Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 9. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Hermann Stefánsson hermannstefansson@yahoo.com 1 Er eitthvað nýtt að gerast í ljóðlist í heiminum? Vafalaust, margar tilhneigingar eru í gangi, nokkrar til dæmis í Skandinavíu, nokkrar í hin- um spænskumælandi löndum þar sem ég þekki ögn til: Sumir vinna úr José Angel Valente, aðrir skrifa meta-ljóð, enn aðrir flippa með form, játningaljóð eru algeng, stundum er skautað saman ólíkum orðræðum og margir vinna úr arfleifð mannsins með hattinn, Fern- ando Pessoa. Ljóðræna, ofbeldi og kynlíf koma fyrir sem blanda, einkum í ljóðum kvenna, fyrir hefur komið að fólk notar forna bragarhætti undir hráa upplifun úr núinu, konkret ljóð á sér sterka hefð á þessum svæðum. Stundum renn- ur ljóðlist yfir í skáldsögu eins og hjá kólumb- íska höfundinum Efraim Medina Reyes sem fyrir fáum árum sendi frá sér skáldsöguna Técnicas de masturbación entre Batman y Robin sem markar þáttaskil í kólumbískum bókmenntum þrátt fyrir skens í titli. Á sviði skáldsagna varð til fyrir nokkrum árum hópur mexíkóskra höfunda sem kenndi sig við Crack! – hljóðorðið leiðir af sjálfu sem svar við hinu gamla Boom, suður-ameríska furðuraunsæinu. Crack er ágætt konsept en höfundarnir eru vondir, sögðu sumir, í það minnsta ekki ljóð- rænir. Það er til nóg af hreyfingum og tilhneig- ingum. Á Íslandi er til fólk sem bindur nokkrar vonir við Nýhil: Ein tilhneigingin í ljóðlist sam- tímans er án efa víða sú að taka framúrstefnu fyrri hluta tuttugustu aldar til endurvinnslu. Sú endurvinnsla getur borið ávöxt þótt það sé ekki gulltryggt. 2 Í nýlegu tölublaði Skírnis (vor, 2006) er fróð- legur pistill eftir Viðar Þorsteinsson heimspek- ing þar sem vitræn tilraun er gerð til þess að útskýra fyrir lesendum hvað þetta fyrirbæri, Nýhil, sé eiginlega. Pistillinn ber nafnið „Ný- hil, eða vandi hins nýja“. Hann er viðleitni til að renna heimspekilegum stoðum undir hóp sem raunar er enginn hópur, eins og gengur. Eftir á að hyggja furðar mann þó á að heimspekingur skuli gefa sér jafnmargar forsendur í jafnfáum orðum og gert er í titlinum. Eða er „vandi hins nýja“ ekki nokkuð rausnarleg gjöf? Viðar er ekki alveg svo gjafmildur í pistlinum sjálfum þótt hann tali reyndar um Nýhil sem „helsta fjöregg nýsköpunar í skáldskap á Íslandi“ (Skírnir, 209). Raunar gæti hver sem vildi gefið sér þveröfugar forsendur. En látum kyrrt liggja. Viðar gefur raunar samsetta mynd af vanda skáldskapar á vorum dögum og segir svo: „Hvernig svo sem gagnrýnendum eða bók- menntaunnendum gengur að setja sig í sam- band við ný og væntanleg sköpunarverk Ný- hils, þá mun félagsskapurinn standa vaktina sem fæðingardeild hins nýja í íslenskum bók- menntum. Slíkar fæðingar eru alltaf erfiðar því sumir bíða þeirra með fullmikilli eftirvæntingu, á meðan aðrir óttast þær sem pestina sjálfa. Munum þó boðskapinn í orðum Brechts: Hið nýja verður eðli sínu samkvæmt ekki svo auð- veldlega fellt undir viðmið þess sem á undan gekk.“ (Skírnir, 211). Kannski er þessi hluti pistilsins fremur gott áróðursplagg en menningargreining, tónninn er heitur og talað er um eðli. Og þá er stutt yfir í sýn sem víða sést í skrifum eins helsta tals- manns Nýhils, Eiríks Arnar Norðdahl, og hljóðar í sinni tærustu mynd sem svo: „Eðlilegt viðbragð þess sem ekki skilur, og sér ekki fram á að geta það, er að fyllast örvæntingu og leggja á flótta.“ (139, TMm, 2, 2007). Nú er eins og maður sé kominn á landsmót skáta af stæk- ara tagi. Gagnrýnendur eru væntanlegir á fánahyllingu, Baden Powell er á svæðinu og óvinurinn fullur ótta við hið ljómandi nýja. „Eitthvað nýtt! muldruðu þeir undan feldin- um“ orti Sigfús Daðason. Það er ástæðulaust að segja að ekkert nýtt sé undir sólinni en upp á síðkastið þykir mér stemningin á nýjunga- vaktinni harla slöpp. 3 Í bláenda síðasta tölublaðs Tímarits Máls og menningar (2, 2007) ritar Eiríkur Örn Norð- dahl greinarstúf sem nefnist „Með buxurnar á hælunum“. Greinin er svargrein þar sem spjót- um er beint að gagnrýnanda sem á öðrum vett- vangi hefur látið höfundar getið. Líkingamál greinarinnar byggist á því að gagnrýnandinn, Aðalheiður Guðmundsdóttir, sé á harðahlaup- um undan nýjungum í íslenskri ljóðlist sem skáldahreyfingin Nýhil, með Eirík Örn Norð- dahl í broddi fylkingar, hafi fram að færa. Höf- undur hefur reyndar að því er virðist komið sér upp þeirri pólitík að svara allri gagnrýni sem að honum er beint og er skemmst að minnast langrar greinar á forsíðu Lesbókar Morg- unblaðsins sem nefnist „Hvernig svarar maður Þorsteini frá Hamri?“ (28.10.2006). Svarið við gagnrýni Aðalheiðar Guðmundsdóttur er held- ur upplitsdjarfara. Þó er grein Aðalheiðar („Ljóð 2005“, Són, 4. hefti, 2006) ekki beint til höfundar heldur er litið yfir sviðið í íslenskri ljóðagerð almennt og reynt að gefa sem fyllsta mynd af útgáfu á einu ári (raunar í framhaldi af eldri grein). Höfundar er getið, enda væri svo- lítið skrýtið að nefna hann ekki. Af hverju finnst mér höfundur í sífellu vera að svara einhverjum og þá gjarnan líka fyrir hönd skáldahópsins Nýhils? Hversu lítilvæg sem gagnrýnin er og hvar sem hún er sett fram? Aðalheiður Guðmundsdóttir nefnir þessa tilhneigingu í grein sinni og segir að ein- hver ætti að benda manninum á þetta. Ekki stendur á svari: „Einhver hefði átt að benda Aðalheiði á hversu hlægilegt það er að benda á hversu hlægilegt það er að svara gagnrýn- endum sínum“ (TMm, 144). Eru þetta nýjung- arnar? Endalaus svör á reiðum höndum? Allajafna er gagnrýni ekki beint til höfunda heldur allra hinna lesendanna. Almennt séð er því talið óþarfi að svara gagnrýni, hvernig sem hún er. Fræðikona að nafni Aðalheiður er þeirrar skoðunar. Henni þykir ekki of mikið til stöku prósa Eiríks Arnar koma og nefnir það góðfúslegast í grein í tímariti sem nefnist Són. Höfundur svarar enn með þjósti í Tímariti Máls og menningar. Aðalheiður sýnir höfundi þá „lítilsvirðingu“ að gagnrýna bókarformála eftir hann en þá vill svo ágætlega til að höf- undur getur borið fyrir sig annað fólk eins og mannlegan skjöld og hnýtt harkalega í það sem Aðalheiður lætur ósagt um greinar annarra í sömu bók (TMm, 143), þar á meðal grein eftir mig. Mér kemur gagnrýni á bókarformála greinarhöfundar ekkert við og það er lág- markskurteisi á fæðingardeild að rugla ekki öllum börnunum saman. Tilfellið er að grein Aðalheiðar er afskaplega yfirveguð úttekt og um margt skörp greining á ljóðaútgáfu í samtímanum. Sennilega er þetta besta skýrsla sem gerð hefur verið um efnið á síðari árum og óhætt að mæla með henni. Að- alheiður tiltekur ekki allt og lætur heldur ekki sem svo sé. Hún gerir ekki tæmandi úttekt á ljóðum á netinu og ekki er farið ítarlega í öll verkin. Á hinn bóginn setur höfundur nokkrar einstakar bækur í brennidepil, greinir og túlk- ar af yfirvegun og gagnrýnir, stundum hvasst. Hún nefnir til sögunnar málþingið Heim ljóðs- ins sem haldið var í Háskóla Íslands á árinu 2005 og gagnrýnir það fyrir skort á tengslum við það sem sé að gerast í íslenskri ljóðlist hér og nú. Síðan greinir hún frá ljóðaþingi Nýhils sem haldið var undir yfirskriftinni Alljóðleg þjóðahátíð og málþingi í tveimur hlutum. Að- alheiður segir áhorfendahópinn á fyrri hlut- anum hafa verið allfrábrugðinn þeim sem sótti málþingið í Háskólanum. Það er fróðlegt. Síðan ruglast hún víst á tímasetningu síðari hlutans sem ekki var haldinn um kvöldið, eins og hún segir. Eiríkur Örn sér ástæðu til að hafa orð á þessu og telur líklegt að Aðalheiður hafi hlust- að á seinni hlutann í útvarpinu. 4 Það þarf að koma þessu með tímasetninguna rækilega til skila: „Nema Aðalheiður kunni ein- faldlega ekki skil á muni dags og nætur?“ (TMm, 142) segir greinarhöfundur. Er hægt að elta ólar við meiri tittlingaskít? En jú, þar að auki – og þetta er líklega höfuðsynd – hefur Aðalheiði orðið það á að segja berum orðum að Eiríki Erni sé líklega ekki alltaf full alvara í greinum sínum. Eiginlega verður svargrein Ei- ríks í TMm seint sökuð um húmor en þó hefur óneitanlega komið fyrir bestu menn, Guð sé oss næstur, að henda að mörgu gaman í hálfkær- ingi og gott ef ekki stundum gáleysi. Sum helstu útgáfuverka Nýhils hingað til eru aug- ljós djók og alveg óhætt að hafa orð á því feimnislaust, það er ekki bráðnauðsynlegt eða lögboðin herskylda að sjá fyrir sér nýjungar í ferköntuðum hillingum af því tilefni. Og varla er nein goðgá að nefna hversu upptekin skrif úr ranni Nýhils geta verið af ákaflega þröngu sviði með lítinn radíus. Hvað er þetta með skil dags og nætur? Hvers vegna dælir forsvars- maður Nýhils út úr sér svörum eins og upp- stökkur næturvörður? Greinarhöfundur er ánægður með bóka- kápugerð forlags síns sem vonlegt er og lætur í nýjustu andmælagrein sinni hafa eftir sér: „Til að gera fallegar kápur þarf nákvæmlega það sama og þarf til að gera góð ljóð: Metnað, ein- urð og talent.“ (TMm, 142). Einmitt það. Þar hafið þið það, ágætu lesendur. Metnaður, ein- urð og talent. Síðan á að setja í þetta aðeins bara kíló pipar. Greinarhöfundur segir um Að- alheiði: „Hún hefur kannski aldrei séð verð- launahönnun Nýhils?“ (TMm, 142). Er mann- inum alvara? Já já, húmorsleysi hefur þegar verið staðfest og í endaleysu sinni sem engan mun gerir á persónu og skoðunum hefur höf- undur nú komist að þeirri niðurstöðu að gagn- rýnandinn sé blindur. Sem betur fer hafa sumar bækur Nýhils ver- ið boðlegar, burtséð frá allri hringalógik um viðnám gegn hinu nýja, og komið hefur fyrir að þær séu góðar. En Aðalheiður er í fullum rétti að gagnrýna bókarformála Eiríks. Formálinn hefði þurft yfirlegu – hví ekki að hafa orð á því? Það eru fleiri dæmi um að vinnubrögðum sé ábótavant. Nýjustu skáldsögur hópsins hef ég þó ekki lesið: Ég trúi ekki á þá kenningu 18. aldar heimspeki að fordómar séu samkvæmt skilgreiningu vondir og hef verið að koma mér upp nokkrum slíkum eftir því sem svörin dynja yfir. 5 Eitthvað nýtt? Jú, alveg heil glás af svörum, í blöðum, tímaritum og á netinu. Jess! Hvernig getur nokkur samræða um fagurfræði, sam- félagsmál eða eitt eða neitt farið fram ef það að taka til máls jafngildir að stilla sér upp fyrir framan skítadreifara úti á miðju túni og setja hann í gang? Vandi hins nýja? Ég veit það ekki. Það sem krýnir sig nýtt reynist oft ekki nýtt og það sem kennir sig við hil hefur sennilega eng- an hyl, nema í mesta lagi botnlausa hít af and- svörum. Það er komin út ný símaskrá. Vill ekki einhver svara henni? Eitthvað nýtt! Nýhil-strákar „Sem betur fer hafa sumar bækur Nýhils verið boðlegar, burtséð frá allri hringalógik um viðnám gegn hinu nýja, og komið hefur fyrir að þær séu góðar.“ Á myndinni má meðal annarra sjá Eirík Örn Norðdahl í miðjunni en hann er einn helsti talsmaður Nýhil-hópsins. „Það sem krýnir sig nýtt reynist oft ekki nýtt og það sem kennir sig við hil hefur sennilega engan hyl,“ segir greinarhöf- undur í svari sínu við spurningunni hvort eitthvað nýtt sé að gerast í ljóðlist lands- manna. Greinin er þó öðrum þræði hörð gagnrýni á skáldahópinn Nýhil og talsmenn hans sem segja sig „helsta fjöregg nýsköp- unar í skáldskap á Íslandi“. Höfundur er rithöfundur og bókmenntafræðingur. »Hvernig getur nokkur sam- ræða um fagurfræði, sam- félagsmál eða eitt eða neitt far- ið fram ef það að taka til máls jafngildir að stilla sér upp fyrir framan skítadreifara úti á miðju túni og setja hann í gang?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.