegsmenn segjast hafa tapað milljörðum á háu gengi krónunnar. Kaupþingsfólk ætlar að færa bókhald sitt og skrá hlutabréf í evrum. Starfsfólk Marel mun eiga kost á því fljótlega að fá hluta af launum greidd í evrum. Allar þessar fréttir vekja upp spurningar um stöðu íslensku krónunnar. Gagnrýni á vaxtastefnu Seðlabanka Íslands hefur oft og tíðum verið ómakleg undanfarin misseri. Samkvæmt lögum frá árinu 2001 ber bankanum að stuðla að því meginmarkmiði að halda verðlagi stöðugu. Það þýðir að bankinn verður að bregðast við þegar verðbólga mælist meiri eða minni en 2,5 prósent yfir tólf mánuði. Til þess hefur hann fullt svigrúm til að beita stýrivöxtum samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Stefna Seðlabankans er auðvitað ekki hafin yfir alla gagnrýni. En þeir sem hæst láta verða líka að athuga hvað hefði gerst ef Seðlabankinn hefði ekki brugðist við og beitt stjórntækjum sínum af fullum þunga. Ljóst er að ójafnvægi í hagkerfinu hefði orðið mun meira. Þenslan hefði orðið kröftugri og verðbólgan meiri. Fyrir vikið hefði bakslagið eftir þensluna orðið víðtækara en við sjáum fram á nú. Íslendingar væru ekki að horfa á neina mjúka lend- ingu hagkerfisins. Hægt væri að segja að brotlending blasti við ef Seðlabankinn hefði ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Að þessu verða útvegsmenn og forystumenn Samtaka atvinnu- lífsins að huga þegar þeir setja fram gagnrýni sína. Þetta snýst ekki um þrönga hagsmuni þeirra heldur hagsmuni alls almennings í landinu. Gagnrýni þessara aðila á miklu frekar að beinast að umfangsmiklum opinberum framkvæmdum undan- farin ár, auknum ríkisútgjöldum og ríkisreknum Íbúðalánasjóði. Ákvarðanir opinberra aðila hafa átt stóran þátt í því að auka eftirspurn í hagkerfinu og ýtt undir þensluna. Eðlilega hefur Seðlabankinn þurft að bregðast við því. Forystumenn útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins velta fyrir sér í þessu árferði hvaða áhrif upptaka evrunnar myndi hafa. Réttilega vita þeir að sú umræða er aðskilin frá þeim vanda sem nú er glímt við í efnahagslífinu. Ástandið hefði hins vegar verið mun verra ef ekki hefði verið rekin hér sjálfstæð peningamálastefna. Það breytir því ekki að evran mun skipta fólk og fyrirtæki meira máli í framtíðinni. Sú þróun er eðlileg og verður að vera í sátt við stjórnendur Seðlabanka Íslands og önnur stjórnvöld. Auk Kaupþings ætlar Straumur-Burðarás að skrá hlutabréf sín í evrum. Seðlabankinn vinnur nú að því að gera þetta mögu- legt ásamt Verðbréfaskráningu Íslands. Mikilvægt er að krónan hamli ekki vexti íslenskra fyrirtækja sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum. Að sama skapi er það jákvætt skref ef starfsmenn íslenskra fyrirtækja geta fengið hluta af launum greidd í evrum eins og unnið er að innan Marels og fleiri fyrirtækja. Það getur komið sér vel til að greiða niður erlendar skuldir heimilanna sem hafa stóraukist undanfarin ár. Þessari þróun verður ekki snúið við. Við eigum að nýta kosti þess að reka hér sjálfstæða peningamálastefnu með þeim takmörkunum sem því fylgir. Um leið eigum við að auðvelda fólki og fyrirtækjum að nota þá gjaldmiðla sem henta. Krónan og evran ættu að geta lifað ágætis lífi hlið við hlið á Íslandi. Sátt um evruna Um daginn las ég minningar Eufemiu Waage „Lifað og leikið“ sem Hersteinn Pálsson skráði. Eufemia var hluti af einni helstu leiklistarfjölskyldu Íslendinga og bókin er ómetanleg heimild um fyrstu ár leiklistar í landinu, bæjarbrag í gömlu Reykjavík og líf fólks af betra standi. Hún er líka heimild um hugsunar- hátt. Á blaðsíðu 25 stendur um kaupmann í Þingholtsstræti „... maður þessi hét John Armitage og var reglulegur gamaldags Gyðingur. Var hann með hárið vafið í krullu, síðskeggjaður, með Gyðingakollu á höfði og í Gyðingakufli. Hefi ég aldrei, fyrr né síðar, séð Gyðing með krullu. Ég skal ábyrgjast, að hann hefur komið beint úr Ghetto (Gyðinga- hverfi stórborganna) og var allt framferðið eftir því. Þau áttu ein fjögur börn og voru þau verst uppalda hyski, sem ég hefi nokkru sinni komizt í kynni við. Fór þar saman ljótt orðbragð og dónaskapur í allri annarri framkomu. Sóðaskapurinn keyrði alveg úr hófi hjá fólki þessu. Eitthvað heyrði ég því fleygt, að því hefði verið vísað úr landi héðan, en engar sönnur veit ég á því.“ Nú á dögum myndu flestir kinoka sér við því að tengja eitthvert „framferði“ fólks svo beint við uppruna þess. Við sjáum á þessari klausu að hvað sem líður fágun Eufemiu og góðu uppeldi þá er hún sýnilega haldin Gyðingahatri því hún þekkir ekki heiminn – hún hefur aldrei séð „Gyðing með krullu“. Hún er heimaalið barn. Einar heitinn Heimisson sagnfræðingur neyddi um síðir Íslendinga til að horfast í augu við smánarlega framkomu yfirvalda og margra iðnaðar- manna við nokkra Gyðinga sem hingað flúðu undan ofsóknum nasista. Hann leiddi skilmerki- lega í ljós að þessi hugsunar- háttur átti sér djúpar rætur í þjóðlífinu. Nú á dögum beinist þetta hugarfar einkum að múslimum sem eru þá allir dæmdir eftir nokkrum glæpamönnum sem réttlæta óhæfuverk sín með versum úr Kóraninum. Ekki myndi þó hvarfla að nokkrum manni að áfellast þann góða mann og katólikka Gunnar Eyjólfsson fyrir hryðjuverk katólikka í IRA í Englandi sem eins og Doris Lessing benti réttilega á um daginn voru mun skelfilegri en árásirnar 11. september. Og nú þykir allt í einu gömul og mölkúluleg barnabók þar sem gys er gert að „negrum“ einhver konungsgersemi. Samt er Tíu litlir negrastrákar ekki annað en birtingarmynd á sama hugar- ástandi og sjá mátti hjá Eufemiu Waage: bókin vitnar sterklega um það mat höfunda að hörunds- dökkir drengir séu vitleysingar. Í sjálfu sér er það ekki orðið „negri“ sem er óþægilegt við bókina – við sem komin erum á miðjan aldur ólumst upp við þetta latneska orð sem þýðir svartur eða dökkur og sjálfur Martin Luther King notaði „negro“ í sínum stórræðum. Nei – eitthvað annað. Ég vona að ég sé ekki að hreykja mér en þegar ég var lítill fannst mér þetta alls ekki skemmtileg bók – ég kenndi í brjósti um negra- strákana og skildi ekki hvað var svona skemmtilegt við hörmuleg afdrif þeirra. Og ég skil það ekki enn: í bókinni eru ekki bara bjánalegar staðalmyndir heldur líka einhver gegnumgangandi meinfýsni í garð drengja sem brúnir eru á hörund. Áhangendur bókarinnar hafa upphafið kunnuglegan söng um „pólítískan rétttrúnað“ – „pólit- íska rétthugsun“ – eða gott ef ekki „pólitíska réttsýni“ eins og mig minnir að eitthvert gáfna- ljósið hafi nefnt það um árið: hvers kyns gagnrýni á óboðlegar hugmyndir og framkomu við annað fólk er afgreidd með þessari rangþýðingu á ameríska hugtakinu „political correctness“ sem þýðir eiginlega „pólitísk stífni“ eða eintrjáningsháttur. Ég hef aldrei skilið þá visku að telja „rétt“ vera rangt; og hvers vegna fólki finnst svo brýnt að meiða aðra með orðum. Svona talar fólk sem veit innst inni að það heldur fram röngum málstað. Svo er alltaf spurt hvers vegna „ekki megi styggja minnihluta- hópa“. Þá gleymist að allt okkar orðbragð er heimild um okkur sjálf en ekki skotspóninn. Og fólk sem brúnt er á hörund er ekki „hópur“. Fólk sem brúnt er á hörund er skemmtilegt, gáfað, klaufskt, indælt, ríkt, öfundsjúkt, kulvíst, heitfengt, heimskt, hófsamt, bæklað, andríkt, feimið, mein- fýsið, fallegt, hógvært, innskeift, handlagið, fátækt, kjarkað, ósynt, fluglæst, lagvisst, duglegt, glaðvært, latt, glatt, fyndið, hagmælt, hávært, ljúft, hljóðlátt, trúað, glatað, kverkmælt, sanngjarnt, göldrótt, önugt, kærleiksfullt, kynlaust, lítið, stórt, ljóst, dökkt, útlenskt, íslenskt, hér og þar, þau og – við. Heimild um okkur

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.