Morgunblaðið - 14.08.2006, Page 18

Morgunblaðið - 14.08.2006, Page 18
18 MÁNUDAGUR 14. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ F und okkar Sivjar vegna viðtalsins bar nokkuð skjótt að enda nóg að gera hjá ráðherra eins stærsta málaflokks ríkisins, heilbrigðismála. Við tyllum okkur niður seinnipartinn á föstudegi í heilbrigðisráðuneytinu og Siv tekur á móti mér með þykka blaðabunka undir sitt hvorri hendinni enda eflaust ærinn starfi að fara yfir öll þau plögg og pappíra sem til verða í ráðuneytinu. Heilbrigðismálin eru að vísu ekki aðalumfjöllunarefni dagsins, heldur framboð Sivjar til formennsku í Framsóknarflokknum, sem hún hafði tilkynnt um daginn áður. Við byrjum þó á ögn léttari nótum. – Áður en lengra er haldið langar mig að spyrjast aðeins fyrir um bakgrunn þinn. Þú átt ættir þínar að rekja til Noregs. Segðu okkur aðeins frá uppvaxtarárunum og hvað kom til að ungur sjúkraþjálfari skellti sér út í pólitík? „Ættir mínar liggja bæði til Noregs og Siglufjarðar. Móðir mín, sem er norsk, varð ófrísk af mér í Berlín en ákvað að fara til Noregs þar sem ég fæddist á sjúkrahúsi í Ósló. Ég kom hins vegar hingað til lands nokkurra mánaða gömul en amma og afi og systur mömmu voru áfram úti í Noregi og systir mömmu átti börn á mínum aldri þannig að við sóttum mikið þangað,“ segir Siv og bætir við að ekki hafi verið algengt á þessum árum að börn dveldu langdvölum á sumrin í útlöndum. „Þetta var geysilega skemmtilegur tími og gaf okkur krökkunum breiðari sýn á lífið og tilveruna fyrir vikið,“ segir hún. Námið skemmtilegra en vonir stóðu til Að loknu stúdentsprófi í MR tók við sjúkraþjálfaranám við Háskóla Íslands, sem Siv segir að hafi verið einn skemmtilegasti tími ævinnar. „Námið var eiginlega miklu skemmtilegra en ég átti von á,“ segir Siv sem útskrifaðist árið 1986, ári eftir að hún og maður hennar, Þorsteinn Húnbogason, eignuðust sitt fyrsta barn, Húnboga. Það leið þó ekki á löngu þar til hún var komin á fullt í pólitíkina og hennar fyrsta strandhögg var í bæjarpólitíkinni á Seltjarnarnesinu þar sem Siv hafði alist upp. „Árið 1990 fór ég í stórt prófkjör úti á Seltjarnarnesi þar sem ég var kjörin oddviti Neslistans. Síðar um haustið varð ég formaður Sambands ungra framsóknarmanna, fyrst kvenna í 52 ára sögu sambandsins þá,“ segir hún og bætir við að því embætti fylgi seta í flestum stjórnum og ráðum flokksins, þannig að hún komst fljótlega vel inn í flokksstarfið. Yngra barn Sivjar og Þorsteins, Hákon, fæddist árið 1993 og ári síðar tók við mikið pólitískt langhlaup þar sem Siv fór þrisvar í kosningabaráttu á innan við ári; fyrst í sveitarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi 1994, svo í stórt prófkjör framsóknarmanna á Reykjanesi um haustið sama ár og loks í þingkosningunum vorið 1995 þegar Siv komst inn á þing. Hún segir að þetta tímabil hafi verið strembið enda ekki auðvelt að standa í kosningabaráttu og barnauppeldi á sama tíma. „Ég man t.d. eftir því veturinn 1994 að nóttina fyrir prófkjör framsóknarmanna á Reykjanesi varð Hákon, yngri sonur minn, veikur og við vöktum yfir honum yfir alla nóttina, eftir allt sem á undan var gengið í prófkjörinu. Ég man að ég hugsaði með mér að ef ég kæmist í gegnum þessa nótt, kæmist ég í gegnum allt,“ segir Siv og hlær. Hún bætir því við að þetta hafi verið afar skemmtilegur tími þrátt fyrir álagið. Meðvituð ákvörðun að bíða – Snúum okkur að pólitíkinni. Það hefur ríkt nokkur spenna í sumar varðandi framboð þitt til formanns. Þú tilkynnir um framboð rúmri viku fyrir flokksþing. Hvers vegna beiðstu svona lengi? „Það var algerlega meðvituð ákvörðun. Aðalástæðan fyrir því að ég beið með yfirlýsingu var sú að ég vildi gefa flokksmönnum kost á að íhuga þá stöðu sem er uppi og leyfa þeim að velta fyrir sér í næði hvað væri sterkast fyrir flokkinn. Ég vildi líka gefa flokksmönnum ró til að velja fulltrúa á flokksþingið, sem lauk [á fimmtudaginn]. Ég vildi að það væri sem mestur friður um þessi forystumál og fannst að flokksmenn ættu að íhuga vel hvaða fólk það vildi sjá taka við flokknum. Svo vildi ég líka vera algerlega sannfærð um að ég vildi takast á við hlutverkið, þetta veigamikla verkefni sem það óhjákvæmilega er að leiða öflugan stjórnmálaflokk. Ég hef á mínum ferli í pólitík fylgst með stjórnmálaforingjum eins og Steingrími Hermannssyni, Halldóri Ásgrímssyni og Davíð Oddssyni og tel mig gera mér ágæta grein fyrir því hvað formennska í stjórnmálaflokki felur í sér. Ég vildi ekki taka ákvörðunina nema að vel ígrunduðu máli og vera algerlega sannfærð innst í mínu hjarta að ég væri að taka rétta ákvörðun. Eins vildi ég fara yfir þetta með fjölskyldu minni, vegna þess að það er ekki bara álag á formanni stjórnmálaflokks heldur fjölskyldunni líka.“ – Er langt síðan þú byrjaðir að velta þessu fyrir þér? Hvenær tókstu endanlega ákvörðun um framboð? „Þetta er ferli sem þróast og þroskast. Þegar ljóst var að Halldór væri ákveðinn í að fara frá, fann ég að það blundaði í mér að takast á við að leiða Framsóknarflokkinn. Mér fannst það spennandi og eftirsóknarvert og þeir sem eru í stjórnmálum vilja auðvitað hafa áhrif og takast á við krefjandi verkefni. En mér fannst það ekki sjálfgefið og vildi fara í gegnum það með sjálfri mér og minni fjölskyldu hvort ég og við værum reiðubúin. Niðurstaða mín er sú að ég er algerlega reiðubúin til þess.“ Brotthvarf Halldórs markar vatnaskil – Hvers vegna tókstu þessa ákvörðun? „Aðallega vegna þess að ég tel að það sé flokknum í hag að ég gefi kost á mér. Ég held að það sé heilbrigt, eðlilegt og reyndar bráðnauðsynlegt við þessar aðstæður að það verði kosið um forystu flokksins og lýðræðið fái að njóta sín í Framsóknarflokknum. Nú er farsæll foringi að fara frá. Halldór Ásgrímsson hefur unnið mikið og farsælt starf í þágu flokks og þjóðar. Það eru í raun vatnaskil í flokknum og þá er eðlilegt að fólk fái að kjósa. Það er ekkert gefið í því hver niðurstaðan verður og ég er sannfærð um að flokkurinn verður sterkari fyrir vikið. Ég sé einungis kosti við að bjóða flokksmönnum upp á þetta val. Fólk sem er virkt í stjórnmálahreyfingu vill hafa áhrif og þá er nauðsynlegt að bjóða upp á raunhæfa valkosti. Að afloknum þessum kosningum kemur forysta með umboð,“ segir Siv. – Nú eru tveir eða fleiri í framboði til æðstu embætta flokksins. Er að þínu mati málefnaágreiningur milli frambjóðenda? „Við sem höfum ákveðið að gefa kost á okkur til þessara forystustarfa erum auðvitað öll rótgrónir og dyggir stuðningsmenn flokksins og stefnu hans. Það er í sjálfu sér ekki málefnaágreiningur á milli okkar. Hins vegar er það svo að fólk hefur mismunandi sýn á forgangsröðun og hvernig leiða á þau verkefni sem framundan eru til farsællar niðurstöðu. Fólk hefur að sjálfsögðu mismunandi sýn á málin í ljósi reynslu sinnar. Þetta er ólíkt fólk sem gefur kost á sér og nálgast verkefnin á ólíkan hátt, en ég tel ekki að málefnaágreiningur sé til staðar. Við viljum öll efla flokkinn sem frjálslyndan félagshyggjuflokk á miðju stjórnmálanna sem styður jöfnuð.“ Möguleiki á kynslóðaskiptum – Mætti segja sem svo að ákveðið uppgjör eigi sér stað í flokknum núna? „Það er möguleiki á kynslóðaskiptum í forystunni og ég tel eðlilegt að það gerist hvað formennsku flokksins varðar. Ef niðurstaðan verður sú að flokksmenn kjósi kynslóðaskipti tel ég það geta skipt talsverðu máli fyrir flokkinn og framtíð hans.“ – Sumir telja að þú, Guðni Ágústsson og Haukur Logi Karlsson annars vegar standið saman í þessum slag en Jón Sigurðsson, Jónína Bjartmarz og Birkir Jón Jónsson hins vegar. Er það rétt? „Nei, það er ekkert til í þessu. Við erum öll að fara fram á okkar eigin forsendum. Frambjóðendurnir eru hæfir einstaklingar og öflugir og geta tekist á við þetta. Ég er allavega ekki í neinu bandalagi en get auðvitað ekki talað fyrir munn annarra. Ég get unnið vel með öllum þessum frambjóðendum. Fari svo að mér verði falið að leiða Framsóknarflokkinn inn í nýja tíma á næstu árum mun ég takast á við það hlutverk. Fari svo að mér verði ekki falið að gera það, að þessu sinni, mun ég að sjálfsögðu taka þeirri niðurstöðu. Það er þá niðurstaða úr því vali sem boðið er upp á með mínu framboði og annarra,“ segir Siv sem telur ólíklegt að hún verði hluti af þriggja manna forystu, fari svo að hún hljóti ekki kosningu sem formaður. „En ég mun þó að sjálfsögðu taka niðurstöðu flokksþingsins,“ bætir hún við. Framsókn horfi til fram Nokkur spenna hefur ríkt um formannsframboð Sivjar Friðleifsdóttur en í síðustu viku tók hún af skarið og boðaði kynslóðaskipti í flokknum með framboði sínu. Árni Helgason ræddi við Siv um Framsóknarflokkinn og stjórnmálin almennt. Morgunblaðið/Eyþór Ráðherrann „Það er möguleiki á kynslóðaskiptum í forystunni og ég tel eðlilegt að það gerist hvað formennsku flokksins varð- ar,“ segir Siv Friðleifsdóttir sem tilkynnti um framboð sitt til formanns Framsóknarflokksins á fimmtudaginn.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.