Morgunblaðið - 21.05.2006, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 21.05.2006, Blaðsíða 8
8 | 21.5.2006 staklega haldið því á lofti í fótboltahópnum að hann stundaði fiðlunám og fór aldr- ei með fiðlutöskuna í skólann. „Það þótti dálítið stelpulegt.“ Á endanum þurfti fiðlarinn með hreyfiþörfina að velja og lagði fiðluna á hilluna og tók á endanum upp skurðhnífinn í stað bogans. „Ég er mjög þakklátur foreldrum mínum fyrir að hafa beitt mig hæfilegum þrýstingi þegar ég vildi hætta og þannig komið mér þetta langt í tónlistarnámi. Það hefur víkkað geysilega þekkingu mína og upplifun á tónlist. Ég hef ekki haldið spilamennskunni við – þá sjaldan að ég gríp í fiðluna þá gæti ég þess að enginn sé í heyrnarfæri.“ Tómas er sonur Guðbjarts Kristóferssonar menntaskólakennara og jarðfræðings og Guðbjargar Tómasdóttur kennara við Verslunarskólann og á einn yngri bróður, Hákon, og enn yngri systur, Ingibjörgu. Kona hans er Dagný Heiðdal listfræðingur og þau eiga tvö börn, Guðbjörgu 19 ára og Tryggva 16 ára. „Ég er sennilega eins og faðir minn sem sökkvir sér í áhugamál sín og gerir þau að dellu. Það er sama hvort hann fékk áhuga á tölvum, fiskabúrum eða tónlist, hann kynnti sér alltaf allt til hlítar og nýjasta dellan er kaffigerð og það er komin gríðarstór kaffivél í eldhúsið hjá honum sem þurfti pípu- lagningamann til að tengja.“ Líflæknir Listahátíðar | En hvernig fer maður að því að koma uppáhaldsdjassaranum sínum inn á dagskrá Listahá- tíðar. Tókstu bara upp símann og hringdir í frú Þórunni? „Þórunn Sigurðardóttir er ótrúleg kona sem kann best við sig með marga bolta á lofti í einu eins og ég sjálfur. Ég mætti með bréf og úrklippur og vel undirbúinn á skrifstofu Listahátíðar og þá vildi svo til að hún var töluvert veik með slæmt kvef og var ekki á rétt- um sýklalyfjum. Ég gat því nýtt mér þekkingu mína og fyrsta kortérið af viðtalinu fór í að skoða sjúklinginn, banka ennisholurnar og skrifa upp á nýjan lyfjakúr. Með þessu komst ég kannski svolítið framar í röðina en mér tókst ekki að selja henni þetta í fyrstu atrennu. En ég gafst heldur ekki alveg upp og gat verið að hringja undir því yfirskini að ég væri að athuga með heilsufar hennar og við höfum náð mjög vel saman og það sama má segja um allt starfslið Listahátíðar. Síðan bauð Þórunn mér starf sem líflæknir Listahátíðar, starf sem ég þáði með þökkum.“ Hvernig getum við staðsett Anders Widmark í litrófi djasspíanista? „Það sem gerir hann sérstakan er að hann er klassískur píanisti fyrst og fremst. Hann er hinsvegar undir sterkum áhrifum frá látnum sænskum píanista sem hét Jan Johansson. Johansson var ákaflega áhrifamikill tónlistarmaður í sínu heima- landi en hann gaf út plötu á sjöunda áratugnum sem heitir Jazz på Svenska og eru sænsk þjóðlög og vísur í djassútsetningum. Þessi plata er enn ein af mest seldu djassplötum í Svíþjóð og þótt víðar væri leitað. Anders Widmark er einn af þremur stórum núlifandi píanóleikurum í sænskum djassi en hinir tveir eru Jan Lundgren og Esbjörn Svensson en þessir þrír eru allir á svipuðum aldri eða rúmlega fertugir og hafa markað spor í sænska djasstónlist. Ég myndi segja að Widmark sé auðheyrilegur en frumlegur og vel til þess fallinn að opna djassinn fyrir þeim sem vilja ganga honum á hönd. Í íslenskum djassheimi má segja að Guðmundur Ingólfsson heitinn hafi fetað í fótspor Jans Johansson þegar hann fór að hljóðrita djassútsetningar á íslenskum þjóðlögum og þekktum sönglögum þótt Guðmundur hefði reyndar fjölbreyttari stíl en Johansson enda menntaður í Bandaríkjunum. Ég get ljóstrað því upp að draumur minn og markmið er að allir þessir þrír sænsku djasspíanistar komi til Íslands og haldi tónleika en mér fannst rétt að byrja á Widmark því ég uppgötvaði tónlist hans fyrst,“ segir Tómas svo ljóst er að dokt- orinn tónelski er alls ekki hættur að miðla okkur af áhugamálum sínum. „Mér hefur þótt gríðarlega gaman að koma heim og hlusta á alla þá nýsköpun og grósku sem er á ferðinni í íslenskri tónlist. Mitt markmið er að fá fleiri til að hlusta á djass og fá yngra fólk til að hlusta meira en það gerir nú.“ Tómas hefur hlustað á djass í Ameríku og hefur ferðast til Bandaríkjanna sér- staklega til þess að hlusta á tónlist og fór m.a. á tónlistarhátíðina South by Sout- hwest í Texas nýlega. En hvað um goðsögnina um að skurðlæknar hlusti á tónlist á skurðstofunni? Er þetta rétt og hver ræður tónlistarvalinu? „Vissulega getur verið gott af hafa tónlist við vinnuna en það þarf að vera tónlist sem öllum fellur og mér finnst brýnt að allir felli sig við valið því það er hópur sem vinnur á skurðstofunni, ekki bara læknirinn. Ég hef unnið með skurðlækni sem vildi alltaf spila óperuna Aidu á fullum styrk þegar vel lá á honum og það var stundum kvartað úr nærliggjandi skurðstofum. Í útlöndum ráða skurðlæknarnir þessu en hér heima gæti ég best trúað að hjúkrunarkonurnar hefðu síðasta orðið. Sjálfum finnst mér ekkert höfuðatriði að hafa tónlist við vinnuna. Ég vil frekar hlusta á tónlist við aðrar aðstæður og geta veitt henni fulla athygli mína.“ Meiri samvinna, minni stéttaskipting | Tómas lærði á Landspítalanum fyrir mörgum árum en svo lenti hann í ferðalögum eins og sagt er og stundaði sérnám í lækn- isfræði í Svíþjóð og Bandaríkjunum í samtals ellefu ár en er kominn heim í heið- ardalinn sem Guðjón Samúelsson teiknaði fyrir rúmum 80 árum, þar sem enn eru áletranir á dönsku á skrifstofuhurðum sem segja Adgang forbudt og eitthvað fleira. En nú er Tómas ekki réttur og sléttur læknanemi heldur hefur klifið brattar hlið- ar valdapíramída hvítu sloppanna og er hjartaskurðlæknir. Þeir standa býsna ná- lægt toppnum – að minnsta kosti í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Er þetta samfélag fastmótaðra og stéttaskiptara en utan veggjanna? „Ég býst við því, sérstaklega í skurðlækningum. Áður fyrr var stéttaskipting þess afar skýr líkt og innan hersins þar sem það var alveg skýrt hver var hershöfðinginn og hverjir voru fótgönguliðar. Eitthvað eimir eftir af þessu enn og ber eflaust keim af þeirri nauðsyn að hlutverk, skyldur og verksvið hvers og eins sé skýrt afmarkað og skilgreint,“ segir Tómas og segir pípandi farsímanum að hann hringi rétt strax. Eru skurðlæknar ekki enn í tölu hálfguða frekar en manna? „Sá tími er liðinn. Fólk í dag er mun meðvitaðra um þá meðferð sem í boði er og hvaða möguleikar bjóðast og kemur mun betur undirbúið inn í aðgerðir en áður þegar menn lögðu líf sitt í hendur læknanna í bókstaflegri merkingu.“ Þannig að þegar forvitið og vel upplýst fólk veikist í dag þarf þá skurðlæknir að ræða við það eins og kollega frekar en sjúklinga fyrir aðgerð? „Stundum er það svo, já. Þessi samskipti hafa líklega á sér meiri blæ viðskipta en áður. Sjúklingurinn er kominn til að fá ákveðna þjónustu. Það er mikilvægt fyrir okkur að bregðast ekki í þessu upplýs- ingahlutverki.“ Sérðu mun á spítalasamfélaginu milli landa og á þeim tíma sem þú hefur verið að læra? „Ungir læknar í dag eru meðvitaðir um að samvinna er vænlegri til árangurs og við erum hluti af teymi sem hefur það verkefni að greina sjúkdóma og lækna. Ég hef verið í Svíþjóð og Boston og sænska kerfið er líkara því íslenska en í Am- eríku er stéttaskipting innan spítalans miklu meiri og hjartaskurðlæknir þar er kóngur í ríki sínu og talar ekki við hvaða starfsmann sem er.“ Líkir sápan eftir lífinu? | Er sú mynd sem við sjáum af spítalalífi í vinsælum sjón- varpsþáttum þá nokkuð rétt hvað þetta varðar? „Það eru læknar sem eru til ráðgjafar við gerð þáttanna og í mörgum atriðum er þetta líkt raunveruleikanum. Sjálfur hef ég ekki gaman af því að horfa á svona þætti, ég hafði gríðarlega gaman af Riget sem danska sjónvarpið sýndi í gamla daga enda var ég þá að vinna í Svíþjóð og óspart gert grín að Svíum, en yfirleitt finnst mér nóg að upplifa þessa spennu í vinnunni.“ Væri hægt að sviðsetja svona þætti á Landspítalanum? „Áreiðanlega, en ég ætla ekki að vera ráðgjafi við handritið.“ Hvað réði vali þínu á hjartaskurðlækningum sem sérgrein? „Ég ætlaði fyrst í lyflækningar en svo kom ég á kúrs hjá prófessor Jónasi Magn- ússyni sem smitaði mig. Ég hafði alltaf haft gaman af smíði og gaman af að vinna í höndunum og sá að í skurðlækningum gæti ég sameinað fræði lyflækninganna og handverkið. Við tökum flóknar ákvarðanir varðandi lyfjagjöf í mínu starfi en vinnum einnig mikið af mjög nákvæmri handavinnu og þetta hentar mér mjög vel. Ég er spennufíkill og hjartaaðgerðir eru spennandi. Þessar aðgerðir eru hættu- legar en árangur af skurðaðgerðum er samt gríðarlega góður. Dánartíðni sjúklinga sem fara í opnar hjartaaðgerðir er innan við tvö prósent sem er ótrúlega góður ár- angur en það er ekki síst að þakka góðri hjúkrun og framförum í gjörgæslumeðferð sem er mjög mikilvæg.“ Að þeim orðum sögðum steig ég út í sólskinið en doktor Tómas þaut inn á gjör- gæslu og sloppurinn stóð láréttur aftur af honum. | lysandi@internet.is Ég gat því nýtt mér þekkingu mína og fyrsta kortérið af viðtalinu fór í að skoða sjúklinginn, banka ennishol- urnar og skrifa upp á nýjan lyfjakúr. HJARTAÐ SLÆR Í TÓNLISTINNI Anders Widmark held- ur tvenna tónleika á Listahátíð í Reykjavík.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.