Fréttablaðið - 01.04.2008, Blaðsíða 14
14 1. apríl 2008 ÞRIÐJUDAGUR
greinar@frettabladid.is
FRÁ DEGI TIL DAGS
Nokkru eftir að áhrifamaður í viðskiptalífinu sem ég þekki
vel fagnaði merkum tímamótum í
lífi sínu með fjölsóttri móttöku,
kom sameiginlegur vinur okkar að
máli við mig. Var að velta fyrir sér
hvort maðurinn hefði fengið í
hendur kjörgrip sem hann hafði
sent honum í tilefni dagsins. Hvort
ég hefði vitneskju um það.
Og ef svo væri – hvernig honum
líkaði gjöfin. Gefandann hafði
langað til að gleðja vin sinn, sem
hann metur mikils, og lagt nokkuð
á sig til að finna gjöf sem hæfði
honum. Þar sem gripurinn sem
hann valdi var augljóslega
verðmætur þótti honum næstum
óhugsandi að þiggjandinn hefði
ekki slegið á þráðinn til að þakka
fyrir sig, eða segja skoðun sína á
honum og var eiginlega orðinn viss
um að pakkinn hefði misfarist.
Svo var ekki. Og þiggjandinn
var bæði hrifinn og hrærður. En
lét þó ekki verða af því að láta
gefandann vita af því. Ekki af því
að hann meti hann ekki mikils, því
að það gerir hann, heldur af
einhvers konar meðvitundarleysi
sem er orðið útbreytt hér á landi,
þegar kemur að því að því þiggja
gjafir – nema þegar gjöf er afhent
af gefandanum sjálfum og
þiggjandinn tekur hana upp í hans
viðurvist.
Vísast hefur framangreindur
áhrifamaður tjáð sig um gripinn
næst þegar fundum þeirra vinanna
bar saman, hvenær sem það svo
var. En eftir tiltekinn tíma án
viðbragða er augnablik eftirvænt-
ingarinnar yfirleitt liðið hjá.
Gleðin að gefa
Sú hefð hefur skapast að veislu-
gestir í brúðkaupum, stóraf-
mælum, fermingum og útskriftum
komi færandi hendi og leggi gjafir
sínar á sérstakt borð. Pakkarnir
eru opnaðir eftir að veislunni lýkur
og hreint ekki víst að gefendunum
berist til eyrna hvernig viðleitni
þeirra til að gleðja brúðhjónin,
fermingar barnið, afmælisbarnið
eða stúdentinn lukkaðist. Á þessu
eru auðvitað margar og góðar
undantekningar en ýmislegt bendir
til að hitt sé að verða algengara.
Gestir eru boðnir velkomnir þegar
þeir mæta, kvaddir og þakkað fyrir
komuna og síðan ekki söguna meir.
Þetta er hvorki vitnisburður um
vanþakklæti eða virðingarleysi
heldur tíðaranda.
Til eru þeir sem leggja umtals-
verða vinnu og fyrirhöfn í að finna
nógu góða gjöf fyrir vin eða
ættingja, eitthvað sem hentar
sérstaklega þeirra smekk og
þörfum, eitthvað sem virkilega
gleður þiggjandann, og kemur
honum á óvart. Það eru nefnilega
ekki orðin tóm að það sé meira
gaman að gefa en þiggja. Þessir
gefendur eru ekki endilega að
búast við eða sækjast eftir
upphrópunum og yfirdrifnu
þakklætismálæði. En það er dálítið
spennufall fyrir þá að fá engin
viðbrögð.
Pöntunarlistinn
Þrátt fyrir framansagt er algeng-
ast í hraða og erli nútímans, að
haft sé samband við aðstandendur
og spurt um óskir tilvonandi
brúðhjóna, afmælisbarna eða
fermingarbarna. Gjarnan er þá
vísað í tiltekna verslun sem er
með lista yfir það sem brúðhjónin
vilja fá. Fermingarbörn vita að á
þessum tímamótum er óþarfi að
halda aftur af sér þegar óska-
listinn er saminn. Séu óskagjaf-
irnar of dýrar fyrir eina fjöl-
skyldu, taka fleiri fjölskyldur sig
saman til að unglingurinn fái það
sem hann raunverulega langar í á
þessum degi.
Allt er þetta hagkvæmt,
skilvirkt og gott og blessað. Allir
fá það sem þeir vilja. Þiggjendurn-
ir eru ánægðir með að fá óskir
sínar uppfylltar og gefendurnir
fegnir að losna við umstangið af
því að leita að gjöfum.
En er þetta ekki orðið dálítið
sjálfvirkt og ópersónulegt? Að fá í
hendur pöntunarlista, í stað þess
að þurfa að setja sig í spor
þiggjendanna og og leggja það við
eigið gildismat hvað er besta
gjöfin. Hvaða skilaboð eru þetta
til nýrrar kynslóðar á þröskuldi
fullorðins áranna? Hugsar þetta
unga fólk hlýlega til gefendanna
þegar það opnar pakkana sína, eða
er þetta sjálfsagður afrakstur
fermingar, giftingar og annarra
tímamóta? Nokkurs konar
fjölskyldu- og vinaskattur sem
öllum ber að standa skil á. Ræða
foreldrar þeirra við þau um að
þetta séu væntumþykjugjafir en
ekki skyldusendingar eða
aðgöngumiði að veislunni. Hvetja
þau börn sína sem eru að fermast,
giftast eða útskrifast til að þakka
fyrir sig. Og láta vita að þau séu
ánægð með gjöfina, ef þau eru það
í raun og veru. Ef ekki með
símtali, þá með samskiptaæð
nútímans, tölvupósti eða SMS-
skeyti.
Spurningin er hvort foreldrarnir
sjálfir átta sig á þessu, en það er
náttúrulega lykilatriði. Það er
mikill sannleikur í því sem góður
vinur minn, sem nú er látinn,
Kristján skáld frá Djúpalæk, sagði
einhverju sinni við mig: „Eplið
fellur sjaldan langt frá eikinni,
Jónína mín, og það besta sem
maður getur gert fyrir börn sín –
og kannski það eina – er að vera
sæmileg eik!“
Listin að þiggja
Í DAG |
JÓNÍNA MICHAELSDÓTTIR
Gjafir
UMRÆÐAN
Evrópumál
Fleiri og fleiri stjórnmálamenn og skríbentar lýsa sig nú reiðubúna til
að ræða vegvísi um hvernig unnt gæti
verið að haga umsóknarferli um aðild að
Evrópusambandinu. Það er góðs viti.
Leiðari Þorsteins Pálssonar um þetta
efni á sunnudag kallar hins vegar á
nokkrar athugasemdir.
Í fyrsta lagi virðist Þorsteinn ganga út
frá því að ekki sé unnt að taka ákvörðun um aðild
fyrr en stjórnarskrá hafi verið breytt. Ekkert
hindrar ríkisstjórn á hverjum tíma í að sækja um
aðild að ESB, svo fremi hún hafi til þess meirihluta-
fylgi á Alþingi. Þannig hafa nágrannalönd okkar
borið sig að við aðildarumsókn og ekkert mælir með
því að við höfum annan hátt á. Ekki verður heldur
séð af hverju hér á landi eigi að þurfa þjóðarat-
kvæðagreiðslu til að heimila umsókn.
Í annan stað mælir Þorsteinn með því að meiri
hluti þjóðarinnar þurfi að mæta á kjörstað og greiða
atkvæði með aðild. Ég spyr á móti: Af hverju á að
telja þá sem ekki hafa nægilegan áhuga á að mæta á
kjörstað til andstæðinga málsins? Þvert á móti má
ætla að í heimasetu felist vísbending um
að sá hluti þjóðarinnar sé bærilega
sáttur við tillöguna.
Eftir að aðildarsamningur liggur fyrir
þarf að bera hann undir þjóðaratkvæði.
Ekkert girðir fyrir að slík þjóðar-
atkvæðagreiðsla fari fram þótt stjórnar-
skrárbreyting hafi ekki verið gerð. Ef
þjóðin hafnar samningnum er sjálfhætt.
Ef þjóðin samþykkir samninginn kemur
til kasta Alþingis að samþykkja stjórnar-
skrárbreytingu. Að því verki loknu er
annað tveggja hægt að rjúfa þing og
boða til kosninga – nú eða einfaldlega bíða til loka
formlegs kjörtímabils ef ekki liggur meira á.
Aðildin tekur náttúrulega ekki gildi fyrr en
Íslendingar hafa gert stjórnskipulegar ráðstafanir
sem gera þjóðinni kleift að starfa innan ESB.
Umræða um vegvísi er nauðsynleg. Hún leysir
menn hins vegar ekki undan raunsæju mati á
þjóðarhagsmunum. Með sama hætti á umræða um
vegvísi ekki að snúast um að setja upp frekari
farartálma eða hraðahindranir á leið þjóðarinnar að
aðild að ESB, ef vilji þjóðarinnar stendur til aðildar.
Höfundur er alþingismaður.
Vegvísir eða farartálmi?
ÁRNI PÁLL ÁRNASON
Á öndverðum meiði
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utan-
ríkisráðherra er andsnúin byggingu
álvers við Helguvík. Hún segir
að stóriðjuframkvæmdir á suð-
vesturhorninu séu ekki góð hagfræði
heldur líklegar til að ýta undir enn
meiri verðbólgu. Á öndverðum meiði
er Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Hann telur að bygging nýs álvers
geti þvert á móti orðið heppileg fyrir
efnahagslífið og aukið hag-
vöxt. Það er því ljóst að hvort
sem álver rís í Helgu-
vík eða ekki verður
niðurstaðan þvert á
vilja annars stjórnar-
flokksins. Það hlýtur
að skapa spennu á
stjórnarheimilinu.
Tossarnir sektaðir
Borgaryfirvöld hyggjast sekta eig-
endur niðurníddra húsa í miðborg-
inni ef þeir taka ekki á sig rögg.
Gott mál. En hversu mörg slík hús
ætli séu í eigu borgarinnar? Nú er
til dæmis næstum ár liðið frá því að
nokkur hús brunnu í Austurstræti.
Rústirnar eru enn á sínum stað
- í boði borgarinnar, sem keypti að
minnsta kosti eina eign. Getur farið
svo að Reykvíkingar þurfi ekki aðeins
að horfa upp á þetta gapandi sár
í hjarta borgarinnar heldur einnig
greiða sektir af þeim?
Nauðbeygðir undir lögin
Egill Helgason spurði ráðherra og
þingmenn í Silfrinu á sunnudag
hvernig þeir gætu leyft sér að
eyða peningum í aðstoðarmenn fyrir
þingmenn í þeim efnahagsþrenging-
um sem nú eru. Atli Gíslason minnti
á að Vinstri grænir voru ekki hlynntir
þessu fyrirkomulagi á sínum tíma
og sátu hjá í atkvæðagreiðslu. Engu
að síður hafa þrír þingmenn Vinstri
grænna ráðið sér aðstoðarmann, þar
á meðal Atli sjálfur. Hann svaraði því
til að hann færi að lögum í landinu.
Bíðum við, eru þingmenn beinlínis
skyldaðir til að hafa aðstoðar-
menn? Það hlýtur að vera.
Annars væri ekkert því til
fyrirstöðu að Vinstri grænir
sýndu afstöðu sína
í verki með því að
ráða ekki aðstoðar-
menn.
bergsteinn@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365
RITSTJÓRAR: Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir FRÉTTASTJÓRAR: Arndís
Þorgeirsdóttir, Kristján Hjálmarsson, Trausti Hafliðason og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál). FULLTRÚI RITSTJÓRA:
Páll Baldvin Baldvinsson. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu,
Akureyri og þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni.
Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871
H
eimildir lögreglunnar til að hafa eftirlit með fólki
án vitneskju þess eru rúmar samkvæmt íslenskum
lögum. Reyndar eru lagaákvæðin svo opin að þau
virðast fremur vera sniðin að hagsmunum lögregl-
unnar en borgaranna.
Til þess að útvega sér dómsúrskurð um símhleranir, ljósmynd-
un eða hreyfimyndaupptökur á laun þarf lögreglan að sýna fram
á að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt: „a. að ástæða sé til að ætla
að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist
með þessum hætti,“ og „b. að rannsókn beinist að broti sem varðað
getur að lögum átta ára fangelsi eða ríkir almannahagsmunir eða
einkahagsmunir krefjist þess.“
Þetta er ekki flókinn texti og nær fyrir vikið yfir víðfeðmt svið
rannsókna á mögulegum afbrotum. Það er dómstóla að meta í
hvert sinn hvort réttmætt sé að brjóta á einkalífi hinna grunuðu
með eftirlitinu. Hér á landi beitir lögreglan símhlerunum fyrst
og fremst í einum málaflokki, við rannsókn mögulegra fíkniefna-
brota. Og hafa dómstólarnir verið mjög viljugir til að verða við
óskum um hleranir við þær aðstæður.
Í Fréttablaðinu í gær er sagt frá því að lögreglan hafi á síðasta
ári sex sinnum fengið heimild til að hlera síma manns sem lá undir
grun í tilteknu fíkniefnamáli. Að auki kom lögreglan fyrir svoköll-
uðum eftirfararbúnaði í bíl mannsins og gat því fylgst með ferð-
um hans. Þegar til kastanna kom reyndist maðurinn ekki viðriðinn
málið. Var hann þá búinn að sæta eftirliti svo vikum og mánuðum
skipti.
Í greinargerð lögreglunnar, sem lá til grundvallar hlerunar-
heimildunum, kemur fram að maðurinn á brotaferil að baki. Lítill
vafi er á því að sú saga mannsins hefur haft sitt að segja þegar
héraðsdómur heimilaði eftirlit með honum, sex sinnum í röð, án
þess að neitt kæmi í ljós sem gæfi tilefni til handtöku eða ákæru.
Þolinmæði okkar tíma gagnvart þeim sem mögulega stunda sölu
og eða innflutning á fíkniefnum er af ákaflega skornum skammti.
Það eru fáir tilbúnir að taka upp hanskann fyrir þá sem stunda
slíka iðju. Engu að síður hlýtur það að vera umhugsunarefni ef lög-
reglan fær mjög frjálsar hendur til hlerana við rannsóknir fíkni-
efnamála. Slíkt andrúmsloft gagnvart hlerununum getur hæglega
smitast milli málaflokka með tíð og tíma.
Meðal þess sem er löngu tímabært að bæta úr er eftirlit með
framkvæmd hlerana. Í ýmsum nágrannalöndum okkar er sá hátt-
ur hafður á að um leið og dómsúrskurður fellur er skipaður réttar-
gæslumaður fyrir þann sem á að hlera. Réttargæslumaðurinn
fylgist þá með því, að skjólstæðingi sínum óafvitandi, að ekki sé
brotinn réttur á honum. Þetta er rökrétt fyrirkomulag og dregur
úr tortryggni um farið sé frjálslega með hleranir.
Lagaákvæðin virðast fremur sniðin að hags-
munum lögreglunnar en borgaranna.
Eftirlitslaust
eftirlit
JÓN KALDAL SKRIFAR
Löngu tímabært er að bæta eftirlit með framkvæmd
hlerana. Í ýmsum nágrannalöndum okkar er sá hátt-
ur hafður á að um leið og dómsúrskurður fellur er
skipaður réttargæslumaður fyrir þann sem á að hlera.