Morgunblaðið - 19.12.2007, Blaðsíða 26
hollráð um heilsuna
26 MIÐVIKUDAGUR 19. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Bráðum koma blessuð jólin,börnin fara að hlakka til“segir í þekktu jólakvæðiog sem betur fer hlakka
flest börn til jólanna. Nú er sá tími
þegar samfélagið er á ferð og flugi
og jólaundirbúningurinn í hámarki.
Við fullorðna fólkið reynum flest
hvað við getum til þess að gera
þennan tíma sem skemmtilegastan.
Það er verið að baka, föndra, kaupa,
skreyta og gleðjast með vinnu-
félögum, vinum og vandamönnum.
Eitt af því sem einkennt hefur jól-
in fyrir börn sem fullorðna eru jóla-
siðirnir. Sama skrautið, sami mat-
urinn, sömu sætin við jólaborðið,
sömu smákökurnar, sömu fjöl-
skylduboðin og sömu jólaskemmt-
anirnar svo eitthvað sé nefnt. Þessir
föstu liðir eins og venjulega eru það
besta við jólin að margra mati, þó
svo að sumum geti þótt ágætt að
bregða út af vananum öðru hvoru.
Auðveldum börnum breytingar
Börn eru sérstaklega fastheldin á
jólasiði, það munum við fullorðna
fólkið frá því við vorum sjálf á barns-
aldri. Á íslenskum heimilum veldur
undirbúningur jólanna oft annasöm-
um tímum og þeim fylgir gjarnan
óróleiki og streita, sem ung börn eru
mjög næm fyrir. Eins getur margt
hafa breyst frá síðustu jólum í lífi
barnanna og þeirra nánustu af ýms-
um ástæðum. Mörgum börnum
finnst jólin erfið vegna breytinga
sem orðið hafa á fjölskylduhögum
þeirra, s.s. vegna skilnaðar (sambúð-
arslita) foreldra og þeirrar stað-
reyndar að fjölskyldan býr ekki
lengur saman eins og síðustu jól. Þá
gætu þau hafa orðið fyrir ástvina-
eða vinamissi og því er ekkert sem
fyrr. Allar breytingar eða missir
geta raskað tilveru ungra barna.
Börn vilja hafa stöðugleika og
reglu á hlutunum, það veitir þeim ör-
yggiskennd. Skilnaður foreldra get-
ur verið barni mikið áfall og í kjöl-
farið getur það orðið áhyggjufullt,
reitt og vantreyst öllu og öllum. Ein-
kenni og viðbrögð barna eru þó mis-
munandi og fara eftir því á hvaða
aldri og þroskaskeiði þau eru. Mörg
hafa tilhneigingu til að taka mikla
ábyrgð á líðan foreldranna, bæði
þess foreldris sem þau búa hjá og
þess sem er flutt. Einnig reyna þau
oft að fá foreldrana til að taka saman
aftur og reyna að miðla málum. Mik-
ilvægt er að fullvissa barnið um að
það beri enga ábyrgð á skilnaði for-
eldra sinna. Vert er einnig að hafa í
huga að ef foreldrarnir sýna sjálfir
sínar eigin tilfinningar hjálpa þeir
börnunum að segja hvernig þeim líð-
ur og minnka hættuna á að þau loki
sig af með einmanakennd og söknuð
sem kemur oftast upp.
Hvað vill barnið?
Þegar um skilnað er að ræða
koma foreldrarnir sér oftast saman
um hvar barnið skuli vera yfir jól og
áramót. Þótt ákvörðunin sé tekin í
sátt og samlyndi foreldranna sjálfra
þarf niðurstaðan ekki að vera sú
besta að mati barnsins. Þess vegna
er mikilvægt að foreldrar hlusti á
langanir og vilja barna sinna og virði
þær eins og kostur er þó svo að
barnið kjósi annað en foreldrarnir
hafa í huga. Það að vilja t.d. vera hjá
einu foreldri segir ekki endilega að
það vilji ekki vera hjá hinu foreldr-
inu. Mikilvægt er að setja börnin
ekki í þá erfiðu stöðu að spyrja:
„Hvers vegna viltu ekki vera hjá
mér um jólin?“ Slík spurning for-
eldris gæti valdið óþarfa kvíða og
sektarkennd hjá barninu. Tillitssemi
og skilningur foreldra og ættingja
skiptir þess vegna sköpum fyrir
barnið og mikilvægt er að gefa því
tækifæri til að tala um aðstæður sín-
ar, líðan og tilfinningar og setja það
ekki í þá stöðu að velja á milli for-
eldranna.
Vonandi verða jólin og áramótin
sem flestum gleðileg og til þess fallin
að efla fjölskyldu- og vinabönd og
bjartsýni á nýju ári.
Guðrún Guðmundsdóttir,
verkefnastjóri Geðræktar
hjá Lýðheilsustöð
Morgunblaðið/Golli
Breytingar Það að barnið vilji vera hjá einu foreldri segir ekki endilega að
það vilji ekki vera hjá hinu foreldrinu.
Hugum að líðan
barnanna okkar um jólin