Tíminn - 11.03.1984, Blaðsíða 12
SUNNUDAGUR 11. MARS 1984
12
SUNNUDAGUR 11. MARS 1984
SiiJlilJLlLÍ
Fyrir nokkrum mínútum var sprengd kjarnorku*
sprengja yfir ónefndri borg fyrir botni Miðjarðarhafsins
og mun sprengjan hafa að mestu þurrkað hana út af
yfirborði jarðar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur
verið kallað saman og nú þegar er Ijóst að vígvélar allra
ríkja eru í viðbragðsstöðu. íslenska utanríkisráðuneyt-
inu hefur borist sú orðsending frá yfirherstjórn Nato-
ríkjanna að útlit sé fyrir að kjarnorkustyrjöld sé í þann
veginn að brjótast út og búast megi við kjarnorkuárás
á herstöðina á Keflavíkurflugvelli innan örfárra klukku
stunda. Viðvörunarmerki Almannavarna er farið af
stað og hljóðmerkin tákna yfirvofandi hættu og að von
sé á áríðandi tilkynningu í útvarpi.
Eigum við lesandi góður, ég og þú, eftir að upplifa
þessa stund? Verður þetta hljóðmerki gefið í dag eða
á morgun eða verður bið okkar lengri?
Friðþór: Við þyrftum ekki að kemba hærumar.
■ Sr. Pétur: i Jesú nafni ég Hfi, i Jesú nafni ég dey.
Guðjón: Þá yrði allt sett á fulft.
■ Bragi: Skattaframtalið mundi
verða að bíða.
Sigurður: „Lýðræðið ekki orðið annað en skuggi af sjálfu sér“.
■ Jakobína: Persónulega
mundi ég ekki gera
nokkurn skapaðan hlut.
Hvað mundir þu gera ef buist væri við kj arnorkuárás
á Keflavíkurflugvöll innan örfárra klukkustunda?
Við hringdum í fólk á
mismunandi stöðum á
landinu og spurðum
þessarar spurningar og
svörin fara hér á eftir.
„Ja, elsku vinur, ég veit nú ekki hvað
ég mundi gera í fljótu bragði", svaraði
Regína Thorarensen fréttaritari og hús-
freyja á Selfossi, þegar spurningin var
borin undir hana. „Ég held að maður
yrði alveg agndofa og mundi varla trúa
því. Með allri þeirri menningu sem nú er
orðin í heiminum að það gæti átt sér stað
að þjóðirnar yrðu drepnar svo snögg-
lega, því ætti ég erfitt með að trúa. Þetta
er samt mjög athyglisverð spurning hjá
þér og ég veit t.d. til þess að ung
barnabörn mín eru hrædd við þetta og
þau vakna jafnvel upp á nóttunum
spyrjandi spurninga um þessa ógn. Ekki
hef ég nú verið að velta því fyrir mér að
stytta mér aldur en vafalaust kæmi slíkt
upp í huga margra ef slík vá sem
kjarnorkusprengja væri yfirvofandi. Ég
er nú orðin svo gömul að ég er að komast
á eftirlaunaaldur og líkt og Tómas
trúlausi þá mundi ég ekki trúa því fyrr
en ég tæki á að öll menntunin væri notuð
til þess að sprengja kjarnorkusprengjur
og útrýma þannig mannkyninu. En þetta
hefur nú átt sér stað og maður verður
víst að kyngja því súra epli eins og svo
mörgu öðru. Heyrðu en nú ætla ég að ná
í manninn minn og láta þig bera þessa
spurningu undir hann.“ Og þar með var
hin skelegga Regína hlaupin og við tók
bóndi hennar Karl Thorarensen.
„Það væri náttúrlega hægt að fara
eitthvað ef á þessu yrði einhver fyrirvari
eins og þú gerir þarna ráð fyrir. En það
yrði kannski bara eins og hjá strútnum
sem felur höfuðið í sandi. Ætli það kæmi
ekki fyrst upp í hugann að reyna að
verða sér úti um flugvél og koma sér og
sínum til annarra landa því það er ekki
um nein jarðbyrgi hér að ræða a.m.k.
ekki sem ég veit um, alla veganna ekki
hér á Selfossi. Annars hef ég ekki kynnt
mér neinar slíkar varnir en það er ekki
þar fyrir að þetta getur skeð eins og
skrugga úr heiðskíru lofti. Ef að slíku
kæmi vildi ég nú helst fara til einhverra
Norðurlandanna t.d. Noregs. Annars er
eini staðurinn sem mig langar virkilega
til að heimsækja væri landið helga en
það kæmi nú varla til greina ef þetta
dæmi stæðist sem þú ert að setja upp.
Það væri náttúrlega eins og að vaða úr
öskunni í eldinn“, sagði Karl að lokum.
XXX
Þegar við spurðum Sigurð A. Magnús-
son rithöfund að því hvað hann mundi
gera, þá taldi hann að fyrstu viðbrögðin
yrðu tengd fjölskyldunni. „Ég mundi
reyna að smala börnum mínum saman
og ráða ráðum mínum með þeim og ef
þar kæmu einhverjar hugmyndir upp þá
mundi ég náttúrlega taka þátt í því. En
ég verð þó að segja eins og er að ég held
að ég gæti ekki hugsað mér að lifa eftir
slíkar hamfarir. Það er harla erfitt að
hugsa þá hugsun til enda hvernig líf
þeirra yrði sem mundu lifa af slíkar
hamfarir. Ég hef reyndar nýlega lesið
bók Jersild, „Eftir flóðið" og séð kvik-
myndina „Daginn cftir", og þessi verk
og þó sérstaklega bókin staðfestu þá
skoðun mína að ég vildi ekki lifa á þeirri
sviðnu jörð og í því mengaða lofti sem
slíkum hamförum mundi fylgja. Ég hafði
reyndar aldrei getað ímyndað mér
hvernig hægt væri að draga fram lífið við
slíkar aðstæður en Jersild bregður upp
mynd af því einum þrjátíu árum eftir
kjarnorkustyrjöld. Að vísu er það varla
í mannsmynd þetta fólk sem eftir er. Það
má segja að lestur þessarar bókar hafi
skerpt þá mynd fyrir mér hvernig þetta
gæti orðið en ekki var sú mynd meira
aðlaðandi en sú sem ég hafði haft.
Þar sem ég í rauninni hef ekki séð
neina skynsamlega ástæðu fyrir því að
reyna að lifa af þau ragnarök sem við
erum hér að tala um þá hef ég ekki kynnt
mér neitt af því sem sett hefur verið fram
um það hvernig væri helst að reyna að
lifa af slíka atburði. Mér hefur alltaf
fundist það frekar hlálegt að vera t.d. að
grafa sig niður í sex mánuði og koma svo
upp í gereydda jörð og ætla að fara að
byrja upp á nýtt. Það hefur verið talað
um það að ef til kjarnorkustríðs kæmi
yrði maðurinn sprengdur aftur á stein-
öld, það yrði með öðrum orðum að byrja
algjörlega upp á nýtt. Mér finnst sú
tilhugsun absurd eða fáránleg. Það má
þó taka það fram að ég býst við að fólk
sem komið er fram yfir miðjan aldur eins
og ég hafi e.t.v. öðru vísi tilfinningu fyrir
þessu en ungt fólk sem er að byrja lífið.
Maður er nú farinn að sjá fram á
grafarbakkann og ég held að það setji
mann í svolítið aðrar aðstæður en ungt
fólk sem hefur sterka tilfinningu fyrir
því að þetta muni í rauninni gerast. Það
hlýtur að vera alveg óbærilegt að hugsa
sér einhverja framtíð undir svoleiðis
kringumstæðum. Það má á vissan hátt
bera saman þá tíma sem við lifum í dag
og árin á milli heimsstyrjaldanna að því
leyti til að menn óttuðust þá að heims-
ófriður væri í aðsigi en vildu jafnframt
ekki trúa því. Chamberlain taldi sig t.d.
vera búinn að tryggja frið með sam-
komulaginu við Hitler þó að sú yrði
reyndar ekki raunin. Það er ekki fyrr en
við atburðina í Japan í lok heimsstyrjald-
arinnar að þessi heimsendatilfinning
verður til og þó var hún ærið blandin því
að þrátt fyrir að þeir atburðir væru
skelfilegir voru því margir fegnir að
ófriðurinn væri á enda.“
Sigurður benti á það í lok viðtalsins að
sér fyndist að friðarhreyfingarnar sem
upp hefðu komið á síðustu árum virtust
hafa furðulega lítinn sýnilegan árangur
borið. „Ráðleysi hins almenna borgara
gagnvart því sem er að gerast í heiminum
virðist fara vaxandi með hverju árinu og
það finnst mér óhugguleg þróun. Ef
stjórnvöld hætta að taka mark á kröfum
almennings þá er lýðræði ekki orðið
annað en skuggi af sjálfu sér.“
XXX
Biskupinn, séra Pétur Sigurgeirsson,
brást vel við því að svara spurningu
okkar og sagði að ef slíkar alvarlegar
fréttir bærust þá teldi hann rétt að menn
hlýddu boðum Almannavarna ríkisins.
„Mér yrði auðvitað hugsað til safnað-
anna og allra landsins barna. Ég mundi
reyna að koma orðsendingu áleiðis til
allra presta landsins um að þeir létu
hringja kirkjuklukkum og kalla með því
fólk til sambæna. Ég mundi vilja að allar
kirkjur væru opnar fyrir þá sem þangað
vildu leita. Því það reynist svo að „vort
hlífðarskjólið heimi í, er húsið Guð
minn þitt“. Ég mundi ennfremur snúa
huga mínum í bæn til Guðs um að hann
afstýrði fyrirsjáanlegum voða. Fjöl-
skyldu mína og þjóðina í heild mundi ég
fela í forsjá Guðs hvað sem fyrir kynni
að koma. Ég trúi því til hinstu stundar
sem sagt er um Guð i öðrum sálmi: „Þig
vantar aldrei vegi, þig vantar aldrei
mátt“. Eflaust mundu einnig orð séra
Hallgríms Péturssonar koma upp í hug-
ann á slíkri stundu. „I Jesú nafni ég lifi,
í Jesú nafni ég dey“, þau orð hafa nánast
fylgt hverjum íslending í síðustu þrjár
aldirnar á hans hinstu för af heimi hér og
önnur betri orð kann ég ekki að nefna.
Mér er líka ákaflega minnisstætt sam-
tal sem átti sér stað í útvarpinu þegar
Vestmannaeyjagosið var að byrja. Við-
tal þetta var við húsfreyju á bæ einum
skammt frá eldsupptökunum og glóandi
hraunstraumurinn var svo að segja við
bæjardyrnar hjá henni. Eftirað hafa lýst
ástandinu í örfáum orðum sagði hún
eitthvað á þá leið að nú væri ekkert
annað að gera en að biðja fyrir sér og
reyna að bjarga sér og sínum.
Þetta finnst mér vera sláandi dæmi um
það hvernig fólk bregst við þegar það
stendur augliti til auglitis við ógn eins og
eldinn sem í þessu tilviki æddi yfir og
eyddi öllu sem fyrir varð.“
XXX
Þegar spurningin var borin undir dr.
Braga Jósepsson lektor þá spurði hann
strax hversu langan frest við gerðum ráð
fyrir að fólk hefði áður en ógnin mundi
dynja yfir. „Nú 6 til 12 tíma, það mundi
nú gefa manni svolítið forskot til að
byrja að grafa. En svo að allri hótfyndni
sé sleppt þá held ég að ef hér væri búist
við kjarnorkuárás innan einhverra
klukkutíma þá mundi maður víkja öllum
öðrum verkefnum til hliðar og snúa sér
eingöngu að þessu verkefni. Meira að
segja skattaframtalið mundi verða að
bíða,“ sagði Bragi í kaldhæðnislegum
tón. „Já, ég rnundi víkja alfarið að þessu
máli. Væntanlega mundi útvarpið spila
stóra rullu í því að koma boðum til fólks
og auðvitað væri það grundvallaratriði
að hafa öll slík tæki í gangi. En sem
einstaklingur held ég að það sé lítið sem
maður gæti gert. Maður yrði algjörlega
ofurseldur slíku ástandi og gæti vafalaust
ekki gert neinar stórar kúnstir. Við
yrðum að stóla á yfirvöld og þá væntan-
lega almannavarnir. Það má gera ráð
fyrir því að yfirvöld mundu ráðleggja
fólki hvað bæri að gera og einstaklings-
framtak í þessu máli kæmi varla til
greina að mínu áliti nema ef slíkar
ráðleggingar væru af einhverjum or-
sökum ekki fyrir hendi. En eins og ég
segi þá mundi ég ýta öllum öðrum
verkefnum til hliðar og reyna í ljósi
þeirra upplýsinga sem ég hefði, að velja
skynsamlegustu leiðina. Maður mundi
náttúrlega fyrst og fremst hugsa um sitt
fólk, ég á lítil börn. Ég mundi byrja á
því að nálgast fjölskylduna og koma
henni saman. Ég er ekki viss um, að það
að flýja, sé raunhæft ef til slíkra skelfi-
legra atburða kæmi. Eflaust má búast
við því að þegar á hólmirm er komið
mundi manni detta ýmislegt í hug til að
reyna að bjarga sér og sínum en ég held
að ég fari nú samt ekki að tíunda það hér
og nú. Þetta fer svo mikið eftir eðli
þeirra upplýsinga sem fyrir lægju.
Að mínu áliti stendur einstaklingurinn
algjörlega berskjaldaður frammi fyrir
slíkri vá rétt eins og hann stendur
frammi fyrir dauðanum. Hann á ekki
annarra kosta völ í slíkum málum en að
leita til samfélagsins en auðvitað bæri
honum frekar að halda til í kjallara húss
síns en t.d. úti á svölurn."
Aðspurður um það hvort hann hefði
kynnt sér leiðbeiningar um það hvað
bera geri undir slíkum kringumstæðum
sagði Bragi: „Nei, það hef ég ekki gert
ég reikna ekki með kjarnorkusprengju,
ekki frekar en ég reikni með því að ég
lendi í bílslysi. Þetta gæti þó gerst en ég
býst þó við því að líkurnar séu heldur
minni á því að maður drepist í
kjarnorkusprengingu en að maður deyi
í bílslysi. Ég bara einfaldlega vona að
þetta komi ekki fyrir.“
XXX
„Ég held að það yrði nú lítið gert ef
maður fengi þær fréttir að yfirvofandi
væri kjarnorkustríð", sagði Jakobína
Sigurðardóttir rithöfundur í Garði, þeg-
ar við bárum spurningu okkar undir
hana. „Persónulega mundi ég ekki gera
nokkurn skapaðan hlut. Það væri þá
komið að þeirri stundu sem ég vona að
renni aldrei upp, þrátt fyrir allt, en ég
mundi ekki gera neitt. Ég hef heldur
ekki kynnt mér hvað beri að gera á slíkri
stundu nema það sem stendur í síma-
skránni og það fólk sem ég hef rætt við,
það hreint og beint hlær að því sem þar
stendur. Þeir vita það eflaust best hjá
Almannavörnum hvað gera eigi undir
slíkum kringumstæðum. Mig mundiekki
langa til að lifa þá stund eða þann dag
sem þessi árás væri um garð gengin hér
á íslandi né annars staðar í heiminum.
Mig mundi ekki langa til að vera í hópi
þeirra sem lifa slíkt og ég býst við að það
séu harla fáir. Friðarhreyfingarnar sem
upp hafa komið að undanförnu hafa
skapað töluverða umræðu og hér á
íslandi hafa menn vaknað til umhugsun-
ar um þessi mál ekki síst eftir að
kirkjunnar menn fóru að láta í sér heyra.
Ég held líka að fólk geri sér betur en
áður grein fyrir því að hér sé raunveru-
lega lífshætta á ferðum. Það virðist því
miður vera það eina sem við almennir
borgarar getum gert, það er að halda
þessari umræðu gangandi en ég sé þó
ekki að enn sem komið er hafi það borið
þann árangur sem vænta mátti. Maður
verður einfaldlega að vona að það geti í
framtíðinni borið einhvern árangur. Ég
vil líka benda á það“, sagði Jakobína að
lokum, „að þó svo að friðarhreyfingar
séu leyfðar hér á vesturlöndum og að
öllum sé frjálst að fara í mótmælagöngur
þá sé það ekki virt hótinu meira en
austan járntjalds.“
XXX
„Það er nánast ómögulegt að segja
hvað maður mundi gera ef maður teld
að hætta væri á kjarnorkuárás eftir að
hafa metið allar aðstæður," sagði Frið
þór Kr. Eydal aðstoðarupplýsingafull
trúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli
„Ég tala þó hér aðeins fyrir mig persónu
lega en ekki sem fulltrúi varnarliðsins
„Væntanlega yrði hér um að ræða,
þessu dæmi, átök milli stórveldanna og
þau mundu leggja allt kapp á að hindra
hvort annað í því að komast hér um
sundið milli Grænlands og Noregs. Ef
slíkt kæmi til yrði allt logandi hér í
kringum okkur og þá þyrftum við vænt-
anlega ekki að kemba hærurnar. Ég held
að cf til slíkra átaka kæmi þá mundi
ekkert binda mig persónulega við þessa
herstöð. Það væri einfaldlega ekkert hér
sem ég gæti gert og þeir íslendingar sem
hér eru ráðnir verða ekki þvingaðir til að
vera hér ef til stríðsátaka kæmi, eftir því
sem ég best veit. Það mundi því verða
mín fyrsta hugsun að koma mér og
mínum nánustu í örugga höfn eftir því
sem slíkt væri hægt. Annars held ég að
lítið sé um slík tilboð að ræða og því
raunverulega ósköp lítið sem hægt væri
að gera. Alla veganna ekki neitt í líkingu
við það sem gerist t.d. í Svíþjóð, Þýska-
landi eða í Sviss.
Þegar maður fer að velta því fyrir sér
hvað maður mundi gera í svona tilfelli
þá fer það svo mikið eftir því hvernig
aðstæður væru og hvernig maður mundi
meta þær. Væntanlega mundi maður
bíða eftir leiðbeiningum frá Almanna-
vörnum ríkisins en efst í huganum væri
eflaust það að komast til sinna nánustu.
Svo verður maður bara að vona að það
sé satt sem stendur í kvæðinu að maður
„eigi vini á báðum stöðum sem bíða
manns í röðum." Ég erekki hræddurvið
dauðann“, sagði Friðþór að lokum.
XXX
„Þessi spurning er svo viðamikil fyrir
okkur sem störfum að almannavörnum
að í rauninni verður henni ekki svarað í
stuttu máli. Mér ber undir slíkum kring-
umstæðum sem framkvæmdastjóra Al-
mannavarna ríkisins að starfa í tengslum
við stjórnstöðina að Hverfisgötu 113 í
Reykjavík. Þaðan yrði öllu kerfi okkar
stjórnað og þar yrði unnið samkvæmt
fyrirframákveðnum áætlunum sem fyrir
hendi eru. Slíkt hefur meira að segja
verið æft.“
Það er Guðjón Pctersen fram-
kvæmdastjóri Almannavarna ríkisins
sem hér hefur orðið en við bárum
spurningu okkar að sjálfsögðu undir
hann. „Þessi stofnun og almannavarnar-
nefndir geta virkjað mjög mikið afl í
þjóðfélaginu og verður þeim viðbúnaði
ekki lýst í stuttu máli. Ef tilkynning
bærist um að styrjöld væri yfirvofandi og
að líkur væru á því að kjarnorkusprengja
gæti fallið á fsland innan einhverra
klukkustunda, þá yrði allt sett á fullt við
að virkja þúsundir manna til starfa
samkvæmt skipulagi, sem samræmt yrði
úr stjórnstöðinni hér, en stjórnað af
Almannavörnum byggðanna.
Það verður þó að hafa í huga að það
eru til margar tegundir af kjarnorkuárás-
um og ótal mismunandi þættir sem spila
þar inn í sem gera það að verkum að
erfitt er að lýsa viðbúnaði þeim sem
gripið yrði til, þar sem slíkt færi algjör-
lega eftir eðli málsins hverju sinni.
Almennt má segja að áhrif sprengingar
af þessu tagi fari mikið eftir því hversu
langt frá jörðu sprengjan er látin springa.
Svo koma líka til ýmiss konar veðurfars-
legir þættir svo og stærð sprengjunnar.
Ég verð þó að undirstrika að hér er um
svo stórt mál að ræða að það er ekki
auðvelt að lýsa viðbúnaði þeim sem
gripið yrði til í stuttu máli. Ég get þó
upplýst að skráð er húsnæði á höfuð-
borgarsvæðir.u og víðar sem veitt gæti
100 falda vernd gegn geislun frá úrfalli
en þá skrá er nauðsynlegt að bæta.
Það húsnæði sem hér um ræðir er þó
fyrst og fremst hugsað sem vernd gegn
gammageislum frá geislavirku úrfalli.
Þess ber og að geta að til cru áætlanir um
brottflutning alls fólks af hættusvæðum
t.a.m. Reykjanesskaga ef til kjarnorku-
árásar kæmi, í þeirri mynd sem hér um
ræðir.“
í viðtalinu við Guðjón kom fram að
Almannavarnaráð samanstendur af
embættismönnum og forsvarsmönnum
stærstu og helstu ríkisstofnana landsins
og þeir hafa að sjálfsögðu að baki sér
mannafla og tækjabúnað. Auk þessa
hafa Almannavarnir ríkisins þjálfað
hjálparlið og starfslið í stjórnstöð sem er
æft reglulega til að takast á við einstaka
þætti slíkra vandamála. í öllum byggðum
landsins eru svo starfandi almannavarna-
nefndir sem í eiga sæti æðstu embættis-
menn byggðanna og það eru til nákvæm-
ar áætlanir hvernig þeir eiga að starfa og
það hjálparlið sem að baki þeim stendur.
I rauninni eru Almannavarnir ríkisins
eins konar samræmingaraðili í þeim
miklu aðgerðum sem fara þarf út í cf
nauðsyn krelur, t.d. cf stríð væri að
brjótast út.
Aðspurður að því hvernig Almanna-
varnir á íslandi væru í stakk búnar til að
mæta þeim vanda sem fylgdi kjarnorku-
árás á Keflavíkurflugvöll, sagði Guðjón,
að skipulagslega séð væri slíkt undirbúið
en helstu veikleikar okkar lægju í skorti
á tækni og þjálfun þeirra sem á þessu
sviði eiga að starfa ef til slíkra erfiðleika
kemur.
I máli Guðjóns kom fram að skortur
okkar lægi í tæknibúnaði til mælinga á
útbreiðslu geislavirks úrfalls og útbúnað
til að skýla því fólki sem slík störf mundu
vinna. Ennfremur vantaði upp á nægileg
viðvörunarkerfi ýmiss konar á mismun-
andi stöðunt auk þess sem við værum illa
í stakk búin með að hreinsa og losa
okkur við geislavirkt úrfall sem fallið
hefði á jörðina. „Enn sem komið er
höfum við aðeins getað sinnt undirbún-
ingsþjálfun á þessu sviði, þannig að
veikleikarnir eru margir. Það er líka svo
að ekkcrt kerfi er svo fullkomið að það
geti ekki farið úr skorðum þegar mest á
reynir og það verðum við að sjálfsögðu
að hafa í huga þegar rætt er um almanna-
varnir," sagði Guðjón að lokum.
„Við megum ekki gleyma að ísland er
eyríki sem liggur ekki að skotmörkum
kjarnavopna, landið er stórt og byggð er
dreifð. Hús okkar eru líka betur byggð
og af þeim er betri vörn en víða gerist
þannig að ég er viss um að áhrif yrðu
hverfandi hér, á móti því sem gerðist í
þéttbýlum löndum Evrópu og t' iðnaðar-
og þéttbýlissvæðum Ameríku.“
-J.Á.Þ.