Tíminn - 14.12.1989, Blaðsíða 8
8 Tíminn
Fimmtudagur 14. desember 1989
lllllllllllllllllllllllllll BÓKMENNTIR llllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllll^
Dempaður súrrealismi
S|ón:
Englll, pípuhattur og jarðarber,
Mál og menning, Rv. 1989.
Sigurjón B. Sigurðsson, sem yrkir
undir skáldanafninu Sjón, hefur á
undanförnum árum verið helsti
brimbrjótur þess sem menn nefna
gjaman súrrealisma í ísienskum nú-
tímabókmenntum. Fyrst framan af
kom þetta fram í ljóðum hans, sem
birtust á ýmsum stöðum en síðan var
safnað saman í bókina Drengurinn
með röntgenaugun og út kom 1986.
Síðan snéri hann sér að lausamálsrit-
un og sendi frá sér skáldsöguna
Stálnótt í hitteðfyrra. Og nú er
komin önnur skáidsaga, Engill,
pípuhattur og jarðarber.
Ef skilgreina á súrrealisma þessa
höfundar er eiginlega hætt við að
manni vefjist tunga um höfuð. En þó
má telja það meginstef í verkum
hans að þar er að yfirlögðu ráði beitt
þeirri listrænu aðferð að fara út fyrir
mörk hins líffræðilega mögulega.
Og ekki nóg með það, heldur er
markvisst leitað eftir margs konar
hryllingsmyndum og þeim beitt til
þess að ná með þeim fram þeim
listrænu áhrifum sem höfundur
stefnir að. Verkin verða öfgakennd,
laus við samfélagslegt raunsæi og
fjarlæg þeim raunveruleika sem við
hin þekkjum umhverfis okkur. Og
gott ef ekki beintínis ógnvekjandi á
stundum.
Með þessu er þó vitaskuld ekki
sagt nema brot af sögunni. Sjón er
listamaður, það dylst engum, og það
innifelur að menn verða að lesa verk
hans og lifa sig inn í þau til að geta
vegið þau og metið. Þau eru eigin-
lega blessunarlega laus við að falla
að viðteknum kvörðum og mælistik-
um bókmenntafræðinnar. Það inni-
felur að þau eru nýstárleg og
frumleg, og raunar ólík flestu því
sem hvað lengst hefur verið talin góð
latína í skáldskap hér á landi. Og
það er svo kannski einmitt í þessu
sem sérstaða þeirra felst, og þar með
listrænt gildi. Þau koma á óvart,
kalla á viðbrögð, eignast andstæð-
inga og fylgismenn. Slíkt hefur í
rauninni alltaf verið aðalsmerki
góðra listaverka, í hvaða formi sem
þau hafa verið.
Þessi nýja bók er þó um margt
ólík því sem á undan er komið. Hún
er eiginlega það hefðbundnasta sem
ég hef til þessa séð frá Sjón. f henni
er nefnilega greinilegur söguþráður
og persónurnar dregnar tiltölulega
mannlegum dráttum. En samt er
öfgastíll súrrealismans enn hér fyrir
hendi, þótt dregið hafi úr honum.
Sumir vilja eflaust kalla þetta fram-
för og aðrir afturför. Slíkt mat
byggist þó fyrst og síðast á smekk og
persónulegu mati, en allt um það fer
ekki á milli mála að hér hefur
súrrealisminn verið dempaður tölu-
vert frá því sem áður var.
Hér segir ósköp einfaldlega frá
ungum skötuhjúum, Steini og Mjöll,
sem búa einhvers staðar í franskri
borg og fara einn góðan veðurdag
niður á ströndina til að sóla sig. f
kringum þau er svo á sífelldu reiki
nokkuð óljós persóna sem nefnd er
Skuggi. í rauninni gerist ósköp lítið
þann eina dag sem sagan spannar.
Ýmsar aðrar sögupersónur, mis-
munandi skýrar, verða á vegi þeirra,
og um kvöldið halda þau heim.
Óljóst er hvort þau komast á leiðar-
enda, annað hvort lenda þau í um-
ferðarslysi eða eru uppnumin á ein-
hvern súrrealískan máta.
Efniviðurinn hér er þannig til þess
að gera einfaldur. Hér gerast engir
stórviðburðir og unga parið er bara
svona rétt eins og gengur og gerist
með fólk á þeirra reki. Sérstæðasta
persóna bókarinnar er þó Skuggi, og
er vafalaust hægt að draga af honum
einhvers konar líkingu. Máski er
hann eitthvað það sem fylgir okkur
öllum í lífinu, ef ekki beinlínis
skugginn okkar þá eitthvað sem við
höfum á samviskunni, hugsanlega
jafnvel sjálf erfðasyndin?
Þegar Sjón sendi frá sér fyrri
skáldsögu sína, Stálnótt, fór ekki á
milli mála að þar var nýr strengur
sleginn. Fyrir mína parta virtist mér
Sjón.
á sínum tíma að það sem helst
sérkenndi þá bók og gerði hana bæði
nýstárlega og áhugaverða væri sá
kaldranalegi harðjaxlahugsunar-
háttur sem í henni var túlkaður,
eitthvað í áttina við það sem við
köllum „töffheit" að enskum sið.
Hér, aftur á móti, er allt miklu
mildara en þar var. Hér eru ólíkt
mýkri línur í öllum myndum sögunn-
ar og tekið á efninu með margfalt
meiri silkihönskum en þar var. Þessi
bók er miklu meira í ætt við þann
frásagnarmáta sem tíðkaður er á
barnabókum, meðan Stálnóttin var
fremur sniðin að áhugamálum ein-
hvers konar leðurjakkatöffara.
Spurningin er hins vegar hvort
þetta sé framför eða afturför. Því
verður vitaskuld hver að svara fyrir
sig; sumir vilja bækur sem eru
mildar, ljúfar og við bama hæfi,
meðan aðrir vilja sögur sem fjalla
um beitingu krafta, ofbeldi og harða
kalla.
En eigi að síður fer það ekki á
milli mála að hér er ekki sami
byltingarsinnaði súrrealistinn á ferð-
inni og fyrr. Hér hefur verið dregið
úr ferðinni. Hér er ekki eins mark-
visst og fyrr stefnt að því að ganga
fram af lesendum sem fastir eru í
formi hefðbundinna verka. Hér hef-
ur höfundurinn þvert á móti færst
yfir til hinna hefðbundnari verk-
anna.
Og fyrst svo er þá vaknar óhjá-
kvæmilega spurningin hvað hann
hafi að bióða hér sem komið geti í
staðinn. I fljótu bragði verður ekki
komið auga á neitt slíkt í bókinni.
Sjón er enn súrrealískur, en bara
hógværari en fyrr. Kannski leiðir
þetta til þess að ýmsir, sem hann
hefur verið of þungmeltur fyrir til
þessa, geti nú farið að lesa hann.
Kannski er þetta fyrsta skrefið yfir
til þess að hann verði með tímanum
hefðbundinn rithöfundur, í takt við
samtíma sinn og viðurkenndur af
honum. En samt hálfsé ég eftir
honum eins og hann var. Það er
alltaf gaman að skáldum sem þora
að yrkja öðruvísi en hinir, og sem
standa undir því.
Eystcinn Sigurðsson.
Þegar morðið sótti
Sjávarbakka heim
Birgitta Halldórsdóttir
Sekur fiýr þó enginn elti
Útgáfa: Skjaldborg. 1989.
Það besta við þessa bók er titillinn.
Kápan er einnig skemmtilega frá
gengin. Sagan er í senn spennusaga
um glæp og ástarsaga, getur verið
ágæt blanda ef vel er að verki staðið,
en hlýtur að þurfa töluverða færni til
að tvinna saman þessa þætti tvo svo
vel sé, þar eð glæpurinn og ástin
velja sér sjaldan sama föruneyti,
glæpurinn skynsemi og ástríður, ást-
in víst eittvað annað þó af sömu
rótum sé runnin. Góður reyfari nær
tökum á lesanda og það jafnvel þótt
efnið sé með ólíkindum; skynsamleg
meðferð þess og stíll ræður þá miklu
um. En engu er líkara í þessari bók
en að höfundur taki sér hvíldir frá
söguefninu til einhvers konar nánara
samneytis við persónur sínar og
þetta berst manni eins og fréttir úr
kunningjahópi einhvers alókunnugs
og með leyfi að segja heldur leiðin-
legs vegfaranda.
Sögufléttan er ágæt, umhverfi og
aðstæður allar sannfærandi. En frá-
sagnarháttur, persónulýsingar og
stíll er svo flatneskjulegt að því
verður varla lýst á annan hátt en
með beinum tilvitnunum í bókina;
þetta er sjöunda skáldsaga höfundar
og hann hefur ekki enn hirt um að
tileinka sér einföldustu frásagnar-
tækni. Þanniger greint skilmerkilega
en tilþrifalaust frá sjálfsögðustu at-
höfnum, þegar einhver flytur sig af
einum stað á annan, svo sem eins og
að hann gangi niður tröppur ef hann
er uppi á annarri hæð eða raði niður
í ferðatöskur ef farið er í nokkurra
daga ferðalag.
Stíllinn er líkastur leirskriðu sem
lagt hefur undir sig hverja mishæð,
breytt landslagi í kennimarkalaust
foræði hvert sem litið er, síðan hefur
allt þomað upp, eftir situr svipleysið.
Ég gríp niður í bókina af handahófi:
„Stella sagði ekkert. Hún var undr-
andi á þessari frásögn. Var hann ef
til vill að skálda þetta allt? Þetta var
í meira lagi ótrúlegt. En kannski var
þetta satt. Henni hafði sjálfri fundist
allt svo undarlegt er hún kom á
Bakka. En hvað gat verið á seyði?
Voru þetta einhver ill forlög að
verki? Nei, hún trúði ekki á slíkt. En
hvað sem þetta var, var það eitthvað
varhugavert en samt sem áður yrði
hún að komast til botns í þessu.
Allra hluta vegna ..." (59).
Hvað er þetta þetta? Höfundur er
of krefjandi um langlundargeð les-
anda gagnvart efninu sjálfu í fyrstu
köflum sögunnar til að hann geti
leyft sér aðra eins lágkúru og fram-
setningarmátinn er. Undirbygging
þess er of skrautleg til að þrífast í
leirnum. Vangefinn frændi Stellu,
ungrar Reykjavíkurstúlku, finnst
drukknaður í fjöru neðan hárra
hamra í námunda við heimili sitt,
hrossaræktarbýli fyrir austan fjall.
Engum heilvita manni dettur í hug í
sögunni að maðurinn hafi fengið
aðsvif á brúninni eða farist á annan
hátt sem þó er ekki fjarri lesanda að
ætla. Þvert á móti grunar alla, sem
ekkert vita um aðdragandann, þegar
að morð hafi verið framið. Sá van-
gefni Skarphéðinn, 55 ára karl, var
mesti meinleysingi og hafði alla tíð
verið. Enn frekari áhuga lesanda
hefði vafalaust verið hægt að vekja
með því að gera af þessum manni
eitthvað annað en nafnið tómt, hann
er þungamiðja frásagnarinnar lengst
af, en það er ekki gert.
Persónur sögunnar og jafnvel dýr
vita sínu viti með yfirnáttúrulegum
hætti - eða því sem næst. Stella fer
af stað úr bænum til að komast til
botns í málinu. Uppeldisfrændi
hennar í sveitinni, Már, segir: „Hún
Stella sættir sig aldrei við að Skarp-
héðinn hafi dáið með eðlilegum
hætti.“ (9) Og móðir Stellu segir við
hana þegar hún hefur ákveðið að
fara austur: „í guðanna bænum
farðu ekki að grufla neitt út í þetta
slys. Við vitum báðar að það hlýtur
að vera eitthvað gruggugt við það ...
(17) Þessi hæfileiki virðist gera alla
atburði jafna fyrir tilliti persónanna
þótt þeir leggi suma atburði í einelti
af siðferðilegum ástæðum.
Morð eru undantekningar, jafnvel
þótt um sakamálasögu sé að ræða.
En stíll þessarar sögu sér um að gera
morð og morðingja jafnléttvæg og
búðarhnupl. Afgreidd með léttri
klisju. Reyndar sér sama eyðingarafl
um að gera útlitslýsingar, klæðaburð
og ámóta jafnfyrirferðarmikið í sög-
unni og manndráp. í leirflesjum
stílsins bryddir á mola úr forstokk-
uðum hugmyndum um mannlegt
eðli sem einkenndu unglingasögur
áður fyrr, þær sitja þarna fastar í
einhvers konar reiðileysi, um forsjón
og örlög, hvorki meira né minna, og
n
skýra að einhverju leyti framsýni
persónanna, sem þó stenst ekki
samjöfnuð við alvitran höfundinn er
segir í lok fyrsta kapitula: Stella
heldur „á vit þess óþekkta sem hún á
þessari stundu hefði aldrei trúað. Ef
hana hefði órað fyrir allri þeirri ógn
og skelfingu er átti eftir að dynja yfir
fjölskylduna á Sjávarbakka hefði
hún án efa misst kjarkinn og hætt við
þessa ferð. En hún ók burt úr
höfuðborginni allsendis grunlaus.
Hún þekkti ekki þær duldu ástríður,
afbrýði og örvæntingu er hún átti
eftir að kynnast. Hættan lá í leyni
svo ótrúlega nærri.“ (19) Er svona
tiltal í bók boðlegt fullorðnu fólki?
Persónunum er alltaf að finnast
eitthvað, svo sem að andrúmsloftið
sé þrúgandi, og ganga þá út. Það
virðist enginn geta hugsað heila
hugsun af sjálfum sér í bókinni. Og
stundum læðist að manni sá grunur
að höfundur geti það ekki heldur.
Eða þarf ekki að vera í einhvers
konar órakenndu hugarástandi til að
geta upplifað með honum eldsvoð-
ann undir bókarlok? Kofi brennur í
Sjávarbakkalandi að vetrarlagi um
nótt, nálægt bjargbrúninni þar sem
Skarphéðinn fór fram af, fram hefur
komið að kofinn er tveggja her-
bergja timburskýli og gluggar ekki
minni en svo að í gegnum þá er hægt
að fylgjast með öllum athöfnum
þeirra sem inni dvelja. Fólk er á stjái
umhverfis kofann meðan hann
brennur til ösku án þess að vita um
afdrif Stellu, sem kofann gisti þessa
nótt, en ekki getur það með neinu
móti gert sér grein fyrir hvort Stella
er að brenna þarna inni eða ekki.
Hún hefur vaknað við brunann og
kemst ekki úr innra herbergi til
útidyranna fyrir eldinum. Þar skilur
höfundur við hana til að halda uppi
spennunni. Um leið er orðið engu
líkara en húsið sé gluggalaust með
öllu, önnur eins afbragðsmanneskja
hefði varla látið sig muna um að
bregða sér út um glugga. Næst er
Stellu getið til sögunnar skríðandi í
þveröfuga átt við bæinn í vitlausu
veðri sem skyndilega hefur skollið á,
en í umhverfi sem hún gjörþekkir
eftir því sem fram hefur komið -
best skrifaði hluti bókarinnar - og
þar með er hún glórulaus. Hún
hlýtur að hafa komist út úr kofanum
áður en heimafólk bar þar að og
varla villst allan tímann meðan kof-
inn brann til ösku úr kallfæri við
fólkið.
Hún hafði steypt sér fram af hamri
á stað þar sem einn maður hafði
farist og á svipuðum slóðum annar
stórslasast á tveimur undanförnum
dögum. í villunni kemst Stella í
hellisskúta f fjörunni niður undan
hamrinum. Maður með marglit augu
er þá kominn á kreik, þrátt fyrir
veðrið, og hefur áttað sig á að um
íkveikju hefur verið að ræða því
hann getur staðfest, eftir að hafa
dvalið eitt kvöld og nóttina eftir í
kofanum, að olíubrúsi sem hann
rekst á nálega í rústunum hafi ekki
verið í kofanum eða í nágrenni við
hann nóttina áður. Hafi hann kann-
að svo rækilega, sem þessi fullyrðing
gefur til kynna, vettvanginn áður en
hann barði upp hjá Stellu um kvöldið
er mesta furða að hann ekki rakst á
þær manneskjur tvær sem voru á
kreiki kringum kofann í sömu mund
og hann - og sá a.m.k. önnur þeirra
hina.
Það er sannarlega ekki vel haldið
á spilunum þótt efnið sé vel til
fundið. Ekki verður farið lengra út í
þá sálma. Efni reyfara þarf ekki að
standast gaumgæfilega athugun, eða
hvað? Nei. En hvað segja menn um
framhald leitarinnar að Stellu þegar
maðurinn með marglitu augun (katt-
araugu?) hefur á rölti sínu um bjarg-
brúnina gefið upp von um að finna
hana lífs eða liðna, þá kemur gæð-
ingur Stellu í veðri og myrkri, dengir
sér fram af bjarginu, ofan stiga og
töltir svo rakleiðis til skútans, sækir
Stellu og fer með hana heim rænu-
litla á bakinu. Þegar hér er komið
sögu hlýtur hver maður að reka upp
stór augu þrátt fyrir allt langlundar-
geð.
Það er engu líkara en höfundur
þessarar bókar hafi lesið yfir sig af
ómerkilegustu reyfúrum, unglinga-
og barnasögum og varla nokkurn
tíma litið bókmenntaverk réttu
auga. En það er einmitt af slíkum
verkum sem honum veitir ekki af að
heyja sér lexíu, ekki til að troða
sömu götur, síður en svo, heldur til
að skerpa útlínur sakamálasagna
sinna frá þvf sem umrædd bók ber
með sér, hnitmiða efnið, greina
aðalatriði frá aukaatriðum, vinda
burt enskusletturnar, s.s. „hlutina"
og fomafnamorið, sem sjá má dæmi
um í fyrstu tilvitnun þessarar lýsing-
ar o.s.frv. o.s.frv. Plottið er síður en
svo langsótt, höfundur getur ritað
góð samtöl, en lætur augljóslega
betur að lýsa ytri atburðum en
tilfinningum persóna sinna.
Og hvað á þessi ástarþvæla eigin-
lega að þýða einmitt þegar fer að
stríkka á spennunni? Viðar með
marglitu augun gistir í kofanum og
kveikir ástarloga í brjósti Stellu í
miðri dulúðinni, en fullyrðingar um
ágæti hans, beinar og óbeinar, eru
álíka sannfærandi og að aðalpersón-
an Stella sé fyrirmyndarmanneskja.
Stinga ungar „góðar“ stúlkur svo
auðveldlega úr einni konjakks-
flösku, sem hún gerir, fá sér afréttara
daginn eftir og skreppa stundu síðar
í ríkið (á Selfossi) eftir tveimur
konjakksflöskum í viðbót og einni
vodka? Samskipti elskendanna
hlaupa út og suður með spennufrá-
sögnina því að þau hafa, eins og
hverjir aðrir elskendur í róman,
mestan áhuga hvort á öðru og ekki
á raunsæi. Stella að vísu á móral en
það er annað.
Til eru góðar íslenskar spennusög-
ur, þótt ekki séu þær margar að því
er ég tel, og þessi er ekki ein af þeim.
Frágangur af hálfu útgáfunnar er
með ágætum.
María Anna Þorsteinsdóttir