Fréttablaðið - 26.10.2008, Page 10
10 26. október 2008 SUNNUDAGUR
F
réttablaðið boðaði fimm manna
hóp málsmetandi karla og
kvenna til að deila með lesend-
um framtíðarsýn sinni nú þegar
þjóðin er komin að krossgötum
og sitt sýnist hverjum um hvert
skuli halda.
Þeir sem sátu fundinn voru Hilmar Veig-
ar Pétursson, framkvæmdastjóri hugbún-
aðarfyrirtækisins CCP, Björk Guðmunds-
dóttir tónlistarmaður, Jónas Haralz, fyrrum
bankastjóri og efnahagsráðgjafi, Ari Trausti
Guðmundsson, jarðfræðingur og rithöfund-
ur, og María Huld Markan Sigfúsdóttir, tón-
listarmaður úr hljómsveitinni Amiinu.
Jónas mætti fyrstur í fundarherbergið til
Jóns Sigurðar Eyjólfssonar blaðamanns og
meðan fólkið var að tínast inn sagði hann
frá fyrri þrengingum sem þjóðin hefur
farið í gegnum. Björk hefur að undanförnu
unnið með hópi ungs fólks að verkefninu
Neisti, í samvinnu við Klak og Háskólann í
Reykjavík, en það miðar að því að ýta undir
nýsköpun og greiða götu sprotafyrirtækja í
landinu. Spjallið fór því frá fyrri þrenging-
um yfir í nútímann og að væntingum sem
aldrei yfirgefa mannskepnuna, hversu hart
sem heimurinn tekur á henni. En síðan
beindist spurningin að þeirri yngstu í
hópnum.
BLM: Menn hafa verið að gera því skóna
að þeir sem eldri eru og muni tímana tvenna
eigi auðveldara með að komast í gegnum
þessar þrengingar en yngri kynslóðir sem
hafi verið aldar upp við hálfgerðar
vellystingar muni eiga erfiðara með það.
Hverju svarar þú þessu?
María Huld: „Ég hef oft heyrt þessu
fleygt. En ungt fólk hefur oft þurft að læra
það að aðlagast breyttar aðstæður með
skjótum hætti. Og nú eru enn einu sinni
uppi algjörlega nýjar aðstæður sem fólk
þarf að laga sig að. Þannig að ef ráðamenn
eru einhverjir fulltrúar eldri kynslóðar og
eiga aðeins tvö orð í forðanum þegar spurt
er um lausnir; það er að segja „ál“ og „fisk-
ur“ þá tel ég rétt að hafa frekar áhyggjur af
þeim.“
Hilmar: „Ég held að þetta sé hárrétt, við
ættum frekar að hafa áhyggjur af fólkinu
sem bjó til þessa vitleysu og það var ekki
unga kynslóðin. Hún var var upptekin við
að búa til fyrirtæki eins og CCP meðan
batteríið bjó til bankana.“
Nú þegar bankarnir eru farnir
Björk: „En það er mikilvægt að byggja upp
gott umhverfi til að starfa í. Ég hef á síð-
ustu vikum verið í miklu sambandi við fólk
sem er að vinna við sprotafyrirtæki og því
ber flestu saman um að það sé varla grund-
völlur til að starfa hérna þar sem reglugerð-
irnar geri fyrirtækjum svo erfitt fyrir og
stuðningur er af skornum skammti. Og ef
því verður ekki breytt þá mun þetta fólk
bara flýja land.“
Hilmar: „Ja, nú eru bankarnir farnir svo
þá er loks hægt að fara að gera eitthvað.“
Þetta innískot Hilmars vekur nokkra kát-
ínu. „Nei, það er satt. Þeir héldu uppi alls
konar vitleysu hérna. Til dæmis allt of háu
gengi þrátt fyrir að Samtök iðnaðarins og
allir þeir sem hafa eitthvað um þessi mál að
segja hefðu reynt að beina þeim frá villu
síns vegar.“
Jónas: „Grundvallarverkefnið núna er að
koma gjaldeyris- og gengismálum í lag. Það
höfum við í rauninni aldrei gert. Við áttum
lengi vel engan seðlabanka, við vorum með
gullfótinn sem aðili að myntbandalagi Norð-
urlanda, en það fór allt út um þúfur í fyrri
heimsstyrjöldinni og varð aldrei endurreist.
Svo höfum við verið með þennan litla gjald-
miðil svo okkur hefur í raun alltaf skort
festu. Nú er aðeins ein leið fær og það er
myntbandalag Evrópu sem felur það í sér
að við göngum inn í Evrópusambandið.
Þegar við höfum gert það fáum við þann
grundvöll undir okkar atvinnulíf og okkar
viðskipti sem við höfum ekki haft áður.“
Breytingarnar gerast hægt
Ari Trausti: „Ég held ég verði að flækja
þetta aðeins. Menn eru að tala um hið nýja
Ísland en ég stórefast um að eitthvað slíkt
sé í uppsiglingu. Slíkar breytingar verða
ekki til á einu ári, þær gerast á áratug eða
meira. Og forgöngumenn slíkra breytinga
eru dreifðir um allt þjóðfélagið. Þeir eru
ekki í einum samtökum. Enda sjáið þið það
að eina lausnin sem er í sjónmáli verkalýðs-
hreyfingarinnar er innganga í Evrópusam-
bandið. Hún hefur aldrei verið virk í neinu
aðhaldi eða verið mótvægi gegn þessu sem
verið hefur að gerast frekar en stjórnvöld.
Þannig að ég treysti ekki því fólki sem bjó
til þetta ástand til að byggja upp eitthvað
nýtt.
Þessir forgöngumenn eru heldur ekki af
einni kynslóð. Til dæmis lék kreppukynslóð-
in gamla með í þessum leik núna alveg jafnt
og sumt ungt fólk. Svo þetta er ekki spurs-
mál um aldur heldur hugmyndafræði, sið-
ferði og það að geta setið á strák sínum frek-
ar en að sleppa sér í græðginni. Vegna þess
að ójöfnuðurinn í samfélaginu jókst á þess-
um síðustu sex árum, ég held að allir séu
sammála um það, meira að segja þeir sem
höfðu það gott og voru hlynntir þeirri þróun
sem var að eiga sér stað. Sjálfur er ég alveg
sannfærður um það að tugþúsundir Íslend-
inga fóru algjörlega á mis við allar þær
vellystingar sem annars viðgengust í þessu
góðæri.
Þannig að nú verðum við að koma umræðu
og stefnumótun í gang í þjóðfélaginu og
vissulega mun það leiða til þess að til verður
eitthvað nýtt en ég tel að það verði þó ekki
svo frábrugðið því sem við þekkjum.
Kapítalisminn hefur gengið í gegnum
kreppur og yfirleitt alltaf náð sér og aðlag-
ast, nú koma til dæmis umhverfismálin inn
í. Þannig að ég tel að við séum ekkert að fara
gjörbreyta landinu eða heimsmynd okkar
svona í einni svipan.“
Hilmar: „En ef þetta er ekki nóg til að
koma okkur í Evrópusambandið þá spyr ég
mig nú bara hvað þurfi að ganga á svo við
komum okkur þangað inn. Ef við förum ekki
inn í Evrópusambandið þá fara fyrirtækin
þangað bara sjálf.“
Skortir sjálfstraust til að hætta í bandingja-
leiknum
Ari Trausti: „En það er með okkur Íslend-
inga að við erum alltaf bandingjar einhvers.
En nú þurfum við að koma okkur úr þessum
bandingjaleik því á meðan við leikum hann
getum við aldrei spunnið okkar örlagavef
sjálf heldur látum við alltaf leika okkur út í
horn þar sem við síðan neyðumst til að taka
þá einu leið sem liggur úr stöðunni. Einu
sinni vorum við bandingjar Dana, þá þurft-
um við að sitja og standa eins og þeir vildu.
Svo tókst að skera á þau tengsl en þá kemur
upp ákveðin þjóðfélagsþróun sem kalla
mætti stóriðjustefnu. Þar er engin lausn á
nokkrum sköpuðum hlut önnur en að moka
hingað inn erlendum peningum eða fyrir-
tækjum. Svo er landsbyggðin bandingi
kvótakerfisins og getur í raun ekkert gert
því þetta kerfi er svo bandvitlaust. Og nú
erum við einn ganginn enn komin út í horn
og neyðumst við til að ganga inn í Evrópu-
sambandið til að komast þaðan út.“
Jónas: „Það sem við áttum að gera var að
ganga í Evrópusambandið árið 1992 í stað-
inn fyrir að fara inn í Evrópska efnahags-
svæðið. Því þegar við förum inn í það feng-
um við algjört frelsi til að stofna fyrirtæki
erlendis, flytja fjármagn og vörur frjálst
milli landa og þar fram eftir götunum. Þetta
frelsi sem okkur áskotnaðist þarna er það
sama og aðrar Evrópuþjóðir búa við en þær
hafa líka byggt heilt öryggiskerfi sameigin-
legrar myntar og sameiginlega seðlabanka í
kringum það. Við stöndum hins vegar fyrir
utan þetta kerfi og það er grundvallar-
ástæðan fyrir því hvernig fyrir okkur er
komið í dag.“
Björk: „Mér finnst eins og það vanti
sjálfstraust í okkur Íslendinga. Eins og þú,
Ari Trausti, bentir á þá þurfum við alltaf að
vera að fara í lið með einhverju landi til
þess að finnast við vera verðug í stað þess
að koma fram af sjálfstrausti og vera bara
hróðug af menningu okkar eins og hún er.
Það færi okkur miklu betur en að vera að
hengja okkur utan í einhverja aðra af ein-
tómri minnimáttarkennd. Ég sé til dæmis
ekkert eftir því að hafa stofnað þessar
hljómsveitir sem enginn skildi nokkuð í
þegar ég var 16 ára frekar en að vera í ein-
hverju U2-coverbandi eins og þá tíðkaðist
og bíða eftir því að frægðin bankaði upp á.“
Hilmar: „Guð sé lof fyrir að þú skildir
ekki hafa farið þá leið.“
Hugarfarsbreytingu, takk!
María Huld: „Ef við erum að hugsa um
lausnir þá myndi ég frekar óska eftir hug-
arfarsbreytingu heldur en einhverjum
nýjum prins á hvítum hesti sem kæmi til að
leysa bankana af. Því ef þú breytir ekki
hugarfarinu þá gerir þú alltaf sömu mistök-
in. Ég vona að þetta áfall sem við höfum
orðið fyrir núna verði til þess að við látum
af þessum jarðýtuhroka. Við höfum nefni-
lega farið offari á jarðýtunni, rutt öllu frá
sem fyrir varð á leið okkar til að verða best
og mest. Við skelltum líka skollaeyrum við
hverju því sem minnti okkur á það að okkur
gætu orðið á mistök. Í staðinn fyrir þennan
hroka vildi ég að kæmi stolt; stolt yfir því
hver við erum með öllu sem því fylgir.“
Kunnum að skapa en ekki að fara með
peninga
Hilmar: „Íslendingasögurnar eru hugar-
heimur, það sem Björk gerir er viss hugar-
heimur, Latibær er hugarheimur, það sem
við í CCP gerum er viss hugarheimur og við
sköffum virðisauka hér á Íslandi fyrir 50
milljónir dollara, ég hef ekki fylgst nógu
vel með í morgun til að vita hvað það er í
íslenskum krónum. Það er hreinn virðis-
auki, ekki eins og í áliðnaðnum þar sem
afurðin er flutt inn og síðan út og aðeins
sáralítill virðisauki situr eftir. En í hinum
tilfellunum verður virðisaukinn til úr hug-
myndum fólks. Þetta er það sem við erum
góð í, þetta er það sem útlendingar kaupa af
okkur. Við kunnum hins vegar ekkert með
peninga að fara og höfum aldrei gert. Það er
heldur ekki okkar sterkasta hlið að setja lög
þannig að við eigum bara að láta alvöru fag-
fólk í Brussel sjá um gera fyrir okkur reglu-
verkið og halda utan um peningastefnuna
meðan við einbeitum okkur að því sem við
gerum best.
Það er í raun alveg ótrúlegt að meðan allir
eru búnir að átta sig á þessu skuli kerfis-
karlar sem enn eru að reyna að átta sig á því
hvernig maður sendir ímeil vera að ríg-
halda í regluverk sem er fyrir löngu úr sér
gengið.“
Björk: „Það var einmitt þetta sem fólkið í
sprotafyrirtækjunum segir mér, það erfið-
asta við þetta eru reglugerðirnar sem eru
bara svolítið „SÍS“. Eins og það að fólk getur
ekki verið með sína eigin osta á bóndabæj-
unum því það verður það að senda alla
mjólkina, það er svolítil kommúnistalykt af
þessu. Það getur ekki verið með heimaslátr-
un. Þetta er algjör synd því Ísland gæti
orðið svona eins og Toskana á Ítalíu þar sem
lítil matvælafyrirtæki blómstra en það er
ekki hægt hérna vegna allra þessara reglu-
gerða.
Og nú þegar þessi kreppa hrellir okkur þá
er fullt af hæfu bankafólki að missa vinn-
una og það þarf að búa til fyrirtæki fyrir
allt þetta hæfa fólk. Þess vegna væri það að
hoppa í álver alveg rosaleg synd.“
María Huld: „Já, það væri alveg stórkost-
legt ef það væri ekki einblínt svona á fáar
leiðir í verðmætasköpuninni. Ég á marga
vini sem finna sér ekki farveg hérna þar
sem fjölbreytnin er svo takmörkuð.“
Björk: „Gott dæmi um þetta er fyrirtæk-
ið Orf líftækni sem er frábært fyrirtæki.
Það framleiðir prótín fyrir fyrir læknis-
rannsóknir, lyf og iðnað úr byggi. Og það
þarf að borga fullt orkuverð fyrir sín
gróðurhús en á sama tíma borgar Alcoa
einn fimmta. Það er fullt af fólki sem myndi
vilja rækta grænmeti og fleira, það myndi
kannski gera það ef það nyti sömu
forréttinda.
„Er ekki farinn að hugsa svona langt“
Ari Trausti velti fyrir sér óðagotinu sem
einkennir oft vinnubrögð okkar Íslendinga
og gagnrýndi að við skyldum af skammsýni
sífellt hugsa í skyndilausnum. Jónas varð
þá hugsað til skólafélaga síns frá því í
Stokkhólmi árið 1938. „Þá var erfitt að fá
peninga að heiman rétt eins og nú. Einn
félagi minn sem var rétt að því kominn að
taka lokapróf átti við þennan vanda að etja
svo hann spurði mig einn morguninn hvort
ég gæti lánað sér fyrir morgunmat svo ég
lánaði honum eina krónu. Svo fer hann af
stað en ég kalla á eftir honum: „En vantar
þig ekki fyrir hádegisverði líka?“ og hann
svarar. „Nei, ég hugsa aldrei svo langt fram
í tímann.“ Sagan vekur mikla kátínu og
Jónas bætir við: „En þessum manni farnað-
ist afar vel að námi loknu.“
Hilmar: „Já, við Íslendingar kunnum að
redda okkur en það sem þarf að gera er að
búa til stöðugt starfsumhverfi, það er hlut-
verk stjórnmálamanna. Þeir eiga að búa til
þetta umhverfi en ekki vera að búa til störf,
fólkið sér sjálft um það.“
Björk: „Og þó að við Íslendingar hugsum
oft ekki langt þá er þetta verkefni sem ég er
í núna með sprotafyrirtækjunum hugsað
sem langhlaup sem byrjaði fyrir átta vikum,
það er að segja fyrir hrun bankanna. Rétt
eins og langhlaupið sem hófst þegar ég var
16 ára að flakka á milli staða í rútu til að
spila fyrir fólk og jafnvel án þess að borða í
marga daga. Það leið á löngu, og ég fór oft á
hausinn, áður en það fór að gera sig.“
Beint í það sem við gerum best
Yfirvaldið heldur ekki í við fjöruga þjóðina og því þarf að breyta. Áföllum fylgir oft hugarfarsbreyting og það er það sem þjóðin
þarf núna frekar en nýja lausn sem kemur eins og prins á hvítum hesti og býðst til að leysa bankana af.
ÞAÐ ER MARGT SKONDIÐ ÞÓ AÐ STAÐAN SÉ ALVARLEG Aðstæður eru vissulega slæmar og viðmælendur höfðu ýmislegt út á framgang stjórnvalda að setja en þó
verður staðan seint svo slæm að ekki megi brosa í kampinn. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN