Morgunblaðið - 09.06.2007, Qupperneq 24
24 LAUGARDAGUR 9. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
AKUREYRI
SJÖTTA bindi æviskráa MA-stúd-
enta er komið út hjá bókaútgáfunni
Skrukku ehf. Þar er að finna æviá-
grip allra þeirra sem brautskráðust
frá Menntaskólanum á Akureyri á
árunum 1974-1978.
Bókin er 608 blaðsíður og í henni
er fjallað um alls 535 MA-stúdenta í
máli og myndum. Ritstjóri og höf-
undur er Gunnlaugur Haraldsson
þjóðháttafræðingur og sér til halds
og trausts hafði hann ritnefnd skip-
aða fulltrúum allra árganganna sem
koma við sögu í bókinni.
Gunnlaugur annaðist á sínum
tíma útgáfu fyrstu fimm binda ævi-
skráa MA-stúdenta á árunum 1988-
1994. Þar eru æviágrip þeirra sem
útskrifuðust frá skólanum frá 1927
til 1973. Sú útgáfa var gjöf til MA
frá útskriftarnemum 1973 í tilefni
10 ára stúdentsafmælis þeirra.
„Æviskrár MA-stúdenta eru ein-
stakt verk í sinni röð og reyndar
getur enginn annar framhaldsskóli
landsins státað af jafn ítarlegu nem-
endatali og Menntaskólinn á Akur-
eyri,“ segir í tilkynningu frá útgef-
endum. „MA-stúdentar, og aðrir
velunnarar skólans, hafa lengi
vænst þess að tekinn yrði upp þráð-
urinn og haldið áfram þessari
merkilegu útgáfustarfsemi. Vorið
2005 ákváðu Gunnlaugur og nokkrir
fulltrúar stúdentsárganganna 1974-
1978 að stíga í sameiningu fyrsta
skrefið í verkefni sem lyktaði nú
með útgáfu sjötta bindisins. Stúd-
entar 1976 tóku að sér forystuhlut-
verk ritnefndar, sem sett var á
laggir, og vildu á þann hátt heiðra
Menntaskólann á Akureyri í tilefni
30 ára stúdentsafmælis síns vorið
2006.
Aðstandendur útgáfunnar voru í
upphafi svo bjartsýnir að ætla að
unnt yrði að gefa sjötta bindið út á
árinu 2006 en verkið tafðist af ýms-
um ástæðum. Með samstilltu átaki
tókst hins vegar að leiða það til
lykta. MA-stúdentar 1974-1978
skora hér með á yngri árganga
skólans að taka við keflinu og stuðla
að framhaldi útgáfunnar.“
Nýtt bindi æviskráa
MA-stúdenta útgefið
Æviskrár Ritnefnd sjötta bindis MA-æviskrárinnar. Aftari röð frá vinstri:
Eiríkur Rögnvaldsson (stúdent 1975), Gunnar Stefánsson (1975), Helga
Jónsdóttir (1977), Guðrún Rögnvaldardóttir (1978), Atli Rúnar Halldórsson
(1974), Hilmar Þór Hilmarsson (1978) og Sólrún B. Kristinsdóttir (1974).
Fremri röð frá vinstri: Guðbjörg Sigurðardóttir (1976), Gunnlaugur Har-
aldsson, og Hildur Friðleifsdóttir (1976). Fjarverandi voru Anna Guðný
Aradóttir (1976), Geirþrúður Pálsdóttir (1977) og Jón Höskuldsson (1978).
MARÍA Júlía, fyrsta björgunar-
skúta Vestfirðinga, hefur verið til
viðgerðar hjá Skipavík hf. í Stykk-
ishólmi að undanförnu. Viðgerðin
er liður í því að gera skipið upp í
sem næst upprunalegri mynd og
varðveita sem fljótandi safn.
Vestfirðingar fengu Maríu Júlíu
1950 og þjónaði hún sem björg-
unarskip þeirra en var einnig notuð
við landhelgisgæslu og hafrann-
sóknir. Á hún sér merka sögu á
þessum sviðum. Árið 1968 var hún
seld til einkaaðila og gerð út sem
fiskiskip til ársins 2003. Þá stóð til
að selja skipið úr landi en fyrir for-
göngu Byggðasafns Vestfjarða og
Minjasafns Egils Ólafssonar á
Hnjóti fékkst það keypt fyrir söfn-
in. Er nú unnið að viðgerð og end-
urgerð skipsins í upprunalegri
mynd, eftir því sem fjármunir fást.
Viðgerð heldur áfram
Í Stykkishólmi var skrokkur
skipsins yfirfarinn og það botn-
hreinsað og málað. Að sögn Sævars
Harðarsonar, framkvæmdastjóra
Skipavíkur, lítur skipið mjög vel út
og skrokkurinn þéttur miðað við
aldur. Skipið kom oft í slipp í
Stykkishólmi á meðan það þjónaði
hlutverki sem fiskiskip og þekkja
skipasmiðirnir það vel.
Búið er að rífa af skipinu allt það
járn sem sett hefur verið á það eftir
að hlutverki þess sem varðskips
lauk. Að sögn Jóns Guðbjartssonar,
sem sæti á í nefnd um verkefnið,
verður Maríu Júlíu nú siglt til Bol-
ungarvíkur þar sem viðgerð heldur
áfram. Þá er fyrirhugað að taka
skipið í slipp á Ísafirði þar sem nýr
hvalbakur verður smíðaður, í stað
þess sem hefur verið rifinn.
Skrokkurinn í góðu lagi
Við skyldustörf María Júlía við hafrannsóknir á sinni tíð. Fallbyssan er
líka uppi og allt klárt til að verja landhelgina, ef á þarf að halda.
Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Í slipp María Júlía hefur verið botnhreinsuð og skrokkurinn málaður.
ALLS verða 372 kandídatar braut-
skráðir á háskólahátíð sem haldin
verður í Íþróttahöllinni á Akureyri
laugardaginn 9. júní nk. og hefst kl.
10:30. Þetta er mesti fjöldi kandí-
data sem brautskráður hefur verið
í einu frá Háskólanum á Akureyri.
Hátíðarávarp flytur hr. Ólafur
Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
372 braut-
skráðir frá HA
SUMARSÝNING Iðnaðarsafnsins
verður opnuð í dag kl. 14. Þar verð-
ur að finna úrval 40-50 ára gamalla
húsgagna frá Valbjörk, þekktu fyr-
irtæki á Akureyri á sínum tíma. All-
ir eru velkomnir, aðgangur ókeypis
og boðið verður upp á Braga-kaffi
og Lindu-súkkulaði! Safnið verður
opið kl. 13-17 daglega í sumar.
Valbjörk í há-
vegum í sumar
AUSTURLAND
LANDIÐ
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
„ÉG hef fengið nokkuð margar
fyrirspurnir utan af landi, ekki síst
frá Austurlandi. Ég ákvað að halda
námskeið þar og taka síðan hring
um landið í kjölfarið,“ segir Pálmi
Guðmundsson hjá ljosmyndari.is,
sem heldur ljósmyndanámskeið
næstu daga á Egilsstöðum og
Reyðarfirði og í kjölfarið á sex
stöðum á norðan- og vestanverðu
landinu.
Pálmi segir að fólk af þessum
stöðum hafi fylgst með síðunni hans
en ekki átt kost á því að komast á
námskeið til hans, en ljosmyndari.is
heldur námskeið allt árið í Mosfells-
bæ. „Ég hef áður verið beðinn um
að halda námskeið á vegum sí-
menntunarmiðstöðva á Vesturlandi
og Vestfjörðum og á vegum starfs-
mannafélaga og þau hafa gengið
vel. Það er því spennandi dæmi að
fara í þessa ferð,“ segir Pálmi.
Hann verður á ferðinni í tæpan
mánuð og hyggst einnig nota tím-
ann til að skoða sig um og taka
myndir á stöðunum.
Vilja byrja aftur
Námskeiðin eru ætluð þeim sem
eru að stíga fyrstu skrefin í ljós-
myndun og einnig þeim sem hafa
tekið myndir en vilja öðlast meiri
þekkingu, og skiptir ekki máli hvort
þátttakendur eru með dýrar eða
ódýrar myndavélar. Pálmi fer yfir
helstu atriði stillinga stafrænna
myndavéla og gefur þátttakendum
ráð í viðleitni þeirra til að taka góð-
ar myndir við mismunandi aðstæð-
ur. Einnig fer hann yfir tölvumálin,
hvernig hægt er að koma skipulagi
á myndasafnið og geyma það á
öruggan hátt.
Mikil aukning hefur verið í ljós-
myndun á undanförnum árum með
tilkomu stafrænu tækninnar. Pálmi
segir að þátttakendur í námskeið-
um hans skiptist gjarnan í tvo hópa,
annars vegar séu þeir sem aðallega
taki myndir af börnunum og í
ferðalögum og hins vegar þeir sem
áður hafi haft áhuga á ljósmyndun
og vilji komast aftur af stað.
„Ljósmyndun er skemmtilegt
áhugamál og nú kostar það lítið að
taka myndir. Það kemur fólk á öll-
um aldri á námskeið hjá mér, meðal
annars fólk sem komið er um sjö-
tugt og vill komast aftur af stað í
ljósmyndun og vera sjálfbjarga með
allt ferlið,“ segir Pálmi.
Fer hringinn með
ljósmyndanámskeið
Ljósmynd/Pálmi Guðmundsson
Ljósmyndun Ljósmyndarar geta víða fundið gott myndefni.
Í HNOTSKURN
»Ljosmyndari.is heldur nám-skeið í júnímánuði á Egils-
stöðum, Reyðarfirði, Húsavík,
Akureyri, Sauðárkróki, Borg-
arnesi, Stykkishólmi og á Ísa-
firði.
»Hvert námskeið tekur tvodaga og stendur í alls 8
klukkustundir.
RÝMINGARÆFING verður haldin í
dag, laugardaginn 9. júní, á áhrifa-
svæði Jökulsár á Dal, en hún er loka-
hnykkurinn á gerð nýrra viðbragðs-
og rýmingaráætlana fyrir áhrifa-
svæði Hálslóns. Ætlunin er að láta
reyna á rýmingaráætlunina með þeim
hætti að íbúar á svæðinu fái boð um
rýmingu.
Allir íbúar og sumarhúsaeigendur
á svæðinu er hvattir til þess að taka
þátt í æfingunni og hjálpa til við að
gera hana sem raunverulegasta með
því að rýma hús sín og skrá sig í
fjöldahjálparstöð og aðstoða þannig
viðbragðsaðila við að æfa sig. Þeir
munu fá boð frá Neyðarlínunni með
SMS- og talskilaboðum um að æfing-
in sé hafin og þeir beðnir að fara í
fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum. Þeir
sem mæta í fjöldahjálparstöðina skrá
sig þar og geta að því loknu farið aftur
heim en boðið verður upp á léttar
veitingar í skólanum fyrir íbúa.
Æfing vegna
Jökulsár á Dal
Opið hús í Menntaskólanum á Akureyri
laugardaginn 9. júní klukkan 14-16.
Þar verður kynning fyrir væntanlega nýnema á náminu í
skólanum og öðru sem fylgir því að vera í MA. Einnig verða til
viðtals námsráðgjafar, brautastjórar og nemendur. Foreldrar
og forráðamenn velkomnir líka.
Skólameistari