Morgunblaðið - 09.06.2007, Síða 54
Ef þetta hefði gerst í
sjónvarpsþætti þá
hefðum við báðir farið að
gráta og sagst elska hvor
annan … 59
»
reykjavíkreykjavík
J
ean-Benoît Dunckel hefur í félagi við
Nicolas Godin starfrækt hljómsveit-
ina AIR frá 1995, í kjölfar þess að
þeir hættu í skóla; Dunckel var við
nám í stærðfræði á háskólastigi,
Godin í arkitektúr. Þeir kumpánar vöktu
nokkra athygli með fimm laga stuttskífu sinni
„Premiers Symptomes“ sem kom út sumarið
1997 og er samantekt á nokkrum smáskífum
sem þeir höfðu þá sent frá sér. Í janúar 1998
kom svo fyrsta breiðskífan, Moon Safari, og sló
hún þegar í gegn. Bræðingur sveitarinnar, nú-
tímaleg raftónlist krydduð gamaldags hljóm-
borðum (Moog, Wurlitzer) og Vocoder-
þræddum söng, féll fjöldanum mjög svo í geð
og þótt sveitin hafi þróað hljóm sinn talsvert á
þeim tæpa áratug sem liðinn er frá Moon Saf-
ari eru vinsældirnar samar við sig.
Fyrstu tónleikarnir á Íslandi
„’Allo?“ heilsar lágstemmd og kurteisleg
rödd þegar spjallið hefst. Ég heilsa Dunckel á
móti og tilkynni að ég hyggist spjalla við hann
á frönsku. Það kemur honum talsvert á óvart
og hann hljómar hinn ánægðasti. Ég vara hann
þó við því að nokkuð sé um liðið síðan ég brúk-
aði málið að nokkru ráði og viðbúið sé að mál-
beinið hökti af og til. „Hafið engar áhyggjur af
því, hreimurinn er fínn og þér farið vel af stað.“
Það er nefnilega til siðs að þéra ókunnuga þeg-
ar maður talar frönsku. Ég legg því í spjallið
óhikað, talsvert kjarkaðri eftir þessa hvatn-
ingu.
Þar eð næstum áratugur er frá því fyrsta
breiðskífan kom út liggur beint við að hefja við-
talið á því að spyrja hvers vegna AIR hafi ekki
komið fyrr til Íslands? „Því varð einhvern veg-
inn aldrei komið við,“ svarar Dunckel. „Þrátt
fyrir marga tónleikarúnta um Evrópu er Ís-
land ekki beint í leiðinni þegar maður fer um
meginland álfunnar, og þótt okkur Nicolas hafi
langað að koma þá ræður útgáfufyrirtækið
svona löguðu að mestu, alltént í fyrstu. Nú höf-
um við meira um þetta að segja og þá var þetta
bara nokkuð sem við vildum gera. Við leggjum
þónokkra lykkju á leið okkar frá Englandi til
Moskvu í Rússlandi, og tímaramminn er
þröngur, en það er þess virði – okkur langar að
spila á Íslandi.“ Hann bætir við að sjálfur hafi
hann komið til Reykjavíkur í frí ekki alls fyrir
löngu. „Það var indælt, landið er afskaplega
fallegt.“ Spurður frá hverju hann hafi helst
sagt félaga sínum í hljómsveitinni varðandi Ís-
land svarar hann: „Hvað það er fallegt, og hvað
það er mikið … pláss! Það er einhvern veginn
mjög mikið pláss í Reykjavík. Svo hafið þið
náttúrlega þessa fallegu jökla. En ef þeir eru
að bráðna, eins og hvarvetna virðist tilfellið, þá
er það vegna þess hve kvenfólkið á landinu er
fallegt en ekki vegna neikvæðra umhverfis-
áhrifa, svo mikið er víst!“ Hananú, hugsa ég og
glotti út í annað; þarna glittir í Frakkann sjálf-
an. Afslappað spjall og upp dúkkar skotheldur
pikköpp-frasi sem karlmenn annarra landa
næðu tæpast að hugsa upp. Ef jöklarnir eru að
bráðna, þá er það vegna þess hve þú ert fögur,
ungfrú góð. Það er ekki logið á þá Fransmenn,
svei mér þá.
Áhrif að austan
Nýja platan, Pocket Symphony, er sumpart
undir áhrifum frá Austurlöndum fjær, bæði
hvað varðar hljóðfæraval, stemningu og svo
heitir eitt lagið „Mer Du Japon“, Japanshaf.
„Ég átta mig ekki fyllilega á því, satt að segja,“
svarar Dunckel þegar hann er inntur eftir
ástæðu þessa. „Svona stemning verður bara
einhvern veginn til, án þess að hún sé skipulögð
sérstaklega. Það kom bara sjálfkrafa. Við
Nicolas höfðum ekki pælt í músík frá þessum
heimshluta að ráði fram að þessu og líklega
gerðist þetta bara af því við fengum áhuga á að
skoða eitthvað nýstárlegt, eitthvað sem við höf-
um ekki gert áður. Það var því frekar að við
römbuðum á eitthvað spennandi fyrir tilviljun,
heldur en að við settumst niður og ákvæðum að
hafa einhvern japanskan fíling á plötunni. En
við erum sáttir við útkomuna.“
Talandi um „Mer Du Japon“, þá er þar á
ferðinni lag sem sungið er á frönsku. Það er í
fyrsta sinn síðan á Moon Safari sem franska
heyrist á breiðskífu frá AIR.
„Jú, það er rétt. Það að hafa tekið enskuna
framyfir móðurmálið í millitíðinni í þeim lögum
sem sungin hafa verið á plötunum okkar er
ekki endilega einhver óskastaða í sjálfu sér.
Það er bara þannig að enskan fellur stundum
betur að lögunum, rétt eins og franskan er
stundum heppilegri. Við því er ekkert að gera,
við reynum bara að komast frá þessu eins vel
og hægt er hverju sinni. Hljómfallið í málinu
ræður og þótt það væri gaman að nota alltaf
frönskuna, þá verður stundum ekki á allt kos-
ið.“
Sem fyrr segir vakti fyrsta breiðskífa AIR
gífurlega lukku þegar hún kom út og frumleg
efnistök á skífunni urðu þess valdandi að gagn-
rýnendur áttu margir hverjir í mesta basli með
að koma orðum að ánægju sinni. Gagnrýnandi
tónlistartímaritsins Jockey Slut kaus að segja
sem svo að platan hljómaði eins og DJ Shadow
og Burt Bacharach hefðu gert saman plötu.
Dunckel hikar við og hugsar sig um þegar hann
er beðinn að setja nýju plötuna í svipað sam-
hengi. „Úff, þegar stórt er spurt … líklega
væru það þá Ryuichi Sakamoto og Philip Glass.
Það eru allavega helstu áhrifavaldarnir á nýju
plötunni, er mér óhætt að segja. Japansþemað
helst í hendur við dálæti okkar á Sakamoto.“
Kunninginn Cocker
Jarvis Cocker, söngvara Pulp, bregður fyrir
á plötunni í laginu „One Hell Of A Party“, og
hann var þeim AIR-liðum ennfremur innan
handar sem textasmiður við lögin sem þeir
sömdu fyrir plötu Charlotte Gainsbourg, 5:55,
sem kom út í fyrrahaust. „Kunningsskapur
okkar og Jarvis nær reyndar talsvert lengra
aftur í tímann. Meðfram því að syngja með
Pulp hefur Jarvis löngum gert talsvert af því
að þeyta skífum í hinum og þessum klúbbum
og hann var sá fyrsti til að spila „Sexy Boy“
[fyrsta smáskífan af Moon Safari] í London og
þar með var hann kominn í lið með okkur. Jar-
vis er nefnilega glettilega naskur á að finna
ilmandi efni þegar kemur að nýrri tónlist,“ seg-
ir Dunckel og hlær við. Varðandi fleiri slík sam-
starfsverkefni við stór nöfn í bransanum svarar
Jean-Benoît því til að slíkt skipuleggi þeir aldr-
ei með miklum fyrirvara heldur láti það frekar
gerast af sjálfu sér. Skipulögð stjörnuverkefni
séu einfaldlega miklu minna spennandi.
Og hversu vel ætli þeir félagar séu að sér
þegar kemur að íslenskri tónlist? Ætli af sam-
starfi við einhverja tiltekna gæti jafnvel orðið,
fyrst þeir segjast alltaf til í skemmtileg verk-
efni í félagi við aðra músíkanta?
„Við þekkjum satt að segja ekki mikið til ís-
lenskra tónlistarmanna, ef undan er skilin
ákveðin söngkona sem jú allir þekkja. En það
er alltaf skemmtilegt að uppgötva eitthvað nýtt
og við Nicolas verðum að gera hvað við getum
til að ná okkur í íslenska músík þegar við kom-
um. Hvað samstarfsverkefni varðar, þá er það
eins og ég sagði, það er alltaf skemmtilegast
þegar þau verða fyrirvaralaust til, alls óskipu-
lagt, og við skulum bara sjá til hvað verður.“
Það skyldi þó aldrei verða Íslandsþema á
næstu plötu þeirra félaga, í slagtogi við ís-
lenska tónlistarmenn?
Jean-Benoît hlakkar auðheyrilega til 19.
júní. „Það verður mikil stemning, því við Nicol-
as hlökkum til að koma og spila. Við munum
gera hvað við getum til að skapa ógleymanlegt
andrúmsloft, og vonum bara að áheyrendur
verði ánægðir með AIR.“
Þar með er tími okkar uppurinn og mál til
komið að kveðja. Jean-Benoît Dunckel er hinn
ánægðasti með að hafa fengið að afgreiða viðtal
á móðurmálinu og það er synd að ekki hafi ver-
ið meiri tími aflögu því það kjaftar á honum
hver tuska þegar hér er komið sögu. Hann
kveður því með virktum, hrósar aftur fyrir
frönskukunnáttuna og segist vonast eftir góð-
um ábendingum um íslenska tónlist frá und-
irrituðum, beri fundum okkar saman þegar að
tónleikunum kemur. Ég lofa að verða við því,
og kveð að því loknu. Au revoir.
Franski dúettinn AIR hefur notið mikilla vinsælda frá því fyrsta breiðskífa þeirra, Moon Safari, kom út í
byrjun árs 1998 við einróma lof gagnrýnenda. Jón Agnar Ólason ræddi við nafna sinn Jean-Benoît Dunckel
um annarlega bráðnun jökla á Íslandi, nýju breiðskífuna og væntanlega tónleika sveitarinnar hér á landi.
Ferskt loft frá Frans
AIR Nicolas Godin og Jean-Benoît Dunckel er á meðal virtustu raftónlistarmanna nútímans. Þeir spila í Höllinni um næstu helgi.
Tónleikar AIR verða í Laugardalshöll 19. júní.
Uppselt er í stúku en enn eru til miðar í stæði.
jonagnar@mbl.is