Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 9. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Gunnar Theodór Eggertsson gunnaregg@gmail.com ! Ein fallegasta kisa sem ég hef nokkurn tímann kynnst var að deyja. Ég veit ekki hvað hún hét, en kallaði hana alltaf Lubbu í höfuðið á Lobba bróður hennar og Loðbrandi stjúpafa hennar. Hún fæddist seinasta haust og dó í byrjun sumars. Ég hef búið með köttum alla mína ævi og hef gengið í gegnum lífshlaup þeirra áður. Tveir gaml- ir kettir eru grafnir úti í garði. Það var erfitt að takast á við dauðsföll þeirra beggja, en engu að síður mátti finna hugg- un í því að þeir lifðu bæði vel og lengi. Ég hef líka grafið kettlinga í garðinum. Þeir fengu ekki að upplifa neitt, heldur fædd- ust andvana og því lítið hægt að velta fyrir sér örlögum þeirra. Ég hef hins vegar aldrei áður upplifað dauða kattar sem var þarna mitt á milli, nýbúinn að taka fyrstu skrefin í lífinu og rétt farinn að rúlla af stað. Lubba litla var dóttir Hnoðru, kisunnar hjá mömmu og pabba, og ég fann fyrir miklum tengslum við hana vegna þess að ég tók á móti henni við fæðingu. Það hef ég aldrei gert áður og sú lífsreynsla er of- arlega á lista yfir þær mögnuðustu hingað til. Elsti kettlingurinn í gotinu dó og það var mikil gleði þegar systkinin þrjú kom- ust heil á húfi í heiminn. Ég fylgdist með þeim vaxa og styrkjast, sá persónuleikana koma í ljós á ólíka vegu og kynntist þeim öllum náið. Þegar þau voru orðin nægi- lega sjálfstæð voru þau gefin og allir kett- lingarnir enduðu innan ættarinnar. Lubba litla var algjör bolla, kafloðin og silkimjúk, ættuð af persakyni í aðra ætt- ina en óvíst var um faðernið. Ég held ég hafi séð pabba hennar einu sinni á göngu í götunni heima. Hann starði heillengi á mig eins og hann vissi að ég hefði tekið á móti börnunum hans. Sá köttur er loðinn líka, með íkornaskott eins og afkvæmin þrjú. Mamman er af dvergakyni en pabb- inn ekki. Börnin sem eftir lifa stefna í að verða stærri og loðnari en mamma þeirra. Ég fékk aðeins tækifæri á að hitta Lubbu einu sinni eftir að hún flutti að heiman og ég er ánægður með það. Ég held að hún hafi munað eftir mér. Hún kom til mín og var ófeimin, en hún forð- aðist iðulega ókunnuga. Þegar hún var kettlingakríli hagaði hún sér eins. Hún var alltaf svolítið hrædd við mannfólk og leið best í fanginu á mömmu sinni eða þeg- ar hún kúrði sig niður í hrúgu með systk- inunum. Þá var hún sallaróleg og það skipti engu máli hvernig bróðir hennar og systir slógust allt í kringum hana eða klóruðu hana og bitu til að draga hana með í leikinn – hún svaf bara og slakaði á í öllum látunum. Hún var alltaf frekar lítil í sér og við vissum að hún þyrfti að komast á gott heimili. Hún komst í vist hjá ynd- islegu fólki og þegar ég kom til þeirra í heimsókn og hitti Lubbu fullorðna í þetta eina skipti sá ég að hún var orðin mjög sjálfstæð. Hún réð sér sjálf og fékk að fara út í garð eins og hana lysti, enda var hún alltaf úti að leika sér. Ég man eftir að hafa hugsað hvað hún hefði það gott að búa á jarðhæð í svona rólegu hverfi, ég sá ekki betur. En sumir bílar keyra hratt, meiraðsegja í rólegum íbúðarhverfum. Ég minnist þess eitt sinn þegar ég sat í bíl með félaga mínum og hann brunaði niður götuna mína að skutla mér heim. Ég lét hann heyra það og skammaði hann fyrir hugsunarleysið. Það á aldrei að keyra hratt í götum þar sem kisur búa, sagði ég og hann sá strax hlutina í nýju ljósi. Hann hafði einfaldlega ekki hugsað út í það áð- ur, enda aldrei búið með köttum. Síðan þá passar hann sig alltaf. Þess vegna rita ég þessi minningarorð um Lubbu litlu sem er sárt saknað og vona að lesendur hugsi hlýlega til kattanna þegar þeir bruna næst niður göturnar. Minningar- orð um kött Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur bab@mbl.is Það er útbreiddur misskilningur að Paris Hilton sé holdgervingur alls þess sem er heimskast í menningu samtímans. Þvert á móti, og það hafa nýlegir atburðir staðfest, þá er hin 26 ára gamla Paris ein af snill- ingum okkar tíma. Paris er höfundur, leikstjóri og aðal- leikkona framhaldsögu sem í heil fjögur ár hefur birst í margvíslegum brotum í öllum miðlum sem til eru og þar af leiðandi komið fyrir augu og eyru hvers einasta óeinangr- aða jarðarbúa sem hefur aðgang að vest- rænni fjölmiðlun. Geri aðrir sögumenn bet- ur. Allir og amma þeirra líka geta sett saman lista sem er, með tilbrigðum, ein- hvern veginn svona: Hún er appelsínugul á litinn og hárið er ljósara en húðin, hún á lít- inn hund, hún á dýr og efnislítil föt, henni finnst gaman á næturklúbbum, hún á syst- ur, hún hannar hluti, hún átti einu sinni kærasta sem heitir Paris, hún varð óvinkona Nicole Richie eftir að Nicole varð líka mjó. Sama hvað fólki kann að finnast þá er Paris Hilton ein frægasta kona heims. Og þeir sem láta hana fara einna mest í taug- arnar á sér tuða jafnan yfir því að hún skuli vera „fræg fyrir ekki neitt“ og/eða „fræg fyrir að vera fræg“. En þeir hinir sömu ættu að líta í eigin barm og átta sig á því að nafn, andlit og heimskupör 26 ára ókunnugrar konu úti í heimi sem hefur „ekkert gert“ eru greipt í huga þeirra. Hlýt- ur viðkomandi kona ekki að hafa „gert“ al- veg helling til að náungi á bensínstöð á Ís- landi telji það þess virði að eyða orku í að fussa þegar hann sér mynd af henni utan á blaði á meðan hann bíður eftir því að kaupa sér pylsu? Snilld Parisar felst í því að hafa náð heimsfrægð og haldið henni í heil fjögur ár án þess að hafa gert nokkuð annað en að vinna að sjálfri frægðinni. Það þarf einstakt innsæi í tíma sinn og menningu til að takast slíkt þegar aðra hverja unga manneskju dreymir um frægð og heilu herdeildirnar vinna að því leynt og ljóst að öðlast hana. Aðeins örfáum tekst að verða frægir og að- eins örfáum af þeim örfáu tekst síðan að halda sér í sviðsljósinu og þar spilar Paris leikinn betur en flestir. Eitt af trompunum sem hún hefur á hendi er einmitt það að hún skuli í raun ekki „vera neitt“. Þegar hún er gripin við ósæmi- legt eða ólöglegt athæfi þá þarf enginn að velta fyrir sér hvort þetta hafi áhrif á „feril“ hennar, eins og í tilviki tímabundinna vin- kvenna hennar þeirra Lindsey Lohan og Britney Spears. Ferill hennar gengur bara út á það að vera Paris og hluti af því að vera Paris er að gera ruglaða hluti. Lohan og Spears eru með plötu- og kvikmynda- framleiðendur á bakinu, þær teljast hæfi- leikaríkar og eru fyrirmyndir ungra stúlkna. Paris hefur engan á bakinu og hef- ur hvorki gefið sig út fyrir að vera hæfi- leikarík né fyrirmynd. Hún hefur engu að tapa og þar af leiðandi er hún frjáls. Að auki tekst henni, þrátt fyrir það sem virðist vera talsvert mikið rugl, að stjórna aðstæðum og snúa þeim sér í hag. Á meðan bæði Spears og Lohan hafa misst stjórn á aðstæðum sínum verður Paris sífellt færari brúðumeistari í eigin lífi og síðasta útspil hennar sýnir það svo um munar. Persónusköpun Parisar hefur verið aðdá- unarverð frá upphafi. Hún náði augum og eyrum heimsbyggðarinnar árið 2003 með heimatilbúnu kynlífsmyndbandi sem „lak“ út á netið og í kjölfarið voru raunveru- leikaþættirnir Simple Life frumsýndir þar sem þær Nicole Richie, báðar gjörspilltar og stoltar af því, voru sviptar veraldlegum gæðum og látnar búa hjá bændum. Síðan þá hefur Paris þróað persónu sína gaumgæfi- lega með lögmálið um framboð og eft- irspurn að leiðarljósi. Hún veit að fólk elsk- ar að hata hana og kyndir markvisst undir þetta hatur. Hún veit að fólk öfundar ríka og gengst upp í að berast á. Hún veit að fólki finnst hún gervileg, glennuleg og heimsk og leikur það hlutverk af glæsibrag. Eftir fjögur ár af nokkurn veginn því sama langaði hana, rétt eins og allar metn- aðarfullar og skapandi manneskjur, að láta á það reyna hvort hún kæmist ekki lengra. Hún vissi að til að ýta enn undir frægð sína – og því skal haldið til haga að aðstæður til að öðlast frægð og halda henni hafa hvergi nærri orðið auðveldari á þeim árum sem Paris hefur verið starfandi nema síður sé – þá yrði hún að gera eitthvað nýtt. Sú ákvörðun sem hún tók var snjöll. Að færa persónu sína í óvænta átt, að mýkja hana í fyrsta sinn og fá fyrir vikið samúð. Og til þess leyfði hún þeim að dæma sig í fangelsi. Og lesendur/áhorfendur brugðust hárrétt við: Greyið Paris. Hún þarf í alvörunni að fara í fangelsi. Þetta er ekkert Simple Life. Það er ekki hægt að slökkva á myndavél- unum. Greyið Paris. Að fimm dögum liðnum uppgötvaði Paris síðan það sem allir alvöru höfundar, leik- stjórar og leikarar vita. Illmennið er svo miklu áhugaverðari persóna en góði gæinn. Hún lét því sleppa sér út og varð hötuð á ný. Og, þar að auki, umtöluð sem aldrei nokkurn tímann fyrr. Geri aðrir betur. Snillingur okkar tíma Reuters Fanginn Þessi mynd var tekin af Paris Hilton á lögreglustöðinni í Los Angeles eftir að hún hafði verið dæmd í 23 daga fangelsi. Af greiðslunni og tælandi brosinu að dæma mætti hins vegar halda að Hilton væri að láta mynda sig af einhverju allt öðru og skemmtilegra tilefni. FJÖLMIÐLAR »Hún veit að fólk elskar að hata hana og kyndir mark- visst undir þetta hatur. Hún veit að fólk öfundar ríka og gengst upp í að berast á. Hún veit að fólki finnst hún gervileg, glennuleg og heimsk og leikur það hlutverk af glæsibrag. Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.