Morgunblaðið - 02.03.2006, Page 29
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. MARS 2006 29
MENNING
LEIKRITIÐ Viðtalið verður frum-
sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu
næstkomandi laugardag. Verkið er
í leikstjórn Margrétar Péturs-
dóttur og tilheyrir svokallaðri
„döff-leikhús“-stefnu. Sýning af því
tagi er miðuð við heyrnarlausa
áhorfendur en er aðgengileg jafnt
heyrandi sem heyrnarlausum.
Laila Margrét Arnþórsdóttir, ann-
ar höfundur verksins, er ráðgjafi
hjá Félagi heyrnarlausra en Mar-
grét er hinn höfundurinn og for-
sprakki Draumasmiðjunnar, sjálf-
stæðs leikhóps sem hefur staðið
fyrir ýmsum sýningum á borð við
Ávaxtakörfuna, Baneitrað sam-
band á Njálsgötunni o.fl., en sér-
hæfir sig í döff-leikhúsi. Morg-
unblaðið tók þessar kraftakonur
tali á æfingu Viðtalsins í Hafn-
arfjarðarleikhúsinu.
Þeirra eigin saga
Verkið fjallar um samskipti og
samskiptaleysi mæðgna sem eru
komnar á fullorðinsár. Að sögn
höfunda er verkið unnið upp úr
sögum og sagnabútum sem Laila
hefur viðað að sér frá heyrn-
arlausu fólki í gegnum 6 ára starf
sitt hjá Félagi heyrnarlausra. Frá-
sagnarformið er viðurkennt meðal
heyrnarlausra sem byggja orð-
ræðu sína og bakgrunn frásagnar
upp á allt annan hátt en hinir
heyrandi. Þeir táknendur sem eru
góðir sögumenn njóta ákveðinnar
virðingar innan samfélags heyrn-
arlausra. Sögur hafa gengið á milli
heyrnarlausra og geymast þeim í
minni sökum þess að þeir hafa
ekki ritmál eða bókmenntir til að
byggja á eins og hinir heyrandi.
Úr þessum sagnabrotum hafi
þær í sameiningu skapað persónur
sem nú séu komnar á svið. Þannig
er leikritið í raun líf og saga
heyrnarlausra og Laila segir bók-
að að þeir sem koma á sýninguna
muni þekkja hvert einasta orð af
eigin reynslu. „Verkið er uppgjör
við fortíð fólks sem nú er orðið
fullorðið en varð fyrir því að vera
tekið frá fjölskyldum sínum og
sent í heimavistarskóla 4 ára gam-
alt. Sumir fóru í skólann að hausti
og sneru ekki heim fyrr en að
vori.“ Einnig er saga foreldranna
sögð sem máttu þola það að geta
hvorki né mega eiga samskipti við
börn sín á táknmáli.
Sorgarsaga vegna
vanþekkingar og ótta
Það er sláandi til þess að hugsa
að bannað var að nota táknmál við
kennslu í íslenskum skólum fram
til ársins 1980. Fram að því var
viðhöfð svokölluð raddmálsstefna
en þá var heyrnarlausum börnum
ætlað að læra að tala tungumálið
með því að lesa af vörum. Ýmsar
aðferðir voru notaðar til að ná því
fram. Til eru dæmi um að börnin
hafi verið látin sitja á höndunum í
kennslustund til að geta ekki
hjálpað öðrum og útskýrt með
táknmáli og að foreldrum hafi ver-
ið bannað að nota táknmál til sam-
skipta við börn sín. Laila bendir á
að heyrnarlausir geti ekki og hafi
engar forsendur til þess að læra
að tala. Ef maður heyri ekki málið
læri maður aldrei að tala svo að
einhver skilningur búi þar að baki.
„Þú getur lært að segja ga-ga og
hús og þess háttar en þú veist
ekkert hvað það þýðir.“
Fyrsta sýning
sinnar tegundar
Í verkinu er áherslan á að miðla
þessum veruleika heyrnarlausra til
þeirra sem heyrandi eru og er það
nýlunda því þetta er fyrsta „döff“-
leikverkið sem samið hefur verið
út frá menningarheimi og for-
sendum heyrnarlausra hér á landi.
Höfundarnir eru sammála um að
brýn þörf sé á því að semja fleiri
verk fyrir þennan hóp. Margrét
segir þetta vera ákaflega krefjandi
form en um leið skemmtilegt og
spennandi fyrir þær sakir að þetta
er nýtt hér á landi. Þær segjast
vera staðráðnar í því að semja og
setja upp fleiri verk af þessu tagi
og segjast vera uppfullar af hug-
myndum.
Í sýningunni vega málin bæði
jafnþungt og öðru ekki leyft að
drottna yfir hinu. Athygli vekur að
sýningin er ekki túlkuð og segir
Laila það ef til vill vera af hagsýn-
isástæðum því að kostnaðurinn við
að fá túlk til að túlka heila sýningu
sé á bilinu 500–600 þúsund krónur.
Hins vegar sé leikkona í sýning-
unni jafnframt túlkur.
Eins og áður segir sérhæfir
Draumasmiðjan sig í döff-leikhúsi
og stóð að barnasýningunni Ég
sé … árið 2000 sem miðaðist við
heyrnarlausa. Margrét samdi og
lék það verk. Tvær sýningar hafa
áður verið settar upp hér á landi
sem miðast að heyrnarlausum og
gætu flokkast undir döff-leikhús.
Fyrsta sýningin var Guð gaf mér
eyra (Child of a lesser god) sem
sýnd var í Iðnó árið 1983. Berglind
Stefánsdóttir lék í þeirri sýningu
en hún er einmitt í einu hlutverki í
Viðtalinu. Síðari sýningin var fyrr-
nefnd sýning Draumasmiðjunnar
frá árinu 2000.
Heyrnarleysi í dag
Möguleikarnir fyrir heyrn-
arlausa eru þó alltaf að aukast og
útlitið er síður en svo svart að
mati Lailu. Í dag séu heyrn-
arlausir nemendur í hjúkr-
unarfræði, félagsfræði og bifvéla-
virkjun að ógleymdu námi fyrir
heyrandi í táknmálsfræði og tákn-
málstúlkun við Háskóla Íslands.
Draumar heyrnarlausra ungmenna
séu því raunhæfir og þau vinna
hart að því að láta þá rætast. Eins
sé táknmál talsvert í tísku meðal
heyrandi fólks, sérstaklega yngri
kynslóðarinnar og því góðar líkur
á að viðhorfin til táknmáls séu að
breytast til batnaðar.
Laila segir mikla eftirvæntingu
ríkja meðal fólks sem hún hafi
rætt við um leikritið því margir
hafi aldrei áður farið í leikhús,
jafnvel fullorðið fólk. Það er því
mál til komið að kynna þessu
heyrnarlausa fólki sem og heyr-
andi Íslendingum þetta leik-
húsform.
Leiklist | Ein fyrsta „döff“-leiksýningin í Hafnarfjarðarleikhúsinu
Veruleiki heyrnarlausra á sviði
Eftir Eyrúnu Valsdóttur
Höfundar verksins, Laila Margrét
Arnþórsdóttir og Margrét Péturs-
dóttir, sem jafnframt leikstýrir.
Morgunblaðið/Árni Torfason
Soffía Jakobsdóttir og Berglind Stefánsdóttir í hlutverkum sínum í Viðtalinu.
Höfundur er meistaranemi í blaða- og
fréttamennsku við Háskóla Íslands
Viðtalið verður frumsýnt í Hafn-
arfjarðarleikhúsinu laugardaginn
4. mars kl. 20. Sýningar eru allar
helgar fram undir lok mars.
Höfundar: Laila Margrét Arn-
þórsdóttir og Margrét Péturs-
dóttir.
Leikstjóri: Margrét Péturs-
dóttir.
Aðstoðarleikstjóri: Björn Gunn-
laugsson.
Hljóðmynd: Pétur Grétarsson.
Leikmynd og búningar: Helga
Rún Pálsdóttir.
Ljós: Alfreð Sturla Böðvarsson.
Leikarar: Árný Guðmundsdóttir,
Berglind Stefánsdóttir, Elsa
Guðbjörg Björnsdóttir, Soffía
Jakobsdóttir og Tinna Hrafns-
dóttir.
Sýnt í samstarfi við Hafn-
arfjarðarleikhúsið.
Döff-leikhús
Að vera „döff“ þýðir að ein-
staklingur heyrir ekki, er hluti
af menningarsamfélagi heyrn-
arlausra og talar táknmál. Döff-
leikhús er sýning sem inniheldur
að minnsta kosti einn heyrn-
arlausan aðstandanda, t.d. leik-
ara eða leikstjóra. Frá fyrstu tíð
hefur döff-leikhús aðallega mið-
ast við það að heyrnarlausir leiki
fyrir heyrnarlausa. Það er ekki
fyrr en nýverið sem heyrandi og
heyrnarlausir eru farnir að leika
hlið við hlið. Annars konar form
er svokallað táknmálsleikhús en
slíkar sýningar eru ekki út frá
forsendum heyrnarlausra heldur
yfirleitt þýddar eða túlkaðar af
raddmáli yfir á táknmál.
Margar leiðir eru farnar í
döff-leikhúsi í dag að sögn leik-
stjórans Margrétar Pétursdóttur
og sú sem þær kjósi að fara í
þessari sýningu, að hafa bæði
heyrandi og heyrnarlausa ásamt
túlki, sé fjarri því sú eina rétta.
„Í Noregi eru allir leikararnir
döff, svo er fólk í hátölurum sem
heyrist en sést ekki. Í Ameríku
eru það hins vegar aukapersónur
eða statistar, t.d. götusóparar,
sem fara með textann á meðan
aðrir leikarar eru döff.“
Viðtalið
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir,
hdl. og lögg. fasteignasali
Hamraborg 20A, 200 Kópavogur – www.husalind.is
sími 554 4000 – fax 554 4018,
tölvup.: gugga@husalind.is – sveina@husalind.is
Opið hús kl. 20-21:00 í kvöld
LJÓSAVÍK 24 - 3JA HERBERGJA
Björt og opin 105 fm 3ja
herbergja íbúð á 2. hæð
(efstu) í litlu fjölbýli á eftir-
sóttum stað í Grafarvogi.
Vandaðar innréttingar og
gólfefni eru í íbúðinni. Í eld-
húsi er innrétting frá Axis og
tæki frá Rönning (Fagor).
Sérinngangur í íbúðina af
svölum. Þvottahús innan
íbúðar. Stutt í skóla og
þjónustu. Verð 24,9 millj.
Allar nánari upplýsingar um eignina veitir Sveinbjörg
í síma 867 2928.
Op
ið
hú
s
Vissir þú?
Vissir þú að Vestfirska forlagið hefur á örfáum árum gefið út hvorki meira né minna en um 10.000 – tíu þúsund – blaðsíður í myndum og máli af sögu-
legu efni vítt og breytt frá Vestfjörðum? Þetta eru Bækurnar að vestan.
Í þeim kemur vel fram að Vestfirðingar eru alveg sér á báti. Þetta er lífið fyrir vestan í blíðu og stríðu, gamni og alvöru. Vestfirskur fróðleikur fyrr og nú.
Þú ættir að skella þér á Bókamarkaðinn í Perlunni eða á Akureyri og líta á þetta hjá okkur. Nú er lag!