Tíminn - 24.09.1988, Blaðsíða 18

Tíminn - 24.09.1988, Blaðsíða 18
18 Tíminn Laugardagur 24. september 1988 MINNING '¦¦ "__________________________N|_______________________ 'llllll Ilf ;,n Jónas Pálsson Fæddur 24. september 1904 Dáinn 13. september 1988 í dag, laugardaginn 24. septem- ber, verður jarðsettur frá Stykkis- hólmskirkju afi minn, Jónas Pálsson. Hann lést að kvöldi hins 13. sept- ember á Landspítalanum í Reykja- vík, eftir nokkurra vikna baráttu á sjúkrabeði. Á tímabili leit út fyrir, ' að hann hefði yfir í þeirri baráttu og við aðstandendurnir eygðum vonar- neista, sem við reyndum að hlúa að og miðla honum, þar sem hans stærsta þrá var að komast í rúmið sitt heima á Staðarfelli í Stykkishólmi. Enda þótt hann afa langaði mest af öllu í Hólminn, sagði hann: „Það er alltaf gott að eiga gott rúm", og lét okkur þannig vita af því, að það færi vel um hann á spítalanum og að vel væri hugsað um hann. Afi minn var fæddur 24. septem- ber 1904 í Ögri í Stykkishólms- hreppi. Hann var sonur hjónanna Ástríðar Helgu Jónasdóttur frá Helgafelli og Páls Guðmundssonar frá Arnarstöðum í Helgafellssveit; einn af 14 systkinum. Tvö systkin- anna dóu ung, en hin 12 komust öll á legg. Þegar afi var 7 ára, fluttist fjölskyldan til Höskuldseyjar á Breiðafirði. Þótt miðin kringum Höskuldsey hafi í þá daga verið full af fiski, var lífsbaráttan á þessari litlu eyju gcysilega hörð. Fólkið bjó í svo nánum tengslum við náttúruna ogþurfti að treystaá veðurog vinda. Og það kom fyrir, að fólkið varð að horfa á eftir ástvinum sínum í hafið, ef þeir ekki náðu í land úr róðrum áður en illviðri skall á. Við slíkar aðstæður ólst afi minn upp í Hösk- uldsey fram yfir tvítugt. Þar sem margt var í heimili, þurftu litlar hendur einnig að leggja fram sína krafta. Átta ára gamall byrjaði afi minn að róa til sjós með föður sínum og bræðrum. Þar mcð var hans ævi- starf hafið. Það var ckki um annað að velja. Kringumstæðurnar kröfð- ust þess, að hann sækti sjóinn. Árið 1930 kvæntist afi eftirlifandi konu sinni, Dagbjörtu H. Nielsdótt- ur frá Sellátri, og fullyrða má, að það hafi verið hans mesta gæfa. Þau hófu búskap í Elliðaey þar sem þau síðan bjuggu í 18 ár. Afi gegndi þar, ásamt sjómennsku og búskap, stöðu vitavarðar. Á þeim tíma- eignuðust þau dæturnar sínar fjórar, þær Ást- ríði Helgu, Unni Láru, Jóhönnu og Ásdísi, móður mína. Á þessum árum bjó í Elliðaey einnig Kristín, systir afa, ásamt manni sínum, Jóni, sem var bróðir ömmu. í Elliðaey var einnig margt annað heimilisfólk, sem lagði sitt af mörkum við búskap- inn, er sjómennirnir voru í róðri. í Elliðaey var aldrei matarskortur. Sjórinn gaf mikið, en hann tók líka mikið. Arið 1935 drukknaði Jón, bróðir ömrau. Það var mikið áfall fyrír heimilisfólkið í Elliðaey og varð það skarð aldrei fyllt. Kristín, eiginkona Jóns, sagði eftir þennan atburð, að enginn af hennar bræðr- um myndi farast á sjó. Og það hefur staðist. Afi hafði oftar en einu sinni lent í honum kröppum, svo litlu munaði að harmleikur yrði, en í öll skiptin var einhver blessun yfir hon- um og hann bjargaðist. Amma mín fór ófá skipti upp á hól til að kíkja eftir afa og oftsinnis varð hún að leggjast til svefns í nagandi óvissu um, hvort hann hefði nú náð landi einhvers staðar. En samband afa og ömmu var alla tíð mjög sterkt og á slíkum stundum hugsuðu þau sterkt hvort til annars og dæmi eru til frásagnar um, að þau hafi þannig á mikilvægum stundum náð að senda hugskeyti sín á milli. Afi og amma fluttust til Stykkis- hólms, þegar dæturnar voru komnar á skólaaldur. Þau keyptu Staðarfell og hafa búið þar alla tíð síðan. Þegar barnabörnin fóru að koma eitt af öðru til vits og ára sóttu þau mikið í að koma til ömmu og afa á Staðar- felli. Lítil telpa í Reykjavík fékk snemma þá löngun að fara í Hólminn, til að vera hjá afa og ömmu. Það var viss ævintýraljómi yfir Hólminum á sumrin, fannst borgarbarninu. Afi og amma áttu bát, semhét Kári,ogmestaskemmt- frá Elliöaey unin var í því fólgin, að fara á Kára út í eyjar. Litlu telpunni fannst mikið til afa síns koma. Hann vissi hvernig veðrið hagaði sér, hvenær var hægt að fara út á sjó og hvenær það var óráðlegt. Hann kom á morgnana inn í herbergið, sem litla stelpan svaf í, studdi höndunum á gluggakistuna, horfði fram á sjóinn, meðan litla telpan bcið eftirvænting- arfull eftir því, hvað afi hennar segði um veðrið. Afi kunni líka að stýra bátnum í ölduna, eins og það var kallað. Þó að öldurnar virtust stórar, stýrði afi Kára af mikilli næmni, enda vissi hann hvernig öldumar höguðu sér, ekki síður en hann þekkti ský og vinda. Afi og amma höfðu lengi vel kindur frammi í eyjum, þótt þau hefðu fyrir löngu brugðið búskap. Þannig var í mörg ár alltaf heyjað frammi í Elliðaey. Afi var sannkall- að náttúrubarn. Um heyskapartím- ann leit afi til sólar, til að vita hvað tímanum leið og horfði í skýin, til að spá fyrir um veður. Andlit hans var markað af sjósókn og hendur hans báru mikilli erfiðisvinnu vitni. Afi dró alla tíð fisk úr sjó með handafli. Nú þegar afi minn er dáinn, leitar hugurinn til þess tíma, er ég naut sem mest nærveru hans. Mig óraði ekki fyrir því í þá daga, hvað þessi sumur með afa og ömmu ættu eftir að vera mér mikils virði, er ég yrði eldri. Og ég er sannfærð um, að samvera mín með afa og ömmu hefur verið mikið tillegg í uppeldi mitt og mótað viðhorf mitt til margra þátta lífsins. Það er sárt að kveðja afa sinn, en vitundin um það að hann lifði alla tíð hamingjusömu lífi, þrátt fyrir harða lífsbaráttu gerir manni léttara að sætta sig við orðinn hlut. Afi var mjög hlýr og góður maður og honum þótti vænt um fólkið sitt og fylgdist með af áhuga, hvað það var að starfa. Hann var mjög rólegur en hafði gaman af að vera innan um fólk og var skemmtilegur í frásögn- um, því hann átti mikla kímni til. Hann hafði gaman af því að fara í ferðalög, þótt það besta við þau væri að koma heim á Staðarfell aftur. Ég þakka allar þær stundir, sem ég fékk að eiga með afa mínum og ekki síst þær, sem ég átti með honum uppi á Landspítala. Þessar síðustu stundir með afa voru mér mikil lífsreynsla. Slík reynsla, að sjá ástvin deyja, fær mann til að hugsa um lífið á dýpri hátt en nokkru sinni fyrr og reyna að gera sér grein fyrir hvað virkilega skiptir máli í lífinu; endurmeta fyrri gildi. Er ég hugsa um afa minn er ég ekki í nokkrum vafa um, í hverju lífshamingjan er fólgin. Eg bið góðan Guð að blessa afa og gefo ömmu styrk á þessum tímamót- um. Einnigbið ég öllum aðstandend- um afa Guðs blessunar. Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir Þann 13. septembers.l. andaðist í Landspítalanum í Reykjavík Jónas Pálsson, sjómaður frá Stykkishólmi. Útför hans fer fram í dag, 24. september, frá Stykkishólmskirkju. Jónas fæddist fyrir réttum 84 árum, þann 24. september 1904, að Ögri í Stykkishólmshreppi. Foreldr- ar hans voru hjónin Ástríður Helga Jónasdóttir og Páll Guðmundsson, sem þá bjuggu þar, en þau fluttu árið 1911 út í Höskuldsey á Breiðafirði, þaðan sem Páll stundaði sjósókn. Börn þeirra Höskuldseyjarhjóna, sem upp komust, voru þessi í aldurs- röð: Magðalena, Ágúst, Georg, Guðrún, Asta, Kristín, Jónas, Una, Soffía, Guðmundur, Sigurvin og Höskuldur. Af þeim eru nú á lífi: Guðrún, Guðmundur og Soffía. Fyrir nokkrum árum var haldið ættarmót í félagsheimilinu í Stykkis- hólmi hjá Helgafellsætt. Þar voru samankomnir afkomendur Jónasar Sigurðssonar, bónda á Helgafelli, og konu hans Ástríðar Þorsteinsdóttur, en þau voru foreldrar Ástríðar Helgu, móður Jónasar Pálssonar. Þarna var saman kominn mikill fjöldi fólks, talsvert á fjórða hundrað manns, enda þessi ætt kynsæl og fjölmenn. Jónas Pálsson ólst upp hjá foreldr- um sínum, fyrst í Ögri og síðan í Höskuldsey frá sjö ára aldri. Snemma fór hann að sækja sjó með föður sínum og að vinna störf við- komandi sjósókn og eyjabúskap. Sagði hann mér að hann hefði verið 9 ára þegar hann fór í fyrsta fiski- róðurinn. Varð það svo hlutskipti hans að vinna við sjóinn alla sína starfsævi. Ung að árum kynntust þau Jónas og Dagbjört Níelsdóttir frá Sellátri, sem er eyja innar og nær landi en Höskuldsey. Þau unnu sín heit og giftust. Árið 1930 hófu þau búskap í Elliðaey ásamt hjónunum Kristínu systur Jónasar og Jóni bróður Dag- bjartar. f Elliðaey stunduðu þessi ungu hjón búskap með kýr og kindur, en Jón og Jónas sóttu sjóinn á litlum vélbátum. Einnig önnuðust þau vitavörslu í Elliðaey. Sá sorglegi atburður gerðist 14. des- ember 1935 að Jón Níelsson drukknaði í fiskiróðri ásamt öðrum manní, sem reri með honum frá Elliðaey. Jónas og Dagbjört héldu búskap áfram í Elliða- ey til ársins 1946 er þau fluttu í Stykk- ishólm. Þar hafa þau búið síðan, lengst af í húsinu nr. 8 við Víkurgötu, eða í full 40 ár. Það hús heitir Staðarfell. Jónas og Dagbjört eígnuðust fjór- ar dætur. Þær eru: Helga, fædd 1930, gift þeim sem þessar línur skrifar; Unnur, fædd 1935, gift Egg- ert Björnssyni skipstjóra í Stykkis- hólmi; Jóhanna, fædd 1937, gift Hrafnkeli Alexanderssyni kaup- manni í Stykkishólmi; og Ásdís, fædd 1941, gift Friðþjófi Karlssyni viðskiptafræðingi í Reykjavík. Ég kynntist Jónasi þegar ég trú- lofaðist og síðar giftist elstu dóttur hans. Oft lá leið okkar hjóna vestur í Stykkishólm og fastur liður var það, að við dvöldum hluta af sumar- Íeyfi mínu þar vestra. Vorum við þá með syni okkar unga og síðar sem unglinga og eftir að þeir urðu full- orðnir hefir þeim þótt gott að heim- sækja afa og ömmu í Hólminum. Á árunum upp úr 1950 voru Jónas og Dagbjört með kýr og kindur, sem þau heyjuðu fyrir úti í Breiðafjarðar- eyjum og vorum við þá oft með þeim þar um tíma. Eins fékk ég oft að fara með Jónasi í fiskiróður og á lúðu- veiðar og vorum við þá tveir á báti. Á ég góðar minningar frá þessum heyskapar- og sjóferðatímum. Jónas var fróður um sjósókn og sjóleiðir á Breiðafirði og kunni frá mörgu að segja um atvinnuhætti og mannlíf í Breiðafjarðareyjum á fyrri tíð, enda hafa menn leitað til hans um þann fróðleik, t.d. Bergsveinn Skúlason og Lúðvík Kristjánsson vegna bóka sinna. Á síðari árum hafa dætur Jónasar með sínum fjölskyldum og foreldr- um komið saman í Elliðaey á hverju sumri á ættarmót, oftast fyrstu helg- ina í júlímánuði. Farkosturinn hefir þá oftast verið „Kári", bátur Jónasar Pálssonar, og einnig bátur Eggerts Björnssonar, „Gísli Gunnarsson". Þarna sátu Jónas og Dagbjört í forsæti og svo lékum við okkur til sjós og lands. Þessar minningar koma nú upp í hugann við fráfall tengdaföður míns og að sjálfsögðu margar fleiri. Ég vil með þessum orðum þakka honum margar góðar samverustundir og ferðir á „Kára" um Breiðafjörð í hægu veðri og hvössu. Eg veit að Guð mun gefa tengda- móður minni styrk nú þegar hún hefir misst lífsförunaut sinn úr jarð- lífinu. .lón Einarsson, Borgarnesi Hann afi á Staðarfelli er dáinn. Það er svo erfitt að ímynda sér Staðarfell og Stykkishólm án afa, þetta var allt ein heild. Hann ólst upp í Höskuldsey á Breiðafirði og var því sannkallaður Breiðfirðingur. Ekki ætla ég mér að rekja ættir hans hér, en það eru 10 ár síðan ég hitti þennan merkismann fyrst. Ég hafði heyrt lýsingu á honum: hann var rauður í framan með mjög stórar hendur. Eg varð hálf feimin við hann, en frá þeim degi hefur mér alltaf fundist ég eiga eitthvað í honum, kannski af því að ég var að vestan eins og sagt er og frá þessum fyrsta fundi okkar hef ég alltaf kallað hann afa, þó að í raun sé hann afi mannsins míns. Ég átti nefnilega einn svona langafa, sem kallaður var Raggi Kodda, með mjög stórar hendur og rauðar kinnar og var hann frá Hellissandi. Fljótt kom í Ijós að þessir miklu menn höfðu róið saman í gamla daga. Tvisvar hittust þeir eftir þetta og var þá glatt á hjalla. Ég get varla látið hjá líða að minnast á hana ömmu, Dagbjörtu Níelsdóttur frá Sellátri á Breiðafirði. Hún, þessi yndislega kona sem kveð- ur bónda sinn í dag, hefur stutt hann með sinni miklu trú og dugnaði í hans veikindum, en sem betur fer stóðu þau ekki of lengi og hún gat farið aftur í Hólminn, en afi fór ekki aftur, eins og hann ætlaði sér. Afi átti trillu, er Kári hét, og fyrsta sjóferð mín var er ég fór með honum í Elliðaey, en þar bjuggu þau afi og amma í u.þ.b. 20 ár og þær urðu ófáar sjóferðirnar eftir það. Hin síðari ár, er afi fór að geta stundað sjóinn minna, gerði dóttur- sonur hans, Siggi Palli, bátinn upp og var það mikið gleðiefni fyrir afa að fylgjast með því verki, að ég tali nú ekki um að sjá hann á floti aftur. Fyrsta ferð nýja Kára var með ömmu og afa út í Elliðaey í fyrra- sumar og sjaldan hef ég séð glaðari mann, en þetta varð ekki síðasta sjóferð hans, því seinna um sumarið átti hann þess kost að fara á Kára með Gumma bróður sinn með sér. Farið var á gömlu slóðirnar, þ.e. í Höskuldsey, og auðvitað lögð tvö lúðuköst og fengu þeir að ráða miðinu. Þeir sögðust ekkert muna á leiðinni fram en viti menn, þeir voru fljótir að taka við sér og létu leggja í Höskuldseyjardjúpið og til að enda góða ferð fengu þeir eina lúðu. Afi og amma voru þessi dæmi- gerðu afi og amma, alltaf gott að koma, alltaf kaffi á könnunni hjá ömmu, nýbakaðar pönnukökur og þau dundandi við eitthvað. Ég efast ekki um að einmanalegt verður hjá ömmu á Staðarfelli, en ég veit líka að trúin á guð styrkir þessa skyn- sömu konu, sem vissi hvað afa var fyrir bestu, og að nú líður honum vel. Það er erfitt fyrir mig að útskýra fyrir 4ra ára gömlu langafabarni hans að afi á Staðarfelli sé dáinn en hann sagði „hann afi á Staðarfelli getur ekki dáið því þá deyr hún amma líka". Guð fylgi þér og þínum dætrum, amma mín. Jóna Dís Ástkær tengdafaðir minn, Jónas Pálsson frá Elliðaey, verður jarð- sunginn frá Stykkishólmskirkju í dag, laugardaginn 24. september 1988, á fæðingardegi sínum og hefði hann þá orðið 84 ára. Hann lést að kvöldi þriðjudagsins 13. þ.m. á Landspítalanum í Reykjavfk, eftir hetjulega baráttu við þann sjúkdóm, sem einungis fáir hrósa sigri yfir. Jónas var maður, sem bar ekki harm sinn á borð fyrir aðra, eins og svo greinilega kom í ljós um miðjan júlí s.l., þegar ekki varð lengur undan því vikist fyrir hann að leita sér læknismeðferðar. Var hann fyrst lagður inn á sjúkrahúsið í Stykkis- hólmi, þar sem hann naut góðrar umönnunar lækna og annars starfs- liðs spítalans í um viku tíma, en þar kom í ljós að hann gekk með krabbamein á háu stigi. Enginn aðstandenda hans hafði haft hinn minnsta grun um, að veikindi hans væru svo alvarlegs eðlis. Hann var fæddur 24. september 1904 í Ögri í Stykkishólmshreppi og var sonur hjónanna Ástríðar Helgu Jónasdóttur frá Helgafelli og Páls Guðmundssonar frá Arnarstöðum í Helgafellssveit. Hann var einn af fjórtán systkinum og eru nú þrjú á lífi, þau Guðrún, Soffía og Guð- mundur, og votta ég þeim mína dýpstu samúð. Bræðrum hans kynntist ég vel, þeim Guðmundi, Höskuldi, Sigur- vin, Georg og Ágústi, og var jafnan glatt á hjalla, þegar þeir, ásamt Jónasi, komu saman, glaðir og reifir. Þeir settu mikinn svip á umhverfi sitt og fannst mér þeir vera fulltrúar kynslóðar, sem haft hafði mjög mót- andi áhrif á umhverfi sitt en er nú að hverfa. Jónas hóf sjósókn þegar á unga aldri með föður sínum og varð það hans ævistarf. Á þeim þrem áratug- um, sem leiðir okkar lágu saman, átti ég þess kost að fara með honum sumar hvert í siglingar um Breiða- fjörð á báti hans, Kára SH 78. Oftast var farið fram í Elliðaey, en þar hafði hann búið í 18 ár með eftirlif- andi eiginkonu sinni, Dagbjörtu H. Nielsdóttur. Jónas annaðist um vitann, jafnframt því sem hann stundaði búskap og sjósókn. Þau hjónin eignuðust fjórar dætur, þær Ástríði Helgu, Unni Láru, Jóhönnu og Ásdísi, sem er eiginkona mín. Þau Jónas og Dagbjört fluttu síðan til Stykkishólms, þegar dæturnar komust á skólaskyldualdur. Fátt var skemmtilegra en að sigla með Jónasi á sléttum sjó um Breiða- fjörð, en þau voru líka ófá skiptin, þegar veðurguðirnir létu af öllum vingjarnleik og virtust storka sæför- um með ágjöfum, svo líttreyndum þótti nóg um. Á slíkum stundum virtist leiðin til lands alltaf lengst. Það brást aldrei, að mér varð alltaf hugarhægra, þegar ég leit til Jónasar, ' þar sem hann horfði út um opinn gluggann á stýrishúsinu á Kára og hélt um stýristaumana öruggum höndum og ráða mátti af svip hans, að hann léti sér fátt finnast um ókyrrð náttúruaflanna. Margar góðar minningar á ég og fjölskylda mín frá ferðalögum með Jónasi og Dagbjörtu um landið. Jónas var alltaf traustur ferðafélagi, hvort sem var til lands eða sjávar. Sumarið 1984 fóru Jónas og Dag- björt ásamt tveim dætrum sínum, þeim Ástríði Helgu og Ásdísi og fjölskyldum þeirra, í fyrsta sinn saman til útlanda, nánar tiltekið til Þýskalands, þar sem dvalið var í sumarhúsum í nokkrar vikur. Þang- að komu um langan veg til að hitta ferðalangana, Agnar sonur Sigur- vins og fjölskylda hans, en þau eru búsett í Luxembourg og átti gestrisni þeirra og myndarskapur stóran þátt í því, hve vel ferðin heppnaðist. Jónas var staðfastur maður, sem hafði í heiðri gömul gildi. Hann sá vel fyrir sér og sínum, en skuldaði ekki neinum neitt. Hann var einlæg- ur maður og hjartahlýr og aldrei verður hægt að fullþakka fyrir þær góðu stundir, sem ég og fjölskylda mín áttum með honum og eftirlif- andi eiginkonu hans, Dagbjörtu H. Nielsdóttur. Samlífþeirra hjóna í 58 ár er falleg saga. Eg votta tengda- móður minni mína dýpstu samúð og hluttekningu vegna fráfalls ævifélaga hennar. Öðrum ættingjum, vinum og venslamönnum Jónasar sendi ég samúðarkveðjur. Nú, þegar hann heldur upp í þá ferð, sem við munum öll fara að lokum, er hann kvaddur með sökn- uði. Blessuð sé minning Jónasar Páls- sonar frá Elliðaey. Friðþjófur Max Karlsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.