Tíminn - 06.04.1991, Blaðsíða 18

Tíminn - 06.04.1991, Blaðsíða 18
30 Tíminn Laugardagur 6. apríi 191 ARNAÐ HEILLA Hálftíræður heimspekingur Þorsteinn Jónsson Þorsteinn Jónsson á Úlfsstöðum í Borgarfirði varð 95 ára þann 5. apríl 1991. Ef einhver spyr hver hann sé. þá er fyrsta og tvímælaiausasta svarið að hann er bóndi, eða var það fram undir nírætt. Það er ekki lítið undir því komið að geta sagst vera eitthvað, hafa þjóðfélagsstöðu, og einkum ef henni hefur verið vel gegnt. Þetta segi ég reyndar þvert ofan í skoðun mannsins sem ég er að tala um, því það var lengi hugsjón hans að vera ekki neitt. Fjölskyldufaðir hefur Þor- steinn Jónsson verið og ættfaðir er hann orðinn. Gott er að geta sagt að þar er efnisfólk upp vaxið og að vaxa. Kona Þorsteins er Áslaug Steinsdótt- ir, hin ágætasta kona, og vissulega er það konunni meira en að hálfu að þakka, ef vel er búð og gott á bæinn að koma. Þegar brann á Úlfsstöðum í ársbyrj- un 1952 var það samhent lið sem endurreisti bæinn og vel það á nokkrum mánuðum, svo að menn undraði að sjá þriggja hæða höll rísa við alfaraveg, meðan slíkar byggingar voru fáar í sveitum. Þorsteinn var dá- lítið „frekur" til peninganna þá - - í fyrsta og eina skipti á ævinni - - því að hann vildi „heftia sín á óhappinu", eins og hann komst að orði. Var ekki laust við að bankastjórar væru tregir til að magna slíka framkvæmd í fyrstu. En þegar þeir sáu andlit mannsins hvarf þeim allur efi. Slíkt hefur fleirum orðið sem litið hafa í augun, skoðað svipinn, horft á höf- uðið. Ráðvandur er þessi maður og mörgum hefur fundist til um hann. Þó hefur hann verið fremur lítið þekktur, þessi bóndi á meðaljörð í einni af uppsveitum Borgarfjarðar, sem jafnan hefur verið kyrr í sinni sveit um 95 ára skeið, nema eitt ár í Flókadal og hálft í Sviss. Ef spurt væri enn hver þessi Þor- steinn Jónsson sé, þá veit ég annan en þann sem nú var nefndur. Það er skáldið, og skal víkja að því nokkrum orðum. Á 3. og 4. tug aldar vorrar skinu mikil ljós yfir íslenskum sálum. Listamenn, sem þá ristu á legg, voru nær hinum sanna ómi alheimsins en síðan hefur getað orðið. í Borgarfirði einum voru þeir, sem til skálda voru taldir eftir á, ekki allfáir, en þó hygg ég fleiri hafa verið en sagðir voru. Einn þeirra, sem fram voru komnir um 1930 og famir að vekja athygli, var þessi bóndasonur úr inndölum, sem í rauninni hafði ekkert af því sem til þurfti, nema eitt: að vera skáld. En það var líka nóg, og það eitt var nóg, á þeim tíma. Að vera eða vera ekki, var það sem gilti. Ég hef kynnst þessum manni töluvert á löngu árabili — en ef einhver héldi að ég væri að skrifa vegna mægða, kunningsskapar eða skyldleika, þá skjátlast þeim. Mín fyrstu kynni af rituðu máli Þorsteins voru í heim- sókn hjá Sigríði frænku minni, þar sem hún bjó á Golfskálahæð síðsum- ars árið 1947. Þær systur voru niður- sokknar í einhverjar hugleiðingar um skáldskap og sögu 19. aldar og ungi frændi var kyrrlátur og prúður, en ég sat við suðurgluggann og var að lesa. Þorsteini Jónssyni fór ég svo að skrifa, en þó ekki fyrr en ári síðar. Það er ekki vafi á því að bókmennta- menn ýmsir um 1930-40 tóku eftir því sem kom frá þessum manni. Ég gæti nefnt þekkt nöfn, en læt mér nægja að nefna þann sem nú kynni að þykja minna varið í en áður: Krist- in E. Andrésson. „Það er nógur eld- urinn í þessu hjá þér,“ sagði hann við Þorstein Jónsson í Kaupmannahöfn vorið 1934. En Kristni líkaði ekki hvað hann var bágrækur í stjórnmál- um og tók aðra heimspeki fram yfir, og þar skildi með þeim. Líklega hefur Kristinn þó ekki séö eins djúpt í eðli Þ.J. og ég, sem fyrir nokkrum árum sagði við hann upp úr þurru: „Það er ég viss um að þú hefur ekki vitað á Úlfsstöðum 95 ára hver var forsætisráðherra í Sviss (for- seti er víst réttara) allan þann tíma sem þú varst þar.“ „Hvernig gastu vit- að þetta?“ hrópaði hann nærri því og barnsleg gleði geislaði af honum. Honum fannst þessi ágiskun bera svo mikinn skilning á sér og sínu eðli. Það sem hann spurði um og leitaði eftir þarna í Sviss voru kvæði og stað- ir tengdum minningum um stór- skáldin, Goethe, Schiller, Byron o.s.frv., einnig náttúrufræði, tónlist og hvaðeina sem ljómaði af list og snilld. Allt slíkt hreif hann, þar var hann allur, og þrátt fyrir svo sem enga skólagöngu varð hann vel læs á þýsku og ágætar þýðingar liggja eftir hann frá síðari árum. Símon Jóhann- es sagði einhvern tíma, þegar hann sá eitthvað eftir Þ.J.: „Þarna er Ni- etzche í honum, það er ekki á mennsks manns færi að fara í þau spor.“ En þegar hann las lengra sá hann að þetta var einmitt ekki eftir- líking, heldur „sams konar eldur". Meðal þess, sem best hefur þótt hjá Þ.J., er óbundin ljóðræna, skyld því sem þekkt var frá þeim tímum, en þó með mjög sérstökum svip, en einnig kjarnyrði eða málsgreinar og komu þar við sögu áhrifin frá Rabindranath Tágore og Nietzche. Eins og t.d. þetta: „Þegar eldsneytið brennur, verður það að loftkenndum eimi. Þegar gæfan brennur, verður hún að fleygum hugsunum." „Það vinnst mér eitt, sem ég þori að glata. Sjálf mitt er ekki sérdrægni mín og sjálf- svarðveisla, heldur leit mín eftir sam- eiginleik og ást mín til annarra." „Líf- ið er árangur af viðleitni guðs til að vinna sér stað fyrir utan sjálfan sig.“ En lengra ætla ég ekki að rekja og allt verður að hverfa inn í möppur eða bunka. Það þarf ekki að efa, að Þorsteinn Jónsson var og er skáld. En alls enga viðurkenningu hefur hann fengið á neinn þann hátt sem tíðkast. Hann er hvergi nefndur. Það er eins og jörðin hafi gleypt hann. „Þjóðfélagið" hefur algerlega strikað yfir nafn hans um 50 ára skeið og lengur. Ég haföi ein- hvern tíma orð á þessu við hann, en hann svaraði: ,Já, mig furðar dálítið á því.“ Sárara ómaði ekki sá strengur; meira hefur honum ekki orðið um en þetta. En þó væri fróðlegt að vita hvernig svona gat þetta orðið. Þegar Þorsteinn Jónsson var farinn að undirbúa það að gefa út bók — svo bláfátækur sem hann var — þetta var um 1938 og mæðiveikin geisandi og auk þess stóð hann í byggingum — þá hefðu víst flestir búist við Ijóða- bók. En þegar hann sagði skáldvini sínum frá því að heimspeki væri það sem koma ætti, varð sá nær ókvæða við; bað hann blessaðan að hætta við þetta, sjálfsagt af tómri umhyggju fyrir velferð mannsins, sem þó lét ekki aftra sér. En segja mátti að sann- spár hafi skáldmaður þessi orðið — því að frá því að Þorsteinn Jónsson gaf út bókina Samtöl um íslenska heimspeki (1940) hefur hann verið „allra þögn falinn", og það því fremur að hann hefur haldið áfram á sömu braut alla tíð síðan. Undantekning er reyndar ein. Með- an Guðmundur Sveinsson var skóla- stjóri í Bifröst, bauð hann Þorsteini stundum að flytja þar erindi fyrir kennara og nemendur og skal þess jafnan minnst með heiðri og þökk. Ég sé um leið og ég set þetta á blað að mikið vantar á að mér muni takast að gera nokkra grein fyrir heimspek- ingnum Þorsteini Jónssyni í stuttri blaðagrein. „Geysilega hlýtur þetta að vera vitur maður," sagði Þorsteinn Björnsson úr Bæ, þegar hann las ein- hver af kjarnyrðum hans (um 1928). ólmur var sá hugur sem þannig lét, og fram til dauðadags (1937) hafði Úr Bæ verið að velta fyrir sér hvað hægt væri að gera fyrir „blessaðan heim- spekinginn". Ein tilraunin var sú að fara til Sigurðar Nordals og reyna að fá hann til að beita sér. Auðvitað nennti hann ekki, en þó var ekki ófróðlegt að sjá hvernig líf og áhugi færðist yfir gamla Sigurð þegar hann sagði mér frá þessu löngu síðar, og því að hugmyndin hafi verið sú að ná saman hinum ýmsu fylgismönnum Nýalskenningar austan hafs og vest- an og setja þá í samband við Þorstein Jónsson. Mætti líta svo á að með þessum ráðagerðum hafi skapast fyrstu drögin að Félagi Nýalssinna, og er ekki ólíklegt að það félag hefði orðið mun öflugra og máttugra ef tekist hefði að stofna það fyrir síðari héimsstyrjöld. Það mætti jafnvel hugsa sér að sú styrjöld hefði engin orðið ef þetta hefði tekist þá. Tvímælalaust má telja Þorstein Jónsson frumherja og foringja að því að Félag Nýalssinna var stofnað um 1950 og er af því allmikil saga. Kenn- ing Nýals er það sem Þorsteinn hefur metið alls mest um ævidaga sína. Aðalatriði í heimspeki Þorsteins Jós- sonar er minningakenning hans og má rekja hana allt aftur í skáldskap hans á yngri árum („Hvert líf það er minning sem minnist...“ og „Endur- minning"). Kenningin er bæði líf- fræðileg og sálfræðileg og ef einhver ímyndaði sér að „kenning" geti ekki verið annað en hugarburður, þá afs- annast það á minningakenningu Þorsteins. „Það eitt er líf að strengir endurminninga ómi undan fótataki atburðanna," segir þar — en svo skáldlega sem þetta er þarna sagt, þá reynist framhaldið vera nákvæm út- listun staðreynda, sem hver maður getur athugað. Meðal þess allra þýð- ingarmesta um þessa kenningu er það, að hún afsannar fullkomlega endurburðarkenningu guðspekinn- ar. Það sem hinir síðarnefndu halda að sé endurminning úr fyrra lífi, skýrir Þorsteinn sem lifandi endur- minningar framliðinna, komnar í hug manns fyrir samband. Líklega trúir enginn maður því sem hér var sagt, eða aðeins örfáir, en ég hygg það engu síður satt vera. Það er af því hvað kenning Þorsteins Jóns- sonar er frumleg og sönn, að fátt hef- ur verið um hana sagt. En þó að á hafi skort um „opinbera viðurkenningu", hefur alls ekki verið laust við að menn skynjuðu eða skildu hvers konar maður er þarna á ferð. Fyrir 2-3 árum hittust þeir öld- ungarnir Höskuldur á Hofsstöðum, nú 98 ára, og Þorsteinn á Úlfsstöð- um, nú 95. Höskuldur fór þá með þessa vísu, nýgerða, um þennan ná- granna sinn: Hár þótt gráni’ og hrömi mundir hans er talið milt og vært. Þar býr falinn eldur undir æ sem logar stillt og skært. Þarna kemur fram ekki aðeins kunnátta í vísnagerð, heldur mann- þekking sem sannarlega gladdi mig þegar ég heyrði þessa vísu og hver ort hafði. En eftir Þorstein sjálfan fundum við þetta nýlega á skrifborði hans, sem er þó langt frá því að gefa mikla hug- mynd um skáldskap hans almennt: Áður fyrr á æskudögum orti ég, í von um hrós. Slíkt er eðli allra manna, allirþrá að koma í Ijós. Einnig hér í elli minni undirsama löngun býr. Þráin til að lýsa og Ijóma lífsins allar dáðir knýr. (Þ.J. 1990) Þorsteinn Guðjónsson Ég þakka innilega öllum þeim sem glöddu mig með heimsóknum, blómum, gjöfum og skeytum á áttræðisafmæli mínu 30. mars síðastliðinn. Sérstaklega þakka ég sonum mínum og fjöl- skyldum þeirra fyrir ánægjulegan dag. Guð blessi ykkur öll. Ingimundur á Hóli Þorbjörg Þórarinsdóttir Fædd 2. maí 1908 Dáin 31. mars 1991 Þorbjörg Þórarinsdóttir frá Austur- görðum í Kelduhverfi er látin. Með henni er gengin góð kona og mæt. Og nú á kveðjustund langar mig að minnast tengdamóður minnar nokkrum orðum og þakka eftir- minnileg kynni. Þorbjörg fæddist að Sigurðarstöð- um á Sléttu 2. maí 1908. Foreldrar hennar voru hjónin Kristlaug Guð- jónsdóttir og Þórarinn Guðnason bóndi. í Kollavík í Þistilfirði ólst hún upp í stórum hópi systkina. Heimilið komst allvel af eftir því sem þá gerðist og var aldrei skortur á þeim bæ. Systurnar voru sex og var til þess tekið hve gjörvulegar þær þóttu. Bræöurnir voru tveir en létust báðir ungir að árum. Þorbjörg stundaði nám í héraðsskóianum að Laugum og síðar í húsmæðraskól- anum á Blönduósi, en þar var þá skólastýra Hulda Stefánsdóttir. Námið nýttist henni vel og bjó hún að því alla tíð. Eftir það stundaði hún ýmis störf, m.a. sem ganga- stúlka á Vífilsstöðum, en hálfþrítug heldur hún til Danmerkur og dvelur þar um fimm ára skeið og vann einkum við heimilisstörf. Hún réðst í vist hjá þýskum greifa, Bergstoff að nafni. Sagði hún svo frá að er hún hóf störf þar átti hún um tvo kosti að velja. Annars vegar að fá ákveðið mánaðarkaup og matast ein í eld- húsinu, eða sitja til borðs með fjöl- skyldunni og blanda geði við hana, en við það lækkuðu Iaunin nokkuð. Þorbjörg valdi síðari kostinn og sá ekki eftir því. Bergstoff greifi hafði hrökklast frá heimalandi sínu í um- róti fyrri heimsstyrjaldar, en siði og venjur forfeðra sinna hafði hann í heiðri og var nákvæmur og strangur í uppeldi barna sinna sem þéruðu föður sinn. Um tveggja ára skeið vann hún í sendiráði íslands í Kaupmannahöfn, en þá var þar sendiherra Sveinn Björnsson, síðar forseti. Minntist Þorbjörg Sveins jafnan með virð- ingu og þótti mikið koma til hæ- versku hans, fágaðrar framkomu og drengskapar í stóru sem smáu. Er heimsstyrjöldin síðari braust út urðu þáttaskil í lífi Þorbjargar eins og svo margra annarra. í september- mánuði árið 1939 flyst hún heim og stuttu síðar giftist hún Birni Har- aldssyni, bónda og kennara frá Aust- urgörðum í Kelduhverfi, og settust þau þar að. Þeim hjónum varð þriggja barna auðið. Þau eru: Þórar- inn tryggingasali, búsettur í Kópa- vogi, Sigríður, kennari í Hafnarfirði, gift þeim er þessar línur ritar, og Guðný, gift Jónasi Þórðarsyni, og búa þau að Austurgörðum. Barna- börnin eru orðin níu og eitt barna- barnabarn. Þau Björn og Þorbjörg lifðu í far- sælu hjónabandi í hálfan fimmta áratug. Björn tók virkan þátt í fé- lagsstörfum, var um tíma oddviti sveitar sinnar, sat í sýslunefnd, starf- aði sem þingskrifari og kennari um árabil, en fékkst einnig við ritstörf auk búskaparins að Austurgörðum. Vettvangur Þorbjargar var fyrst og fremst heimilið, sem oft var mann- margt, því að Austurgörðum var far- skóli um árabil, svo sem siður var til sveita í þá daga, og dvaldist þar fjöldi barna um lengri eða skemmri tíma. Sá hún þá um matseld og viður- gjörning allan, auk þess sem gest- kvæmt hefur jafnan verið að Austur- görðum. Er heilsu Björns tók að hraka ann- aðist Þorbjörg mann sinn af dæma- fárri natni og fórnfysi. Björn lést í maímánuði 1985 og tregaði Þor- björg mann sinn mjög, þó hún bæri harm sinn í hljóði. Er ég kynntist Þorbjörgu var hún komin fast að sjötugu. Hún tók mér ákaflega vel á sinn hljóðláta og yfir- Iætislausa hátt og dekraði við mig sem aðra meðan heilsan leyfði, er við vorum gestkomandi að Áustur- görðum. Þorbjörg var einkar dagfarsprúð kona. Hógværð og Iítillæti einkenni fas hennar allt og framkomu. Hún var orðvör og umtalsfróm og vildi öllum gott gjöra. Hún var einlæg trúkona sem leitaði að styrk í bæn- inni. Megi mildi hennar og mann- gæska verða okkur hinum til eftir- breytni. Við kveðjum Þorbjörgu Þór- arinsdóttur með söknuði og þakk- læti. Blessuð sé minning hennar. Egill Friðleifsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.