Tíminn - 28.04.1988, Blaðsíða 15
Fimmtudagur 28. apríl 1988
Tíminn 15
llllllllflllll MINNING I
Kristján Guðmundsson
bóndi, Brekku Ingjaldssandi
Fæddur 27. september 1918
Dáinn 28. mars 1988
Þann 5. apríl s.l. var til grafar
borinn frá Sæbólskirkju á Ingjalds-
sandi góðkunningi minn og vinur
Kristján Guðmundsson bóndi á
Brekku, en hann lést á Landspítal-
anum 28. mars s.l.
Ekki kann ég hans ættir að rekja,
en í Borgarfirði syðra mun ættbogi
hans standa. Hann var fæddur á
Brekku þann 27. september 1918 og
því orðið 70 ára á næsta hausti hefði
honum enst líf og heilsa. Á Brekku
átti hann sína ævidaga alla að heita
mátti, þótt nokkuð væri hann fjar-
vistum m.a. við sjósókn á togurum
t.d. um stríðsárin meira og minna.
Þá var hann tvo vetur við nám í
Núpsskóla í Dýrafirði og hlaut þar
gott veganesti í skjóli mikilhæfra
kennara. Hann eins og fleiri batt
mikla tryggð við æskustöðvar sínar.
í>ar átti hann djúpstæðar rætur enda
mikill unnandi gróðurs og moldar.
Þrátt fyrir ekki meiri skólagöngu, en
áður er getið var Kristján ágætlega
menntaður af lestri góðra bóka.
Einkum var hann vel að sér um
landið og söguna og allur svo nefnd-
ur þjóðlegur fróðleikur var fyrir
honum líkt og þyrstum manni svala-
drykkur. Annars held ég að hann
hafi verið einskonar alæta á bækur.
Þetta m.a. styð ég þeim rökum að
eitt sinn er við fórum í orlofsför
saman um Norður-Þingeyjarsýslu
varð hann sér úti um þarlenda
markaskrá til lestrar og tók að rísla
í henni að kveldi sama dags. Kristján
var ljóðelskur og fljótur að tileinka
sér það, er höfðaði til hans á þeim
vettvangi. Hann kunni ógrynni ljóða
og gat þulið utan bókar heila kvæða-
bálka og ljóðakver og bækur ef svo
bar undir. Allt slíkt efni flutti hann
svo unun var á að hlýða. Hann var
hagorður vel, en flíkaði lítt nema
helst í þröngum hópi vina á glaðri
stund. Sagnamaður var hann góður
og kryddaði frásögn sína góðlátlegri
glettni án allrar meinfýsi.
Fljótlega munu ýmis trúnaðarstörf
hafa hlaðist á Kristján heima í
héraði. Ekki eru mér þau svo kunn,
að ég þori upp að telja. Þó veit ég,
að hann var um langan aldur í stjórn
kaupfélags þeirra Önfirðinga á Flat-
eyri og bar hann hag þess mjög fyrir
brjósti. Þá var hann lengi í stjórn
Búnaðarsambands Vestfjarða og
fulltrúi þess á aðalfundum Stéttar-
sambands bænda. Þar sem annars-
staðar varð hann hvers manns hug-
ljúfí. Og þótt hann væri ötull mál-
svari sinna umbjóðenda á Vestfjörð-
um sátu þó hagsmunir stéttarinnar í
heild í fyrirrúmi og mótaði afstöðu
hans til mikilvægra mála. Því réði
stéttvísi og eðlisgreind.
Vestfirðir voru allt fram til okkar
tíma, sem nú erum um og yfir
miðjan aldur afskekkt og einangrað
byggðarlag. Eftir að samgöngur
þangað greiddust á landi með til-
komu sæmilegra vega breyttist þetta
mjög. Marga fýsti að líta augum
þessa sérstæðu byggð sem langflest-
um hafði áður verið lokaður heim-
ur. Ýmsir hópar fóru að stefna för
sinni þangað. Þar á meðal gerðust
hópferðir bænda nokkuð tíðar. Það
spurðist og fljótt að þeir Vestfirðing-
ar kynnu öðrum betur að taka þann
veg móti gestum, að eftirminnilegt
þótti. Stjórn Búnaðarsambands
Vestfjarða átti þarna stóran hlut að.
Oft kom það í hlut Kristjáns á
Brekku að hafa þar hönd í bagga
enda þar vel í stakk búinn sökum
staðgóðrar þekkingar á sögusviði
byggðarlagsins og staðháttum öllum.
Náttstað höfðu þessir ferðalangar
heima á bæjum, en það var einkenn-
andi þáttur í bændaferðum þessum
hvarvetna um landið. Þetta stuðlaði
að auknum kynnum milli fólks af
fjarlægum landshornum og opnaði
mönnum sýn á mismunandi aðstöðu
til búskapar. Efalaust hefur þetta
aukið mönnum skilning og víðsýni á
högum hvers annars. En yfirleitt
reyndu þeir er heim voru sóttir að
taka á móti gestum sínum á einum
stað miðsvæðis, ef tök voru á og
söfnuðust þá heimamenn þar saman
einnig og báru gestum sínum beina.
Varð þarna oft hinn mennilegasti
fagnaður og stofnað til vináttu -er
lengi entist og þess jafnvel dæmi, að
fólk byndist þar tryggðaböndum og
hafa vel dugað og farsællega. Vel
væri við hæfi að einhverntíma yrði
saga „bændaferða" skráð. Hún er
ekki ómerkasti þátturinn í sögu
bændamenningar vorrar aldar.
Við hjónin vorum þátttakendur í
einni slfkri ferð búnaðarsambands
okkar Strandamanna vestur á firði.
Þá gistum við hjá þeim á Brekku.
Ekki fengum við notið sem
skyldi þeirrar rómuðu fegurðar, er
Ingjaldssandur býr yfir, því þá voru
veður öll válynd þar vestra þótt um
sumarsólstöður væri. En alltaf getur
brugðið til beggja vona um veður á
Islandi. Það er gömui og ný saga. En
það er á skorti um kvöldsólargeisla
á Sandinum í það sinnið fengum við
því betur uppbætt í höfðinglegum
móttökum þeirra hjónanna á
Brekku. í skjóli þeirra áttum við þar
„sumar innra fyrir andann“ þessa
nótt því lengi var vakað við söng og
glens og gamanmál. Seint var gengið
til náða og eigi sofin úr sér augun.
En þó Kristjáni á Brekku léti vel
hlutverk gestgjafans, leiðsögu-
mannsins, kynnis og flytjanda á
menningarefni, er efnt var til vegna
gestakomu þar vestra naut hann
þess og eigi síður að ferðast sjálfur
og þá hvort heldur á eigin vegum eða
í samfylgd sýslunga og stéttarbræðra
sinna um fjarlægar sveitir og héruð.
Hann átti stóra hóp kunningja og
vina víðsvegar um landið og var
hvarvetna aufúsugestur. Við hjónin
áttum þess stundum kost að vera í
samfylgd þeirra hjóna m.a. að og frá
Stéttarsambandsfundum. Mikið
dáðumst við að staðgóðri þekkingu
hans á byggð og býlum, landi og
fólki og sögu, nánast hvar sem farið
var. Væri ekið í hlað á einhverjum
bæ var Kristján sjálfsagður ambassa-
dor hópsins er kvaddi dyra. Og var
hvarvetna fagnað líkt og fjarskyld-
um ættingja, eða nánum vini endur-
heimtum eftir langar fjarvistir.
Stundum áttu þau hjön hjá okkur
náttstað og oft bar fundum okkar
saman við ýmis tækifæri. Urðu þá
ætíð fagnaðarfundir. Einu sinni hitt-
umst við norður í Axarfirði. Þau
Brekkuhjón voru á ferð um þessar
slóðir og fljótlega bar fundum saman
og þeim tekið tveim höndum, enda
fljót að samlagast hópnum. Síðan
var haft samflot um nágrennið m.a.
ekið yfir Axarfjarðarheiði og komið
til Raufarhafnar og farið um Mel-
rakkasléttu í fegursta veðri. Síðan er
Raufarhöfn tengd sólskini í endur-
minningunni og yfir heimskauts-
bauginn var ekið í aftanskini hníg-
andi kvöldsólar í stafalogni. Það var
dýrðlegur dagur. Margt fleira mætti
rifja upp frá þessari för og fleiri
atburðum bundnum minningum frá
samverustundum með Kristjáni á
Brekku. Það bíður betri tíma og
verður kannski aldrei skráð. Það
sem hæst ber í minningunni frá
samverustundunum var þessi geisl-
andi gleði og lífshamingja, er frá
honum stafaði enda var hann ham-
ingjumaður í einkalífi sínu, en
stærstur hamingjudagur í lífi hans
hygg ég hafi verið 19. september
1948. Þann dag gengu þau í hjóna-
band Kristján og eftirlifandi eigin-
kona hans Árelía Jóhannesdóttir.
Tólf barna varð þeim auðið, tíu eru
á lífi öll mannvænlegt fólk. Tvo
drengi misstu þau í frumbernsku og
mun hafa verið þung raun. En létt
verk mun það tæpast hafa verið að
sjá tíu börnum farborða, en tókst
giftusamlega með elju og útsjónar-
semi. Oft mun vinnudagurinn hafa
verið langur og strangur og efalaust
hafa þau einhverntíma átt áhyggju-
og andvökunætur. En hvorugt var
þeirrar gerðar að láta brauðstritið
buga sig. Hugðarefnin voru mörg
eins og áður er fram komið og þeim
varð að sinna án þess að skyldustörf-
in væru vanrækt. Fjölskyldan var
sérlega samhent og samstæð bæði í
leik og starfi. Þar átti sönghneigðin
ekki sístan hlut að máli. Oft mun
hafa verið safnast saman sungið og
leikið þegar veturinn gnauðaði á
glugga sem ekki mun með öllu fátítt
á Ingjaldssandi og fjölskyldan þá
sungið sólina og vorið inn í bæinn í
þess orðsins fyllstu merkingu.
Með þessum fáu og fátæklegu
orðum skulu Kristjáni á Brekku
færðar þakkir fyrir hin ágætu kynni
er með okkur tókust. Það hafði
verið óskráð regla okkar og Brekku-
hjóna um skeið að skiptast á nýjárs-
óskum símleiðis á nýjársnótt. Krist-
ján hélt og þessari hefð um síðustu
áramót. Ég vissi þá að hann hafði átt
við vanheilsu að stríða um hríð og
við óttuðumst, að tvísýnt gæti orðið
um úrslitin. Ég spurði hann því
grannt um heilsufar hans. Lét hann
vel af og vildi sem minnst úr gera.
Skömmu síðar bárust okkur fregnir
um að hann Iægi þungt haldinn á
Landspítalanum og séð væri að hann
ætti þaðan ekki afturkvæmt.
Við hjónin litum inn til hans á
sjúkrabeðinn nokkru áður en til
lykta dró og þá var ljóst að hverju
stefndi. Ekki skiptumst við á við
hann mörgum orðum enda löngum
svo, að mönnum verðum stirt um
mál og orð leika ekki laus á tungu
við þvílíkar aðstæður. En æðruleysi
hans og sálarró mun okkur seint úr
minni líða, það duldist ekki að þar
var karlmenni að kveðja. Handtakið
hinsta var þétt og hlýtt og seiðmagn-
að sem áður og samfylgdin þökkuð,
fáum og látlausum orðum. Það
ieyndi sér ekki heldur að hann var
umvafinn ást og kærleika fjölskyld-
unnar enda munu þau hafa skipt
með sér að vera hjá honum hverja
stund til hins síðasta. Fáum dögum
eftir var hann allur. En minningin
lifir um mætan mann og góðan dreng
er stráði ylgeislum hvar sem hann
fór.
Við Elladís vottum Árelíu og
ástvinum hans öllum okkar innileg-
ustu samúð.
Melum 9. apríl 1988
Jónas R. Jónsson
Afmælis- og
minningargreinar
Þeim, sem óska birtingar á afmælis- og eða minningar-
greinum í blaðinu, er bent á, að þær þurfa að berast
a.m.k. tveim dögum fyrir birtingardag. Þær þurfa að
vera vélritaðar.
Húsmæðraskólinn
Ósk, ísafirði 75 ára
Orðsending til nemenda nær og fjær,
yngri og eldri:
í tilefni af 75 ára afmæli skólans verður haldið
afmælishóf laugardaginn 28. maí næstkomandi.
Stefnt er að því að gestir komi til ísafjarðar á
föstudag. Gefst þá tækifæri til að hittast og rifja upp
gömul kynni.
A laugardag verður skólinn opinn, þar verður
yfirlitssýning á handavinnu nemenda, yngri og
eldri. Gestum verður boðið upp á kaffi í skólanum.
Um kvöldiðverðursameiginlegt hóf í íþróttahúsinu
í Bolungarvík og mun rúta ganga á milli staðanna.
Ferðaskrifstofa Vestfjarða býður upp á ferða-
pakka, þ.e. flugfar og hótelpláss í 2 nætur og
einnig verður veittur afsláttur af fargjaldi hjá
Flugleiðum og Flugfél. Norðurlands. Afmælisgestir
njóta forgangs með gistingu á Hótel ísafirði.
Fjölmennum stelpur.
Nemendasambandið
VÖRUMERKI VANDLÁTRA
NÆRFATNAÐUR
NÁTTFATNAÐUR
CALIDA
Heildsölubirgðir:
Þórsgata 14 - sími 24477
Auglýsing
um bann við notkun matarleifa
til skepnufóðurs
Vegna hættu á búfjársjúkdómum og samkvæmt
lögum nr. 28/1928, um varnir gegn því að gin- og
klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til
landsins, er hér með bannað að nota til skepnufóð-
urs matarleifar sem aflað er utan heimilis. Þetta
gildir þar til öðruvísi verður ákveðið.
Landbúnaðarráðuneytið
26. apríl 1988
t
Innilegar þakkir fyrir samúö ykkar og hjálp vegna andláts og viö útför
sonar okkar, unnusta og bróöur.
Ásgeirs Þrastar Benthssonar
Skógargötu 18,
Sauöárkróki
Helga Jónsdóttir
Alda Ferdinandsdóttir Benth Behrend
Þyrí Edda Benthsdóttir
Guðrún Benthsdóttir
Gústav Benthsson