Morgunblaðið - 21.05.2006, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 21.05.2006, Blaðsíða 14
14 | 21.5.2006 ingur, fædd á Barónsstíg 21,“ byrjar hún rólega. Guðrún er í senn virðuleg og hlý í viðmóti. Skemmtileg blanda af hæstaréttardómara og ömmu. „Foreldrar mínir, Jó- hanna Vigdís Sæmundsdóttir og Erlendur Ólafsson, voru bæði Rangæingar en komu hingað til Reykjavíkur á öðrum áratug tuttugustu aldar. Mamma var húsmóðir en pabbi sjómaður, fyrst á togurum en síðan á Súðinni og Esjunni. Hann endaði sem vaktmaður hjá Ríkisskip. Pabbi dó árið 1980 en mamma ári síðar. Ég á tvær eldri systur, Sigríði Theódóru og Guðríði Ólafíu, og svo átti ég tvíburabróður, Ólaf, sem dó þegar við vorum á fimmta ári. Ég man vel eftir honum. Hann fékk blóðeitrun í tönn og dó á skömmum tíma. Pensilín var ekki komið til landsins sem lyf, var enn á rannsóknarstigi, en það hefði getað bjargað honum.“ Guðrún var send í sveit á sumrin, eins og tíðkaðist á þessum tíma. „Ég var í sjö sumur hjá ættingjum mínum í Lunansholti í Landsveit, þar sem móðursystir mín, sem ég heiti eftir, bjó. Hún var raunar látin á þessum tíma en ég var hjá manni hennar og dætrum. Þetta er að mínu mati fallegasti staðurinn á landinu. Fjallahringurinn all- ur.“ Foreldrar Guðrúnar voru ekki langskólagengnir en vel menntaðir eigi að síður. „Þau voru bæði mjög vel lesin. Pabbi var maður af gamla skólanum og kunni heilu Íslendingasögurnar utanbókar. Þau hvöttu okkur systurnar til að ganga mennta- veginn sem við og gerðum. Við fórum allar í Menntaskólann í Reykjavík sem ýmsum þótti skjóta skökku við á þessum tíma. „Hvers vegna látið þið stelpurnar ekki fara í húsmæðraskóla og læra eitthvað gagnlegt?“ voru þau spurð,“ segir Guðrún og hlær við tilhugsunina. Þessi viðbrögð stöppuðu bara stálinu í systurnar og foreldra þeirra. Menningin var líka í hávegum höfð á æskuheimili Guðrúnar. „Við lærðum allar á píanó, þótt efni væru ekki mikil. Svo var ég í ballett. Það nám tók ég raunar svo alvar- lega að ég velti því á tímabili fyrir mér hvort ég ætti hreinlega að snúa mér að því. Ég byrjaði sex ára í ballett og endaði hjá Bisted í Þjóðleikhúsinu. Dansaði meira að segja við opnun Þjóðleikhússins árið 1950, fjórum dögum eftir að ég fermdist. Ég var álfa- meyja í Nýársnóttinni. Það var ógleymanlegt. Ástæðan fyrir því að ég fylgdi þessu ekki eftir var öðru fremur sú að ég hafði á tilfinningunni að ég yrði aldrei prímaball- erína og þótti því öruggara að halda mig við bóknámið. Þegar ég var komin í mennta- skóla var líka erfitt að æfa ballett fimm til sex sinnum í viku, þannig að ég hætti.“ Guðrún kveðst ekki vera rétta manneskjan til að lýsa tíðarandanum í Reykjavík á þessum árum. Hún hafi verið afskaplega heimakær ung stúlka. „Á laugardags- kvöldum var maður heima, þvoði á sér hárið og hlustaði á útvarpsleikritið. Þegar ég kom í menntaskóla var Laugavegur 11 aðalstaðurinn en það voru engir aðrir staðir, nema Borgin. Svo kom Naustið. Þannig að það var ekki mikið útstáelsi á okkur, bara menntaskólaböllin og dansæfingarnar. Ólíkt því sem er í dag. Mér er minnisstætt að það var allt lokað um páskana. Einmitt þegar maður hafði nógan tíma, þá var ekkert hægt að gera. En svona var þetta.“ Ein helsta dægradvöl ungmenna upp úr miðri síðustu öld voru kvikmyndir. „Það var mikið farið á bíó. Og mikið lagt á sig. Stundum þurfti maður að bíða í röðum í marga klukkutíma eftir miðum, einkum þegar jólamyndirnar voru að koma. Þetta hefur breyst ákaflega mikið.“ Notaði útilokunaraðferðina Þegar Guðrún var í fimmta bekk í MR bauðst henni að fara til dvalar í Bandaríkj- unum. „Ég var í máladeild og þarna um haustið tók ég þátt í ritgerðasamkeppni sem dagblaðið New York Herald Tribune efndi til meðal ungmenna í 34 löndum. Ritgerð- arefnið var „Heimurinn eins og ég vil hafa hann“. Ég hafði aldrei komið til útlanda þegar þetta var og Lóa systir mín hvatti mig til að taka þátt. Ég skrifaði ritgerðina upphaflega á íslensku en þýddi hana svo yfir á ensku. Og var valin.“ Guðrún fór utan á jóladag 1954 og dvaldist í fjóra mánuði í Bandaríkjunum. Bjó á fimm heimilum í nágrenni New York-borgar. „Það var ákaflega skemmtileg lífs- reynsla og ég hef haldið sambandi við fólkið sem ég bjó hjá allar götur síðan. Hlut- verk mitt fólst meðal annars í því að halda fyrirlestra um Ísland og hafði ég meðferðis upphlut frá móður minni sem ég klæddist við hátíðleg tækifæri, meðal annars í Hvíta húsinu, þar sem Eisenhower forseti tók á móti þessum 34 manna hópi. Hann var af- skaplega elskulegur maður en smitaði mig af kvefi,“ segir Guðrún og hlær. Hún kom einnig fram í útvarps- og sjónvarpsþáttum vestra. „Handritamálið var þarna í al- gleymingi og vorum við, ég og danski strákurinn í hópnum, látin ræða það í einum slíkum þætti. Ég hafði mjög gott af þessu.“ Guðrún lauk stúdentsprófi frá MR vorið 1956 og á því fimmtíu ára stúdents- afmæli um þessar mundir. Hún sagði þó ekki alveg skilið við MR, því veturinn eftir vann hún á skrifstofu skólans eftir hádegi með háskólanámi. Haustið 1956 lá leið Guðrúnar í lagadeild Háskóla Íslands. „Ég hafði ákaflega gaman af sögu og ef nægir peningar og styrkir hefðu verið fyrir hendi á þessum tíma hefði ég ekki hikað við að fara til Frakklands að læra mannkynssögu. En ég var prakt- ísk í hugsun og vildi læra eitthvað sem kæmi til með að nýtast mér. Það var svo sem ekki um auðugan garð að gresja hér heima, það var læknisfræði, guðfræði, norræn fræði, viðskiptafræði eða lögfræði. Og ég notaði útilokunaraðferðina og valdi síðast- nefnda fagið.“ Margir höfðu efasemdir um þetta val. Töldu ólíklegt að Guðrún entist lengi í laga- náminu. „Þetta er bara tímasóun. Þú átt eftir að gifta þig, eignast börn og hætta í náminu,“ sagði fólk við hana. Foreldrar hennar og systur voru ekki í þeim hópi. „Fjölskyldan hvatti mig óspart til dáða. Það var mér mikill styrkur.“ Til að setja ákvörðun Guðrúnar í samhengi má nefna að þegar hún hóf nám við lagadeildina höfðu einungis tvær konur lokið lagaprófi á Íslandi, Auður Auðuns og Rannveig Þorsteinsdóttir. Tvær aðrar voru á þessum tíma við nám í deildinni, Ragn- hildur Helgadóttir og Auður Þorbergsdóttir, og ein til viðbótar hóf nám um leið og Guðrún, Hólmfríður Snæbjörnsdóttir. Akurinn var með öðrum orðum svo til óplægður. Guðrún segir að sér hafi verið vel tekið í lagadeildinni en þó hafi strákarnir, sem voru í miklum meirihluta, verið hálffeimnir við hana. „Það mynduðust ekki sömu tengsl milli mín og strákanna eins og gerist í lagadeildinni í dag, þar sem stelpur eru í meirihluta. Það var óvenjulegt að kvenmaður kæmi inn í hópinn og strákarnir voru hálffeimnir við mig. Vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að haga sér í kringum mig. Sumir kennararnir ekki heldur,“ segir Guðrún og brosir. „Þannig kenndi mér refsi- rétt einn veturinn kennari sem ekki hafði kennt það fag áður. Honum þótti greinilega óþægilegt að tala um kynferðisbrotamál í minni viðurvist og sleppti því þar af leið- andi. Þar með var vitað að það kæmi ekki á munnlegu prófi sem var óheppilegt upp á framhaldið því að fyrsta prófmálið mitt var opinbert mál þar sem ég var verjandi manns sem var ákærður fyrir nauðgun.“ Herra hæstaréttarlögmaður, frú Guðrún Erlendsdóttir Þrátt fyrir þessa smávægilegu hnökra sóttist Guðrúnu námið vel og segir hún veru sína í lagadeildinni hafa verið mjög skemmtilega. Hún lauk embættisprófi vorið 1961 og stofnaði lögfræðiskrifstofu ásamt nýbökuðum eiginmanni sínum, Erni Clausen lögfræðingi. Guðrún varð héraðsdómslögmaður 1962 og hæstaréttarlögmaður fimm árum síðar. Hún segir fólk frá upphafi hafa tekið sér vel en samt hafi það tekið hana tíma að hasla sér völl. „Það er svo sem ekkert skrýtið. Fólk átti þessu ekki að venjast. Ég var í fremra herberginu á skrifstofunni okkar og Örn í því innra og það var ekki óalgengt þegar karlar – og raunar konur líka – voru búnir að tala við mig um stund að þeir segðu hátíðlega: „Jæja, væna, má ég nú tala við lögfræðinginn,““ segir Guðrún hlæjandi. Svo komu vitaskuld upp praktísk vandamál þegar hún varð hæstaréttarlögmaður. „Það hafði alltaf verið sagt „herra hæstaréttarlögmaður“ og ég fékk einu sinni bréf með áletruninni „herra hæstaréttarlögmaður, frú Guðrún Erlendsdóttir“. Þá gat ég nú ekki annað en hlegið.“ FRUMKVÖÐULL Í LÖGHEIMUM Guðrún og tvíburabróð- ir hennar, Ólafur, hjá móður sinni, Jóhönnu Vigdísi Sæmundsdóttur. Til hliðanna eru syst- urnar, Guðríður Ólafía og Sigríður Theódóra. Eisenhower var afskap- lega elsku- legur maður en smitaði mig af kvefi. Stúdent frá MR vorið 1956. Hjónin að störfum. Guðrún og Örn ráku saman lögmanns- skrifstofu um árabil. Guðrún með börn sín ung, Ólaf, Guð- rúnu Sesselju og Jóhönnu Vigdísi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.