Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 4
4 LAUGARDAGUR 9. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur alda@hi.is N ý andlitsmynd af ensku skáldkonunni Jane Austen (1775-1817) hefur valdið miklum úlfaþyt í fjölmiðlum undanfarið en breska útgáfufyrirtækið Wor- dsworth ákvað að lag- færa andlit hennar, gefa henni bleikan kinnalit, lengja hárið og fjarlægja kollhúfuna sem prýtt hefur allar myndir af henni fram að þessu, allt í tilefni af endurminningum (A Memoir of Jane Austen by Her Nephew) frænda skáldkon- unnar, J.E. Austen-Leigh, sem fyrst komu út 1870, en hafa nú verið endurútgefnar. Helen Trayler talar fyrir hönd útgáfufyrirtækisins og segir Austen „ekki hafa verið mikið fyrir aug- að. Hún var mjög, mjög venjuleg. Jane Austen leit ekki vel út. Hún er læsilegur höfundur sem veitir mikinn innblástur, en að setja andlit hennar á kápuna myndi ekki vekja mikinn inn- blástur. Það væri fremur fráhrindandi.“ Tray- ler bætir við að eftir breytinguna líti Austen „frábærlega út, eins og hún sé að ganga út af snyrtistofu“. Margir eru ósáttir við þessa til- raun útgáfufyrirtækisins og Trayler hefur ver- ið gagnrýnd harðlega fyrir orð sín. Á netinu segja lesendur að innihaldið skipti máli, nú sé verið að gera barbídúkku úr skáldkonunni, og að innri fegurð hennar skipti máli, ekki útlitið. Sumir segjast ekki ætla að kaupa bókina. Blaðamaður Boston Globe hæðist að hug- myndinni og segist vona að þetta leiði til þess að varirnar á Charlotte Brontë verði fylltar með Botox og að Emily Dickinson komist í nef- aðgerð. Umræðan vekur upp margar spurningar um stöðu listarinnar í ímyndarsamfélögum nú- tímans. Skiptir útlit rithöfunda t.d. máli þegar breyta á hugverkum þeirra í söluvöru? Tilraun Wordsworth-útgáfunnar snýst t.d. ekkert um að leita að hinu sanna andliti Austen, því að Trayler viðurkennir fúslega að þetta sé gert með það í huga að selja fleiri eintök af end- urminningunum. Umfjöllunin á netinu varpar kannski ekki síður ljósi á þá markaðslegu van- kanta sem ímynd Jane Austen hefur, þ.e. að yf- irleitt er gert ráð fyrir því að hún hafi verið fremur ófríð. Það sem kemur þó ekki fram í allri umræðunni um tengsl ímyndar og hálistar er að myndin sem Wordsworth-útgáfufyr- irtækið ákvað að lagfæra er sjálf fríkkuð and- litsmynd frá Viktoríutímabilinu, eflaust vegna þess að 19. aldar útgefendum þótti eina andlits- myndin sem varðveittist af Jane Austen of ljót til að hægt væri að nota hana í útgáfum þess. Cassandra Austen, eldri systir Jane og besti vinur hennar, gerði vatnslitaskissu af skáld- konunni líklegast á árunum í kringum 1810 og er þessi mynd sú eina sem til er af henni, fyrir utan vatnslitaskissu sem Cassandra málaði þar sem Jane situr utandyra á heitum degi með hattinn sinn óbundinn, en á þeirri mynd snýr skáldkonan baki í áhorfendur. Andlitsmynd Cassöndru gefur vissa hugmynd um útlit Jane en þó voru margir ættingjar þeirra systra óánægðir með skissuna og sögðu hana ekki fanga svipinn. Frænka skáldkonunnar, Anna Austen, sagði hana þannig vera „grimmilega ólíka henni“. Kannski engin fegurðardís? Mynd Cassöndru hangir nú í National Portrait Gallery í Lundúnum og af henni má merkja að Jane Austen var lík föður sínum og bræðrum, en atvinnumálarar máluðu margar myndir af þeim. Líklegt þykir að Cassandra hafi rissað upp nokkrar myndir af systur sinni, og sú stað- reynd að þessi mynd varðveittist gefur til kynna að þær systur hafi verið tiltölulega ánægðar með hana. Sumir vilja þó meina að myndin hafi verið ókláruð. Þegar Austen „kom út“ í samfélagið (þ.e. fór að stunda samkvæmislífið) haustið 1792, rétt áður en hún varð 17 ára gömul, var það mál manna að hún væri kannski engin fegurðardís, en hún þótti lagleg stúlka. Hún var hávaxin og grönn, góður dansari, með náttúrulega hrokk- ið, brúnt hár. Augun voru skörp og hnotubrún, hún var ljósbrún á hörund, kringluleit, með lít- ið en vel lagað nef. Sumir halda því þó fram að nef hennar hafi verið hvasst. Frændi hennar James Edward segir að fótatak hennar hafi verið létt og ákveðið og að hún hafi geislað af heilbrigði og fjöri. Vinur fjölskyldunnar, einn af sonum Fowle, sem var vinur föður Jane, en drengir hans léku sér við Austen-börnin þegar þau voru lítil, sagði að hún hefði verið mjög fal- leg: „Hún var vissulega falleg, björt og mikill litur í andliti hennar – hún var eins og dúkka – nei, þannig er henni ekki rétt lýst því svipur hennar var svo tjáningarríkur – hún var eins og barn – mjög líflegt barn með gott skop- skyn.“ Frænka hennar, Mary Mitford, var ekki eins hrifin og sagði Jane vera með svipbrigðalaust pókerandlit og hvassa andlitsdrætti. Jane var samkvæmt frænku sinni smámunasöm og fá- lát. Sumir telja ástæðuna fyrir þessum um- mælum frú Mitford hafa verið þá að hún átti feita og fremur ófríða stelpu. Frú Mitford bætti um betur því að eitt sinn sá hún Jane Austen á balli og lýsti henni sem einu „falleg- asta, kjánalegasta og áhrifagjarnasta fiðrildi sem hún hefði nokkru sinni séð vera á hött- unum eftir eiginmanni“. Mynd fyrir viktoríanska lesendur Þegar James Edward Austen-Leigh skrifaði bókina A Memoir of Jane Austen by Her Nep- hew um frænku sína, vissi hann að lesendur myndu vilja vita hvernig Jane Austen leit út. Systir hans Anna réð honum frá því að nota skissu Cassöndru því hún þótti ekki vera nægi- lega góð. Fjölskyldunni þótti vandræðalegt að eiga ekki mynd sem var máluð af atvinnumanni og Austen-Leigh ákvað því að endurvinna skissu Cassöndru fyrir bók sína auk þess sem hann lét búa til skurðristu af nýju myndinni sem prentað var eftir. Í báðum þessum út- gáfum er andlitsfallið gert mildara og marg- brotnara, hlutföllin eru betri og búinn er til bakgrunnur sem ekki er að finna á mynd Cas- söndru. Myndinni var ætlað að heilla vikt- oríanska lesendur, en athyglisvert er að á ann- arri myndinni er Austen með giftingarhring á fingri, en hún giftist aldrei. Þessar myndir eru gjarnan notaðar nú til dags í stað skissu Cas- söndru og farið er eftir þeim í nýjustu útgáf- unni frá Wordsworth-fyrirtækinu. Nágranni Jane Austen, sem sagði hana hafa haft glæsilegan litarhátt og tindrandi glaðleg, gáfuleg og fremur lítil augu, gagnrýndi ristuna sem var gerð fyrir A Memoir of Jane Austen by Her Nephew og sagði andlit hennar þar of breitt og bústið. En sumum þykir mynd Cas- söndru af Jane einfaldlega ekki birta nægilega aðlaðandi persónu. Andlitsdrættir hennar séu þar alltof hvassir og munnurinn beri jafnvel vott um grimmd og óhamingju. Aðrir telja að myndin sýni tilfinningalega ófullnægju Austen af því að hún giftist aldrei. En kannski mætti einnig velta því fyrir sér hvort hvass svipur Jane á mynd Cassöndru gefi til kynna metnað og einbeitingu sem var óhugsandi fyrir konur á Regency-tímabilinu. Það hafi þurft að breyta myndinni til þess að gera ímynd Austen dæmi- gerðari. Í stað skerpunnar sem einkennir skissuna hafa andlitsdrættirnir verið mildaðir og andlitið er breiðara, þó að það sé mál manna að Austen hafi alls ekki verið búlduleit. Þá var hún ekki með stór og opin augu líkt og lag- færðu myndirnar gefa til kynna. Það er einnig forvitnilegt að á einni ristunni skuli Austen skarta giftingarhring í ljósi þess það er löngu orðið einkennismerki skáldkonunnar að hún giftist aldrei. Á nítjándu öld þótti lengi vel ókvenlegt að skrifa. Kannski hefur fjölskylda Jane Austen viljað leggja áherslu á kvenleika skáldkon- unnar með því að milda andlitsdrætti hennar, svo að ekki færi sú hugmynd á flakk að Austen hefði verið metnaðarfullt atvinnuskáld. Kinnar hennar voru látlausar Fjölskylda Austen lagði áherslu á að lýsa Jane sem ljúfri og skapgóðri frænku, sem gleymdi ekki skyldum sínum á heimilinu. Þessi áhersla á Jane Austen sem dæmigerða og þægilega konu hefur loðað við hana og hana má enn sjá í umræðu um verk hennar sem hafa verið gagn- rýnd fyrir að draga upp mynd af lokuðum og meinlitlum kvennaheimi í stað þess að takast á við stærri og veigameiri hluti, eins og t.d. sam- félagsólgu Napóleonsáranna. Bræður Austen draga upp mynd af henni sem góðlyndri piparmey sem lifði fremur fá- brotnu lífi og þessi hugsun sprettur sífellt fram hjá ævisöguhöfundum sem hafa ítrekað tjáð þá hugmynd að Jane Austen hafi ekki átt sér neitt raunverulegt líf, að hún hafi aðeins verið elsku- leg piparmey. Sá fyrsti sem gefur þetta í skyn er Henry bróðir hennar sem segir í stuttum formála að útgáfu Persuasion og Northanger Abbey (en þær voru fyrst gefnar út saman 1817, stuttu eftir dauða Jane), að ævisagnahöf- undurinn standi frammi fyrir auðveldu við- fangsefni þegar rekja eigi ævi Jane Austen. Henry leggur áherslu á framkomu hennar og útlit, hún hafi borið sig vel, verið háttprúð og viðfelldin í útliti. Kinnar hennar voru látlausar, hún auðmjúk og lítillát. Hún talaði aldrei illa um neinn og hugsaði aðeins fallegar hugsanir. Henry segir systur sína í raun aldrei hafa haft áhuga á útgáfumálum og aldrei látið stýrast af gróðavoninni. Þannig reynir hann að draga upp mynd af helgri konu sem var algjörlega metnaðarlaus. Annar bróðir Jane, James Aus- ten, leggur einnig áherslu á það hversu blíð og skapgóð systir hans hafi verið. Skrif hennar hafi ekki komið í veg fyrir að hún gegndi heim- ilislegum skyldum sínum. Á grafreitnum henn- ar í dómkirkjunni í Winchesterer jafnframt tal- að um hjartagæsku hennar og ljúft skapferli, en ekki er minnst á að hún hafi verið rithöf- undur fyrr en hálfri öld síðar. Það þarf varla að taka það fram að bréfin frá Jane Austen, sem hafa varðveist, gefa allt aðra mynd af henni. Hún hafði mikinn áhuga á út- gáfumálum og hafði sérstaklega gaman af því að græða peninga á sögum sínum. En myndin sem fjölskylda hennar dregur upp af henni er í beinu samhengi við það hvernig konur á þess- um tíma áttu að hegða sér. Þau bréf frá Austen sem sýndu aðrar hliðar á henni voru eyðilögð af fjölskyldunni. Ýmsir hafa með beinum eða óbeinum hætti tekið undir þau orð Henry Austen að atburða- snautt og fábreytt líf skáldkonunnar geri ævi- sagnahöfundum erfitt fyrir (eða auðvelt fyrir í þeim skilningi að það má alveg eins sleppa því). Oliver Eltons segir árið 1912 að í huga Austen hafi ekki verið til nein frönsk stjórnarbylting, engin samfélagskúgun, engin þjóðfélagssaga, því að líf hennar hafi verið eins rólegt og verk hennar. John Bailey segir að jafnvel sjálf Jane Austen hefði ekki getað gert smátt og lítilfjör- legt líf sitt áhugavert með því að skrifa um það. Líf hennar hafi hreinlega verið of óspennandi fyrir sjálfsævisögu. Hún hafi hvorki kynnst hæðum lífsins né dýptum og aldrei upplifað neitt sem gæti talist merkilegt. Þessi skoðun er jafnan varin með þeim rökum að skáldkonan hafi ekki ferðast, ekki farið í háskóla og aldrei gengið í hjónaband. Það að hún giftist aldrei helst hugsanlega í hendur við þá ímynd sem ýmsir nútímalesendur hafa af henni, að hún hafi verið ófríð og því síður átt kost á eig- inmanni, en sú skoðun birtist t.a.m. í bloggi um fréttirnar af nýju andlitsmyndinni sem Wor- dsworth-útgáfufyrirtækið lét vinna. Það að Austen var einhleyp er eitt helsta einkennismerki hennar og iðulega er talað um hana sem piparkerlingu. Þannig hefur Silja Aðalsteinsdóttir umfjöllun sína um Austen í eftirmálanum á þýðingu sinni á Hroka og hleypidómum á orðunum „Hroki og hleypi- dómar eftir prestsdótturina og piparmeyna Hin mörgu andlit „Jane Austen leit ekki vel út. Hún er læsileg- ur höfundur sem veitir mikinn innblástur, en að setja andlit hennar á kápuna myndi ekki vekja mikinn innblástur. Það væri fremur fráhrindandi.“ Þannig talar útgefandi Jane Austen sem nýlega gaf út bók um hana. Á kápunni var andlitsmynd af skáldkonunni sem hafði verið lagfærð til þess að gera hana fallegri. Þetta er ekki ný saga. Útgefendur Austen á 19. öld reyndu líka að breyta útliti hennar. Hér er fjallað um hin mörgu andlit Austen og spurningarnar sem þau vekja. Lagfærð Í tilefni af endurútgáfu á endurminningum J.E. Austen–Leigh, sem fyrst komu út 1870, ákvað Wordsworth-útgáfan að lagfæra mynd af skáldkonunni, gefa henni bleikan kinna- lit, lengja hárið og fjarlægja kollhúfuna sem prýtt hefur allar myndir af henni fram að þessu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.