Morgunblaðið - 14.08.2006, Page 19
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 14. ÁGÚST 2006 19
Útilokar ekki framboð síðar
– Þú talar um að ef þér verði ekki falið að leiða flokkinn „að
þessu sinni“. Sérðu fyrir þér að bjóða þig fram aftur seinna ef
svo fer að þú verður ekki kjörinn formaður?
„Maður útilokar ekkert í stjórnmálum.“
– Málefni Framsóknarflokksins hafa verið mikið til
umfjöllunar í sumar. Geturðu lýst fyrir okkur þinni sýn á það
sem gerst hefur, frá því að Halldór Ásgrímsson tilkynnti að
hann væri að hætta og þá atburðarás sem tók við í kjölfarið?
„Þessi atburðarás var að vissu leyti óvænt. Ég hefði kosið að
hún hefði verið öðruvísi en það er ekki eðlilegt að horfa í
baksýnisspegilinn varðandi þau mál. Ég kýs að horfa fram á
veginn og tel það mjög mikilvægt fyrir hönd flokksins. Það er
mjög mikilvægt að halda öflugt flokksþing þar sem við fáum
tækifæri til að kveðja Halldór Ásgrímsson með virðulegum
hætti eins og honum sæmir eftir þennan langa tíma í
stjórnmálum og kjósum nýja, öfluga og samhenta forystu sem
er hæf til að sækja fram fyrir hönd flokksins.“
– Hvernig hefði atburðarásin átt að vera öðruvísi?
„Mér fannst þessi atburðarás að sumu leyti óheppileg en ég
vil ekki fara neitt nánar út í það. Eðlilegast er að horfa fram á
veginn.“
– Hvernig lítur þú á stöðu Framsóknarflokksins almennt
séð? Uppruni flokksins og rætur hans eru í dreifbýli en Halldór
Ásgrímsson reyndi að efla flokkinn í þéttbýli. Finnst þér það
hafa tekist?
„Ég hef verið sammála þeim áherslum að efla flokkinn í
þéttbýli og ég tel að það sé bráðnauðsynlegt fyrir hvaða
stjórnmálaflokk sem er á Íslandi að sækja fylgi í þéttbýli án
þess þó að glata rótum sínum í dreifbýli. Hér á
höfuðborgarsvæðinu búa 70% þjóðarinnar og að sjálfsögðu
felur það í sér að flokkur getur ekki verið sterkur ef hann er
ekki sterkur á svo fjölmennu svæði. Þannig að ég hef stutt og
átt þátt í móta þá stefnu að efla flokkinn á höfuðborgarsvæðinu.
Við höfum t.d. fyrstir flokka mótað sérstaka
höfuðborgarstefnu. Sú vinna var mjög skemmtileg, því okkur
tókst að móta öfluga höfuðborgarstefnu sem var þó í sátt við
flokksmenn á landsbyggðinni.“
Mikið átak við að efla flokkinn
– Miðað við niðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna hefur
flokknum ekki tekist að efla sig hér á höfuðborgarsvæðinu.
Hvernig telurðu að efla megi Framsóknarflokkinn á
höfuðborgarsvæðinu?
„Ég tel að það þurfi að fara í mikið átak við að styrkja
flokkinn, bæði í borginni og reyndar um land allt. Sums staðar
komum við mjög vel út í síðustu sveitarstjórnarkosningum en
annars staðar hefðum við viljað gera betur. Ég tel að eitt af
okkar verkefnum framundan sé að efla flokkinn á
suðvesturhorni landsins. Við munum fara í mikla málefnavinnu
á næstunni. Flokksþingið er í raun í tveimur hlutum, núna í
ágúst og svo í febrúar þar sem seinni hluti þingsins fer fram.
Strax eftir fyrra hluta flokksþingsins, þar sem ný forysta
verður valin, verður það hennar fyrsta verkefni að setja af stað
öflugt málefnastarf. Niðurstaðan úr því verður kynnt í febrúar
og verður upptakturinn hjá flokknum í næstu þingkosningum.“
– Í hverju felst að þínu mati vandi Framsóknarflokksins? Af
hverju er staða flokksins ekki sterkari en raun ber vitni?
„Að sumu leyti tel ég að við hefðum getað gert betur í að
upplýsa almenning um þau góðu verk sem við höfum unnið. Við
höfum verið í ellefu ára farsælu samstarfi við
Sjálfstæðisflokkinn. Á þessu tímabili hefur kaupmáttur
heimilanna aukist um 50% og við erum að sjá meira
velmegunarskeið en við höfum séð í þeim ríkjum sem við berum
okkur saman við. Á sama tíma höfum við staðið fyrir
velferðarstjórn. Ef litið er átta ár aftur í tímann má sjá að við
höfum aukið framlög til heilbrigðismála að raungildi um yfir 27
milljarða, um 50%. Eins hafa framlög til almannatrygginga og
velferðarmála á sama tíma aukist um 45% og til fræðslumála
um 60% þannig að áhersla okkar hefur verið á heilbrigðis-,
velferðar- og fræðslumál á sama tíma og kaupmáttur hefur
aukist gífurlega. Við getum verið stolt af okkar verkum en
hefðum getað gert betur í að upplýsa almenning um þessa góðu
stöðu.“
Óréttmætt ef Framsókn nýtur ekki verka ríkisstjórnar
– Framsóknarflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn með
Sjálfstæðisflokknum frá árinu 1995. Telurðu að þetta langa
samstarf hafi skaðað Framsóknarflokkinn og að
Sjálfstæðisflokkurinn fái frekar heiðurinn af verkum
ríkisstjórnarinnar?
„Ég myndi ekki vilja segja að samstarfið hafi skaðað flokkinn
af því ég er í hjarta mínu mjög stolt yfir þeim verkum sem við
höfum unnið með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Hins vegar
er Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað stærri flokkurinn í þessu
samstarfi þannig að það gæti haft þau áhrif að einhverjir tengi
árangurinn meira við hann. En það þætti mér mjög óréttmætt
því Framsóknarflokkurinn hefur farið með mikilvæg og
viðkvæm ráðuneyti eins og heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið
og félagsmálaráðuneytið þar sem góðir ráðherrar hafa unnið
mikið verk.“
– Hvort myndir þú sem formaður flokksins horfa frekar til
hægri eða vinstri við stjórnarmyndanir í framtíðinni?
„Við göngum að sjálfsögðu óbundin til næstu kosninga.
Stjórnarsamstarfið hefur verið mjög farsælt en við göngum
óbundin til kosninga, eins og aðrir flokkar. En ef við eflum ekki
okkar fylgi minnkar afl okkar til áhrifa. Það er lykilatriði fyrir
Framsóknarflokkinn að eflast til að geta haldið áfram að hafa
áhrif til góðs fyrir íslenskt samfélag.“
– Talandi um miðjuna. Aðrir flokkar hafa sótt inn á miðjuna
undanfarin misseri. Telurðu að Framsókn hafi misst stöðu sína
þar?
„Fyrir ekki mörgum árum síðan töluðu stjórnmálaflokkar til
bæði hægri og vinstri um „miðjumoð“ og það var hálfgert
skammaryrði. Núna eru flokkar frá bæði hægri og vinstri að
sækja inn á miðjuna og stundum finnst manni þeir vera
hálfgerðir úlfar í sauðargæru,“ segir Siv og hlær. „Mér finnst
mikilvægt að við höldum okkar stefnu og gildum á miðjunni til
haga og ég tel mjög mikilvægt að Framsóknarflokkurinn nái að
skýra þessi gildi betur fyrir almenningi og kjósendum. Mér
sýnist margir telja gildin vera önnur en þau í raun eru. Þetta er
ekki nógu skýrt í huga fólks. Að sumu leyti er þetta skiljanlegt,
því það er auðveldara að vera með öfgastefnu til hægri eða
vinstri, það er skýrari hugmyndafræði en þetta er það verkefni
sem allir hófsamir miðjuflokkar þurfa að glíma við.“
– Hver verða að þínu mati brýnustu verkefni nýs formanns?
„Mér finnst brýnustu verkefnin núna vera að skýra þessi
grunngildi og fara í málefnavinnuna. Kjósendur og
almenningur, eins og Framsóknarflokkurinn, vilja auðvitað
horfa til framtíðar. Við höfum staðið fyrir geysilega góðum
málum sem eru ýmist í farvegi eða hafa þegar orðið að
veruleika. Við höfum verið að efla íslenskt samfélag en maður
lifir ekki á fornri frægð. Það er mikilvægt að við einbeitum
okkur að framtíðinni og þeim verkefnum sem verða til
úrlausnar í framtíðinni. Þau eru mörg hver afar stór og
viðkvæm. Hvar eigum við að staðsetja okkur í samfélagi
þjóðanna í framtíðinni? Auðvitað viljum við og eigum að vera
virkir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu en verðum að gera
það án þess að missa okkar stolt og samkennd sem þjóð. Við
þurfum líka að takast á við kostnaðinn við velferðarsamfélagið.
Hvernig nýtum við fjármagnið sem best? Það er algerlega
óásættanlegt að fjármagnið sé illa nýtt og mikinn kraft þarf í að
útskýra forgangsröðunina.“
Liggur ekki á inn í ESB
– Hver er afstaða þín til hugsanlegrar
Evrópusambandsaðildar Íslands? Nú liggur fyrir að Halldór
Ásgrímsson var áhugasamur um aðild. Ert þú það líka?
„Það liggur ekki mikið á að mínu mati. Ég var mikill
stuðningsmaður þess að við færum inn í Evrópska
efnahagssvæðið en það var tekist á um það í flokknum á sínum
tíma. Ég taldi þá og tel enn, eins og ég held raunar að meirihluti
flokksmanna geri í dag, að samningurinn hafi þjónað okkur
geysilega vel og hefðum við ekki gerst aðilar að honum væri
margt með lakara hætti í íslensku samfélagi en það er í dag.
Samningurinn mun þjóna okkur áfram í framtíðinni þannig að
staðan er að mörgu leyti góð eins og hún er.
Hins vegar verðum við að fylgjast vel með því sem gerist á
vettvangi Evrópusambandsins. Sambandið hefur stækkað að
undanförnu og ég tel eðlilegt að við fylgjumst vel með
þróuninni þar og sjáum hvort hún verði farsæl. Það eru kostir
að vera fyrir utan sambandið og bíða, t.d. eigum við í
viðskiptalegu tilliti mun auðveldara með samninga við önnur
ríki vestanhafs, að ég tali nú ekki um Asíu og Kína þar sem
stórir markaðir eru að opnast og við getum átt hagfelld
viðskipti við þessar þjóðir. Ég tel eðlilegt að fara í gegnum
þessi mál, það er vinna í gangi innan flokksins núna sem verður
kynnt á flokksþinginu í febrúar. Ég spái spennandi umræðu um
þessi mál á næstunni því unga fólkið í flokknum er
Evrópusinnaðra en oft áður. En ég tel það frekar ólíklega
niðurstöðu að Evrópumálin verði sett á oddinn á næstunni.“
Virkjanaumræða á villigötum
– Umhverfis- og virkjanamál hafa verið mikið til umræðu
undanfarið og margir líta á Framsóknarflokkinn sem helsta
málsvara virkjanastefnu hér á landi. Hvernig munt þú, náirðu
kjöri sem formaður, vilja haga stefnu flokksins í umhverfis- og
virkjanamálum?
„Umræðan um virkjanamál er komin á villigötur og
umræðan um Kárahnjúkavirkjun er afar sérstök. Þegar
ákveðið var að fara út í þetta verkefni á sínum tíma var það
samþykkt á Alþingi, lýðræðislega kjörinni samkundu okkar
þjóðar, og það var mikill pólitískur stuðningur við verkefnið.
Það er í raun sérstakt í svona stóru viðkvæmu máli að
stjórnarandstaðan skuli ekki sitja öll hjá eða vera á móti.
Verkefnið er mjög mikilvægt fyrir okkar þjóðarbú og
atvinnustarfsemi og farið var í gegnum öflugt umhverfismat
þannig að við skoðuðum umhverfisáhrifin afar vel.
Ég tel mjög mikilvægt að rammaáætlun um nýtingu
vatnsafls og jarðvarma verði lokið því hún er að mörgu leyti
grundvallarvinna um það hvernig ljúka eigi virkjanakostum.
Hún upplýsir um kosti og galla við hverja framkvæmd. En að
vissu leyti skil ég umræðuna, því margir hafa á tilfinningunni
að það standi til að gera meira en rök eru fyrir. Það er ekki búið
að ramma nógu vel út hvaða framkvæmdir eigi að fara í og
hverjar ekki.
Það hefur verið stefna okkar framsóknarmanna að nýta þær
geysilegu orkulindir sem við eigum í vatnsafli og ekki síður í
jarðvarma og það er eðlilegt að við horfum til þessara kosta
varðandi orkuöflun. Þetta er orka sem er vistvænni en
kjarnorka og eins er hún heppilegri en olía og kol hvað
loftslagsbreytingar og gróðurhúsalofttegundir varðar. En það
er alls ekki þannig að Framsóknarflokkurinn telji að virkja eigi
hvað sem er. Umhverfisráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa leitt
gott starf við gerð náttúruverndaráætlunar, friðað mikilvæg
svæði og stofnað Vatnajökulsþjóðgarð, sem er einn stærsti
þjóðgarður í Evrópu. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið
góð og holl, þó hún hafi tekið á um tíma.“
Fara með gát í landbúnaði
– Hver er afstaða þín til þess að auka innflutning á
landbúnaðarafurðum og að draga úr styrkjum og tollavernd í
íslenskum landbúnaði?
„Nú er nefnd embættismanna að störfum sem er að skoða
þessi mál. Hún tengist nefndinni sem var að skoða
matvælaverðið og sú vinna er í farvegi þannig að ég vil ekki
kveða upp úr um með niðurstöðuna á þessu stigi. Almennt séð
verður að gæta þess við þær breytingar, sem til greina koma,
að fara með nokkurri gát vegna þess að við viljum auðvitað hafa
byggð í landinu og þar skiptir landbúnaðurinn verulegu máli.
Almennt styð ég frelsi í viðskiptum og það er eðlilegt að flytja
inn vörur til landsins en við framleiðum geysilega góðar
landbúnaðarvörur, hollar og góðar. Ég tel að það þurfi að fara
með gát og við megum ekki fórna meiri hagsmunum fyrir
minni. Þau skref sem verða tekin mega ekki leiða til þess að
landbúnaðurinn fari halloka hér á landi.“
– Snúum okkur að öryggismálum þjóðarinnar. Telur þú að
þau séu í réttum farvegi eða þyrfti að gera annað og meira en
gert er með viðræðunum við Bandaríkjamenn?
„Það eru auðvitað mikil tímamót núna þegar varnarliðið er að
fara og hvernig brottförina ber að. Þetta eru gjörbreyttir tímar
í öryggismálum þjóðarinnar en ég vil halda því til haga að við
erum aðilar að NATÓ, sem ég styð heilshugar og tel aðild okkar
að bandalaginu afar mikilvæga. Árás á eitt NATÓ-ríki er árás á
þau öll og í því felst geysilegur fælingar- og varnarmáttur. En
ég tel að þessi mál séu í eðlilegum farvegi. Það er haldið utan
um þau í utanríkisráðuneytinu og forsætisráðuneytið kemur
þar að líka. Þetta eru mjög flókin mál og ég skil að þau taki
langan tíma. Ég gerði mér strax grein fyrir því þegar herinn fór
að það myndi taka langan tíma að greiða úr brottför hans, hvað
ætti að gera við eignirnar á varnarsvæðinu, hvernig eigi að
standa að frágangi og svo framvegis. Þetta er geysilegt verk
enda er stjórnsýslan í jafnstóru ríki og Bandaríkjunum þung í
vöfum.“
Hefði kosið aðra
niðurstöðu 2004
– Þú vékst úr ríkisstjórn árið 2004 og segja má að þær
hrókeringar hafi verið til að halda Árna Magnússyni að í
embætti félagsmálaráðherra. Það var ekkert leyndarmál að þú
varst ósátt við þitt hlutskipti. Hvaða áhrif hafði þetta á störf þín
innan flokksins?
„Ég var tilbúin að starfa áfram í ríkisstjórn á þessum tíma
þannig að ég hefði kosið aðra niðurstöðu. En þetta var
niðurstaðan og ég sagði þá og segi enn að það kemur dagur
eftir þennan dag og sá dagur í raun runninn upp. Það er mikil
ögrun að takast á við ráðuneyti og heilan málaflokk, það er
mikil áskorun fyrir stjórnmálamann. Þannig að það er að vissu
leyti eftirsóknarvert að vera í því hlutverki. En ég hafði mikla
ánægju af því að fara aftur inn í þingið og hafa meiri tíma fyrir
flokksstarfið. Ég tók að mér formennsku í félagsmálanefnd
Alþingis og varaformennsku í utanríkismálanefnd og vann
kröftuglega að því að styðja við þau mál sem okkar ráðherrar
fluttu. Svona eru stjórnmálin, það er ekkert gefið í þeim.
Stundum finnst manni ýmislegt óréttlátt en þá verður að bíta á
jaxlinn og sækja fram.“
– Olli þetta deilum milli þín og Halldórs?
„Nei, ég myndi nú ekki segja það,“ segir Siv eftir stutta þögn.
„En ég var ekki sammála þessari niðurstöðu og sagði honum
það. Þetta var samt niðurstaðan og ég ákvað að taka henni. Ég
er nú þess eðlis að ég reyni alltaf að sjá eitthvað jákvætt við
nýja stöðu. Þessi nýja staða gaf mér tækifæri til að takast á við
þingstörfin af krafti á nýjan leik og það hafa allir gott af því að
breyta um vistarverur í stjórnmálum.“
Eldri borgarar og lýðheilsa
sett á oddinn
– Þú tókst við embætti heilbrigðisráðherra fyrr á árinu. Hver
hafa helstu verkefnin verið fyrstu mánuðina í nýju embætti?
„Málin sem ég setti strax á oddinn voru málefni eldri borgara
og lýðheilsumál og ég hef lagt mikla vinnu í þau. Þau eru mér
hugleikin því aldraðir eiga að njóta góðrar þjónustu og öryggis
og hvað lýðheilsu varðar er brýnt að einstaklingarnir fari að
taka meiri ábyrgð á eigin heilsu, hreyfa sig, borða hollan mat og
reykja ekki svo dæmi séu tekin. Nýlega kynnti ég stefnumótun
mína í málefnum aldraðra, en við undirbúning hennar studdist
ég við þær hugmyndir sem eldri borgarar hafa haldið á lofti og
svo er nýbúið að kynna samkomulag um réttindabætur og
úrbætur í þjónustu við aldraða sem náðist í nefnd stjórnvalda
og hagsmunasamtaka eldri borgara. Ég hef þá trú að við getum
sparað stórkostlegar upphæðir með bættri lýðheilsu. Tökum
Ungmennafélagshreyfinguna og íþróttastarfið almennt í
landinu sem dæmi. Það góða starf sem þar er unnið mun skila
okkur margföldum ávinningi í bættri heilsu og þar af leiðandi
samfélagslegum sparnaði í framtíðinni. Eitt mál í viðbót langar
mig að nefna og það eru lyfjamálin. Verð á lyfjum er mun
hærra hér en í nágrannaríkjunum þannig að ég mun leggja
áherslu á að ná niður lyfjaverði með öllum tiltækum ráðum.“
Bjartsýn fyrir formannsslaginn
– Að lokum, Siv: Ertu bjartsýn fyrir formannsslaginn?
„Já, bjartsýni er mitt leiðarljós, en ég tel að formannskjörið
verði afar tvísýnt. Framboði mínu hefur verið almennt vel
tekið. Nú fá framsóknarmenn tækifæri til að velja sér formann í
leynilegri kosningu þar sem hver og einn þarf að gera upp hug
sinn og hjarta hvaða forysta þeir telja að sé líklegust til að
sækja fram og efla fylgi flokksins í næstu alþingiskosningum og
til framtíðar. Valið um framtíð flokksins er því í höndum
flokksmanna.“
tíðar
– Hver verða að þínu mati brýnustu verkefni nýs for-
manns?
„Mér finnst brýnustu verkefnin núna vera að skýra
þessi grunngildi og fara í málefnavinnuna. Kjósendur og
almenningur, eins og Framsóknarflokkurinn, vilja auð-
vitað horfa til framtíðar. Við höfum staðið fyrir geysi-
lega góðum málum sem eru ýmist í farvegi eða hafa þeg-
ar orðið að veruleika. Við höfum verið að efla íslenskt
samfélag en maður lifir ekki á fornri frægð. Það er mik-
ilvægt að við einbeitum okkur að framtíðinni og þeim
verkefnum sem verða til úrlausnar í framtíðinni. Þau
eru mörg hver afar stór og viðkvæm. Hvar eigum við að
staðsetja okkur í samfélagi þjóðanna í framtíðinni? Auð-
vitað viljum við og eigum að vera virkir þátttakendur í
alþjóðasamfélaginu en verðum að gera það án þess að
missa okkar stolt og samkennd sem þjóð. Við þurfum
líka að takast á við kostnaðinn við velferðarsamfélagið.
Hvernig nýtum við fjármagnið sem best? Það er alger-
lega óásættanlegt að fjármagnið sé illa nýtt og mikinn
kraft þarf í að útskýra forgangsröðunina.“
Brýnustu
verkefnin
arnihelgason@mbl.is